27.03.1961
Neðri deild: 86. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í D-deild Alþingistíðinda. (3041)

218. mál, skipun rannsóknarnefndar til að rannsaka viðskipti við Axel Kristjánsson og h/f Ásfjall

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég kann ekki við þann derring, sem kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. hér áðan. Honum hefði verið sæmst í máli eins og þessu að vera auðmjúkur sem þjónn Alþingis, en ekki koma hér fram sem neinn herra.

Hæstv. utanrrh. vildi skella skuldinni af því, sem hann álítur að hér kynni að vera misfarið í, yfir á okkur þingmenn, með því að samþykkja heimild til handa ríkisstj. að taka á sig ábyrgð, þá bæru þannig þingmenn ábyrgð á því, hvernig með þá ábyrgð væri farið. Þetta er nokkuð létt farið út í málið. Það hefur hingað til ekki staðið á þingmönnum að veita ríkisstj., hvort sem þeir væru með þeim eða á móti, ábyrgðir til að greiða fyrir atvinnulífi landsins, en það hefur alltaf verið gert í trausti þess, að af hálfu þess fjmrh., sem með slíkt færi, væri farið með málið eins og heiðarlegum manni sæmir og þar að auki eins og varkárum fjmrh. sæmir. Þegar hæstv. fyrrv. fjmrh. ætlar að fara að skella því yfir á okkur þingmenn, að þegar við veitum ábyrgð á einhverju máli, þá eigum við að grandskoða það, þá mun það þýða, að héðan af muni að öllum líkindum fjvn. sameinaðs Alþingis heimta að fá í sínar hendur undir öllum kringumstæðum öll þau gögn og taka að sér það hlutverk, sem fjmrh. annars er veitt. Það má vel vera, að það hefði verið nauðsynlegt, að það hefði verið gert, þegar hæstv. núv. utanrrh. var fjmrh., að hann hefði ekki verið látinn koma nærri því að framfylgja neinu því, sem fjmrh. er almennt trúað fyrir. A.m.k. virðist hann eftir þessu að dæma, hvernig hann hefur þarna staðið að, hafa farið nokkuð hvatskeytlega að. Hann sagði ekki eitt einasta orð um þetta. Kaupsamningurinn var lagður fyrir og ábyrgðin gefin. Ég er hræddur um, að það verði að fara að athuga dálítið alvarlega, hvernig fjmrh., sem svona hefur farið að, hefur staðið yfirleitt í sínu starfi.

Ef þetta hefur verið allt saman svona auðvelt, að þessi fyrrv. fjmrh. áleit, að þegar Alþingi væri búið að gefa heimild, þá þyrfti hann yfirleitt ekki að hugsa neitt meir, hvernig stóð þá á því, að þetta hlutafélag, Ásfjall varð að sækja um ábyrgð til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar? Hver var þá ástæðan til þess. að það var verið að sækja um ábyrgð upp á 11/2 millj., og hvernig stóð á, fyrst sú ábyrgð fékkst ekki, að það var ekkert gert? Var ekki eitthvað verið að hugsa í sambandi við þetta, og af hverju var allt í einu hætt að hugsa? Einhverja meiri tryggingu virðast einhverjir aðilar þarna hafa viljað fá og ekki fengið og samt allt verið látið róa. Ég held, að það væri nú nauðsynlegt, að hæstv. utanrrh., þó að hann hafa að vísu oft og tíðum alllítinn tíma til að tala hér við þingið, gert dálítið betri grein fyrir þessu.

Hann talar um, að það hafa einhverjir sérfræðingar athugað þetta mál. Hverjir voru þessir sérfæðingar? Voru það íslenzkir sérfræðingar? Voru það sérfræðingar í Þýzkalandi? Voru það sérfræðingar, sem íslenzka ríkisstj. skipaði í þetta, eða voru það sérfræðingar, sem viðkomandi kaupandi skikkaði í þetta? Það var sagt hér í framsöguræðunni frá áliti, sem íslenzkur sérfræðingur, sem meira að segja á sæti hér á Alþingi, hefði gefið um þetta skip. Hverjir voru þeir sérfræðingar, sem gáfu þetta álit, sem fyrrv. hæstv. fjmrh. tók gilt?

Svo er eitt, sem undrar mig satt að segja nokkuð, og vildi ég sérstaklega beina því líka til hæstv. núv. fjmrh. Í þeirri ábyrgð, sem tekin er á 22. gr. fjárlaga fyrir 1959, stendur, með leyfi hæstv, forseta, svo hljóðandi: „Ríkisstjórninni er heimilt að ábyrgjast fyrir Axel Kristjánsson eða væntanlegt hlutafélag í Hafnarfirði, gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar, allt að 4 millj. 320 þús. kr. lán til kaupa á togara frá Vestur-Þýzkalandi. þó ekki yfir 80% af kaupverði skipsins.“ Þarna er samþykkt heimild til fjmrh. að ábyrgjast lán og ábyrgðin getur numið allt að 4 millj. og 320 þús. kr. Þetta er það hámark, sem þessari ríkisstj. og fjmrh. er heimilað að ganga í ábyrgð fyrir. Hér er ekkert rætt um neitt viðvíkjandi gengi eða neinu slíku. Hins vegar er talað um, að ef verðið mundi verða lægra en svo, að þetta væru 80% af kaupverðinu, þá mætti ábyrgðin ekki vera svana há. Nú held ég, að ég muni það rétt, að þegar hæstv. núv. fjmrh. gaf yfirlýsingar í fyrirspurnatíma hér á Alþingi um ábyrgðir, sem ríkissjóður stæði í, þá lýsti hann því yfir, að ríkissjóður stæði í ábyrgð fyrir þetta hlutafélag fyrir 720 þús. mörk. Ég held ég muni það rétt. Og 720 þús. mörk eru nú um 7 millj. kr. þó að það hafa verið nokkru lægra áður, þó er það þó í öllu falli allt önnur upphæð en sú sem Alþingi hefur heimilað að ganga í ábyrgð fyrir. Hæstv. utanrrh. talaði hér áðan um eitthvert kaupverð upp á 900 þús. ríkismörk. Ég sé, að þessi upphæð muni kannske vera í einhverju hlutfallí við þá upphæð, muni ekki vera fjarri því að vera 80% þar af, en hún er bara nokkrum millj. hærri en það, sem Albingi hefur heimilað fjmrh. að ábyrgjast, eftir því sem ég fæ bezt séð við fljóta athugun. Ef þess vegna er rétt það, sem hæstv. núv. fjmrh. hefur upplýst Alþ. um þetta, sem ég satt að segja efast ekki um, þá sé ég ekki annað en hæstv. fyrrv. Fjmrh. hafa gengið í miklu meiri ábyrgð en hana hafði heimild til. Fyrir utan það sem á að vera uppistaðan í þessari till. og rannsóknarefni, matið á tryggingunum, hvort forsvaranlega sé frá því gengið af hálfu fjmrh. Þá virðist mér koma þar inn í beinlínis rannsóknin á upphæðinni líka, hvort það hafi verið nokkurn tíma nokkur heimild til þess að ganga í þá ábyrgð. Mér finnst því hæstv. núv. utanrrh. ekki standa þannig að vígi í þessu máli, að hann geti leyft sér að koma hér upp í þennan ræðustól og segja bara: Hér er verið með pólitískar ofsóknir eða pólítískar ásakanir, - að ætla að vísa frá hér á Alþingi með einhverju slíku slagorði, vegna þess að þarna á hlut að máli maður, sem vafalaust er náinn flokksbróðir og kannske náinn samstarfsmaður hæstv. utanrrh. í fjármálaráði Alþfl. ætla þá bara að vísa þessu á bug með því að þetta sé bara pólitísk ofsókn. Ekki sízt þegar hæstv. utanrrh. byrjar sína ræðu með því að segja, að það séu raunverulega allir alþm., sem hafi veitt þessa ábyrgð, þá eigum við fulla kröfu á því að fá að vita, hvernig með þetta hefur verið farið, og láta það ekki geta haldizt uppi, að það sé hlaupizt á brott án þess að gefa betri skýringar á slíku. Ég held þess vegna. að það sé alveg ófært annað en að þetta mál ekki aðeins komist nú til n. og verði þar athugað, heldur líka, að það verði sett sú rannsóknarnefnd, sem hér er lagt til.

Ég hef bent á það áður í sambandi við þær ráðstafanir, sem hér hafa verið gerðar af hálfu hæstv. ríkisstj. gagnvart efnahag alþýðuheimila í landinu, að það er ekki hægt að leyfa sér slíkar aðferðir og ætla svo að fara svona höndum um ráðstafanir, þar sem um það er að ræða, hvort fyrrv. fjmrh. landsins hafa tekið ófrjálsri hendi svo að skiptir millj. kr. úr ríkissjóði til að borga út til sinna flokksbræðra í fjármálaráði Alþfl. Ég vil bara minna á að það hafa fyrr verið óreiður á opinberum sjóðum, sem menn í fjármálaráði Alþfl. hafa haft með að gera, og orðið að koma til opinberra dóma í því sambandi, þannig að ég geng út frá því, að hæstv. núv. utanrrh. eigi að vera svo jafn fyrir lögum eins og aðrir Íslendingar, að það verði komið jafnt lögum yfir hann og aðra, ef hann hefur gerzt brotlegur.