25.11.1960
Sameinað þing: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í D-deild Alþingistíðinda. (2702)

97. mál, landhelgismál

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. í s.l. ágústmánuði bárust ríkisstj. Íslands tilmæli frá ríkisstj. Bretlands um að taka upp viðræður um deilu þá, sem er um aðstöðu brezkra fiskiskipa á Íslandsmiðum, í hví skyni að kanna til hlítar öll úrræði til að eyða deilu þessari og freista að koma í veg fyrir áframhaldandi árekstra á Íslandsmiðum. Ríkisstj. tók tilmæli þessi til athugunar og komst að þeirri niðurstöðu, að ósamrýmanlegt væri íslenzkum hagsmunum að hafna viðræðunum. Ákvörðunarástæður ríkisstj. voru m.a. þessar:

Í fyrsta lagi: Fiskveiðideilan við Breta hefur nú staðið í full tvö ár. Verður ekki um það deilt, að Bretar hafa haft mikla vansæmd af þessari deilu og ýmis óþægindi. Hafa þeir því án efa ríka hagsmuni af því að fá deiluna leysta sem fyrst. En óþægindin eru hins vegar ekki einungis þeirra megin. Við Íslendingar höfum einnig haft ýmis óþægindi af deilunni. Sé ég enga ástæðu til að rekja þessi óþægindi okkar hér, læt aðeins nægja að minna á, að á undanförnum tveimur árum hafa íslenzkir sjómenn við landhelgisgæzluna hvað eftir annað komizt í bersýnilega lífshættu. Er það að sjálfsögðu skylda hverrar ríkisstj. að leitast við að eyða slíkri hættu og halda opnum erlendum mörkuðum okkar, sé þess kostur, án þess að fórna fyrir það öðrum þýðingarmeiri hagsmunum. Er mál þetta svo alvarlegt, að óheimilt er að hafna tilraunum til að leysa vandann, bjóðist tækifæri til að reyna slíkt.

Í öðru lagi eru allar aðstæður til að leysa fiskveiðideiluna við Breta nú að ýmsu leyti svo breyttar frá því, sem var 1958, er við síðast ræddum við þá, að óhjákvæmilegt er að kanna til hlítar, hvort ekki sé nú grundvöllur til samkomulags.

Fiskveiðilögsagan við Ísland var færð út í 12 mílur strax að aflokinni Genfarráðstefnunni 1958. Þeirri ráðstefnu lauk án þess, að lögmæt ályktun væri gerð um víðáttu landhelgi eða fiskveiðilögsögu. Mikið skorti á, að skilyrðislaus 12 mílna fiskveiðilögsaga fengi nægilegt fylgi á ráðstefnunni. Flest atkv. fengust þar fyrir tillögu, sem viðurkenndi 12 mílna fiskveiðilögsögu, en þó með því ófrávíkjanlega skilyrði, að þær þjóðir, sem stundað hefðu fiskveiðar síðustu 10 árin á seinni 6 mílunum, skyldu fá að halda þar áfram veiðum um alla framtíð. Skorti þessa tillögu aðeins 7 atkv. til að ná tilskildum meiri hluta. Samþykkt slíkrar tillögu hefði þýtt 6 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland í raun.

Ljóst var í lok ráðstefnunnar, að mjög bráðlega mundi kölluð saman önnur ráðstefna til að reyna að komast að samkomulagi um lausn á þessu vandamáli. Þarf engan að undra, þegar litið er á, hvernig tillaga þessi var, sem flest atkv. fékk á Genfarráðstefnunni 1958, þótt erfitt reyndist að fá viðurkenningu Breta og annarra, sem andstæðir voru 12 mílna fiskveiðilögsögu, fyrir útfærslu okkar í 12 mílur, á meðan beðið var nýrrar ráðstefnu. Var því marglýst yfir af Breta hálfu og fleiri, að á meðan svo stæði, gætu þeir ekki bundið hendur sínar með því að viðurkenna 12 mílurnar.

Á Genfarráðstefnunni í vor gerðust hins vegar þau tíðindi, að aðeins vantaði eitt atkv. til þess, að löglegur meiri hluti fengist fyrir ályktun um 12 mílna fiskveiðilögsögu, en með því skilyrði, að þær þjóðir, sem að undanförnu hefðu veitt á seinni 6 mílunum, mættu halda því áfram, ekki ótakmarkaðan tíma, eins og mest fylgi var fyrir á ráðstefnunni 1958, heldur næstu 10 árin. Flestir þeir, sem greiddu atkv. gegn þessari till., gerðu það vegna þess, að þeir vildu alls ekki fallast á heimild annarra þjóða til að veiða á seinni 6 mílunum.

Með þessari niðurstöðu má segja, að ágreiningurinn um 12 mílurnar út af fyrir sig væri að mestu leyti horfinn. En nú greinir menn á um hitt, hvort og þá hversu lengi skuli heimil veiði erlendra þjóða á seinni 6 mílunum. Þetta breytir að sjálfsögðu fiskveiðiágreiningi Íslendinga og Breta mjög verulega. Viðurkenning Breta á 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland ætti því nú ekki að valda slíkum erfiðleikum sem áður var. Vandinn er hins vegar sá, að kanna þarf til hlítar, hvort möguleikar séu á því, að þeir hverfi úr íslenzkri fiskveiðilögsögu með þeim hætti og með þeim hraða, sem Íslendingar telja sig geta fellt sig við.

Með þessi breyttu viðhorf í huga og þá möguleika, sem hér hafa skapazt, hefði að sjálfsögðu verið með öllu óverjandi fyrir ríkisstj. að neita að ræða og kanna, hvort tök væru á að eyða fiskveiðideilunni á aðgengilegan hátt fyrir Íslendinga.

Í þriðja lagi höfum við Íslendingar lagt mikla áherzlu á það á alþjóðaráðstefnum að sannfæra menn um, að við ættum alla okkar tilveru undir fiskveiðum og fiskimiðunum við Ísland. Mætir þessi málflutningur og sérstaða okkar skilningi og samúð. Þessari samúð megum við ekki glata. Til þess er ekki ætlazt af okkur, að við gerum neitt samkomulag við aðrar þjóðir, sem stofnað gæti fiskveiðum okkar og lífsafkomu í hættu. En hitt eiga flestir erfitt með að skilja, að við getum ekki einu sinni rætt ágreiningsmál okkar og annarra þjóða við þær í því skyni að reyna að eyða deilum.

Íslendingar verða að gera sér grein fyrir því, að sú velvild og samúð, sem þeir hingað til hafa notið hjá flestum þjóðum heims vegna þess, hve gersamlega þeir eru háðir fiskveiðum, er í hættu. ef þeir taka upp vinnubrögð í fiskveiðideilunni, sem þykja einstrengingsleg og ósanngjörn. Synjun af okkar hálfu um að ræða fiskveiðideiluna, hefði án efa verið til þess fallin að vekja velvild og samúð í okkar garð víða um heim.

Í fjórða lagi erum við Íslendingar ein fámennasta þjóð heims. Sem vopnlaus smáþjóð eigum við alla okkar tilveru undir því, að þjóðirnar í samskiptum sínum fari að lögum og leysi vandamál sín á friðsamlegan hátt, en gripi ekki til ofbeldisaðgerða. Og hvernig, getum við krafizt friðsamlegs samstarfs annarra þjóða þeirra í milli og gagnvart okkur sjálfum, ef við viljum ekki einu sinni ræða ágreiningsmál okkar og annarra þjóða við þær, en krefjumst þess af þeim, að þær hlýði ákvörðunum okkar viðræðulaust? Slík framkoma er ekki hættulaus vopnlausri þjóð og getur komið henni í koll fyrr en varir. Og ekki má gleyma því, að það hefði verið í algeru ósamræmi við anda og reglur Sameinuðu þjóðanna að hafna viðræðunum.

Í fimmta lagi má á það minna, að með ályktuninni frá 5. maí 1959 var ríkisstj. falið að leita eftir viðurkenningu annarra þjóða fyrir yfirráðarétti Íslendinga yfir landgrunninu öllu. Slíkrar viðurkenningar verður að sjálfsögðu ekki leitað án þess að ræða málið við aðrar þjóðir.

Þegar ríkisstj. því ákvað að taka upp viðræður við Breta í s.l. ágústmánuði í því skyni að reyna að eyða fiskveiðideilunni, hafði hún í huga, að báðar þjóðirnar hafa ríka hagsmuni af því að komast út úr deilunni, að viðhorfin til 12 mílnanna eru gerbreytt frá því 1958, að Alþingi hafði falið ríkisstj. að leita viðurkenningar fyrir landgrunninu öllu og það hefði skaðað samúð og álit Íslands erlendis að hafna viðræðunum.

Stjórnarandstaðan, Framsfl. og Alþb., hefur deilt mjög, á ríkisstj. fyrir að fallast á viðræður við Breta um fiskveiðideiluna, og hefur stjórnarandstaðan nú borið fram till. til þál. um að banna þessar viðræður. Er því haldið fram, að ríkisstj. hafi spillt áliti Íslands á erlendum vettvangi með því að fallast á þessar viðræður, stofnað landhelgismálinu í hættu og brotið gegn ályktun Alþingis frá 5. maí 1959. Sérstök áherzla er þó á það lögð af hálfu stjórnarandstöðunnar, að með viðræðunum við Breta hafi ríkisstj. þverbrotið reglu allra ríkisstjórna á Íslandi og stjórnmálaflokka síðustu 10 árin um að ræða víðáttu fiskveiðilögsögu við Ísland við aðrar þjóðir. Hefur hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, komizt þannig að orði í hv. Ed. fyrir nokkrum dögum, að tvennt hafi verið óhagganlegt í landhelgismáli Íslendinga undanfarin 10 ár: Í fyrsta lagi að semja ekki við aðrar þjóðir um, hvenær við færðum út fiskveiðilandhelgina eða hve mikið, og í öðru lagi að víkja ekki frá teknum ákvörðunum um útfærslu. Hv. 5. þm. Reykn., Finnbogi R. Valdimarsson, tók mjög í sama streng. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að meginstefna allra ríkisstjórna og stjórnmálaflokka seinustu 10 árin hafi verið að framkvæma allar nauðsynlegar aðgerðir í landhelgismálinu án samninga við aðrar þjóðir.

Ég sé ekki ástæðu til að svara þeim fjarstæðum, að við spillum áliti Íslands á erlendum vettvangi með viðræðum við Breta um fiskveiðideiluna, frekar en ég þegar hef gert, eða brjótum með því ályktun Alþingis frá 5. maí 1959. Það er krafa alls hins frjálsa heims í dag, að þjóðirnar leysi deilumál sín með friðsamlegum viðræðum, og hann fordæmir þá, sem vilja ekki ræða deilumálin. Það hefur og verið marglýst yfir, að um landhelgismálið verði haft samráð við Alþingi, áður en endanleg ákvörðun verður tekin. Rétt þykir mér hins vegar að ræða nokkuð þá staðhæfingu, að með viðræðunum við Breta sé verið að brjóta ófrávíkjanlega reglu allra ríkisstjórna og stjórnmálaflokka síðustu 10 árin. Er því fremur ástæða til að ræða þessa fullyrðingu stjórnarandstöðunnar, þar sem hún byggist á ósannri frásögn staðreynda.

Sé málið skoðað niður í kjölinn, kemur í ljós, að með því að fallast á viðræðurnar nú fylgir ríkisstj. þeirri stefnu, sem fyrrv. ríkisstjórnir hafa fylgt og þó sennilega engin þeirra af meiri kostgæfni en ríkisstjórnir þær, sem Framsfl. hefur staðið fyrir og haft stjórnarforustu í.

Ég vil fyrst víkja með nokkrum orðum að setningu laganna um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948. Í 1. gr. þeirra laga er sjútvmrh. heimilað að ákveða takmörk verndarsvæðis við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins með útgáfu reglugerðar. Samkv. þessari lagagrein hafa fiskveiðitakmörkin við Ísland verið ákveðin síðan 1948. Þegar utanrmn. hafði frumvarpið um landgrunnslögin til athugunar árið 1948, kom fram hjá nefndarmönnum, að þó að landgrunnslögin veittu ríkisstj. heimild til útfærslu fiskveiðilögsögunnar, væri samt ekki rétt að nota þessa heimild án þess að athuga hverju sinni undirtektir annarra þjóða. Fulltrúi kommúnista í utanrmn., Einar Olgeirsson, sagði þannig t.d. á nefndarfundi 9. marz 1948 og lét bóka eftir sér, að það hefði alltaf verið litið svo á í utanrmn., að í frv. væri fólgin yfirlýsing um yfirráðarétt Íslendinga yfir landgrunninu, en þá hefði jafnframt verið gert ráð fyrir, að athuga þyrfti undirtektir annarra ríkja, áður en frekari ráðstafanir væru gerðar. Það liggur sem sagt fyrir yfirlýsing frá fulltrúa kommúnista í utanrmn. um það, að hann og hans flokkur séu samþykkir landgrunnslögunum með því fororði. að ekki verði ráðizt í útfærslu fiskveiðitakmarkanna, án þess að athugað sé áður, hverjar undirtektir annarra ríkja væru undir útfærsluna hverju sinni. Á þessum forsendum samþykkti fulltrúi kommúnista fyrir hönd síns flokks landgrunnslögin á sínum tíma. Nú 12 árum síðar kemur þm. þessa sama flokks, Finnbogi R. Valdimarsson, og segir, að það hafi alla tíð verið regla allra stjórnmálaflokka á Íslandi að ræða ekki við aðrar þjóðir um ákvarðanir eða aðgerðir í sambandi við útfærslu fiskveiðilögsögunnar.

Nú er vert að athuga, hvernig viðræðum við aðrar þjóðir um útfærslu fiskveiðilögsögunnar hefur verið hagað, síðan landgrunnslögin komu til framkvæmda.

Fyrsta umtalsverða útfærslan var gerð, er fiskveiðilögsagan var færð úr 3 mílum í 4 með reglugerð árið 1952. Að þeirri útfærslu stóð ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. Af hvítri bók, sem út var gefin árið 1954, má sjá, að í janúarmánuði 1952 fór þáv. sjútvmrh. til London til að ræða við brezku stjórnina um fyrirhugaða útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Í bréfi, sem utanrrh. Íslands ritaði sendiherra Breta í Reykjavík og birt er í þessari hvítu bók, er lögð sérstök áherzla á það, að ekki sé um að villast, að viðræður hafi átt sér stað milli ríkisstjórna Bretlands og Íslands, áður en reglugerðin um útfærsluna var gefin út. Það liggur því fyrir skýrt og ótvírætt, að útfærsla fiskveiðilögsögunnar 1952 var rædd við og borin undir Breta, áður en í hana vas ráðizt.

Bretar vildu ekki fallast á útfærslu fiskveiðilögsögunnar úr 3 mílum í 4 1952. Þeir gripu til hefndarráðstafana. Þegar á árinu 1952 settu þeir löndunarbann á fisk úr íslenzkum skipum, er til Bretlands sigldu. Brezki ísfisksmarkaðurinn hafði verið stór liður í fiskútflutningi þjóðarinnar. Auk þess horfði um þessar mundir illa um sölu á fiski til annarra landa. Löndunarbannið var því gert í því skyni af hálfu Breta að kúga Íslendinga til undanhalds í landhelgismálinu. Ríkisstj. tók upp viðræður við Breta um málið, og með orðsendingu, dags. 20. apríl 1953, þegar löndunarbannið hafði staðið í marga mánuði og reglugerðin frá 1952 verið í gildi um það bil eitt ár, bauð ríkisstj. Steingríms Steinþórssonar, sem hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, átti sæti í, ríkisstj. Bretlands upp á samninga um landhelgismálið, ef Bretar vildu létta löndunarbanninu af. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar tilboð ríkisstj. til Bretlandsstjórnar frá 20. apríl 1953 svo orðrétt:

„Ríkisstjórn Íslands endurtekur, að hún er reiðubúin að skjóta ágreiningsatriðum milli íslenzku og brezku stjórnanna út af reglugerð frá 19. marz 1952 til Haagdómsins og er reiðubúin að taka upp viðræður við brezku stjórnina um, á hvern hátt það skuli gert, að því tilskildu, að löndunarbanninu verði strax af létt, að fengnu samkomulagi um málsmeðferð.“

Hér verður ekki um það deilt, að ríkisstj. Framsfl. 1952 hefur boðið Bretastjórn upp á samninga um fiskveiðireglugerð, sem í gildi hafði verið í tæpt ár. Samningarnir, sem boðið var upp á, voru með þeim hætti, að ef Bretar vildu létta löndunarbanninu af, Þá skyldi alþjóðadómstóll úrskurða um ágreiningsatriði í reglugerðinni. þannig að bindandi væri fyrir báða aðila, og reglugerðinni breytt, ef dómstóllinn ákvæði svo. Ég vil biðja menn að athuga vel, að þetta boð er gert eftir að Bretar hafa í marga mánuði reynt að kúga okkur til undanhalds með löndunarbanni. Nú kemur hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, sem sjálfur átti sæti í þeirri ríkisstj., sem þetta boð gerði, og segir, að það hafi verið ófrávíkjanleg regla allra ríkisstjórna s.l. 10 ár að semja ekki við aðrar þjóðir um aðgerðir í landhelgismálinu og víkja ekki frá teknum ákvörðunum um útfærsluna.

Þá kem ég að útfærslunni 1958. Innan vinstri stjórnarinnar var um það mikill ágreiningur, hvort og hversu mikið útfærslan skyldi undirbúin með viðræðum við aðrar þjóðir í því skyni að eyða ágreiningi og afla viðurkenningar. Sjútvmrh., Lúðvík Jósefsson, hafði komizt á þá skoðun á Genfarfundinum, að forðast bæri viðræður um málið við aðrar þjóðir. En Alþfl. og Framsfl. töldu það skynsamleg vinnubrögð og málinu gagnlegt að undirbúa það með viðræðum. Kom og fleira til.

Samkv. reglum Atlantshafsbandalagsins, sem settar voru haustið 1956, ber ríkjum þess að hafa samráð sín í milli, áður en þau ráðast í aðgerðir, sem leitt geta til árekstra þeirra í milli. Hermann Jónasson hafði á fundi Atlantshafsbandalagsins 17. des. 1957 lagt áherzlu á, að þessari reglu væri fylgt, og lýsti yfir, að hann mundi fylgja henni sem forsrh. vinstri stjórnarinnar. Vitað var, að útfærsla fiskveiðilögsögu við Ísland mundi valda ágreiningi á milli Íslands og nokkurra bandalagsríkja, og var því skylt samkv. reglunum og yfirlýsingu forsrh. á NATO-fundinum að ræða málið innan bandalagsins, áður en í útfærsluna var farið. Viðræðurnar voru því teknar upp innan Atlantshafsbandalagsins á grundvelli reglna þess og yfirlýsingar Hermanns Jónassonar frá 17. des. 1957, en ekki sem neitt einkafyrirtæki mitt, eins og Hermann Jónasson virtist gefa í skyn hér áðan.

Það kom brátt í ljós í viðræðunum, að mikil tregða var á að viðurkenna 12 mílna fiskveiðilögsögu. þar sem ríki vildu ekki binda hendur sínar í þeim efnum vegna væntanlegrar ráðstefnu, sem allir gerðu ráð fyrir að haldin yrði fljótlega. Var eftir því leitað við okkur af hálfu bandalagsins, að þó að við færðum út fiskveiðilögsögu í 12 mílur, þá mættu erlendar þjóðir engu að síður veiða í seinni 6 mílunum um skeið. Leiddi þetta til þess, að forsrh., Hermann Jónasson, samdi orðsendingu til Atlantshafsbandalagsins, sem send var 18. maí, þar sem boðið var upp á samkomulag. Orðsendingin var svo hljóðandi:

„Ríkisstjórn Íslands hefur tekið gildandi reglur um landhelgi og fiskveiðitakmörk til endurskoðunar og ákveðið að gera engar breytingar á sjálfri landhelginni, en færa fiskveiðitakmörkin út í 12 mílur og leiðrétta grunnlínur. Reglugerð um þetta verður gefin út 23. maí.

Ríkisstj, er kunnugt um, að framkvæmdastjóri NATO hefur orðað Þann möguleika, að NATO-ríkin viðurkenni útfærsluna í 12 mílur með grunnlínuleiðréttingu, ef erlend skip fá rétt til að veiða 3 næstu ár á tilteknum svæðum milli 6 og 12 mílna. Vegna þessa tekur ríkisstj. fram, að ef það liggur fyrir frá framkvæmdastjóra eigi síðar en 20. þ. m., að þetta sé aðgengileg lausn á málinu, mun hún taka það til athugunar.“

Símskeyti þetta verður ekki misskilið. Framkvæmdastjóra NATO er með því tilkynnt, að ríkisstj. hafi þegar ákveðið að gefa út reglugerð eftir 5 daga. þar sem fiskveiðilandhelgin verði færð út í 12 mílur og grunnlínum breytt. En jafnframt er framkvæmdastjóra boðið samkomulag um, að þessari ákvörðun skuli breytt og erlendum skipum leyft að veiða áfram inn að 6 mílum næstu 3 árin gegn viðurkenningu á 12 mílna reglunni.

Nú fullum tveimur árum síðar rís höfundur þessa tilboðs og símskeytis, hv. 2. þm. Vestf., upp á Alþingi og fullyrðir, að það hafi verið ófrávíkjanleg regla 10 seinustu ár að víkja aldrei frá teknum ákvörðunum í landhelgismálinu og gera ekki samkomulag við aðrar þjóðir um, hve mikið við færðum fiskveiðilögsöguna út né hvenær útfærslan kæmi til framkvæmda.

Samkomulagstilboði vinstri stjórnarinnar til NATO-ríkjanna var hafnað. Reglugerðin um útfærslu fiskveiðilögsögunnar var gefin út 30. júní, og útfærslan skyldi koma til framkvæmda 1. sept. 1958. ríkisstj. hélt engu að síður áfram umr. við NATO, þrátt fyrir útgáfu reglugerðarinnar. Hinn 13. ágúst barst ríkisstjórninni tilboð frá NATO um, að málið yrði leyst á þann hátt, að ekki yrði fært út í 12 mílur, en fallizt á, að Íslendingar lokuðu landgrunninu út af Vestfjörðum og suður af Reykjanesi fyrir togveiðum. Var þessi tillaga hugsuð sem viðræðugrundvöllur. Að ákvörðun þáv. forsrh., Hermanns Jónassonar, var þessu tilboði svarað með svo hljóðandi símskeyti þann 22. ágúst:

„Höfum athugað fram komna tillögu um lausn landhelgismálsins og getum ekki fallizt á hana og ekki borið fram neinar tillögur til lausnar málsins á þessum grundvelli, en minnum á okkar fyrri tillögu um viðurkenningu á 12 mílum gegn því, að erlendir veiði á seinni 6 mílunum um takmarkaðan tíma, enda verði grunnlínum breytt.“

Þetta símskeyti er sent, er nær tveir mánuðir eru liðnir frá því, að reglugerðin um útfærsluna í 12 mílur er gefin út og birt. Engu að síður býður hv. 2. þm. Vestf. að breyta reglugerðinni þannig til samkomulags, að seinni 6 mílurnar skuli ekki taka gildi næstu 3 árin, gegn viðurkenningu á 12 mílunum. Í dag fullyrðir þessi sami hv. þm., að það hafi verið ófrávíkjanleg regla seinustu 10 ár að hverfa aldrei frá teknum ákvörðunum í landhelgismálinu og láta það aldrei verða háð samkomulagi við aðrar þjóðir, hvenær útfærsla komi til framkvæmda.

Ekki var gengið að þessu samkomulagstilboði. En brátt kom í ljós, að umræðurnar innan NATO höfðu borið þýðingarmikinn árangur. Um sumarið 1958 höfðu togaraeigendur í Vestur-Evrópulöndum bundizt samtökum um að láta togara sína veiða áfram inn að 4 mílum við Ísland eftir gildistöku reglugerðarinnar og beita til þess ofbeldi. Er það tvímælalaust árangur NATO-viðræðnanna sumarið 1958, að allir hverfa frá þessu nema Bretar einir.

Ég hef rætt nokkuð ýtarlega, hvernig haldið hefur verið á landhelgismálinu gagnvart öðrum þjóðum á undanförnum 10 árum. Með orðum mínum er ekki um að ræða deilu á þá, sem að viðræðunum við aðrar þjóðir hafa staðið, heldur er ég einungis að vekja athygli á, að viðræður ríkisstj. nú við Breta eru beint og rökrétt framhald af viðleitni allra ríkisstjórna á Íslandi seinustu árin til að leysa ágreining um fiskveiðilögsöguna með viðræðum. Ríkisstj. hefur nú tekið upp þráðinn, þar sem frá var horfið í lok ágústmánaðar 1958, og tekið upp viðræður í því skyni að reyna að eyða landhelgisdeilunni. Árið 1958 var rætt við bandalagsþjóðir okkar allar í Atlantshafsbandalaginu. Þær viðræður leiddu til þess, að allir þoldu þá útfærslu, þótt sumir mótmæltu, nema Bretar einir, þeir beittu ofbeldi. Meginástæðan fyrir erfiðleikunum, að því er Breta snertir, var sú, að þeir vildu ekki binda hendur sínar um 12 mílur, áður en væntanleg alþjóðaráðstefna um réttarreglur á hafinu hæfist. Nú að lokinni árangurslausri slíkri ráðstefnu kannar ríkisstj. með viðræðum við Breta, hvort ný viðhorf hafi skapazt, þannig að leysa megi deiluna á aðgengilegan hátt fyrir Íslendinga, en þetta vill stjórnarandstaðan banna.

Deilan við Breta hefur nú staðið í full tvö ár. Lengst af þessum tíma hafa Bretar stundað veiðar innan 12 mílnanna undir vernd herskipa. Þeir hurfu á burt úr landhelginni, á meðan Genfarráðstefnan stóð og nú á meðan þessar viðræður standa yfir. Leiði viðræðurnar ekki til lausnar á ágreiningsatriðum, heldur deilan áfram. Nærvera brezkra herskipa og veiðar togara þeirra í íslenzkri landhelgi hafa hvað eftir annað stofnað lífi íslenzkra sjómanna í hættu. Hvert sinn, sem árekstrar verða á hafinu, heimtar stjórnarandstaðan einhverjar meiri aðgerðir gegn Bretum en mótmælin ein. Nú vill stjórnarandstaðan láta banna viðræðurnar. Ég leyfi mér að spyrja: Til hvaða frekari aðgerða en mótmæla er ætlazt af ríkisstjórninni gagnvart Bretum?

Ég skal engu spá um það, hvort viðræðurnar við Breta leiða til lausnar á málinu eða ekki. Það er skylda okkar að kanna alla möguleika til hlítar. Sérhver ríkisstj., í hvaða landi sem er, hefur þá skyldu að reyna að leysa þær deilur, sem þjóðin á í við aðrar þjóðir, ekki hvað sízt þegar deilt er um lífshagsmuni þjóðarinnar og, það af jafnmikilli hörku og hér er gert. Lífsskoðanir okkar og menning krefst þess, að reynt sé til hins ýtrasta að leysa deilur með friðsamlegum viðræðum. Vopnlaus smáþjóð á ekki annarra kosta völ. Við höfum hvorki vopn né vald, og þótt við hefðum það, fordæmum við beitingu þess. Rétturinn og þörfin fyrir að geta lifað í landi okkar er okkar vopn. Við fordæmum ofbeldi Breta á Íslandsmiðum. En við verðum að forðast að gerast berir að því að neita að ræða vandamálið og skáka í því valdi. að við séum svo smáir, að þess vegna getum við leyft okkur það, sem við fordæmum, ef aðrir hafast það að. Hitt er svo annað mál. að tilraunir til lausnar á deilunni geta því aðeins borið árangur, að hagsmunir okkar og þarfir séu virtar og viðurkenndar.

Á þessari deilu er engin lausn til, nema Bretar viðurkenni óafturkallanlega 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland. Tóm til að víkja burt úr 12 mílunum, að því er takmörkuð svæði varðar á takmörkuðum tíma, er að sjálfsögðu bundið því, að á móti komi tillit á öðrum svæðum og öðrum sviðum, sem varanlegt gildi hefur fyrir okkur, að okkar dómi. Það er of snemmt að deila um niðurstöður, á meðan menn vita ekki. hvað deilt er um. Þegar niðurstöður liggja fyrir, verður haft samráð við Alþ., og þá fyrst er hægt að deila um þær.