27.01.1961
Neðri deild: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í D-deild Alþingistíðinda. (3015)

151. mál, fjárreiður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, skipun nefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef oft um það hugsað, hvort ekki mundi vera nauðsynlegt, að hið opinbera léti nokkuð til sín taka rekstur Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Það, sem varð samt ástæðan til þess, að ég nú á þessu þingi og á þessum tíma setti fram þá till. til þál., sem hér liggur fyrir á þskj. 268, var það svar, sem Vinnuveitendasamband Íslands gaf verkalýðssambökunum. Dagsbrún fyrst og fremst og samtímis fleirum, nú nýlega. þegar Dagsbrún, eftir að hún hafði í tvö ár án þess að leggja til atlögu út af þeim launaskerðingum og samningsrofum, sem fram hafa farið á þessum tveimur árum, án þess að hafa nokkurn tíma rætt við atvinnurekendur um kauphækkanir, fékk það svar: Það eru engir peningar til, og það er ekki hægt að verða við því að hækka kaup verkalýðs á Íslandi, — eftir að laun höfðu verið lækkuð um 15% miðað við þá vísitölu sem við gætum kallað 100 móts við 1945, lækkuð um allt að 30%, miðað við það kaupgjald, sem var í janúar 1959, áður en fyrstu kúgunarlögin voru sett. Þegar atvinnurekendur og þeirra samtök svara á þennan hátt, þá er eðlilegt, að maður verði nokkuð að fara að skoða hug sinn um afstöðu til slíkra samtaka og að fara fram á, að þjóðin láti athuga nokkuð þeirra gang og Þeirra stjórn á þeim sviðum, sem þeim hefur verið leyft að stjórna fram að þessu.

Ég verð að segja, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum út af þeim svörum, sem Vinnuveitendasamband Íslands gaf. Og ég skil það vel, að hjá verkamönnum hefur orðið almenn reiði yfir þessum svörum. Satt að segja verð ég að segja það, að á svona hátt gátu máske aðalsmenn í Frakklandi svarað frönskum bændum fyrir frönsku byltinguna, þegar þeir höfðu enn þá lagalegan rétt til þess að spretta upp kviðnum á þeim til þess að verma kalda fætur sína, ef þeir komu kaldfættir af veiðum. En það er ekki hægt eftir allt, sem gerzt hefur síðustu 200 árin í þjóðlífinu fyrir þá menn, sem svo að segja í umboði þjóðfélagsins rækja atvinnureksturinn, að svara verkamönnum sínum á svona máta, og hví þurfa íslenzkir auðmenn og íslenzkir atvinnurekendur að venja sig af. Þeir verða að gá að því, hverjir þeir menn eru. sem þeir eru að tala við. Íslenzku verkalýðssamtökin hafa innan sinna vébanda alla íslenzka verkamenn. Það eru mennirnir, sem vinna allt það erfiðasta starf, sem unnið er í okkar þjóðfélagi. Það eru mennirnir, sem skapa allan þann auð sem atvinnurekendastéttin á við að búa. Það væru ekki 29 menn, sem ættu 250 millj. kr. í skuldlausum eignum í þessu landi, ef verkalýðurinn hefði ekki skapað þennan auð þeirra.

Það eru þessir menn, sem hafa, ekki hvað sízt nú undanfarna áratugi,þrælað baki brotnu, þannig að Ísland er í dag, þegar útlendir ferðamenn koma hingað og skoða landið, eins og nýtt land, Reykjavík eins og ný borg. Það hafa verið unnin slík afrek í uppbyggingu einmitt af þessum mönnum. Og það, sem þeir bera úr býtum, er í dag, að kaup Dagsbrúnarmanna fyrir 8 tíma vinnudag árið um kring er 48 þús. kr. Á meðan sjálf hagstofan, sjálft ríkisvaldið slær því föstu, að fjögurra manna fjölskylda þurfa 68 þús. kr. til þess að lifa af, þá eiga menn ekki að svara þeim mönnum, sem hafa sýnt annað eins langlundargerð og verkamenn hér í Reykjavík og annars staðar nafa sýnt, á þann hátt, sem atvinnurekendur hafa gert. Slíkt er annaðhvort slíkt skilningsleysi, sem spáir ekki góðu um viðskipti við slíka menn, eða hroki sem stendur falli næst. Og hverjir eru þeir atvinnurekendur, sem þannig svara? Þegar athuguð er kaupgeta tímakaupsins, kemur í ljós, að þessir atvinnurekendur segja sjálfir, að þeir séu ekki færir um að borga hærra kaup en þeir gerðu fyrir 15 árum. Þeir hafa haft sitt pólitíska vald í landinu allan þennan tíma. Þeir hafa átt þessi atvinnufyrirtæki. Ef þeir hafa stjórnað þeim svona, að eftir 15 ár, þegar kaupið er 15% lægra en það var fyrir 15 árum, segist þeir ekki hafa efni á, ekki hafa neina möguleika til þess að greiða meira kaup, þá þýðir það, að slíkir atvinnurekendur, slík

stétt er að dæma sjálfa sig pólitískt gjaldþrota, er að lýsa sig ófæra til að stjórna atvinnulífinu, er að segja raunverulega við þjóðfélagið, að hún eigi ekki skilið að vera til sem stétt. Meðal þessara einstaklinga, meðal þessara atvinnurekenda sem einstaklinga er fjöldi af ágætismönnum, fjöldi af mönnum, sem mundu í þjónustu þjóðfélagsins geta unnið framúrskarandi góð störf. En ef árangurinn af 15 ára stjórn þeirra núna á atvinnulífinu er slíkur, að þeir geti ekki skilað verkamönnum nema 15% lægra kaupi en var fyrir 15 árum, þá eiga þeir að hætta að vera við atvinnurekstur og hverfa frá honum og segja verkamönnum að taka við þessu og reka það sjálfir.

Ég vil taka það fram, að stétt, sem svarar svona, er að dæma sjálfa sig úr leik í þjóðfélaginu. Hún er að falla fyrir þeirri freistingu, sem oft einkennir gamlar hrörnandi yfirstéttir, að sýna þeim mönnum, sem þær eiga allan sinn auð að þakka, ekki elnu sinni kurteisi, og sýna ekki gagnvart þjóðfélaginu, sem hefur trúað þeim fyrir meðferð þessara fjármuna, það, að þær geti skilað sæmilegum árangri. Og þurfa íslenzkir atvinnurekendur sérstaklega að kvarta yfir, hvernig þessir verkamenn og verkalýðshreyfingin, sem þeir eiga við. hafa reynzt þeim í samstarfinu í þjóðfélaginu? Hverjir voru það, sem sögðu við þessa atvinnurekendur fyrir 15 árum: Þið þurfið að fá ný tæki. — Ég átti þátt í því fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar að segja það við íslenzka atvinnurekendur. Og hverju svöruðu þeir? Þegar verkalýðshreyfingin bauð þeim upp á nýja dísiltogara, þá sögðu togaraeigendurnir: Nei, takk, við viljum kolatogara. — Það höfðu aðrir vit fyrir þeim, þeir fengu ekki að ráða. En þetta var viðsýnin þá. Verkalýðshreyfingin átti sinn þátt í að reyna þá að endurnýja handa þeim öll tækin. Eimskipafélag Íslands fékk útborgaðar frá okkur þá í nýbyggingarráði 35 millj. kr. til þess að kaupa sér skip, fjögur skip, Gullfoss og systurskip Goðafoss, 35 millj. kr. Það er svipað og 240–250 millj. kr. mundu vera núna. Það hefur ekki staðið á verkalýðshreyfingunni að útvega þessum atvinnurekendum tæki til þess að vinna með, endurnýja handa þeim skipastólinn, vélarnar og verksmiðjurnar. Og þegar þessir atvinnurekendur samt sem áður voru vantrúaðir á þetta, eftir að þeir voru uppgefnir eftir krepputímann og trúlausir á Íslenzkt atvinnulíf, þá sagði verkalýðshreyfingin við þá: Við skulum líka útvega ykkur ódýr lán, lán til 15 og 20 ára, lán með 21/2% vöxtum. — Og verkalýðshreyfingin barði þetta í gegn þrátt fyrir mótstöðu bankavaldsins.

Ég man eftir þeim tímum, að helztu atvinnurekendur þessa lands hafa jafnvel komið og kvartað út af þessu, beðið okkur um að liðsinna sér til þess að koma vitinu fyrir það skriffinnskubankavald, sem þeir hefðu þó sjálfir átt að hafa með sínu ríkisvaldi möguleika til þess að ráða við. Og verkalýðshreyfingin hefur alltaf reynt að hjálpa þeim. Og ekki nóg með það, að hún hafa hjálpað þeim til að endurnýja öll tæki og skapa ný, hjálpa þeim til þess að fá góð lán út á þessi tæki, hún hefur líka bent þeim á og hjálpað þeim til að fá markaðina fyrir það, sem þessi nýju tæki framleiddu. Sú verkalýðshreyfing, sem talar við atvinnurekendur nú, á því kröfu á því, að henni sé sýnd fyllsta kurteisi, fyllsta tilhliðrunarsemi og að atvinnurekendurnir lýsi því yfir, að þeir vilji allt gera, sem í þeirra valdi stendur, til þess að hækka kaupið. Ég býst við, að íslenzkir atvinnurekendur hafa að sumu leyti á þessu 15 ára tímabili átt við öruggari markaði að búa fyrir tilstilli íslenzkrar verkalýðshreyfingar heldur en nokkur önnur atvinnurekendastétt Evrópu, þannig að gagnvart verkalýðsstéttinni máttu þeir gjarnan sýna fulla tillitssemi. Og hver er afstaða þeirra gagnvart þjóðfélaginu? Hvað segja atvinnurekendurnir, þegar þeir segja, að þeir geti ekki hækkað kaupið og vita þó að verkalýðurinn getur ekki lifað af kaupinu? Þá segja þeir raunverulega það má allt stöðvast í þjóðfélaginu. En hver er skylda þessara atvinnurekenda gagnvart ríkinu og gagnvart þjóðfélaginu? Eru þetta atvinnurekendur, sem hér eiga hlut að máli, sem hafa allan sinn auð, án þess að ríkið hafa nokkurn tíma komið þar nærri að hjálpa þeim til að skapa hann? Nei, það er þjóðfélagið sjálft sem hefur hjálpað þeim til þess að eiga það, sem þeir eiga í dag, hafa með höndum það. sem þeir hafa með höndum í dag. Þeir fara með öll þau atvinnutæki, að heita má, sem þeir eiga, í umboði þjóðfélagsins. Það er þjóðfélagið sjálft, sem hefur í gegnum sína banka lánað þeim, ekki aðeins stofnlán, heldur líka rekstrarlán, til þess að reka allan þennan atvinnurekstur. Þeir eru ekki eins og sumir útlendir auðdrottnar, sem ekki aðeins hafa ekki fengið neitt frá ríkinu eða þjóðfélaginu að láni heldur eiga sjálfir þar að auki bankana og lána jafnvel öðrum út, fyrir utan þau atvinnutæki, sem þeir eiga, þó að auðinn hafa þeir að vísu alltaf fengið frá alþýðunni. Við erum að ræða núna frv. í fjhn. þessarar deildar, þar sem við erum að ræða um, hvort eigi nú að lána þeim meira en 70% af stofnkostnaði fyrirtækja og hvort eigi að lána þeim meira en 70% af rekstrarkostnaði fyrirtækja, — en 70% í stofnkostnað, 70% í rekstrarkastnað, það þykir a.m.k. alveg sjálfsagt — og jafnvel meira. Þetta eru atvinnurekendur, sem hafa ekki efni á því að segja við þjóðfélagið: Ég stöðva mín atvinnutæki, ef verkalýðurinn vill fara fram á að hafa hærra kaup en 85% af því kaupi. sem hann hafði fyrir 15 árum.

Ég vil minna á þetta vegna þess, að það er nauðsynlegt. að íslenzk atvinnurekendastétt geri sér ljósa stöðu sína í þjóðfélaginu, og sízt af öllu ber henni að ræða um eða reyna jafnvel að hræða alþýðu manna á verðbólgunni. Það er íslenzk atvinnurekendastétt, sem hefur haft sín pólitísku völd í þessi 15 ár. Það er hún, sem hefur skipulagt verðbólguna til þess að velta af sér yfir á þjóðfélagið þeim kauphækkunum, sem verkalýðurinn hefur knúið fram og hún átti að bera sjálf í betri rekstri sinna fyrirtækja.

Einmitt vegna þessarar aðstöðu, sem íslenzkir atvinnurekendur hafa haft og verkalýðshreyfingin hefur haft gagnvart þeim og þjóðfélagið hefur haft gagnvart þeim, þá voru mín vonbrigði mikil af þeirra svörum nú fyrir nokkrum dögum, og verkamenn mun almennt hafa gripið réttlát reiði yfir þeirra framkomu. Þess vegna álit ég nauðsyn á því, að nú sé athugað, eins og ég legg til í 6. gr. þessarar till, hvernig standa hinir einstöku meðlimir Vinnuveitendasambands Íslands gagnvart íslenzka ríkinu og þess bönkum og hvernig hafa þeir staðið í skilum með það, sem þeir hafa fengið að láni frá bönkunum, og það er meginið af öllu því, sem þeir reka sinn atvinnurekstur með. Það eru aðeins örfáir atvinnurekendur, sem hafa ekki leitað yfirleitt til bankanna um slíkt, og þeim atvinnurekendum mundi ég raunverulega sleppa 5 þessum umr. Verkalýðurinn og íslenzka ríkið á kröfu á hendur þessum atvinnurekendum, og þess vegna legg ég nú til, að stærsta og voldugasta fyrirtækið, sem íslenzkir atvinnurekendur hafa með höndum, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sé tekið til athugunar, sé tekið til rannsóknar af hálfu rannsóknarnefndar, sem þessi hv. deild setji.

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna er það fyrirtæki, sem veltir langmestu af öllum fyrirtækjum á Íslandi. Ég þori ekki að segja um það nákvæmlega, ég gæti trúað, að það væru alltaf 600–700 milljónir af verðmæti íslenzks útflutnings, sem það hefur með að gera, jafnvel meira. Og þegar við athugum bæði fjárlögin annars vegar og útflutninginn hins vegar, þá sjáum við, hve gífurlegur hluti þetta er af öllum okkar þjóðartekjum og öllu því, sem við hér á Alþingi fjöllum um, þegar við fjöllum um fjárlög.

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur sína peninga frá þjóðinni, frá bönkum ríkisins, frá almenningi, frá sjómönnum og útvegsmönnum. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur sitt vald frá þjóðinni. Ríkisstj. lætur í krafti laga frá Alþingi Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hafa þá aðstöðu til útflutnings og umráða yfir fiskinum, sem Sölumiðstöðin hefur, og meginið af þeim mörkuðum. sem Sölumiðstöðin hefur, er útvegað af því opinbera fyrir beina tilhlutun ríkisins. M.ö.o.: allur sá grundvöllur, sem þetta fyrirtæki starfar á, er frá þjóðfélaginu og frá ríkinu, og hér er þess vegna ekki um að ræða í neinum slíkum skilningi neitt einkafyrirtæki, sem þjóðfélaginu sem heild komi ekki neitt við.

Ég skal strax taka það fram, þegar ég legg fram þessa till hér, að ég þykist persónulega síður en svo hafa á mínum pólitíska ferli gert neitt á hluta Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, heldur þvert á mótí. Ég þykist hafa, að svo miklu leyti sem ég hef einhvern tíma getað komið mínum áhrifum við, miklu frekar hjálpað til þess, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna yrði það sterka og volduga fyrirtæki, sem hún er orðin, reynt að leggja fram mína litlu getu til þess, þegar ég hef starfað í Þjónustu ríkisstjórna hér, að afla henni markaða, og að svo miklu leyti sem um hraðfrystihúsin var að ræða á þeim tímum, sem ég og minn flokkur hafði áhrif á afgreiðslu mála, að reyna að tryggja þeim góð lán og mikil, þannig að þegar ég nú kem fram með gagnrýni á hendur þessarar Sölumiðstöðvar, þá þykist ég vera í fullum rétti til að bera hana fram hvað það snertir, að ég haft ekki síður en hver annar maður, sem fæst við stjórnmál á Íslandi, reynt að vinna að því, að þetta volduga fyrirtæki geti eflzt. Það hefur líka eflzt. Þegar Bretar sögðu upp okkar samningum um hraðfrystan fisk og hættu að kaupa hraðfrystan fisk í lok stríðsins, þá var því bjargað, að það væri hægt að halda áfram að hraðfrysta fisk á Íslandi í stórum stíl og selja hann þá til Sovétríkjanna. Og þróunin hefur orðið sú, að það tókst ekki aðeins að halda allri þeirri fiskflökun, sem við höfðum í stríðslokin, þótt Englendingar hættu að kaupa fiskinn, heldur hefur okkur tekizt að auka úr 29 þús. tonnum upp í 75 þús. tonn útflutninginn á íslenzkum freðfiski. Ég hef hins vegar hvað eftir annað orðið fyrir sárum vonbrigðum af hálfu stjórnendanna í þessum fyrirtækjum með, hvernig þeir hafa notað þá aðstöðu, sem hið opinbera þannig hefur lagt þeim upp í hendurnar.

Sovétríkin — og ég hef tvisvar fyrir íslenzka ríkisstjórn haft með það að gera að reyna að tryggja þann markað — hafa keypt í kringum 30 þús. smál. af hraðfrystum fiski á Íslandi. Þetta hefur verið stundum helmingur, stundum meira, stundum minna af öllum þeim fiski, sem keyptur hefur verið, og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur verið aðalseljandinn. En svo litill hefur áhuginn verið hjá voldugasta manninum í þessari Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, framkvæmdastjóranum þar, Jóni Gunnarssyni, að aðeins einu sinni hefur þessi framkvæmdastjóri komið til Sovétríkjanna, komið í það stærsta markaðsland, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur viðskipti við, og það nú fyrir eitthvað rúmu ári. Í 15 ár var ekki litið við því að líta þangað, þó að maður hvað eftir annað benti á, að það væri nauðsynlegt að gera eitthvað af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna til þess að reyna að festa þessa markaði sem bezt. Það var vitað, að bæði í Sovétríkjunum og Tékkóslóvakíu var það svo, að í stríðslokin var tiltölulega auðvelt að selja til þessara landa eins og fleiri. Það var víða matarskortur. Þjóðir, sem voru óvanar við okkar fisk, vöndust við að borða hann þá, og það var um að gera fyrir okkur að koma því nú á, að þær héldu því áfram, m.a. með því að beita allri þeirri tækni, sem nútíminn þekkir í auglýsingum og öðru slíku, upplýsingum um meðferð á fiskinum og þess háttar. Ég hef hvað eftir annað bent ráðamönnum á þetta. Því hefur aldrei verið sinnt. Höfuðforstjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hefur oft verið í Bandaríkjunum, jafnvel að staðaldri, og ýmsum öðrum löndum. En til landanna, sem hafa keypt 2/3 hluta af öllum freðfiskinum, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur selt, þangað hefur hann varla komið. Jafnvel heyri ég sagt stundum, að hann sé að halda miklar og dýrar veizlur í New York og annars staðar, og þó að ég sé ekki að mælast til slíks þar í austurvegi, þá hefði þó a.m.k. verið stundum hægt að gefa út leiðarvísi um, hvernig skyldi fara með íslenzka fiskinn, og reyna að nota þau tækifæri, sem ríkisstjórnirnar hafa skapað á undanförnum áratugum með sínum milliríkjasamningum, til þess að reyna að kynna þessa góðu íslenzku vöru almenning sem allra bezt. Það hafa verið góð kjör, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur notið þar austur frá. Hún hefur fengið staðgreiðslu á því, sem hún hefur selt. Það hafa venjulega ekki liðið nema nokkrir dagar, nokkrar vikur í hæsta lagi þangað til það hefur verið greitt, sem þangað hefur verið selt. Og venjulega hafa áður verið settar bankatryggingar.

En hvað hefur svo verið gert við peningana, þegar búið var að skipta því á þennan hátt? Peningarnir hafa verið teknir og settir í stórfyrirtæki, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur starfrækt vestanhafs og sunnan, starfrækt í Bandaríkjunum, Bretlandi og Hollandi. M.ö.o.: það hefur verið hafður sá háttur á, að til vissra landa hefur verið selt gegn bankatryggingu, selt gegn staðgreiðslu, en gagnvart öðrum löndum hefur verið hafður sá háttur á, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur látið aðilum í þeim löndum hraðfrysta fiskinn, sem þangað er fluttur, í eins konar umboðssölu. Og hverjir eru eigendur þeirra fyrirtækja, sem hafa fengið þennan fisk í umboðssölu? Í Bandaríkjunum er það fyrirtæki, sem mun hafa fengið meginið af öllum þessum fiski, fyrirtæki, sem kallað er Coldwater, sem er skráð amerískt fyrirtæki, en eign, — og nú þori ég ekki að fullyrða, það er eitt af því, sem þarf að rannsaka, — eign annaðhvort Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna eða hlutafélag, þar sem ef til vill einstakir meðlimir úr Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eiga hlutafé. Þetta fyrirtæki mun hafa reist verksmiðjur og mun hafa komið upp sölubúðum í Bandaríkjunum. Þetta fyrirtæki mun hafa í veltu svo að skiptir tugum, ef ekki hundruðum milljóna ísl. króna, sem ýmist eru fastar í verksmiðjum, sem þetta fyrirtæki hefur byggt, í fiski og fiskvöru, sem það hefur til sölu. Reikningar fyrir þetta fyrirtæki hafa ekki legið fyrir hér heima, að því er ég bezt velt, á fundum Sölumiðstöðvar hraðfrystinúsanna. Ég er hræddur um, að farmar af íslenzkum fiski hafa verið seldir hver eftir annan til Bandaríkjanna, án þess að sett hafa verið bankatrygging fyrir þeim, án þess að komið hafa staðgreiðsla fyrir þá, heldur hafa verið settir í umboðssölu til þessa fyrirtækis, þetta fyrirtæki unnið úr því, selt það, lánað það eða ráðstafað á annan hátt eða legið með Það, þannig að það komast seint skilin til margra hér á Íslandi, ekki vegna þess, að ekki sé borgað gegn staðgreiðslu það, sem fer til sósialistísku landanna, heldur vegna hins, að fé, sem raunverulega sjómenn og útvegsmenn og hraðfrystihúsin eiga, er notað sem veltufé í stórt og mikið fyrirtæki þar vestur í Ameríku og meira eða minna á huldu, hvernig þetta gengur, hvernig þetta stendur, hverjir eru eigendur þess, hvers konar rekstur er á því, hvort það skilar gróða eða tapi, hvort það á mikið í áhættu. Og þetta eru hlutir, sem íslenzka sjómenn, íslenzka útvegsmenn, íslenzku hraðfrystinúsin og þjóðfélagið í heild varðar um og ekki sízt verkalýðinn, þegar sagt er við hann: Þetta fyrirtæki, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, og atvinnurekendurnir í því hafa ekki efni á að greiða hærra kaup en 85% af því kaupi, sem þeir greiddu fyrir 15 árum.

Nú vil ég segja það, að það má náttúrlega lengi um deila. hvers konar hátt Íslendingar skuli hafa á um sölu á sínum vörum erlendis. Ég álit, að heppilegasta fyrirkomulagið fyrir íslenzkan almenning á slíku sé að selja sem allra mest gegn staðgreiðslu og firra sig sem allra mest hættunni af hvers konar verðsveiflum, hvers konar baráttu á erlendum mörkuðum innan landanna, sem við mögulega getum komizt hjá. Það þykir kannske hart, þegar ég segi það, en ég álit, að t.d. í viðskiptum við Bandaríki Norður-Ameríku sé það almennt séð hagstæðast fyrir íslenzka þjóðfélagið að reyna að finna þar aðila, sem kaupi af okkur fiskinn og sjálfir annist síðan söluna þar innanlands, meðferðina á honum og dreifinguna. Ég álít, að almennt séð sé þetta hagstæðast, vegna þess að þá felst ekki í því sú mikla áhætta, sem harðvitug barátta í þessum stóru löndum venjulega kostar. Við vitum, hvernig ástandið er í slíkum löndum. Þar eru venjulega nokkur sterk, voldug félög, sem hafa með slíka sölu, eins og t.d. fisksöluna, að gera. Slík félög hafa venjulega vel skipulagðan hring fiskbúða, sem þau selja í gegnum, og fyrir eins litla þjóð og okkur að ætla að taka upp harðvítuga samkeppni við slíka aðila, koma sjálf upp verksmiðjum, sölubúðum og öðru slíku til þess að berjast við þá. það getur að vísu verið óhjákvæmilegt fyrir okkur, ef þessir erlendu aðilar vilja engin viðskipti við okkur hafa. Ef þeir ætla að ýta okkur út í hin yztu myrkur og þjóóin, svona lítil þjóð eins og okkar, verður þess vegna að beita allri sinni orku til þess að reyna að brjótast inn á slíkan markað, þá getur slíkt verið nauðsynlegt, og þá skyldi ég ekki heldur telja það úr. En ef við getum haft samstarf við erlenda aðila um slíkt eða við getum selt erlendum aðilum okkar vörur og látið þá sjálfa sjá síðan um heildsölu og smásölu og verksmiðjurekstur í sínu eigin landi, þá er þetta það áhættuminnsta fyrir okkur, og þá er það líka sú aðferð, sem við Íslendingar yfirleitt höfum beitt. Stundum hafa að vísu voldug fyrirtæki Íslands tekið upp samstarf við erlenda auðmenn eða erlend samvinnufélög um slíkt, og þá getur máske verið rétt að gers það. En það er aðeins í neyðartilfelli, sem við eigum að fara út í annað eins og að reyna í stórum. ríkum löndum að skapa okkar eigin verksmiðju og sölubúðakerfa til þess að berjast þar og setja mikla fjármuni litillar þjóðar í slíka áhættu. Ég vil vekja athygli á því, að það er önnur hætta, fyrir utan þær verðsveiflur og annað slíkt, sem stendur í sambandi við þess háttar. Það er sú hætta, að þegar aðili, — við skulum segja eins og í þessu tilfelli Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða einstakir menn úr henni, — er orðinn eigandi að amerísku fyrirtæki, t.d. Coldwater, og segjum síðan. að þetta fyrirtæki með sínar verksmiðjur og sínar sölubúðir eigi í vissum erfiðleikum, segjum, að það eigi í mjög harðvitugri samkeppni við aðra aðila þar, segjum, eins og öllum getur viljað til, að í sambandi við þessar ráðstafanir um sölu verði ýmis mistök, segjum, að þeir lendi illa úti í ýmsum verðsveiflum og öðru slíku þá munar engu, að svona fyrirtæki sé allt í einu farið að hugsa sem söluhringur erlendis, farið að hugsa sem amerískt sölufyrirtæki, sem hefur hagsmuni af að selja sérstaklega meðhöndlaðan fisk og þess vegna hagsmuni af að fá ódýran fisk frá Íslandi. M.ö.o.: ef farið er út í svona hluti, þá eru máske, áður en við vitum af, menn, sem ella mundu kannske hafa hugsað alveg eins og fulltrúar fyrir íslenzkan útveg, fulltrúar fyrir íslenzk hraðfrystihús, þá eru þeir allt í einu farnir að hugsa sem amerískir fiskkaupendur, sem hafa hag af að fá sem lægst verð á íslenzkum fiskí, fá sem lægstan framleiðslukostnað úti á Íslandi, sem lægst laun m.a. hjá íslenzkum verkamönnum. M.ö.o.: áður en við vitum af, eru máske svo og svo duglegir og framtakssamir íslenzkir útvegsmenn og íslenzkir hraðfrystihúseigendur orðnir amerískur fiskihringur, sem er farinn að hafa hagsmuni, sem eru meira eða minna andstæðir hraðfrystihúsunum, útvegsmönnum, sjómönnum og verkamönnum á Íslandi. Þetta er þróun, sem getur leitt af sjálfu sér, og þróun, sem við þekkjum frá gömlum tíma, gamla fiskhringinn okkar, þegar það gat kamið fyrir, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hafði hagsmuni af því að halda niðri verði á íslenzkum fiskí. Þegar erlendir fiskkaupendur buðust til þess að greiða hærra verð, greip viðkomandi sölumiðstöð þá. Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, inn í til að fá þá erlendu fiskkaupendur til þess að lækka sitt verð. M.ö.o.: hagsmunir einstakra manna úr Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna geta sökum þeirra hagsmuna af rekstri Coldwaters í Bandaríkjunum komizt í andstöðu við hagsmuni Íslendinga, hagsmuni hraðfrystihúsanna, útvegsmanna, sjómanna, verkamanna og þjóðfélagsins á Íslandi, þannig að það er að öllu leyti áhætta og hættulegt, að þessar ráðstafanir séu gerðar.

Aðstaða Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og aðstaða Coldwaters getur orðið með þessu móti svipuð og aðstaða dönsku einokunarkaupmannanna var fyrrum eða selstöðukaupmannanna, sem sé þetta getur orðið eins konar fiskhringur, sem stendur í algerri andstöðu við okkar þjóðfélag. Og af því að ég er hræddur um, að þessi þróun sé að eiga sér stað, af því að ég er hræddur um, að svo og svo mikið af fjármunum íslenzkra hraðfrystihúsa, útvegsbænda, sjómanna, verkamanna og þjóðfélagsins sjálfs, íslenzku bankanna hafi verið sett í þessi fyrirtæki og sé fast þarna og óheppileg stefna hafa verið tekin upp um þessa sölu, þá álít ég, að það sé nauðsynlegt að rannsaka þessa hluti.

Þetta hefur hins vegar ekki aðeins gerzt í Bandaríkjunum, þó að þar muni vera voldugasta fyrirtækið í þessum efnum, — fyrirtæki, sem ég þori ekki að fullyrða neitt um, hve mikið hefur í veltunni. Það geta verið tugir milljóna, það geta líka verið 100 milljónir eða jafnvel hundruð milljóna, — það þori ég ekkert að segja um. Ég heyri sagt, að í Lundúnum hafi verið tekinn upp hinn sami háttur, það hafa verið komið upp verksmiðjum, þar hafa verið keyptar eignir, það hafa verið komið upp sölubúðum. Þetta er vart gert með öðru fé en fé Íslendinga, fé hraðfrystihúsanna, andvirði fisks, sem afhentur hefur verið Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í umboðssölu. Og hvernig stendur um þessi hluti í dag? Hvað mikið hefur verið fest af fjárhagslegum afrakstri útvegsins á Íslandi í slíkum fyrirtækjum í Bandaríkjunum og í Bretlandi? Hvernig stendur þetta núna? Ég veit, að sé áhætta í Bandaríkjunum, að berjast þar, — og ég get vel trúað, að það sé oft erfitt, — þá efast ég um, að sú barátta sé öllu léttari í Bretlandi. Þar eru ekki síður og jafnvel enn þá frekar voldugir hringar, sem eiga sína gífurlegu sölubúðahringi til þess að selja. Og þó að ég hafi vissulega ekki á móti því, að reynt sé að berjast þar, þá getur verið spursmál, hve mikið við eigum að hætta á og hve mikið við höfum efni á og leyfa til að taka úr veltu hjá fátækri þjóð og taka frá íslenzka sjávarútveginum til þess að setja fast í þessa hluti, a.m.k. á meðan við verðum ekki alveg að berjast fyrir lifa okkar á þessum stöðum.

Svo sá ég, þegar næstsíðustu fjárlög voru afgreidd, að þar var tekin upp á heimildagreinina ríkisábyrgð, og það á sama tíma sem lýst var yfir af hálfu hæstv. ríkisstj., að feila skyldi niður stefnu ríkisábyrgðanna, — þar var tekin upp allrífleg ríkisábyrgð, sem nam, ef ég man rétt, jafnvel meira en milljónatug, jafnvel tveim tugum milljóna, ég þori ekki að fara alveg með það, til þess að hjálpa Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna til að koma upp slíku fyrirtæki í Hollandi. Og þar mun nú eiga að leika sama leikinn, koma upp verksmiðjum, koma upp sölubúðum, m.ö.o. taka út úr veitunni hjá íslenzka sjávarútveginum svo og svo mikið af fé og setja það í fyrirtæki í Hollandi til þess að fara að berjast á þeim mörkuðum, — taka þetta út úr veltunni hér heima og segja svo á sama tíma við hraðfrystihúsin og kannske við útvegsbændurnar. Við getum ekki greitt hærra verð fyrir fiskinn en þetta, — og segja við verkamennina Við getum ekki greitt ykkur nema 85% af þeim launum, sem voru fyrir 15 árum.

Ég veit ekki um, að hve miklu leyti,þessi starfsemi, að taka fé úr veltu sjávarútvegsins íslenzka, hefur farið löglega fram. Ég veit ekki, að hve miklu leyti Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur á undanförnum árum fengið leyfa til þess að taka þetta fé og nota það erlendis. Ég hef grun um, að það hafa að vísu komið fyrir eftir á, þegar búið hefur verið að framkvæma slíkt, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hafa sótt um gjaldeyrisleyfa til viðkomandi stofnana og jafnvel fengið ýmis slík gjaldeyrisleyfi, en þá hafa þetta venjulega verið um garð gengið. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna búin að taka þetta út úr rekstrinum og síðan hafa verið jafnvel slumpað á um gjaldeyrisleyfi. En ég veit ekki til þess, og a.m.k. hef ég ekki getað fengið það upplýst, að fyrir hafa legið, áður en slíkar ráðstafanir hafa verið gerðar og um leið og lagt hafa verið í svona fyrirtæki, nákvæmar skýrslur og nákvæmar beiðnir frá hálfu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna um að ráðstafa þannig sínum gjaldeyri erlendis, þannig að ég er hræddur um, að mjög mikið af þessu hafa verið raunverulega brot á íslenzkum lögum og síðan hafa því verið bjargað með gjaldeyrisleyfum eftir á. Ég hef heyrt sagt, að svo hafa líka verið lagðir fram allmiklir reikningar fyrir ýmsum auglýsingakostnaði og öðru slíku. Ég skal ekkert um það segja, en ég er hræddur um, að allt saman þetta sé enn þá mjög á huldu. Og í dag, þegar útvegsmenn í stærstu verstöð landsins stöðva flotann þar og segja við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Við viljum fá hærra og öðruvísi verð fyrir okkar fisk, — og þegar sjómennirnir í mörgum helztu verstöðvum landsins standa í baráttu líka út af fiskverðinu og gæða matinu og öðru slíku, þá er ekki nema eðlilegt. að það sé spurt hér á Alþingi og það sé krafizt rannsóknar um það, hvernig er um þessar fjárreiður. hvernig er um þá tugi milljóna eða jafnvel meira, sem tekið hafa verið út úr rekstrinum á undanförnum árum og sett fast á öllum þessum stöðum og er fast þar í dag. Það eru raunverulega sjómenn og útvegsmenn og hraðfrystihús, sem raunverulega eiga þetta. En ég er hræddur um, að aðstaða þessara aðila hafa verið heldur erfið á undanförnum árum með að fá skil fyrir sína vöru. Ég er hræddur um, að það hafa verið stundum þannig, þegar farið hefur verið fram á það af þeim, sem smáir eru og eiga litið undir sér, á fundum Sölumiðstöðvarinnar að fá skilagrein fyrir þessum hlutum, þá hafa slíkt verið kæft niður. Mér lízt, að þar sé einn voldugur aðili, framkvæmdastjórinn þar, sem kæri sig ekkert um að gefa slíkar upplýsingar, og ég hef haft það á meðvitundinni, að ýmsir þeir smærri í þessum samtökum hafa jafnvel átt það yfir höfði sér, ef þeir hafa ætlað að gerast óþægir, að þeir yrðu fyrir barðinu á því miðstöðvarvaldi, sem skapast í slíkum samtökum, t.d. um afskipanir á sínum fiski og annað slíkt. A.m.k. vitum við, að í svona samtökum, sérstaklega þegar þau eru farin að taka á sig svo einokunarhringa, þá er venjulega reynt að brjóta niður óánægju og gagnrýni, sérstaklega þeirra smærri, sem lítið eiga annars undir sér, með því að láta þá annars sæta misjafnri meðferð. Við vitum, að vextir eru háir á Íslandi og það er þungt fyrir útvegsmenn og fyrir hraðfrystihúsin hér og hvar að boða mánuðum saman, jafnvel stundum árum, eftir að fá uppgjör fyrir sinn fisk. Það hefur verið hægt að gera það undireins fyrir allan þann fisk, sem seldur hefur verið til sósialistísku landanna. Hann hefur verið borgaður, hann hefur verið staðgreiddur. Það, sem veldur því, hvað seint hefur verið gert upp, er þessi stefna, að það er braskað með fiskinn í þeim löndum og sett fast svo og svo mikið í verksmiðjum, sölubúðum og dreifingarkerfum. Á meðan verða menn að bíða hér marga mánuði, jafnvel stundum heilt ár, eftir að fá uppgjörið, fá féð, og vita ekki einu sinni, hvort þeir hafa fengið það allt eða hvort þeir eiga svo og svo mikið kannske í fyrirtækjum í Bandaríkjunum. i sama tíma er vaxtabyrðin á þessum útvegi og á þessum hraðfrystihúsum svo þung, að eins og menn vita. þá liggja hér skýrslur fyrir um Það, að meira að segja bara tiltölulega litil breyting á vöxtum hjá þessum hraðfrystihúsum getur munað þau því, sem samsvarar 22% af öllu kaupgjaldi.

Það er því ekki nema eðlilegt, að hér sé þess krafizt, að rannsakað sé nú til fullnustu, hve mikið af fjárhagslegum afrakstri sjávarútvegsins er nú í allri þeirri veltu, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur með að gera. Enn fremur er rétt að gera sér það ljóst, að um það ganga sögur, að Sölumiðsböð hraðfrystihúsanna hafa lánað einstökum aðilum, jafnvel einstökum mönnum í stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, nokkrar fúlgur, jafnvel svo að skiptir milljónum. Og það er rétt, að slíkt sé upplýst, ekki sízt á þeim tímum, þegar ríkisstj. lætur bankana framfylgja lánabanni á aðra og þegar einstaklingar í landinu eru jafnvel að gefast upp og missa sín hús og annað slíkt, — einstaklingar, sem eiga lítið, geta ekki fengið lán upp á nokkra tugi þúsunda í bönkunum, — ef það er til um leið, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna jafnvel starfá að einhverju leyti eins og banki og láni jafnvel þeim, sem þar eru í stjórn eða þar eru voldugir, jafnvel svo að skiptir millj. kr.

Enn fremur er það staðreynd, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, auk þess að setja fé fast erlendis á þennan máta, þá hefur hún sett fé fast í fyrirtæki hér innanlands, eins konar hliðarfyrirtæki. Það er eitt fyrirtæki, sem heitir Jöklar h/f, sem er skipafélag, sem mun eiga tvö skip, Vatnajökul og Langjökul og vera með eitt í smíðum. Ég veit ekki nákvæmlega, hvernig muni vera um þetta hlutafélag, Jökla, hvort það muni vera Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem á það, eða hvort það muni vera einstakir menn úr Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. En hvort sem er og hvernig sem það hlutafé er til komið, hvort það er tekið út af rekstri sjávarútvegsins og annað slíkt, er rannsóknarefni. Menn skyldu kannske ætla, þegar Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða málsmetandi menn og forustumenn í því fyrirtæki stofna slíkt skipafélag, að það sé gert með það fyrir augum að lækka farmgjöldin fyrir íslenzkan fisk, knýja þau niður. Farmgjöldin hafa verið mjög há, það hefur verið góður gróði á þeim. Ég veit ekki til þess, að Jöklar h/f hafa lækkað farmgjöldin, þvert á móti jafnvel haldið þeim og gefið þar með líka öðrum aðilum, eins og Eimskip o.fl., möguleika til þess að halda þeim uppi, í stað þess að keppa þarna og lækka þetta til ágóða fyrir hraðfrystihúsin á Íslandi. Og það er sannarlega rannsóknarefni hvernig farið er að í þessum efnum.

Það er annað fyrirtæki, hliðarfyrirtæki, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur stofnað. Það er Tryggingamiðstöðin. Það er fyrirtæki, sem hefur tekið að sér meginið af þeim tryggingum, sem snerta hraðfrysta fiskinn, bæði viðvíkjandi flutningi á honum, viðvíkjandi framleiðslu á honum og jafnvel tryggingar kannske að einhverju leyti þó veit ég það ekki nákvæmlega — á eignum hraðfrystihúsanna. Það vita allir og hefur verið upplýst í umr. hér nýlega, og ég ætla ekki að endurtaka það, að það hefur verið allgóður gróði á slíkum vátryggingarfélögum. Hefur Tryggingamiðstöðin, sem Sölumiðstöð hraðfrystinúsanna eða einstakir menn úr henni eiga, lækkað þessi iðgjöld trygginganna? Hefur hún reynt þannig að búa fyrir hraðfrystihúsunum með slíkt? Nei, hún virðist ekki hafa gert það. Það er jafnvel fullyrt, að tryggingarfélög hér í bænum bjóðist til þess að tryggja fyrir mun lægri iðgjöld en Tryggingamiðstöðin, en Tryggingamiðstöðin sitji fyrir iðgjöldunum sem hvert annað svo að segja einokunarfyrirtæki, af því að stjórnendur Sölumiðstöðvarinnar ráðstafa þeim til Tryggingamiðstöðvarinnar, um frjálst útboð sé þar ekki að ræða, útboð hafa yfirleitt ekki farið fram, en Tryggingamiðstöðin hafa hins vegar safnað allmiklu fé, safnað allmiklum gróða. Þó er mér ekki kunnugt um, að hún hafi úthlutað arði af hlutafé, ekki úthlutað gróða þannig til þeirra hraðfrystihúsa, sem kunna að vera eigendur að þessu, en hafa þá beinlínis og þeir menn, sem þessu fyrirtæki stjórna, ráð yfir mjög miklu fjármagni, á sama tíma sem forráðamenn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, eins og aðrir atvinnurekendur, segja við verkamenn: Við getum ekki borgað ykkur nema 85% af því kaupi, sem var fyrir 15 árum, útvegurinn ber ekki meira, atvinnulífið þolir ekki meira, það eru engir peningar til. Þá er eðlilegt, að við viljum láta rannsaka það, hvort tekið hefur verið út úr veltu íslenska sjávarútvegsins svo og svo mikið af fé, sett fast í þessum fyrirtækjum m.a., þetta fé skapað svo og svo mikinn gróða, sem þessir aðilar hafa áfram í veltunni, — gróðinn, peningarnir séu þarna til, en gagnvart íslenzkum verkamönnum, gagnvart íslenzkum sjómönnum, gagnvart íslenzkum útvegsbændum, gagnvart jafnvel ýmsum hraðfrystihúsunum og gagnvart þjóðfélaginu í heild, þá sé sagt: Við þolum ekkert meira. Við getum ekki látið meira.

Ég býst við, að það kunni að vera fleiri fyrirtæki, og þau geta gjarnan verið í góðum tilgangi sköpuð, ýmis slík hliðarfyrirtæki sem Sölumiðstöðin kann að hafa skapað. En mér sýnist bara af því litla, sem ég hef hugmynd um, t.d. viðvíkjandi Jöklum h/f og Tryggingamiðstöðinni, viðvíkjandi Coldwater og þessu, að þarna sé þróun á ferðinni, sem er stórhættuleg fyrir íslenzkt atvinnulíf, — sú þróun, að það sé að skapast einokunarhringur, sem veltir fjármunum, sem skipta hundruðum milljóna króna, ef það fer ekki jafnvel yfir það, upp í þúsund milljónir, — einokunarhringur, sem hvað fjárveltu snertir hefur t.d. miklu meira umleikis en sjálfur Reykjavíkurbær, slagar kannske hálfpartinn upp í sjálfan ríkissjóð, hefur kannske upp undir eða yfir þriðjunginn af öllum útflutningi í sínum höndum í krafti umráðanna yfir fjármagni, sem hann hefur valdaaðstöðu til þess að gína yfir, öðlast vald, fjármálavald, sem getur verið stórhættulegt í okkar litla þjóðfélagi, getur verið ákaflega áhættusamt, af því að oft verður einræðiskennt, hvernig stjórnað er í slíkum fyrirtækjum, ráðstafanir gerðar, sem varða kannske milljónatugi erlendis, án þess að jafnvel kannske einu sinni sjálf stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna viti það. Það er oft þannig, þegar búið er að skapa oftrú á einum manni í slíku, að menn eru látnir ráðskast með fjármuni, sem aðrir í góðri trú hafa trúað þeim fyrir, og svo uppgötva menn einn góðan veðurdag, að þetta sé allt meira eða minna í vitleysu, sem þeir hafa verið í góðri trú um. Ég álít, að það sé að skapast þarna einokunarhringur með öllum þeim áhættum, sem slíku fylgja. Og hvenær sem eitthvað verulega blæs á móti, þá getur þarna verið stórkostleg hætta á ferðum. Við munum það, sem munum gömlu heimskreppuna, að jafnvel voldugir hringar, eins og eldspýtnahringur Krugers, fóru á hausinn í slíkum átökum. Við vissum, hvernig fór fyrir okkar eigin fiskhringum hér heima. Og við vitum, hve lítill og brothættur okkar bátur er, þegar við erum að sigla á þessum miklu samkeppnismörkuðum erlendis og stefnum þar máske oft og tíðum öllu í hættu. Þess vegna álit ég, með tilliti til þeirra hagsmuna, sem verkamenn og sjómenn, útvegsbændur og hraðfrystihúsin og þjóðfélagið og bankarnir hafa í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, að það sé nauðsyn, að þessi hv. d. setji rannsóknarnefnd fimm innandeildarþingmanna til þess að rannsaka þessa sex þætti: fimm þætti viðvíkjandi Sölumiðstöðinni og einn viðvíkjandi Vinnuveitendasambandinu, sem ég hef talið upp á þeirri till til þál., sem hér liggur fyrir á þskj. 268.

Það er máske hægt að fá nú þegar í þeim umr., sem um þetta verða, nokkrar upplýsingar um þessi mál. Hafa ég hermt eitthvað rangt, þykir mér vænt um. að það sé leiðrétt. Hafi mig skort upplýsingar, þykir mér vænt um, að þær séu gefnar. En það, sem er höfuðatriði, er, að það verði alveg krufið til mergjar um, hvernig ástandið er á þessu sviði, sem allt okkar þjóðarbú varðar svona mikið. Það mun vera 5 manna stjórn í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, 3 af þeim 5, sem í stjórn eru, munu eiga sæti í þessari hv. d., ef ég veit rétt, ef ekki hefur verið þá skipt um neitt nýlega, þannig að hér eru hv. þm., sem gætu gefið okkur mjög miklar upplýsingar um þessi efni. Þegar ég nú hins vegar horfl upp á það, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna er að aðstoða við að brjóta niður viðskiptin í austurvegi, sem hafa verið hennar og þjóðarinnar öruggustu viðskipti á undanförnum árum, þegar ég í öðru lagi horfl upp á, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna sem einn hluti úr íslenzkri atvinnurekendastétt svarar íslenzkum verkamönnum eins harðvítuglega og eins ósvífið og Vinnuveitendasambandið svaraði nú nýlega, og þegar mér í þriðja lagi berst til eyrna átti útvegsbænda og hraðfrystihúsa, sjómanna og verkamanna og jafnvel bankanna um, hvernig standi um hina miklu fjárfestingu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna erlendis, þá álít ég, að Alþingi verði að láta þetta til sín taka.

Mér kann máske að verða svarað því, að okkur þm. varði lítt um starfsemi þessa fyrirtækis, það hafa einstakir aðilar á Íslandi myndað þetta fyrirtæki og gert sín samtök og það sé þeim leyfilegt, og þeir, sem séu áánægðir, geti þá farið sína leið. Jú, það er máske allt í lagi. Það er aðeins tvennt, sem ég vildi við það athuga. Í fyrsta lagi, ef þeir aðilar, sem eru óánægðir með Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og hennar núverandi rekstur, vilja fara sína leið, vilja mynda sitt eigið sölusamband, fá þeir þá sömu aðstöðu og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur nú, sama leyfa til útflutnings og hún hefur núna? Ríkisvaldíð hefur gefið Sölumiðstöðinni sérstakt vald, sem hún hefur farið með, og ég veit ekki enn þá, þrátt fyrir allar frelsisyfirlýsingar, svo fremi að stór hluti íslenzkra hraðfrystihúsa myndaði annað samband og krefðist þess í nafni slíks frelsis að fá að flytja út sinn fisk, hvort þeir fengju það frelsi. En jafnvel þótt svo væri. þá vil ég leyfa mér að spyrja. Ef slíkt gerðist, hvernig verður þá uppgjörið á því fjármagni, sem Sölumiðstöð hraðfrystinúsanna nú hefur sett í fyrirtæki í Bandaríkjunum, Bretlandi og Hollandi, sett í fyrirtæki eins og Jökla og Tryggingamiðstöðina, þar sem mér finnst, að það hljóti að vera svo, að mikið af þessu fé hljóti að vera af raunverulegri eign þeirra samtaka, sem þarna er um að ræða, en ekki bara máske þeirra manna, sem skráðir eru fyrir hlutabréfunum, hvernig mundi fara um slíkt?

Ég álit því, herra forseti, að hagsmunir sjómanna og verkamanna, hagsmunir útvegsmanna og hraðfrystihúsanna og hagsmunir þjóðfélagsins í heild krefjist þess, að þessi hv. d. láti fara fram þá rannsókn, sem henni er heimilt að skipa n. til samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, að rannsaka þá hluti, sem ég hér hef talið upp. Ég vil leyfa mér að óska þess, þegar fyrri hl. þessarar einu umr. um þetta mál lyki, að þessu máli væri vísað til hv. fjhn. og að hv. þingdeild verði við því að skipa slíka n. Það er öllum aðilum ætíð fyrir beztu, þegar svona mál liggja fyrir, að hlutunum sé komið á hreint, það, sem rétt sé, komi í dagsljósið, þær grunsemdir, sem kynnu að vera órökstuddar, séu hraktar, þær hviksögur, sem ganga og ekki reyndust réttar, séu eyðilagðar, — og hins vegar, ef hætta er þarna á ferðum eða rangt hefur verið að farið, þá hjálpi þjóðfélagið til þess að leiðrétta slíkt.