19.12.1960
Efri deild: 43. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

134. mál, efnahagsmál

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Fjhn. greindi ekki á um, að samþykkja bæri þetta frv. eða efni það, sem í frv. felst. Hins vegar klofnaði n., vegna þess að meiri hl. vildi engar viðbætur við frv. gera og engar breyt. á því. En ég fyrir mitt leyti tel, að með þessu frv. sé ekki nægilega leystur vandi, þó að það sé spor í rétta átt, og hef því leyft mér að leggja fram brtt. við það, og enn fremur hef ég skrifað nál., þar sem ég geri nokkra grein fyrir afstöðu minni til frv.

Eins og hv. frsm. meiri hl. skýrði frá, nær frv. til þess að ákveða, að ekki skuli innheimt útflutningsgjald af vörum til útflutningssjóðs nema til næstu áramóta, og enn fremur felur frv. í sér ráðstöfun á þeim afgangi, sem væntanlega verður í útflutningssjóðnum, þegar hann er búinn að ljúka greiðslum á því, sem á honum hvílir beint að lögum.

Útflutningssjóðurinn hefur að undanförnu á vissan hátt verið okkur ráðgáta, því að fjárhagur hans og rekstur hefur ekki legið ljóst fyrir, hvorki á Alþingi né utan Alþingis, nema þá hjá sjóðsstjórninni sjálfri og e.t.v. hjá hæstv. ríkisstj. Það var upplýst við 1. umr., að þær skýrslur, sem ríkisstjórnir, tvær síðustu ríkisstjórnir, hafa gefið um útflutningssjóðinn, hafa ekki jafnan virzt koma heim og saman. Til var svarað þá, að þetta stafaði af því, að upplýsingarnar hefðu ekki verið sama efnis. T.d. hefði í einu falli verið upplýst, hvernig útflutningssjóðnum hefði gengið að standast straum af áföllnum kröfum, áföllnum fram komnum kröfum, en í þeim upplýsingum fylgdi náttúrlega það, að sjóðurinn hefði staðið síg betur en áður. Litlu seinna var svo upplýst, að geysilega mikill halli væri á rekstri sjóðsins og langt frá, að hann næði til að standa við skuldbindingar sínar, og þá hafi upplýsingarnar verið miðaðar víð endanlegar niðurstöður, sem áætlaðar voru fyrir sjóðinn til loka skuldbindingatímans. Þetta hafa orðið á vissan hátt felumyndir. Þær voru kallaðar fram í þeim tilgangi að gefa rekstri sjóðsins sérstakan blæ, hin fyrrnefnda til þess að sýna, að allt léki í lyndi með hann, hin síðari til að sýna, að mikils þyrfti með og í óefni væri stefnt. Þessi leikur með skýrslur um sjóðinn hefur verið leiðinlegur og óviðeigandi. Nú ætti honum að verða lokið. Nú má telja, að sjái í botn hjá sjóðnum, eða svo ætti að vera, og ég skal ekkert vefengja þær skýrslur, sem nú liggja fyrir um hann og hafa komið fram í grg. með þessu frv.

Nú er gert ráð fyrir því, að hætt verði að afla sjóðnum tekna við næstu áramót, — tekna af vörum, nema þeim, sem framleiddar verða til útflutnings til næstu áramóta. En vitanlega lifir sjóðurinn þó, meðan þessar vörur eru að flytjast út og til hans síga tekjur frá þeim.

Sjálfstæðismenn hafa litið á þennan sjóð eins og nokkurs konar snák, skilst mér, en þeir hafa samt, þótt þeir tækju við stjórn; alið hann þetta við brjóst sér, og hver veit, nema það kunni að koma fyrir, áður en hann er að fullu dauður, að lifandi anda verði blásið í nasir. hans, a.m.k. virðast fjármálin ganga þannig, að full ástæða er til að ætla, að í framtíðinni þurfi til þess að grípa að jafna, eins og þessi sjóður hefur átt að gera. En það er bezt að sleppa því að tala um sjóðinn á þennan hátt.

Nú hefur — með þessu frv. — dánarbúi sjóðsins verið í raun og veru ráðstafað, og eftirstöðvar sjóðsins eiga að ganga, að því er tekjur af sjávarafurðum snertir, til að greiða vátryggingaiðgjöld fiskiskipa fyrir árið 1960. Í aths. með frv. segir, að aðaifundur L.Í.Ú. hafi óskað þessa. Og það á að fara að óskum útvegsmanna. Hins vegar eiga eftirstöðvar af tekjum vegna útflutnings landbúnaðarvara að ganga í ríkissjóðinn, og þessu fé á svo ríkisstj. að ráðstafa eftir sínum geðþótta, ráðstafa til einhvers í þágu landbúnaðarins.

Ég hefði talið, að til þess að væri samræmi á milli í þessum efnum, sjávarútvegs og landbúnaðar, þá hefði frv. átt að gera ráð fyrir því, að farið yrði að ósk Stéttarsambands bænda með þann hlut, sem til landbúnaðarins á að ganga, eins og fara á eftir óskum L.Í.Ú. með hlutdeild sjávarútvegsins, og ég hef leyft mér að flytja tillögur til þess að koma samræmi þarna á. Till. um þetta efni frá mér er á þskj. 250, og ég vænti þess, að hv. d. þyki ástæða til að taka hana til greina.

Það er, eins og ég sagði áðan, með þessu frv. reynt að bæta úr vandræðum, sem fyrir eru, þótt lítil sé að vísu úrbótin, og það er ekki ástæða til þess að leggjast á móti þessari úrbót, það sem hún nær. En þegar farið er að hrófla við efnahagsmálalöggjöfinni, eins og hér er gert, þá er full ástæða til þess í leiðinni að lagfæra fleira. Þessi úrbót, sem frv. gerir ráð fyrir, nær skammt til að kippa í liðinn öllu því, sem gengið hefur úr liði í efnahagsmálum vegna skakkra efnahagsráðstafana. Sjávarútvegurinn er í kaldakoli, eins og allir vita. Landbúnaðurinn er svipað settur, þótt það kalli ekki eins brátt að með erfiðleika hans, eða réttara sagt, þeir setjist ekki á odd við þessi áramót, eins og hjá sjávarútveginum. Atvinnuleysi er að hefjast. Fréttir af því koma alls staðar að. Kaupmáttur launa hefur stórkostlega rýrnað. Verzlunin gengur saman. Almennar framkvæmdir eru felldar niður, og hið almenna framtak í landinu í efnahagsmálum er hábundið með þeirri löggjöf, sem kennd er við hæstv. ríkisstj.

Allt á sínar orsakir. Að afstaðinni kjötdæmabreytingunni sumarið 1959 og eftir kosningarnar haustið 1959 má segja, að núv. stjórnarflokkar hafi verið mjög gleðireifir, og þeir hugðust sigla áfram blint með nýjum efnahagsaðgerðum. Þeir settu á stað reikningsmeistara, vélarnar voru settar í gang til að reikna, og það, sem frá þeim kom og talið var rétt, þótti harla gott í herbúðum hæstv. ríkisstj., harla gott á pappírnum. Og vafalaust hafa vélarnar skilað dæmunum réttum. En til þess að útreikningar séu réttir, þarf meira en rétta margföldun, rétta samlagningu, rétta deilingu og réttan frádrátt. Það þarf að leggja rétt fyrir vélarnar. Og að þessu sinni er nú augljóst orðið, að það hefur ekki verið gert. Hæstv. stjórnarflokkar hlustuðu ekki á aðvaranir og þeir leituðu ekki samstarfs á breiðara grundvelli en þeir stóðu á eftir kosningarnar 1959. En meiri hl. þeirra var naumur, svo að grundvöllurinn var ekki breiður. Og þar að auki höfðu þeir unnið kosningar á þann hátt, sem þeir unnu, eða að því leyti sem þeir unnu þær, með því að fela þá stefnu, sem felst í efnahagsaðgerðum þeim, sem upp voru teknar, með því að fela það fyrir kjósendum, því að gera má ráð fyrir, að stefnan hafi búið í hugum þeirra þá. Þeir vildu ekki hlusta á ráðleggingar og þeir vildu ekki leita samstarfs eða þiggja samstarf frá —öðrum. Þeir felldu hiklaust þá till. Framsfl., sem borin var fram, að kosin væri nefnd, þar sem hver þingflokkur hefði tvo fulltrúa, og sú nefnd semdi tillögur um afgreiðslu fjárlaga og efnahagsmála fyrir árið 1960, starfaði svo milli þinga og legði fyrir það þing, sem nú situr. tillögur um frambúðarlausn efnáhagsmálanna.

Þetta var tilboð um samstarf, og ég hygg, að reynslan hafi nú þegar sýnt, að það var óviturlegt að reyna ekki slíkt samstarf, því að ég efast ekki um það, að grundvöllur efnahagsaðgerðanna hefði verið betur fundinn með þessu móti en á þann hátt, sem hann var gerður af hæstv. ríkisstj, og flokkum hennar, og enn fremur hefði þá átt að vera betur tryggt en ella, að stofnað væri til samtaka um að leita þeirra lausna, sem samþykktar hefðu verið með þessum hætti.

Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram, að þeim, sem settu löggjöfina um efnahagsmálin og gerðu efnahagsráðstafanirnar, hafi gengið illt til. En það var of mikill hofmóður þeirra eftir kosningarnar 1959, og trú þeirra var of blind, vil ég kalla, að hægt væri að fara beint af augum í einni lotu að takmarkinu með skyndiaðgerðum og hörkutökum.

Þetta er sannarlega mikið alvörumál. En dýpsta alvaran getur stundum séð broslegar hliðar á hlutunum án allrar léttúðar og dregið af þeim lærdóma, sem eru ekki einskis virði. Sú sjóferð, sem ríkisstj. og liðsmenn hennar lögðu í með efnahagsaðgerðum sínum, minnir mig á sögu af skipstjóra, sem sigldi að vestan áleiðis til Reykjavíkur. Hann varð hátt uppi staddur á Breiðafirði og heimtaði þá, að skipinu væri siglt beina leið landmegin við Snæfellsjökul til þess að stytta leiðina og flýta förinni. Ríkisstj. var á sinn hátt og flokkar hennar hátt uppi eftir kosningarnar 1959. Og vegna þess hugðist hún sigla þjóðarskútunni landmegin við jökulinn, og hún hefur enn ekki viljað láta af þessari stefnu. Að vísu er frv. þetta, sem fyrir liggur, vottur um örlitla breyt. á strikinu. En það er svo lítil breyting, að ekki kemur að neinu gagni, svo að teljandi sé. Þessi stefna landmegin við jökulinn er svo alvarleg, og siglingin er það langt komin,— að nú þarf að taka aftur á bak og breyta skyndilega. Og nú ætti reynslan að vera orðin svo rækileg, að þeir flokkar, sem tóku strikið, ættu nú að geta þegið holl ráð. Og þær brtt., sem ég flyt hér á þskj. 250, miðast allar við það að hnika til stefnunni.

1. brtt: er sú, sem ég lýsti áðan, að í 1. gr. komi í stað „ákvörðunar ríkisstj.“ í næstsíðustu mgr.: samkvæmt tillögum Stéttarsambands bænda: Verði hún samþ., þá er sama regla látin gilda að því er útgerðina snertir og landbúnaðinn, farið að óskum beggja sambandanna, landssambanda þessara atvinnugreina.

2. till. er í fjórum liðum, a, b, c, d. Hún er um; að inn í frv. komi fjórar nýjar greinar. A-liður hljóðar svo; það er 2. gr.:

„23. gr. laganna orðist svo:

Ríkisstj. vinni að því að koma á samkomulagi á milli launþega og framleiðenda um stöðvun víxlhækkana á milli kaupgjalds og verðlags.“

Þessi till. hefur það m.a. til síns ágætis, að hún er nákvæmlega orðuð samkvæmt yfirlýsingu, sem Sjálfstfl. gaf fyrir kosningar 1959 um það, hvernig hann teldi að ætti að fara að með vísitöluna. Hún er miðuð við það þess vegna að gera sjálfstæðismönnum léttara að fylgja henni. Enn fremur felur hún það í sér, ef hún er samþykkt, að tekin er upp umleitun samkomulags milli launþega og framleiðenda, að því er snertir hækkun vísitölunnar, og þá er þegar farið að vinna að því að taka höndum saman í efnahagsaðgerðum. Og þó að hæstv. ríkisstj. vildi ekki hlusta á bendingar um, að það yrði að vera meginreglan í efnahagsaðgerðum hjá okkar þjóð, þá ætti hún nú að leggja eyru við slíkri till. og taka henni fegins hendi. B-liðurinn, snertandi 3. gr.:

„31. gr. laganna orðist svo:

Vextir af afurðavíxlum, sem endurkeyptir eru af Seðlabankanum, mega eigi vera hærri en 5.5%.“

Sú ráðstöfun, sem hæstv. ríkisstj. gerði og flokkar hennar um hækkun vaxta, hefur komið ákaflega illa við þjóðina. Hækkunin hefur mælzt ákaflega illa fyrir. Hún á, svo að ég viti, enga formælendur, enda hafa verkanir hennar orðið eins og berklar í efnahagslífinu. Ég tel því skylt að hverfa aftur til baka til þeirra vaxta, sem voru áður en ráðstafanirnar voru gerðar, og till. þessi miðar að því.

C-liðurinn er, að 32. gr. laganna falli niður, og falla jafnframt úr gildi allar þær ákvarðanir um vexti og lánstíma, sem teknar hafa verið samkvæmt ákvæðum þeirrar greinar. Hér er um það að ræða, að vextir stofnlánadeilda verði færðir í sama horf sem þeir áður voru og ráðstafanir þær, sem ríkisstj. er nú heimilt að gera, séu ekkí leyfðar framvegis. Hér er um að ræða fiskveiðasjóð, stofnlánadeild sjávarútvegsins, byggingarsjóð sveitabæja, ræktunarsjóð, byggingarsjóð ríkisins, byggingarsjóð verkamanna og raforkusjóð. Um þessa vexti, sem teknir hafa verið upp, er það sama að segja og afurðavíxlavextina, þeir verka eins og sjúkdómur á efnahagskerfið. Í þessu sambandi vil ég minnast þess, þegar Dragland segir í sinni álitsgerð, ráðunauturinn, sem fenginn var frá Noregi, að hann hafi litla trú á því, að vaxtahækkun hafi nokkuð að þýða, hún hafi ekki reynzt ná tilgangi sínum í Noregi, að því leyti sem hún hefur verið reynd þar. Þessi vaxtahækkun átti að verða til þess að draga úr framkvæmdum, fjárfestingu og athöfnum, sem væru mikilsverðar hjá þjóðinni. Hún hefur gert það. Hún hefur orðið háband á framkvæmdir í þjóðfélaginu, og nú horfir til algerðrar stöðvunar í þeim efnum.

Því var haldið fram um háu vextina, að þeir mundu auka sparifjármyndunina í landinu stórkostlega, og allir vita nú, að það hefur mikla þýðingu, að sparifé safnist. En reynslan virðist ekki vera önnur hér en Dragland sagði að hefði orðið í Noregi. Ef litið er á sparifjáraukninguna hjá sparisjóðum og bönkum 1958, á tímabilinu 1. marz til októberloka, en 1. marz 1960 gengu efnahagsráðstafanirnar í gildi, getur maður sagt, og síðustu skýrslur um sparifjármyndunina eða aukninguna eru frá októberlokum, svo að þetta tímabil er vert að taka til samanburðar, þá sýndi það tímabil 14.6% sparifjáraukningu. Árið 1959, þegar jafnaðarmenn fóru með stjórn í umboði Sjálfstfl., var sparifjáraukningin á þessu tímabili 13%. En í ár, eftir að efnahagsaðgerðirnar komu til framkvæmda, er sparifjáraukningin á þessu tímabili 12.3%. Dýrðin fer sem sé dalandi. En í þessu er talið sparifé í bókum og hlaupareikningum, og gera má ráð fyrir því, að eitthvað hafi færzt til meira en áður, verið lagt inn á bækur vegna vaxtahækkunarinnar. Menn skeyttu því minna áður, en létu það liggja á hlaupareikningum. Nú hafa menn meira vandað sig við það að færa til þess að ná í háu vextina, færa yfir á bækurnar frá hlaupareikningunum. En þetta hrekkur ekki til sparifjáraukningar. Og ég tel rétt að taka þetta tvennt saman, vegna þess að þegar til umræðu var ákvæðið um að flytja sparifjáraukninguna hálfa frá sparisjóðunum til Seðlabankans, þá var fyrirskipað að leggja þetta tvennt til grundvallar, og með því móti var sýnt, að þeir, sem að þessu stóðu, töldu, að þetta tvennt ætti að leggja saman; og það er ekki hægt hvort tveggja, að telja, að rétt sé að reikna þetta saman, þegar á að meta sparifjáraukningu til flutnings, en ekki þegar á að rannsaka, hver sparifjáraukningin er í landinu. Þetta hlýtur að vera réttmætt að láta fara saman. Ef það er réttmætt að því er fyrra atriðið snertir, þá er það líka réttmætt í seinna dæminu.

Þá er það d-liðurinn:

„33. gr. laganna orðist svo:

Síðasti málsl. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 63/1957 orðist þannig:

Stjórnum banka og sparisjóða skal skylt að veita Seðlabankanum upplýsingar um starfsemi sína, svo sem um innlán og útlán.“

Með samþykkt þessarar till. væri ákveðið, að ekki skuli vera heimilt að fyrirskipa flutning á sparifjáraukningu úr sparisjóðum og bönkum til Seðlabankans. Það ákvæði er ákaflega ósanngjarnt og hefur skaðlegar verkanir fyrir efnahagslífið úti um land, og þess vegna er sjálfsagt að kippa þessu í liðinn, og það bætir stefnuna nokkuð, það sem það nær.

Þá er það 3. till.:

„Við 2. gr. Við greinina bætist:

Jafnframt eru úr gildi numin lög“, sem þar eru tiltekin. Samtímis komi í gildi lög um bann við okri, um dráttarvexti o.fl. og lög um breytingar á þeim lögum.

Þessi grein er aðeins til þess að kippa í liðinn því, sem úr lagi gekk og þessar greinar, sem ég hef áður lesið upp í brtt., gera ráð fyrir að leiðrétta. Lög um okur voru numin úr gildi með okurvöxtum hæstv. ríkisstj. Nú er ætlazt til, að þau komi aftur í gildi, eins og sjálfsagt er.

Ég hef nú í mjög stuttu máli lýst þessum brtt. mínum. Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. þm. þessarar hv. deildar fallist á þessar brtt., þó að hins vegar stuðningsflokkar stjórnarinnar felldu þær í hv. Nd. Allar till. miða að því, eins og ég sagði áðan, að hnika til rangri stjórnarstefnu, sem tekin var í vímu sigra, sem að mestu voru ímyndaðir, — stefnu, sem er óframkvæmanleg, svo að jafnvel má líkja henni við það að sigla landmegin við Snæfellsjökul. Ef till. eru samþykktar, verður ofur lítið nær því að komast fyrir nesið, þó að meira þurfi til að vísu. En allt er betra, sem í áttina miðar, þegar áttin er rétt. Ég tek það fram í nál. mínu, að ég mæli með því, að frv. verði samþ. En fyrst og fremst mæli ég með því, að það verði samþ. með þeim brtt., sem ég flyt og hef nú stuttlega gert grein fyrir.