09.02.1961
Efri deild: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

30. mál, ríkisfangelsi og vinnuhæli

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Mönnum hefur verið ljóst um langt skeið, að það hefur ríkt hið mesta ófremdarástand í fangelsismálum okkar. Aðalfangelsi landsins, vinnuhælið að Litla-Hrauni og hegningarhúsið í Reykjavík, eru gamlar og úreltar stofnanir, þar sem ekki er aðstaða fyrir hendi til að annast fangagæzlu með þeim hætti, sem hegningarlögin mæla fyrir um, og enn síður aðstaða til að uppfylla nútímakröfur um fangelsi og meðferð þeirra manna, sem dæmdir hafa verið til refsivistar. En þar með er ekki allt upp talið. Vinnuhælið að Litla-Hrauni og hegningarhúsið í Reykjavík rúma ekki nándar nærri þá tölu fanga, sem nauðsyn bæri til. Hefur þetta leitt til þess á öðru leitinu, að dæmdir menn verða oft að bíða mánuðum saman eftir því að verða „settir inn“, og er það suðvitað afar óheppilegt, en á hinu leitinu hefur húsnæðisskorturinn leitt til þess, að þurft hefur að sleppa föngum úr haldi miklu fyrr en æskilegt væri og löngu áður en refsivistartími þeirra er útrunninn, til þess eins að rýma fyrir öðrum, sem bíða eftir plássi.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir um ríkisfangelsi og vinnuhæli, svo og frv. um héraðsfangelsi, sem fylgir í kjölfar þess, er ætlunin að leggja grundvöllinn að nýrri og betri skipan á fangelsismálum okkar. Aðalefni frv. er, að ríkið skuli eiga og reka ríkisfangelsi, vinnuhæli og unglingafangelsi. Skal ríkisfangelsi vera staðsett í Reykjavík eða nágrenni og rúma 100 fanga. Fangelsinu skal skipt í þessar deildir: einangrunarfangelsi, öryggisgæzludeild, geðveilladeild, kvennafangelsi og gæzluvarðhald. Þá segir. enn fremur í frv., að vinnuhælið að Litla-Hrauni skuli stækkað, svo að þar verði rúm fyrir 60 fanga.

Frv. þetta ásamt frv. um héraðsfangelsi er byggt á ýtarlegri skýrslu Valdimars Stefánssonar sakadómara um fangelsismál, er hann samdi að tilhlutan dómsmrn. að undangenginni umfangsmikilli athugun og skýrslusöfnun, er var framkvæmd í þessum efnum.

Allshn., sem fjallað hefur um þetta frv., hefur kynnt sér skýrslu Valdimars Stefánssonar um þessi mál. Þá hefur n. einnig fengið umsagnir fjögurra aðila um málið, en þeir eru lagadeild háskólans, Dómarafélag Íslands, Samband íslenzkra sveitarfélaga og félagið Vernd, en það lætur fangamál til sín taka.

Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér kafla úr umsögnum þessara aðila.

Í umsögn lagadeildar háskólans segir m.a. svo: „Inntakið í ofangreindu frv. er að mæla fyrir um byggingu ríkisfangelsis og unglingafangelsis, og er kveðið á um það í frv. þessu, hvaða deildir skuli vera í stofnunum þessum. Þá er einnig mælt fyrir um stækkun vinnuhælisins á Litla-Hrauni. Eins og fangelsismálum okkar er háttað hér á landi, er mjög brýn þörf á úrbótum og þolir ekki bið, að þessar nýju stofnanir séu reistar. Með frv. þessu er til þess stofnað, að lögfest sé áætlun um átak í þessum málum næstu árin, og er mjög mikilvægt, að öruggur grundvöllur sé lagður að framkvæmdum á þessum sviðum til frambúðar. Kennarar laga og viðskiptadeildar telja þá áætlun, sem felst í frv., hyggilega og skynsamlega, þótt menn kunni að líta misjafnlega á nokkur framkvæmdaatriði. Meðal þeirra má nefna, að orka mun tvímælis; að gæzluvarðhaldsdeild og kvennadeild séu í ríkisfangelsinu, sbr. 2. gr. frv. Enn fremur má benda á, að með rökum má finna að þeirri tilhögun, að afplánun meðlaga og barnalífeyris eigi að fara fram í vinnuhæli eða unglingafangelsi, sbr. 5. gr. frv., sem raunar er að mestu í samræmi við núgildandi lög.“

Þetta var úr umsögn laga- og viðskiptadeildar um frv.

Þá kem ég að umsögn Dómarafélags Íslands. Þar segir svo:

„Stjórn Dómarafélags Íslands hefur á fundi sínum 10. þ.m. fjallað um bréf hv. allshn. Ed. Alþingis 24. okt. s.l., en í bréfi þessu er óskað umsagnar félagsins um frv. til laga um héraðsfangelsi og frv. til laga um ríkisfangelsi og vinnuhæli. Félagsstjórnin var sammála um að mæla með samþykkt beggja þessara lagafrv.“

Þá kem ég að umsögn Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Sú umsögn beinist miklu frekar að hinu frv., um héraðsfangelsi, en um þetta frv. segir svo:

„Stjórn sambandsins mælir hins vegar með frv. til laga um ríkisfangelsi og vinnuhæli og er því fylgjandi, að það verði samþ., því að þar er fylgt þeirri stefnu í málum þessum, sem sambandið getur alla tíð aðhyllzt.“

Í umsögn félagsins Verndar segir svo m.a.: „Vernd fagnar tilkomu þessara frv., því að með byggingu ríkisfangelsis verður hægt að koma við meiri sérgreiningu fanga en nú er og þar með stuðla að því, að fangavístin verði e.t.v. ekki einvörðungu til ills, svo sem nú virðist með þeim fangelsum, sem þjóðfélagið hefur til umráða. Með byggingu nýs fangelsis í ætt við það, sem gert er ráð fyrir í frv., verður einn bletturinn á samfélagi okkar máður af. Vernd finnst það firra að hafa deild fyrir kvenfanga í sambyggingu fangelsisins. Kvennafangelsi á alls ekki að hafa á næstu grösum við karlafangelsi. Vernd þykist vita, að sparnaðarsjónarmið hafi ráðið skipan þeirri, sem um betur í frv. í þessum efnum. Kvennafangelsi verður að byggja sér og víðs fjarri fangelsi karla. Eru rök augljós fyrir þessari skoðun Verndar og því óþarft að rekja þau hér.“

Þetta var úr umsögn félagsins Verndar um frv.

Allshn. var vel ljóst, að það er á ýmsan hátt óheppileg tilhögun að hafa kvennafangelsi sem deild í almennu fangelsi fyrir karla. Sem betur fer er hér aðeins þörf fyrir lítið kvennafangelsi. Ætti að reisa það sem sjálfstæða stofnun, fjarri öðrum fangelsum og án rekstrartengsla við þau, mundi bygging þess og rekstur verða óhæfilega kostnaðarsamur miðað við fangafjölda. Gæti það leitt til þess, að kvennafangelsi yrði aldrei byggt. Það er því fyrst og fremst af fjárhagslegum ástæðum, sem meiri hl. n., er stendur að nál. á þskj. 347, hefur ekki séð ástæðu til að breyta ákvæði frv. um, að kvennafangelsið skuli vera deild í ríkisfangelsinu.

Í 5. gr. frv. segir, að afplánun meðlaga eða barnalífeyris samkvæmt framfærslulögum fari fram í vinnuhæli eða unglingafangelsi eftir aldri barnsfeðra. N. var að vísu nokkuð óánægð með þetta orð: „afplánun“, fannst það ekki vel eiga við, þótt hún fyndi ekki annað orð. En það væri e.t.v. hægt að skjóta því hér fram til orðhagra manna í d., hvort ekki væri hægt að finna eitthvert hugtak, sem betur ætti þarna við. Það var minnzt á það í umsögn laga- og viðskiptadeildarinnar, að þetta fyrirkomulag gæti e.t.v. orkað tvímælis. N. sá þó ekki ástæðu til þess að breyta þessu. Eftir núgildandi framfærslulögum fer þessi „afplánun“ fram á vinnuhæli. Það er rétt að taka það hér fram, að þegar þessar stofnanir, sem frv. gerir ráð fyrir, eru komnar á fót, þ.e.a.s. vinnuhæli og unglingafangelsi, mundi gert ráð fyrir því, að Kvíabryggja yrði lögð niður, og þeir, sem eru að vinna af sér meðlög og barnalífeyri, mundu þá annaðhvort vera á þessu nýja vinnuhæli, sem reist yrði, eða í unglingafangelsi, allt eftir aldri þeirra.

Í 7. gr. frv. segir, að veita skuli úr ríkissjóði 1 millj. kr. á ári hverju hið minnsta til fangelsisbygginga, þar til komið hafi verið upp fangelsum þeim, sem lög þessi mæla fyrir um. Nm. var vel ljóst, að þessi upphæð er ófullnægjandi, og á það var einnig bent af sumum þeim aðilum, er fengu frv. til umsagnar. Þess er þó að geta, að hér er um lágmarksupphæð að ræða. Er þess víssulega að vænta, að fjárveitingavaldið sjái sér að jafnaði fært að hækka þessa upphæð nokkuð. Þar sem ríkisvaldið hefur þó ætíð í mörg horn að líta með fjárframlög, taldi meiri hl. n. ekki rétt að binda hendur fjárveitingavaldsins frekar í þessu efni en gert er í frv.

Meiri hl. allshn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, svo sem fram kemur í áliti meiri hl. Einnar breytingar er þó þörf til þess að leiðrétta skekkju, sem vakin hefur verið athygli á, en sem betur fer, hefur hæstv. minni hl. tekið þá leiðréttingu upp í sínar brtt. á þskj. 339, þ.e. brtt. við 2. gr., þar sem segir, að í stað orðanna „kvennafangelsi og gæzluvarðhald“ skuli koma: „kvennafangelsi, varðhald og gæzluvarðhald“. Þar er í raun og veru ekki um efnisbreytingu að ræða, því að þetta orð: „varðhald“ mun af hreinum misgáningi, sennilega við prentun frv., hafa fallið niður. Þetta átti alltaf að standa þar, og það er nauðsynlegt að leiðrétta.