27.03.1961
Neðri deild: 86. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í D-deild Alþingistíðinda. (3038)

218. mál, skipun rannsóknarnefndar til að rannsaka viðskipti við Axel Kristjánsson og h/f Ásfjall

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að fara að halda hér langa ræðu í tilefni þess máls, sem hér liggur fyrir til umr. Till. grg. og ræða sú, sem hv. fyrri flm. flutti hér áðan, bera það greinilega með sér að þetta mál er hér fram borið í því skyni að reyna að draga athyglina frá öðrum málum, sem flm. og hans flokkur kærir sig ekki um að athyglin beinist mjög að, auk þess sem tilgangurinn með flutningi till. er bersýnilega sá að reyna að ná sér niðri á pólitískum andstæðingi.

Ég skal þó með örfáum orðum gera grein fyrir afskiptum mínum sem fjmrh. á sinni tíð af þessum málum báðum. Ég vík fyrst að ábyrgð vegna kaupa togarans Keilis.

Það var snemma á árinu 1959, að Axel Kristjánsson sneri sér til ríkisstj. og tjáði henni, að hann hygðist festa kaup á gömlum togara í Þýzkalandi. Skýrði hann ríkisstj. frá, að um tvennt væri að velja, annaðhvort kaupa togarann í því ástandi, sem hann var, eða láta fyrst fara fram á honum viðgerð og kaupa hann síðan að viðgerð lokinni. Hann hafði látið sérstakan trúnaðarmann, sem mikið hefur fengizt við eftirlit með skipabyggingum og skipaviðgerðum, athuga skipið fyrir sig og gera um það skýrslu, hvað við það þyrfti að gera til þess að það gæti talizt í fullkomnu ástandi. Niðurstaðan varð sú að ráði þessa sérfræðings, að Axel Kristjánsson ákvað að kaupa skipið, eftir að við það hefði verið gert eins og sérfróður maður tjáði honum að nauðsynlegt væri, og var verð skipsins þá ákveðið 900 þús. þýzk ríkismörk. Ríkisstj. sneri sér til fjvn., sendi henni upplýsingar um kaupverð skipsins og skipið sjálft og óskaði eftír því, að fjvn. bæri fram till. á Alþ. um, að ríkisstj. fengi heimild til að ábyrgjast andvirði þessa skips. Fjvn. varð við þessu, einróma, og till. var samþ. ágreiningslaust á Alþingi, þ.m. af flokksmönnum hv. flm. þessarar till. og þeim báðum. Eftir að till. hafði verið samþ. var kaupsamningurinn síðan lagður fyrir ríkisstj. undirritaður og ábyrgðin gefin út samkvæmt þeirri heimíld, sem fyrir lá. Það var ekki farið út í það að krefjast neinna annarra trygginga en skipsins sjálfs, enda munu þess engin dæmi nú í fjöldaanörg ár fyrir þær ríkisábyrgðir, sem gefnar hafa verið út vegna skipakaupa erlendis frá, að krafizt væri annarra trygginga en veðs í skipinu sjálfu.

Svo óheppilega vildi hins vegar til fyrir útgerð þessa skips, að þegar það kom til landsins, hófst útgerð þess á mjög miklum aflaleysistíma. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í byrjun ársins 1960 og reyndar allt árið var hið mesta aflaleysi hjá íslenzkum togurum, og voru þeir yfirleitt reknir með stórhalla, Þetta var mjög þungt áfall fyrir útgerð skipsins á byrjunarstigi, og þoldi hún ekki þá erfiðleika, sem af því leiddi. Ofan á þetta bættist svo það, að öxull skipsins brotnaði, og þarfnaðist því skipið viðgerðar að því leyti. Til þess að mæta þessum erfiðleikum þurfti útgerð skipsins að sjálfsögðu að afla sér lánsfjár eða eigin fjár, en það tókst ekki, eins og ástandið var hér í peningamálum. Leiddi það því til þess, að ríkissjóður lét selja skipið eða skipið var selt á uppboði.

Því hefur verið haldið fram, að vél skipsins sé ónýt. Hv. ræðumaður, sem talaði hér áðan, sagði, að sér hefði verið sagt, að hún væri ekki til annara en að henda henni á öskuhaugana. Ég er ekki dómbær um þessa hluti. En áður en skipið var keypt úti í Þýzkalandi var það skoðað af sérfróðum mönnum, og ég hef það eftir þeim, sem vit hafa á, að að vélinni sé ekki annað en að öxulinn hafi brotnað.

Þá skæl ég víkja aðeins að Brimnesinu.

Útgerð Seyðfirðinga á Brimnesinu hafði gengið mjög erfiðlega um mörg ár. Á tímum vinstri stjórnarinnar var skipið selt á uppboði. Ríkisstj. varð að innleysa það og afhenda Seyðfirðingum það síðan aftur, eftir að ríkisstj. hafði tekið á sig nokkrar millj. kr. af þeim ábyrgðarskuldbindingum, sem á Brimnesinu hvíldu. En þó að ríkisstj. taki þarna á sig stórar fjárfúlgur vegna Brimnessins, gekk útgerð þess samt ekki betur en svo, að henni var hætt síðari hluta ársins 1958. Það var mjög fast leitað eftir því við ríkisstj., að hún tæki að sér á kostnað ríkisins að annast rekstur skipsins. Undan þessu var skorazt, og vildi Alþfl.-stjórnin á sínum tíma ekki verða við tilmælum Seyðfirðinga um þennan rekstur, fyrr en Alþ. hefði við afgreiðslu fjárlaga gefið ríkisstj. heimild til að annast reksturinn á ábyrgð ríkissjóðs. Eftir að þessi heimild hafði verið veitt, var látið undan tilmælum Seyðfirðinga og stjórnmálaflokkanna yfirleitt með það, að ríkisstj. tæki að sér rekstur Brimness. Það var nokkuð erfitt að fá nokkurn mann til þess að taka að sér framkvæmdastjórn skipsins, en í samráði við bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar var Axel Kristjánssyni falin framkvæmdastjórn skipsins. Ég fylgdist með rekstri skipsina, á meðan ég var í fjmrn., og ég veit með vissu, að eftir að ég fór þaðan, hefur áfram verið fylgzt með rekstri þess. Á árinu 1959 gekk rekstur Brimnessins betur en hann hafði nokkurn tíma áður gengið, og ég leyfi mér að staðfesta, að þegar ég seinast vissi um þetta, áður en ég fór úr fjmrn., hafa vart verið um halli á rekstrinum að ræða, og er mér nær að halda, að þar hafi frekar verið ágóði en hitt. Svo kom árið 1960. Það var jafnerfitt fyrir Brimnesið og aðra togara, og er ekki nokkur vafi á því, að mjög hefur gengið niður á við á þeim tíma, sem skipið var starfrækt á árinu 1960. Það er að vísu rétt, að heimildin, sem samþ. var í fjárlögum til rekstrar skipsins, var bundin við 1. sept. 1959. En ég man ekki betur — og hef þó ekki getað kynnt mér það til þess að rifja það upp til hlítar — en að eftir því hafa verið leitað og að því staðið af öllum stjórnmálaflokkum, að reynt væri að halda áfram rekstri skipsins og yrði hann ekki stöðvaður, fyrr en hægt væri að ráðstafa því með einhverjum hætti þannig, að Seyðfirðingum yrði til sem mests hagræðis og sem minnsts bagga.

Því hefur verið haldið fram í þessu máli, að einhverja muni hafa vantað bæði í Keili og Brimnesið þegar Axel Kristjánsson skilaði þessum hlutum af sér. Mér er tjáð, að hér sé farið með staðlausa stafi með öllu. Því er meira að segja haldið fram, að úttekt hafi verið látin fara fram á öðru hvoru skipanna og hafi sú úttekt leitt í ljós, að eitthvað hafa þarna vantað. Ég hef spurzt fyrir hjá þeim, sem um þetta eiga að vita og enginn kannast við, að nein slík úttekt hafa farið fram, og enginn kannast við, að neitt tilefni hafi gefizt til slíkrar úttektar. Hér virðist því vera um að ræða sögusagnir, sem aðstandendur þessarar þáltill hafa látið sér sæma að búa til.

Reikningar Brimnessins og uppgjörið yfir Keili verður að sjálfsögðu endurskoðað og hefur sennilega verið endurskoðað að einhverju leyti af þeim opinberum stofnunum, sem um það mál eiga að fjalla. Þegar sú endurskoðun liggur fyrir, geta menn áttað sig á því og séð, með hverjum hætti reksturinn hefur verið. En að því er ég bezt veit til hefur þarna ekkert það gerzt, sem gefur tilefni til neinnar sérstakrar rannsóknar.

Ég ætla svo ekki að hafa um þetta fleiri orð, m.a. vegna þess, að útvarpsumræður eiga nú að byrja eftir skamman tíma og ég á að taka þátt í þeim, og vildi því ógjarnan tefja allt of lengi við þetta mál.