30.11.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í D-deild Alþingistíðinda. (2839)

91. mál, hlutdeild atvinnugreina í þjóðarframleiðslunni

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér dettur ekki í hug að ætla það, að till. sú, sem hér er til umr. á þskj. 100, sé borin fram í alvöru, að það sé virkilega meining hv. flm. og ósk þeirra, að þessi rannsókn, sem þar er talað um, eða sú athugun eigi að fara fram og að þeir hafi einhvern brennandi áhuga fyrir því. Það í raun og veru gefur strax auga leið, að þarna er verið að biðja um rannsókn á hlutdeild hinna einstöku atvinnugreina, en það eru aðeins þingmenn, sem gæta hagsmuna einnar stéttar manna, landbúnaðarins eða bændastéttarinnar, sem eru aðilar að þessari till., þannig að ef þetta hefði verið meint í alvöru, þá hefði verið eðlilegt, að einhverjir flokksbræður þeirra, sem frekar gæta hagsmuna annarra atvinnugreina en landbúnaðarins, hefðu þá verið meðflm. að þessu. Nei, ástæðan er ekki sú, að þessir hv. flm. óski eftir því, að þetta sé rannsakað á þennan hátt, sem það er borið hér fram.

Tilefni þess, að þessi till. er borin fram, er þáltill., sem ég hafði flutt á þskj. 96 um rannsókn á styrkjum til landbúnaðarins, enda er vitnað til þeirrar till. í grg. fyrir þeirri till., sem hér er til umr. Tilgangur þessara hv, flm. er alveg sá sami og tilgangur hv. tveggja alþm., sem fluttu brtt. við till. mína um rannsókn á styrkjum til landbúnaðarins. Meiningin er sem sagt að biðja um svo margvíslegar og flóknar og umfangsmiklar rannsóknir, að þeir geti treyst á það, að engin af þessum rannsóknum fari fram. Það er af því, að þeim stendur stuggur af því. að þessi rannsókn sem ég bið um, kynni að geta farið fram. Það vilja þeir alls ekki. En í staðinn fyrir að ganga hreinskilnislega til verks og segja: Við viljum alls ekki þessa rannsókn og viljum berjast gegn því, — þá ganga þeir ekki þannig til verks, heldur flytja tillögur um alls konar aðrar mögulegar rannsóknir til höfuðs minni till., í trausti þess auðvitað, að engin af þessum rannsóknum fari fram. Það er það, sem þeir vilja, og sá er tilgangurinn með þessu, enda er það svo um þessi atriði, sem hér er óskað eftir að séu rannsökuð í þáltill. á þskj. 100, að sumt af þessu liggur þegar fyrir og þarf enga rannsókn. Önnur atriði er gersamlega útilokað að rannsaka nema kippa áður skattamálum þjóðarinnar í það horf, að skattaframtöl séu rétt og það sé hægt að treysta þeim, en það tekur fjöldamörg ár. Þá fyrst væri hægt að rannsaka sum af þessum atriðum. Svo eru enn önnur atriði, sem eru svo óljós, að það er varla hægt að gera sér grein fyrir, hvað hv. flm. meina, og með því einmitt að athuga þessi atriði, sér maður, hvað að baki liggur.

Ég hefði því viljað mælast til þess við hv. flm. þessarar till. og brtt. við mína till., að þeir stæðu hér upp og játuðu hreinskilnislega, að þeir vildu alls ekki þá rannsókn, sem ég hef óskað eftir að færi fram og ég hef borið fram till. um, þeir vildu það ekki og væru því andvígir, en væru ekki að þessum skollaleik.