18.01.1961
Sameinað þing: 32. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í D-deild Alþingistíðinda. (2606)

114. mál, varnir gegn landspjöllum af völdum Dyrhólaóss

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Sú till., sem hér er fram borin af hálfu okkar þriggja þm. í Suðurlandskjördæmi, fjallar um eitt af vandamálum í Vestur-Skaftafellssýslu. Till. er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta rannsaka, hvað tiltækilegast sé að gera til að hindra frekari landspjöll af völdum Dyrhólaóss í Mýrdal.“

Svo sem alkunna er, hefur þessi ós útfall mikið austan við Dyrhólaey, og þegar sandi kastar í útfallið, sem kemur æði oft fyrir, þá getur það teppzt alveg. Við það vex ósinn mjög, og m.a. renna í hann ár, sem gera enn verr fyrir, og í stórbrimi flæðir sjórinn inn yfir fjöruna, þó einkum, að kunnugir menn telja, austan Dyrhólaeyjar og inn í ósinn. Verður ósinn þá það mikill, að hann flæðir yfir geysistórt landsvæði, leirur og engjaland nálægra jarða. Og að sjálfsögðu ber hann í þessum hamförum möl og sand á engjar og veldur auk þess landbroti og þannig mikilli eyðileggingu. Ég hef heyrt talið, að um 25–30 býli eigi engjalönd á þessu svæði, þ.e.a.s. flestallir bæir í svokölluðu Reynishverfi, Dalabæir og Dyrhólahverfi og nokkrir fleiri. Þannig er auðsætt, að í þessu efni verða öll þessi býli fyrir meiri og minni búsifjum af völdum óssins og hamfara hans. Þá má geta þess, að sandgræðsla: nokkur er hafin á hluta af þessu svæði, og það mega teljast fyrir því líkur, að uppgræðsla þessa landflæmis, sem þegar er komið í sand, megi takast, ef unnt verður að hemja ósinn, sem hefur gengið líka yfir það land, og áfram megi svo græða þarna á þessum slóðum hundruð hektara lands, þar sem áður voru leirur og sandar. En til þess að þetta megi ske, að þessi landgræðsla megi eiga sér stað, verður að finna ráð til þess að lagfæra ósinn, þannig að hann fái sem jafnast og stöðugast rennsli í sjó fram.

Á Alþingi 24. febr. 1954 var samþ. þáltill., sem gengur í sömu átt og þessi tillaga okkar þremenninganna. En það er ekki kunnugt okkur flm., að nein veruleg gangskör hafi verið gerð að því að framkvæma þá þáltill. né að hún hafi leitt til nokkurrar raunhæfrar rannsóknar á þessu mikla vandamáli bændanna á þessum slóðum. Höfum við flm. leyft okkur að flytja þessa tillögu vegna þess, að það er aldrei brýnni þörf en einmitt nú að leysa úr þessu máli. Og er það von okkar, að nú megi þessi tillaga verða til þess að herða svo á, að til úrslita dragi um fullkomna rannsókn án frekari undandráttar. Og þá er ekki síður mikilsvert, að þetta mikla land, sem hér um ræðir, fái sem bezta ræktun, þegar litið er til þess, að ekki kunna að líða mörg ár, þar til hafizt verði handa um hafnargerð á þessum stað. Það er eitt af hinum mestu hagsmunamálum Sunnlendinga, alveg án vafa, að hafnargerð verði framkvæmd við Dyrhólaós. Og það er þess vegna brennandi spursmál að fá úr því leyst, hversu mikinn kostnað slík hafnargerð hafi í för með sér, þótt ekki sé gert ráð fyrir því, að hún verði alfullkomin, heldur komið þarna fyrir sæmilegri aðstöðu til þess, að bátar og smærri skip fái athafnað sig á þessum stað. Nú vill svo vel til, að það er einmitt tillaga hér uppi í þingi um það, að efnt verði til rannsóknar á hafnarstæti á þessum slóðum, og það fer mjög vel á því, að þessar báðar tillögur fylgist að. Ég vil vænta þess, að Alþingi megi sjá það, sem rétt er í þessu efni. eða, það sama sem við flm. teljum vera rétt í þessu efni, að þessi rannsókn verði látin fara fram, bæði varðandi landspjöllin og hafnargerðina. Ég vil vænta þess, að þessi till. okkar fái eðlilega afgreiðslu nú á þessu þingi.

Það hefur verið ákveðin ein umreeða um þetta mál. og vil ég leyfa mér að óska þess, að málinu verði vísað við frestun þessarar umr. til fjvn. til athugunar þar.