19.12.1960
Neðri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

130. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. beindi hér til mín fsp. um það, hvað ríkisstj. hugsaði sér að gera til að bæta kjör almennings í landinu. Ég svara því ósköp fljótt, að ég tel, að stærsta hagsmunamál launþeganna í landinu sé það, að efnahagsaðgerðirnar takist. Það er frumskilyrði fyrir því, að kjör manna geti batnað hér á næstu árum. Hið versta verk og skaðlegasta fyrir launamenn og launþega er einmitt að gera tilraunir til þess að eyðileggja efnahagsaðgerðirnar og áhrif þeirra.

Hv. 7. þm. Reykv. fór hér með nokkuð einkennilegar tölur, og vil ég leyfa mér að leiðrétta þær. Hann finnur það út, að lækkun tekjuskatts og útsvars í ár sé 75 millj. varðandi tekjuskattinn og 55 millj. varðandi útsvarið. Þess er nú fyrst að geta, að hv, þm. sleppir stærsta gjaldaliðnum hér, sem er afnám 9% söluskattsins. Það var margsinnis skýrt í fyrra, hvernig þetta dæmi lægi fyrir. Afnám 9% söluskattsins þýddi um 114 millj. kr. Hefði þessi 9% söluskattur verið í gildi þetta ár, hefði hann gefið um 114 millj. kr. Sú breyt., sem gerð var á tekjuskattslögunum, rýrði tekjur ríkissjóðs ekki um 75 millj., heldur um 110 millj. Þessi tala, sem hv. þm. er með, mun vera hins vegar mismunur á áætlun fjárlaga 1959 og 1960. En málið liggur þannig fyrir varðandi tekjuskattinn, að að óbreyttum tekjuskattslögum hefði tekjuskattuxinn í ár væntanlega orðið um 180 millj., en vegna breyt. er hann áætlaður í fjárlögum rétt um eða rúmar 70 millj. Loks renna svo til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna til þess að lækka útsvörin 56 millj. Þessar tölur, 110 millj. tekjurýrnun vegna skattalagabreyt., 114 millj. vegna afnáms 9% söluskattsins og 56 millj, til sveitarfélaganna, eru samtals 280 millj., en það er sú upphæð, sem söluskatturinn, bæði 3% og 8%, átti að gefa í ár. Þessar tölur féllu alveg saman, og þess vegna er það rétt um þessar tolla- og skattalækkanir, sem ákveðnar voru, að sama upphæð átti að nást á móti með þessum tvenns konar söluskatti.

Varðandi áhrifin á afkomu meðalfjölskyldu og vísitölufjölskyldu er rétt hér að lesa upp skýrslu eða útreikning hagstofunnar, svo að það liggi þá fyrir hér. Hann er á þessa leið:

Lækkun tekjuskatts 1444 kr., lækkun útsvars 924 kr., lækkun útgjalda vegna niðurfellingar 9% söluskatts er 1357 kr., lækkanir alls á vísitölufjölskyldunni 3725 kr. Hækkanir eru hins vegar: vegna 3% söluskattsins 1527 kr., vegna 8% innflutningssöluskattsins 1700, samtals 3227 kr. Mismunurinn er 498 kr., sem lækkar af þessum ástæðum á vísitölufjölskyldunni.

Ég veit ekki, hvort hv. 7. þm. Reykv. vill rengja þessar tölur hagstofunnar. Ég efa, að hann leyfi sér að gera það. En hins vegar þær tölur, sem hann var með hér, voru svo algerlega villandi, að það er alveg furðulegt, að hv. þm. skuli leyfa sér að bera þær fram hér á þingi. Það, sem náttúrlega skakkar langsamlega mestu, er, að hann sleppir gersamlega einum þeim tekjustofni, sem hefði í ár gefið 114 millj., ef lög hefðu verið óbreytt í því efni.