19.12.1960
Neðri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

130. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef skilað sérstöku áliti um þetta frv., en það er ekki enn þá komið úr prentun, en verður væntanlega lagt hér fram á fundinum síðar í dag.

Efni frv. er það að ákveða, að viðbótarsöluskattur af innflutningi, sem lögfestur var á síðasta þingi og þá til bráðabirgða og gildir nú til næstu áramóta, verði framlengdur um eitt ár, til ársloka 1961. Ýmsir munu þó hafa vænzt þess, að skattur þessi félli niður um næstu áramót, því að það var látið í veðri vaka af hæstv. ríkisstj., þegar hún beitti sér fyrir þessum viðbótarskatti á síðasta þingi, að hann ætti að vera aðeins fyrir þetta ár, sem nú er að líða.

Hæstv. ríkisstj. segir, að hér sé ekki um nýjar álögur að ræða í þessu frv. Þó er á það að líta, að skatturinn á skv. frv. að gilda fyrir allt næsta ár, en hann var ekki í gildi nema þrjá fjórðunga þess árs, sem nú er að liða. Þannig verða menn, ef þetta verður samþ., að borga fjórar krónur næsta ár í viðbótarsöluskatt móti hverjum þrem, sem þeir hafa borgað á þessu ári, og að því leyti má segja, að sé um nýjar álögur að ræða, borið saman við það, sem nú gildir.

Skv. fjárlfrv., sem nú liggur fyrir Alþingi, er gert ráð fyrir, að söluskattarnir nemi alls rúmlega 500 millj. kr., sem fyrirhugað er að leggja á á næsta ári. Af þessu er ætlað að fari í ríkissjóð 4381/2 millj. Þetta er nokkru hærra en samkvæmt fjárl. ársins í ár. Þá var söluskatturinn í heild á fjárl. 437 millj.

Hér hjá okkur er um að ræða eins og víðar tvenns konar skatta. Það eru svonefndir beinir skattar og hins vegar óbeinir skattar. Það hefur komið fram, að það er stefna núv. ríkisstj. að létta beinu skattana, en taka miklu meir en áður til opinberra þarfa með óbeinum sköttum. Og stjórnin hefur þegar byrjað að framkvæma þessa stefnu sína. Á síðasta þingi var samþ. lækkun á tekjuskattinum. Þeir einstaklingar, sem hafa mestar tekjur, hafa fengið af því verulegan ávinning, en breytingin frá beinum sköttum til óbeinna er til tjóns fyrir allan fjöldann. Líklega má telja, að þetta sé það eina af stærri stefnumálum núv. ríkisstj., sem hún hefur komið fram á valdaferli sínum.

Söluskatturinn er einn af stærri þáttunum í efnahagskerfi núv. ríkisstj. Hann átti með öðru að stuðla að því jafnvægi á fjármálasviðinu, sem stjórnin kvaðst stefna að. Hæstv. forsrh. orðaði það þannig í umr, hér á þingi í febrúar í fyrra, að stjórnin hefði heildaráætlun margþættra, en innbyrðis samræmdra aðgerða, enda þótt þær birtust Alþingi í mörgum frv., sem væru ekki lögð fram samtímis. Söluskattsfrv. var eitt þeirra, sem var lagt fyrir Alþingi nokkru síðar en frv. um efnahagsmál, en eins og hæstv. forsrh. tók fram, einn af mörgum þáttum í efnahagskerfi ríkisstj.

Mér þykir ástæða til að víkja nokkuð að þessu kerfi í heild í sambandi við þennan þátt. Í ræðu þeirri, sem ég vitnaði til og hæstv. forsrh. flutti hér í Nd. 5. febr. 1960, þegar hann lagði frv. stjórnarinnar um efnahagsmál fyrir þingið, sagði hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er óhætt að segja, að meginvandamálið, sem leysa þarf í efnahagsmálum Íslendinga nú, og um leið það, sem sízt verður umflúið, sé greiðsluhallinn gagnvart útlöndum.“

Hvernig hefur þá til tekizt með lausn á þessu meginvandamáli? Hver verður útkoman, þegar viðskiptareikningur okkar við aðrar þjóðir verður gerður upp nú í árslokin? Það liggur ekki enn þá fyrir fullkomlega, en það er hægt að geta sér til um það, hvernig niðurstaðan muni verða að verulegu leyti. Stærstu liðirnir á þeim viðskiptareikningi eru andvirði seldrar og keyptrar vöru, verðmæti útflutningsins annars vegar og innflutningsins hins vegar. Um þetta sjáum við skýrslur í Hagtíðindunum frá Hagstofu Íslands. Hún birtir mánaðarlega yfirlit um innflutninginn og útflutninginn. Og hvernig standa þá sakir að liðnum tíu mánuðum af þessu ári? Nýjustu skýrslur Hagstofunnar eru miðaðar við októberlok. Nú er á það að líta, að það gefur ekki rétta mynd að bera saman tölurnar í ár við inn- og útflutning næstu ár á undan vegna gengisbreytingarinnar, sem gerð var snemma á þessu ári, en hagstofan hefur umreiknað verðmæti innflutnings og útflutnings árin 1958 og fram til febrúarloka 1960 til samræmis við núgildandi gengi og birtir þessa útreikninga í Hagtíðindunum. Þær tölur eru alveg sambærilegar fyrir þetta ár og tvö þau næstu á undan, eftir að sá umreikningur hefur verið gerður, og þær tölur líta þannig út:

Árið 1958 var verðmæti innflutningsins, reiknað á nýja genginu, 2420 millj. kr., en útflutnings 2013 millj. Það er því halli á vöruskiptunum víð útlönd 1958 407 millj. 1959 er innflutningurinn 2530 millj., en útflutningur 2010 millj., hallinn þá 520 millj. Þetta eru tölurnar fyrir mánuðina janúar til október, að honum meðtöldum bæði árin. 1960 er til októberloka innflutt fyrir 2490 millj., en út fyrir 2027 millj., halli 463 millj. Hallinn er því í októberlok nú eða verzlunarjöfnuðurinn óhagstæður um 463 millj. á móti 407 millj. árið 1958, þegar teknar eru sambærilegar tölur, umreiknaðar vegna gengisbreytingarinnar. Já, ekki spáir þetta góðu um greiðslujöfruð í viðskiptunum á þessu ári. En mönnum skildist í fyrra, að nú ætti að vinna upp halla, sem stjórnin taldi verið hafa undanfarin ár. Í stað þess að gera það, sýnist mér, að síga muni á ógæfuhlið, að við verðum enn þá fjær jafnvægistakmarkinu, hvað snertir viðskiptin við útlönd, nú í árslokin heldur en í byrjun ársins. Þessar tölur, sem ég nefndi hér upp úr Hagtíðindunum, benda ótvírætt til þess.

En það var fleira stórt og mikilsvert, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði að gera. Í framsöguræðu sinni með efnahagsmálafrv. í fyrra sagði hæstv. forsrh. enn fremur, með leyfi hæstv. forseta.

„Uppbótakerfið verði lagt niður með öllu og útflutningssjóður gerður upp, en í stað þess skráð raunhæft gengi íslenzku krónunnar, sem geti annars vegar tryggt, að jafnvægi náist í viðskiptum þjóðarinnar út á við, en hins vegar skapað útflutningsatvinnuvegunum viðunandi rekstrargrundvöll.“

Hvað er að frétta af afrekum ríkisstj. á því sviði að skapa útflutningsatvinnuvegunum viðunandi rekstrargrundvöll? Hvernig er með sjávarútveginn? Hvernig eru t.d. horfurnar viðkomandi rekstri hinna nýju, dýru skipa? Sjá útvegsmenn hilla undir bjartari framtið, ágóða af rekstrinum, skuldalækkun, vegna ráðstafana ríkisstj.? Ekki ganga sögur af því. Er ekki eina glætan, sem þeir sjá nú í bili, vonin um, að ríkisstj. geti útvegað þeim ný lán til að borga með rekstrarhallann í ár, m.a. okurvextina, sem þeir hafa verið krafðir um á þessu ári? Hvar er sá trausti og heilbrigði grundvöllur? Því miður, hann er ekki sjáanlegur.

Og hvað er að segja um landbúnaðinn? Áreiðanlega þrengra fyrir dyrum hjá bændum nú við þessi áramót, sem í hönd fara, heldur en á undanförnum árum. Hvernig er með iðnaðinn, sem er orðinn stór atvinnuvegur? Ekki hygg ég, að þar sé betra ástand en að undanförnu. Lánsfjárskortur og háu vextirnir hafa gert sitt til þess að valda erfiðleikum þar. Og hvað er um verzlunina? Eru verzlunarfyrirtækin betur á vegi stödd nú en áður? Ég hygg, að þeir verði vandfundnir, sem fást við viðskipti, sem telja, að svo sé.

Það var vitanlega fleira, sem hið nýja efnahagskerfi átti að laga. Það var talað um gagngera endurskoðun á ríkisbúskapnum. Það hefur verið sýnt fram á það nýlega, að á þeim tveggja ára tíma, sem núv. stjórnarflokkar hafa farið með stjórn landsins, hafa fjárl. hækkað um 700 millj. kr., og það hefur einnig verið sýnt fram á það, að tiltölulega minna af tekjum ríkisins en áður fer nú til nauðsynlegra framkvæmda og styrktar atvinnulífinu, en tiltölulega meira í rekstrarkostnað þess opinbera. Menn höfðu satt að segja vænzt þess vegna þess, hve álögurnar voru hækkaðar í fyrra, að það mundi verða verulegur greiðsluafgangur hjá ríkissjóði á þessu ári. Það er ekki enn kunnugt um útkomuna vitanlega, því að það er hálfur mánuður eftir af árinu, þó tæplega það, en hæstv. ríkisstj. hefur skýrt frá því, að það séu ekki líkur til þess, að það verði greiðsluafgangur hjá ríkissjóði í ár. Ekki hafa þá efnahagsráðstafanir hæstv. stjórnar bætt hag ríkissjóðsins. Í peningamálum átti að gera og hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir. Vaxtahækkunin átti m.a. að auka sparifjársöfnun og koma með því peningamálunum á traustari grundvöll. Það hefur nýlega verið sýnt fram á, að það hefur brugðizt eins og annað. Sparifjáraukningin er minni á þessu ári tiltölulega en tvö undanfarin ár.

Eitt af því, sem hæstv. forsrh. boðaði í framsöguræðu sinni með efnahagsmálafrv. í fyrra, var það, að nú yrði stefnt að því að afnema haftakerfið og koma á verulegu verzlunar- eða viðskiptafrelsi. Og atvinnuvegirnir áttu að fá meira athafnafrelsi en áður. Hæstv. ráðh. talaði um það í þeirri ræðu, e.t.v. í síðari ræðu en við 1. umr. um efnahagsmálafrv., að allir þeir, sem eitthvað hefðu viljað gera á undanförnum árum, hefðu orðið að ganga fyrir yfirvöldin, bugta sig og beygja og biðja um leyfi. Nú átti þetta að hverfa úr sögunni, og hv. 6. landsk. þm., frsm. meiri hl, fjhn., sagði í umr. um stjórnarfrv. í fyrra, 11. febr.: „Okkar markmið er frelsi, þeirra markmið eru ríkisafskipti“, þ.e.a.s. stjórnarandstæðinga.

Ó, það dásamlega frelsi! Nú er það víst komið, er ekki svo? Hvernig er það á viðskiptasviðinu? Geta menn t.d. farið héðan til annarra landa og reynt að selja íslenzkar vörur þar? Nei, þeir þurfa fyrst að fara og hneigja sig fyrir stjórnarvöldunum. Og það nægir ekki til. Trúlega er það árangurslaust. Meginið af útflutningnum er á vegum meira og minna opinberra fyrirtækja, sem hafa sérleyfi til slíkra athafna. Hvað er svo að segja af því, ef einhverjir, sem hafa framleitt útflutningsvöru og fengið þessum löggiltu útflytjendum afurðir sínar til sölu, hvernig fer þá með andvirðið, sem þeir fá erlendis fyrir þennan útflutning? Hafa þeir ekki nóg frelsi til þess að ráðstafa þessu, eftir því sem þeir telja sér bezt henta, fá þennan gjaldeyri í sínar hendur, af því að þeir eiga þessa vöru, sem verið er að selja? Nei, því er ekki að heilsa. Það er nú eitthvað annað. Þeir verða að skila hverri krónu til bankanna hér. Og hvað fá þeir þá fyrir þennan gjaldeyri sinn? Lögákveðið verð, ákveðið af löggjafarsamkomunni hér. Hvernig er þá hægt að segja við þá, sem hafa á sér slíka fjötra: Nú eigið þið að sigla ykkar sjó á eigin ábyrgð. Nú þýðir ekki lengur að koma til ríkisstj. og hneigja sig og biðja hana ásjár. Atvinnuvegirnir eiga að standa á eigin fótum: — Nei, það er ekki nægt. Enginn flokkur hefur treyst sér til þess að gefa viðskiptin frjáls eða treystir sér til . þess, ekki núv. stjórnarflokkar fremur en aðrir. Og meðan mönnum er skammtað af stjórnarvöldunum verð fyrir vörurnar, sem þeir framleiða, meðan þeim er skammtað það með lögákveðnu gengi, þá hvílir sú siðferðislega skylda á yfirvöldunum að sjá um, að framleiðendur fái aðstöðu til að reka sína atvinnu. Þess vegna koma útgerðarmenn um þessi áramót, sem í hönd fara, til núverandi ríkisstj., eins og fyrrverandi stjórnar, til að fá þar úrlausnir á sínum vandamálum, og stjórnin kemst ekki hjá að hlusta á þá og reyna að greiða úr vandanum. Fallegu ræðurnar um frelsið eru aðeins fluttar í blekkingaskyni fyrir kosningar og á öðrum hátíðlegum stundum.

Í framsöguræðunni með efnahagsmálafrv., sem ég hef áður vitnað til og hæstv, forsrh. flutti 5. febr. á þessu ári, sagði hann m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá, sem líta bjargráðin eða tillögur okkar öðrum sugum en við gerum, sem stöndum að þessu frv., biðjum við um að fresta mótaðgerðum um nokkurt skeið og gefa með því reynslunni færi á að kveða upp sinn ólygna dóm:

Hæstv. forsrh. hefur verið bænheyrður. Stjórnin hefur fengið frest um nokkurt skeið, því að það eru liðnir 101/2 mánuður, síðan hæstv. forsrh. bar fram þessa ósk. Almenningur hefur tekið á sig stórfellda kjaraskerðingu með miklu langlundargeði. Það verður ekki annað sagt. En hvaða gagn er að því? Ég hef minnzt hér með örfáum orðum á stærstu viðfangsefnin, sem hæstv. ríkisstj. kvaðst ætla að leysa með efnahagslöggjöf sinni. Allt hefur það farið á einn veg, að einu undanteknu. Það er eitt stefnumálið, sem hefur gengið fram. Þeir hafa sjálfir, hæstv. ráðh. og aðrir, sem hafa hærri tekjur en almennt gerist, fengið verulega lækkun á sköttum. Það er hið eina af hinum stærri stefnumálum, sem stjórnin hefur unnið að og hefur komizt fram. Ekki er þetta af því, að stjórnin hafi ekki getað unnið að þessu öllu í friði. Hún hefur fengið frestinn. Hún hefur verið ótrufluð af stjórnarandstöðunni.

Við framsóknarmenn beittum okkur gegn þessari efnahagslöggjöf á síðasta þingi, af því að við töldum og teljum, að stefnan, sem þar var mörkuð af núverandi stjórnarflokkum, mundi leiða til tjóns fyrir þjóðfélagið. Og reynslan hefur þegar sýnt, að þetta mat var rétt. Það er ekki aðeins það, eins og ég hef getið um, . að ekkert af þessu stóra hafi gerzt, sem átti að gera, nema þetta eina. En það verður ekki komið auga á, að stjórnin nái því marki, sem hún stefndi að, þó að hún fái að starfa lengur óáreitt. Hún er, eins og ég hef getið um, að mörgu leyti fjær takmarkinu nú í árslokin en hún var í upphafi. Eins og ég gat um, er þessi bráðabirgðasöluskattur einn stór þáttur í þessu kerfi núv. stjórnar, sem við framsóknarmenn erum á móti, og þess vegna legg ég til, að þetta frv. verði fellt.