13.12.1960
Efri deild: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

130. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það hafa svo litlar athugasemdir komið fram við framsöguræðu mína fyrir áliti meiri hl. hv. fjhn., að ég hef ekki ástæðu til að vera langorður. En í tilefni af örfáum athugasemdum og atriðum í ræðum hv. frsm. minni hl. ætla ég að segja örfá orð til viðbótar.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. vitnaði nokkuð í skýrslu, sem norski hagfræðingurinn Per Dragland, sem dvaldist hér á landi s.l. sumar, gerði um efnahagsmálin. Áður en lengra er haldið, tel ég rétt aðeins að leiðrétta þann misskilning, sem virtist koma fram í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e., að Dragland hefði verið hér á vegum ríkisstj. og bæri að skoða hann sem sérstakan erindreka hennar. Það rétta í málinu er, að það var alls ekki hæstv. ríkisstj., sem kvaddi Dragland hingað, heldur nokkur heildarsamtök launþega í landinu, önnur en Alþýðusambandið, og er ekki annað vitað um a.m.k. sum þessara samtaka en að stjórnarandstæðingar ráði stjórnum þeirra. Að gefnu tilefni að öðru leyti vegna tilvitnana í skýrslu Draglands vildi ég vekja athygli á því, að sú mynd, sem fram kom í tilvitnunum hv. 1. þm. Norðurl. e. í álitsgerðina, hefði orðið réttari af niðurstöðum Draglands, ef þessi hv. þm. hefði lesið þær setningar úr álitsgerðinni, sem fóru á undan og eftir þeirri einu setningu, sem hann vitnaði í, og vil ég því leyfa mér — (Gripið fram í: Hann vitnaði í margar þeirra.) Jæja, það upplýsist þá síðar. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa það, sem var í kringum þessa setningu, sem hv. þm. a.m.k. virtist leggja megináherzluna á, en það hljóðar þannig:

„Það er að mínum dómi lífsnauðsyn fyrir alla þjóðina, að þessi tilraun takist. Stöðvun verðbólgunnar er nauðsynleg, til þess að framleiðsluaukning geti hafizt aftur á heilbrigðum grundvelli, og umfangsmikil og frjáls utanríkisverzlun er nauðsynlegt skilyrði þróunar og velmegunar í landi, sem hefur svo fáa íbúa og einhliða atvinnuvegi. En fullan arð af þeim viðskiptum fær þjóðin ekki fyrr en jafnvægi er náð og gjaldeyrisforði er nægilegur til. að bæði útflytjendur og innflytjendur geti notið frelsis á heimsmarkaðinum.“

Því næst kemur — það er alveg rétt — sú setning, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. vitnaði aðallega í, en hún hljóðar þannig:

„Ráðstafanirnar fela í sér svo mikla kjaraskerðingu hjá allri alþýðu, að tilfinningar mínar gera mér erfitt að mæla með þeim.“

En svo bætir Dragland við:

„En ég fæ ekki séð, að um nokkrar aðrar og betri leiðir sé að velja. Vandamálin, sem krefjast úrlausnar, eru hvorki sök aðgerðanna né þeirra manna, sem standa að þeim. Vandamálin hafa verið til staðar í mörg ár. Allar tilraunir til að stöðva verðbólguna hafa farið út um þúfur, og ástandið hefur versnað ár frá ári. Allt fram að þessu hafa erfiðleikarnir verið faldir með erlendum lántökum. Á þennan hátt hefur landið nálgazt það mark fet fyrir fet, að allir lánamöguleikar væru tæmdir, og þá hlaut breytingin að koma, hvort sem þjóðin vildi eða ekki. Einnig án þessara aðgerða mundu lífskjör almennings brátt hafa versnað. Ég lít á ráðstafanirnar sem tilraun til að láta breytinguna fylgja fyrir fram gerðri áætlun, takmarka tjónið og dreifa byrðunum af nokkurri sanngirni.“

Undir öllum kringumstæðum gefur þetta, sem ég nú hef lesið upp, réttari mynd af heildarniðurstöðunni af athugunum Draglands.

Úr því að Dragland hefur hér að öðru leyti borið á góma, þá er rétt að taka fram, að það er rangt, sem fram hefur komið í málgögnum hv. stjórnarandstæðinga, að Dragland hafi ekki rætt við aðra en efnahagsmálaráðunauta hæstv. ríkisstj. Það kemur mjög skýrt fram, ef litið er á skýrslu hans sem heild, að það, sem hann einmitt fyrst og fremst byggir á sínar niðurstöður, eru skýrslur þær, sem ég minntist á í framsöguræðu minni og las upp úr einstakar tilvitnanir, er vinstri stjórnin lét sérfræðinga sína gera haustið 1958 og útbýta þá m.a. á Alþýðusambandsþingi. Í þessar skýrslur og niðurstöður þeirra vitnar Dragland hvað eftir annað, en miklu minna, ef hann yfirleitt gerir það, í efnahagsmálaráðunauta hæstv. ríkisstj.

Að lokum tel ég rétt, með leyfi hæstv. forseta, að lesa eftirfarandi setningu úr álitsgerð Draglands, sem einmitt sérstaklega snertir það mál, sem hér er til umræðu, en hún hljóðar þannig:

„Meðalfjölskyldu munu við lækkun tekjuskattsins sparast álíka mikil útgjöld eins og aukningunni vegna hækkunar á söluskatti í innflutningi og söluskatti í smásölu nemur. Fyrir fjölskyldur með lágar tekjur og mörg börn hafa fjölskyldubæturnar sérstaklega mikla þýðingu, en fyrir fjölskyldur með hærri tekjur mun skattalækkunin vera þýðingarmeiri. Nettóáhrifin verða þannig mismunandi fyrir mismunandi fjölskyldur eftir stærð þeirra, tekjum og neyzluvenjum.“

Þetta er í fullu samræmi við það, sem ég og hæstv. fjmrh. höfum haldið hér fram um það, að álagning þessara söluskatta og samsvarandi lækkun á tekjusköttunum ætti ekki að hafa rýrt hag almennings í landinu, ef á heildina er litið.

Ég tel einnig rétt að taka það fram að gefnu tilefni, að auðvitað fer því mjög fjarri, að þó að þetta frv. verði samþ., þá sé sagt síðasta orðið hvað snertir lækkun aðflutningsgjaldanna. Eins og hér hefur verið upplýst, stendur nú yfir gaumgæfileg athugun á aðflutningsgjöldunum. Það ættu að vera allmiklir möguleikar fyrir hendi að breyta þeim þannig, að sú byrði, sem á almenningi hvílir vegna þeirra, gæti lækkað, án þess að ríkissjóður yrði fyrir verulegum tekjumissi, því að þess ber að gæta, að núverandi aðflutningsgjöld og hæð þeirra, hvað snertir einstaka vöruflokka, eru að meira eða minna leyti byggð á gamla vísitölugrundvellinum, sem nú er, eins og kunnugt er, löngu úreltur, enda hefur hann verið lagður niður. Þó að ekki væri um annað að ræða en tilfærslu á aðflutningsgjöldunum með tilliti til þess, þá ætti að vera möguleiki á að framkvæma þar einhverja lækkun. En auðvitað þarf slíkt mál athugunar með, sem tekur sinn tíma. En eins og hæstv. ríkisstj. hefur þegar lýst yfir, þá munu, svo fljótt sem athugunin er komin á það stig, verða lögð fram frumvörp um breytingar á aðflutningsgjöldunum. Hvort slíkt getur orðið á því þingi, sem nú situr, get ég auðvitað ekki sagt um, en ég er sannfærður um, að það verður gert svo fljótt sem við verður komið.

Ræða hv. 5. þm. Norðurl. e. gaf að mínu áliti ekki sérstakt tilefni til athugasemda. Hann birtir í sínu nál. tölur, sem eiga að sanna það, að hér sé um verulega nýja skattlagningu að ræða. Ég held, að hér sé um miður vandaða meðferð talna að ræða, því að eftir því sem ég hef komizt næst, þá byggist niðurstaða hans að mestu leyti á því, að gamli söluskatturinn rann að verulegu leyti í útflutningssjóðinn, eins og hv. þdm. mun vera kunnugt. Þegar útflutningssjóðurinn er lagður niður, færast skuldbindingar hans og þá um leið þær tekjur, sem til hans var aflað, til ríkissjóðsins. En hitt er auðvitað auðsætt, að það þýðir ekki neinar nýjar skattaálögur, þó að skattar, sem áður voru innheimtir til útflutningssjóðs, renni nú í ríkissjóðinn.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. bar það af sér, að hann vildi hvetja til verkfalla. Ég minntist á það í framsöguræðu minni, að orð hans við 1. umr. málsins hefði mátt skilja sem dulbúna hótun um, að hvatt yrði til verkfalla, ef ekki yrði komið til móts við kröfu alþýðusamtakanna um lækkun á aðflutningsgjöldum. Ég tók það einnig fram, að e.t.v. væri þetta á misskilningi byggt og það mundi gleðja mig, ef það upplýstist, að svo væri. Að fenginni þessari yfirlýsingu hv. þm. get ég endurtekið það.

Ég vil þá að lokum víkja að þeirri spurningu, sem ég beindi til hv. 5. þm. Norðurl. e. í framsöguræðunni, en hún var á þann veg, að ég spurði, hvar launþegar hefðu tryggingu fyrir því, ef til verkfalla kæmi nú síðar í vetur, sem leiða kynnu til, að samið yrði um meiri eða minni kauphækkanir, að ekki færi eins með slíkar kauphækkanir og allar þær kauphækkanir, sem orðið hafa s.l. 15 ár, að þær rynnu út í sandinn. Hv. 5. þm. Norðurl. e. gaf greið og skýr svör við þessari spurningu, og tel ég honum það til sæmdar, ekki sízt með tilliti til þess, að ég er því vanur af samherjum hans, að þeir víkja sér gjarnan með vífilengjum undan því að svara slíkri spurningu, ef fram er borin. Hann sagði í stuttu máli og hreinskilnislega: Það er enga slíka tryggingu hægt að gefa. — Mér finnst það þess vert, að þetta svar veki nokkra athygli launamanna; því að hv. 5. þm. Norðurl. e. og orð hans ætti að vera nokkuð, sem tillit væri tekið til á þeim vettvangi, vegna mikilvægra trúnaðarstarfa, sem hann hefur gegnt og gegnir enn í þágu launþegasamtakanna. En hann sagði það skýrt og skorinort, að um enga slíka tryggingu gæti verið að ræða. Hann bætti því að vísu við, að það, sem yrði bezta tryggingin í því sambandi, væri það, eins og hann orðaði það, að ríkisstj. vinveitt verkalýðnum gerði annað af tvennu að breyta tekjuskiptingunni í landinu launþegunum í hag eða gera ráðstafanir til þess að auka framleiðsluafköstin. Nú er ég hv. þm. fyllilega sammála um það, að annað af þessu tvennu verður að eiga sér stað, ef verkalýðurinn og launþegarnir eiga að geta öðlazt raunhæfar kjarabætur. Annaðhvort verður tekjuskiptingin að breytast þannig, að þeir fái meiri hlut af þjóðartekjunum en þeir áður hafa haft, eða þá að meira verði til skipta eða þjóðarframleiðslan aukist. Er það að mínu áliti alveg réttilega sagt hjá hv. þm. En skýringin á því, að allar kauphækkanir hafa, frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk, runnið út í sandinn, er sú, að hvorugt þessara skilyrða hefur verið fyrir hendi, og eins og ég rakti í framsöguræðunni, þá fór því mjög fjarri, að vinstri stjórnin svokallaða væri nokkur undantekning í því efni. Hún gerði hvorki ráðstafanir til þess að auka hlutdeild launþega í þjóðartekjunum né heldur til að auka framleiðsluafköstin. Hvað fyrra atriðið snertir, þá skal það þó viðurkennt, að ég ligg ekki vinstri stjórninni frekar en öðrum ríkisstjórnum svo mjög á hálsi fyrir það að hafa ekki framkvæmt slíkar aðgerðir, því þó að það láti að vísu vel í eyrum launþeganna, að það þurfi að gera ráðstafanir til þess að auka hlutdeild þeirra í þjóðartekjunum, þá er það nú einu sinni svo, að það er hægara sagt en gert að gera ákveðnar tillögur í því efni. Þær verða ekki hristar fram úr erminni. Og í því sambandi er ekki meiri ástæða til að hallmæla vinstri stjórninni en öðrum ríkisstjórnum. Hitt er aftur meira ámælisvert, að þessi ríkisstj. lét það algerlega undir höfuð leggjast, að gera þær lagfæringar á efnahagskerfinu, sem skapað hefðu getað möguleika á auknum framleiðsluafköstum. Þessar ráðstafanir voru ekki gerðar, og þess vegna var ekki um annað að ræða fyrir vinstri stjórnina en að taka með þeim ráðstöfunum, sem hún gerði, aftur allar þær kauphækkanir, sem verkalýðurinn hafði áunnið í verkfallinu 1955. Með þeim efnahagsráðstöfunum, sem gerðar voru á s.l. vetri, er einmitt verið að gera alvarlega tilraun til að bæta úr þessu, þ.e. að koma á því jafnvægi í efnahagsmálum, að þess megi vænta á næstu árum, að launþegar á Íslandi geti á sama hátt og launþegar í nágrannalöndunum vænzt aukinna framleiðsluafkasta og þar af leiðandi bættra kjara. Hvort sú tilraun tekst eða ekki, er of snemmt að spá um á þessu stigi málsins. En eins og segir í áliti Draglands, sem ég vitnaði í áðan, og að mínu áliti ætti í rauninni ekki að vera ágreiningur um meðal þeirra, sem um þessi mál vilja hugsa af alvöru, það, hvort þjóðin getur vænzt batnandi lífskjara á næstunni, verður einmitt fyrst og fremst undir því komið, að þessi tilraun megi takast.