01.02.1961
Sameinað þing: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í D-deild Alþingistíðinda. (2926)

136. mál, reiðvegir

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra Forseti. Ég hef ásamt þrem öðrum hv. þm. lagt fram till. á þskj. 202 um reiðvegi. Þeir, sem með mér flytja þessa till., eru hv. 5. þm. Reykv. Jóhann Hafstein, hv. 10. þm. Reykv.. Eggert G. Þorsteinsson, og hv. 5. þm. Norðurl. e., Björn Jónsson. Af samfylgd okkar, þessara fjögurra manna, má ljóst vera, að hér er ekki um flokksmál að ræða. Enginn þarf að vera tortrygginn gagnvart málinu þess vegna. Við flytjum till. að beiðni Landssambands hestamannafélaga. Í þeim samtökum eru menn úr öllum stjórnmálaflokkum, eins og auðvitað er, og hver hestamannafélagi treystir að sjálfsögðu sínum flokksbræðrum á Alþ. til að taka vel þessari till., sem er bæði sanngjörn og eðlileg.

Hesturinn hafði frá landnámstíð og fram á tíma hinnar miklu vélvæðingar ákaflega þýðingarmiklu hlutverki að gegna hér á landi fyrir afkomu þjóðarinnar, enda hlaut hann viðurkenningu þess með heitinu „þarfasti þjónninn“. Áburðarhesturinn, dráttarklárinn og reiðhesturinn, hver um sig og stundum einn og sami gripur, þegar fátæklingar áttu í hlut, voru félagar Íslendinga í lífsbaráttu þjóðarinnar, góðir félagar, þrautseigir, þolgóðir. nægjusamir og nytsamir. En auk þess að vera nytsamur í þess orðs venjulegu merkingu var reiðhesturinn, ef hann var gæðingur, aflvaki og gleðigjafi. „Í mannsbarminn streymir sem aðfallsunn af afli hestsins og göfugu lund“. Þessa naut margur ríkulega og varð meiri maður og hamingjusamari en hann hefði ella orðið.

Vélar hafa nú að mestu leyti tekið við hlutverkum áburðarhestsins og dráttarklársins. Það geta þær og eru réttar til þess, þó að máske megi deila um það, hvort umskiptin séu kannske ekki áheppilega hröð og of alger á sumum sviðum, fjárhagslega skoðað.

Bílarnir hafa líka tekið að sér mikið af hlutverki reiðhestanna og bera menn hraðara milli staða en hestarnir gátu gert. En mikið skortir þó á, að bíllinn geti að öllu leyti komið í stað góðhestsins. Hversu dýrt smíði sem bíll er og hve mjúkum sætum sem hann er búinn og þýður, streymir ekki frá honum sú aðfallsunn í mannsbarminn, er þangað streymir af afli hestsins og göfugu lund. Þetta vita þeir, sem reynt hafa.

Þegar vélvæðingin skali yfir, var ekki annað sýnna en reiðhesteign og íþróttamennska hestamannanna mundi líða undir lok innan skamms. En ljóst er nú aftur orðið, að Íslendingar vita og skilja, að íslenzki góðhesturinn er of mikill dýrgripur til þess að láta hann liða undir lok og mannleg ánægja af að njóta kosta hans of dýrmæt til þess, að henni megi útrýma úr lífi þjóðarinnar.

Skemmtanalíf er nauðsynlegt. Hollari skemmtun fyrir líkama og sál mun tæplega fyrirfinnast en að vera á gæðingi á góðum vegi fyrir þann, sem kann þá íþrótt að sitja hest.

Í Reykjavík eru nú fleiri reiðhestar en nokkru sinni fyrr eða um 600 talsins. Á Akureyri eru um 200 reiðhestar, líka fleiri en verið hafa þar áður.

Í hestamannafélaginu Fák í Reykjavík eru um 400 manns, karlar og konur. Víðs vegar á landinu er verið að koma á fót hestamannafélögum. Í Landssambandi hestamannafélaga, sem búið er að starfa í 10 ár, eru nú um 20 félög hestamanna. 15 tamningastöðvar munu eiga að starfa á þessum vetri hér og hvar á landinu.

Það fólk, sem að þessum málum stendur, óskar þess, að ríkið taki það tillit til sín að ætla sér nokkra nothæfa vegi fyrir hestana. Allir vita. að hestar og vélknúin ökutæki eiga ekki samleið og henta ekki sömu vegir. Þar sem umferð er mest á þjóðvegunum, og það er auðvitað fyrst og fremst í nánd við stærstu kaupstaðina, veldur það slysahættu að ætla hestum og vélknúnum tækjum sama veginn.

Hestar eru ekki vegvandir að öðru leyti en því, að þeir þola illa grjótborna vegi eins og þjóðbrautirnar eru nú og þurfa að vera vegna ökutækjanna. Með þeim vinnutækjum, sem nú er farið að nota við vegagerð, hlýtur að vera mjög auðvelt og ódýrt að brjóta land til reiðvega. Þeir vegir mundu svo jafnframt geta orðið til mikilla þæginda til að fara með nautpening og sauðfé eftir. Sá búpeningur hefur nú orðið sums staðar ekki heldur veg til að ganga á. Víða mun vera hægt að nota gamla vegi með því að tengja þá saman og breyta girðingum. Á mörgum stöðum hafa þeir verið kubbaðir sundur með akbrautum. Í bókinni Fákur, sem hestamannafélagið í Reykjavík gaf út 1949, eru rækilegar frásagnir af því, hvernig akvegirnir, sem bæði hið opinbera lagði og setuliðið, eyðilagði reiðvegina bótalaust hér í nágrenni Reykjavíkur. Gerir sú eyðilegging m.a. réttmæta kröfu um úrbætur, eins og nú er komið, að fullljóst er að reiðveganna er þörf, þar sem 600 hestar frýsa nú á stalli í sjálfri Reykjavík og margir aðrir í nágrenni hennar. Till. okkar er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar, að ríkisstjórnin skuli fela vegamálastjóra að láta athuga, hvar nauðsyn krefur, að gerðir verði reiðvegir, og gera áætlun um kostnað við þá vegagerð á þeim leiðum, þar sem þörfin telst mest aðkallandi. Við athugun þessa verði leitað álits Landssambands hestamannafélaganna. Jafnframt láti ríkisstj. undirbúa, fyrir næsta reglulegt Alþ. frv. til breyt. á vegalögunum, er geri ráð fyrir þessari vegagerð.“

Þetta er öfgalaus tillaga. Hún fer fram á, að vegamálastjóra verði falið að láta gera athugun á því, hvar nauðsynlegt er að gera reiðvegi. enn fremur að gera áætlun um kostnað við vegagerðina, þar sem þörfin telst mest aðkallandi. Athugunin verði gerð í samráði við Landssamband hestamannfélaga eða álits þess leitað, því að það getur - eða félög þess á hverjum stað — lagt til kunnugleikasjónarmiðið við athugun á því, hvar vegirnir henta bezt. Loks er gert ráð fyrir í till., að undirbúið verði frv. til breyt. á vegalögunum, er geri ráð fyrir reiðvegagerð, því að í framtíðinni er eðlilegt, að um þá vegagerð gildi ákveðnar reglur ef hún að lokinni þeirri athugun, sem tillagan fer fram á, verður upp tekin.

Ég leyfi mér að vænta þess, að máli þessu verði vel tekið. Ef þið hv. þm. hafið ekki allir notið þeirrar dýrðaránægju, sem gæðingur á góðum vegi veitir knapa sínum, þá hafið þið farið mikils á mis, og vil ég óska, að þið eigið eftir að njóta hennar á nýjum og endurbættum vegum.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.