09.02.1961
Efri deild: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

30. mál, ríkisfangelsi og vinnuhæli

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Það er ástæða til þess að fagna því, að hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram frv. til laga um fangelsi. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, er orðin brýn þörf á endurbótum í þeim málum. Hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram tvö frv. til l. um þessi mál, annað um ríkisfangelsi og vinnuhæli og hitt um héraðsfangelsi, og hafa þau orðið samferða við athugun og afgreiðslu í hv. allshn.

Þessi hv. n. gat ekki orðið alveg sammála um afgreiðslu málsins og skiptist í meiri hl. og minni hl. Minni hl. n., sem ég tala hér fyrir, fagnar tilkomu frv. í sjálfu sér, en óskar að gera örfáar brtt. við frv. til laga um ríkisfangelsi og vinnuhæli. Flestar þeirra eru ekki stórvægilegar, en nokkrar þeirra eru það þó, og mun ég aðallega ræða þær till., sem máli skipta.

Hv. frsm. meiri hl. tók það fram áðan, að ég ber fram eina brtt. við 2. gr. frv. um, að bætt verði inn í orði, sem að líkindum, eins og hann tók fram, mun hafa fallið niður, orðinu „varðhald“. Ég fjölyrði ekki frekar um það.

Í 3. gr. er ákveðið um vinnuhæli ríkisins að Litla-Hrauni í Árnessýslu, að í því skuli vera rúm fyrir 60 manns. Ég hef gert það að till. minni á sérstöku þskj., að orðunum „á Litla-Hrauni í Árnessýslu“ verði sleppt. Með því vil ég láta það laust og bundið, hvort vinnuhæli ríkisins verði reist að Litla-Hrauni eða á einhverjum öðrum stað. Ég er ekki viss um, að það sé sjálfsagður hlutur, að vinnuhæli ríkisins, eins og það á að verða, skuli reist og rekið þar endilega. Þetta vinnuhæli var byggt fyrir u.þ.b. 40 árum og var þá byggt sem sjúkrahús. Því var í upphafi aldrei ætlað að vera vinnuhæli eða fangelsi. En árið 1929 var tekin ákvörðun um, að húsið skyldi notað sem vinnuhæli fyrir sakamenn, og siðan hefur það verið í þeirri notkun eða alls um 30 ár. Húsið hefur aldrei verið heppilegt til þessara nota, enda hefur forstjóri hælisins sagt, að húsaskipun væri óhagstæð, og kemst þá sýnilega mjög vægt að orði. Reynslan hefur líka sýnt, að húsaskipanin er í meira lagi óhagstæð, eins og frásagnir í dagblöðum hafa borið vitni um nú á undanförnum árum, þar sem aftur og aftur hafa skapazt alvarleg vandræði vegna húsaskipanar þessa hælis. Nú er meiningin samkvæmt þessu frv. að stækka þetta hæli um liðlega helming, byggja við og breyta. Er það nú víst eða hefur það verið athugað nægilega, að það borgi sig að nota þetta gamla og gallaða hús? Gæti ekki rannsókn og útreikningar alveg eins vel leitt í ljós, að það borgaði sig að byggja upp frá grunni vinnuhæli fyrir 60 menn eins og að klastra við þetta gamla, gallaða og úrelta hús, sem nú er í notkun? Mér finnst a.m.k. vert, að þetta yrði athugað, áður en lögfest verður og ákveðið, að vinnuhælið skuli vera á Litla-Hrauni áfram.

Ég legg það aðeins til, að í frvgr. verði ákveðið að í vinnuhæli ríkisins skuli vera rúm fyrir 60 fanga og að það skuli fullnægja fangelsisrefsingum, öðrum en þeim, sem 4. gr. tekur til, en óska þess, að því verði ekki slegið föstu, að það skuli endilega vera að Litla-Hrauni í Árnessýslu. Þar fyrir gæti niðurstaða orðið sú, að ráðlegt þætti að hafa hælið á sama stað og áður. En það væri jafnfrjálst eftir sem áður, þótt þessu ákvæði væri sleppt í 3. gr.

Ég fer svo ekki fleiri orðum um það.

Þá legg ég til, að 5. gr. verði alveg sleppt. Hún fjallar um afplánun meðlaga eða barnalífeyris samkvæmt framfærslulögum og sagt, að sú afplánun skuli fara fram í vinnuhæli eða unglingafangelsi eftir aldri barnsfeðra. Það kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl., að þetta atriði 5. gr. var athugað eða rætt lítils háttar í hv. allshn. og að menn voru ekki alls kostar ánægðir með þetta ákvæði, með þessa gr. frv., þótt niðurstaðan yrði sú, að meiri hl. vildi ekki breyta þessu neitt. En ég legg til, að þessari gr. verði sleppt með öllu. Ég held, að það komi ekki að neinu tjóni, þótt þessari gr. sé sleppt eða því ákvæði, sem í henni er. Það er ákvæði um sama efni í framfærslulögum, að sveitarstjórn geti leitað úrskurðar um, að vanskilamenn á þessu sviði skuli vinna af sér barnsmeðlög á vinnuhæli, og mér finnst óþarft að taka það upp í þessi lög, — finnst nóg, að það standi í þeim einu lögum, sem það nú er í. Það er þegar rekið vinnuhæli sérstaklega í þessu skyni, vinnuhæli, sem er ekki álitið fangelsi í venjulegri merkingu eða vinnuhæli sakamanna beinlínis, og ég tel í raun og veru vel, að slíkt hæli sé rekið. Annars má mjög um það deila, hvort þetta ákvæði í framfærslulögum eigi í lögum að vera eða ekki, og ég er ekki frá því, að það sé heldur til óprýði í okkar réttarfari, en það er annað mál. Ég legg til, að þessu ákvæði í 5. gr. sé sleppt, aðallega af því, að ég tel það óþarft í þessu frv.

Þá kem ég að þeirri brtt., sem ég tel skipta mjög miklu máli, og það er 4. brtt. á þskj. 339. Í staðinn fyrir 5. gr. í frv., sem ég legg til að sé sleppt, sting ég upp á að komi 5. gr. með allt öðru efni, sem sagt um það, að héraðsfangelsi skuli eins og önnur fangelsi vera ríkisfangelsi. Ég hef sett inn í þessa till. öll ákvæði, sem ég tel máli skipta í sambandi við héraðsfangelsi, og legg til, að sú gr. verði sett inn í frv. um ríkisfangelsi sem 5. gr. þess.

Það hefur verið svo og er hér á Íslandi, að héraðsfangelsi eru reist og rekin af sveitarfélögum og ríki í sameiningu, þannig að kostnaður er greiddur að hálfu af hvorum þessara aðila. Við þetta í sjálfu sér er kannske ekki mikið að athuga. En þó er eitt, sem ég tel mjög varhugavert við þetta fyrirkomulag, og það er, að annar aðilinn annast reksturinn, ræður rekstrinum og ákveður reksturinn, en hinn aðilinn hefur ekkert með sjálfan reksturinn að gera annað en að greiða til hans. Ég tel það alltaf óheppilegt fyrirkomulag, hvort sem það eru samskipti ríkis og sveitarfélaga eða annarra aðila, að tveir aðilar kosti, en annar hefur ekkert að segja um stjórn rekstrarins. Þetta tel ég í sjálfu sér óheppilegt, og þarna hallar á sveitarfélögin.

Valdimar Stefánsson sakadómari, sem hefur athugað þessi mál á s.l. ári fyrir beiðni hæstv. ríkisstj. og undirbúið þetta frv., fer nokkuð inn á þessi helmingaskipti, bæði í skýrslu sinni til hæstv. ríkisstj. og í aths. við frv. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa örstuttan kafla um þetta efni úr skýrslu sakadómarans. Hann er á þessa leið:

„Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð var þetta fyrirkomulag áður, þ.e.a.s. þátttaka sveitarsjóðanna í fangelsakostnaðinum, en er nú úr lögum numið þar fyrir löngu, í Danmörku 1938, í Noregi 1904 og í Svíþjóð 1921. Frá þessum tímum ber ríkissjóður í þessum löndum einn allan kostnað af fangelsunum, bæði ríkis- og héraðsfangelsunum. Skilst mér einhugur ríkja um, að þetta sé eðlilegt og heppilegt fyrirkomulag og til stórbóta frá því, sem áður var. Ríkið hefur lög- og dómgæzluna með höndum og verður að sjá um, að hún fari sómasamlega úr hendi, þ. á m., að nægileg fangelsi séu til. Þarf það ekki eftir breytinguna að eiga undir misjafnlega áhugasömum sveitarstjórnum eða misjafnlega getumiklum sveitarsjóðum, hvernig fangelsismálum er fyrir komið í hlutaðeigandi sveitarfélögum. En hér víkur þessu öðruvísi við, eins og áður segir. Skv. 3. og 6. gr. l. nr. 29/1936 eru það sveitarstjórnir, sem frumkvæði hafa að byggingu fangelsa og breytingum á þeim. Gera má að vísu ráð fyrir, að flestar sveitarstjórnir hafi skilning á þörfum sveitarfélags síns í fangelsismálum og fari að ráðum hlutaðeigandi yfirvalds í þeim efnum. Fari þær fram á framkvæmdir í þessum málum, er það ríkisins með íhlutun dómsmrh. samkvæmt 5. gr. laganna að leggja fram fé til móts við sveitarsjóðina, eftir því sem veitt er til þess á fjárl. Málið vandast, ef sveitarstjórn hefur ekki skilning á fangelsaþörf héraðsins eða sveitarsjóður er þess vanmegnugur að leggja fram fé til nauðsynlegra framkvæmda til móts við ríkissjóð. Gæti slíkt leitt til ófarnaðar, sem að óbreyttri löggjöf yrði vandleystur.“

Þannig farast sakadómaranum í Reykjavík orð í skýrslu sinni.

Það eru einnig aðrar hliðar á þessu máli, og ég vil aðeins stuttlega minnast á þá hlið, sem sérstaklega snýr að sveitarfélögunum sjálfum.

Það er kunnugt, að sveitarstjórnir hafa á undanförnum árum hvað eftir annað gert samþykktir þess efnis að losna við lögreglukostnaðinn með öllu og þar með kostnaðinn af fangelsunum. Þetta er eðlilegur hlutur og frá sjónarmiði sveitarstjórna fyrst og fremst tilkominn vegna fjárhagslegra örðugleika sveitarfélaganna. Það hefur margsinnis verið á það bent, að sveitarfélögin þyrftu að fá fleiri tekjustofna, að ríkisvaldið þyrfti að beita sér fyrir því, að sveitarfélögin fengju fjölbreyttari tekjustofna. Eins og kunnugt er, hefur það viljað verða svo, að ríkisvaldið leggur fleiri og fleiri byrðar á sveitarfélögin. Það er ekki hægt að lasta það, Þannig hafa mál þróazt í okkar þjóðfélagi á undanförnum árum. En það hefur ekki að sama skapi verið séð vel fyrir því, að sveitarfélögin gætu sómasamlega staðið undir öllum þeim skuldbindingum, sem þau smátt og smátt hafa orðið að taka á sig í vaxandi mæli.

Það er víssulega til sú leið að afla sveitarfélögum nýrra tekjustofna. En það er líka önnur leið til að létta af sveitarfélögunum, og hún er sú, að ríkisvaldið taki af þeim einhverja byrðina eða nokkrar byrðarnar. Ef ríkisvaldið vildi taka af þeim kostnaðinn við löggæzlu og fangelsi, þá væri það talsverð hjálp fyrir sveitarfélögin.

Frumvörpin um ríkisfangelsi og vinnuhæli og um héraðsfangelsi voru send til umsagnar Sambandi ísl. sveitarfélaga, eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, og þegar stjórn Sambands íslenzkra sveitarfélaga hafði fengið þessi frv. til athugunar, var strax skotið á fundi, stjórnarfundi, og þar gerð samþykkt 6. nóv. s.l. Sú samþykkt hljóðar þannig:

„Stjórn Sambands íslenzkra sveitarfélaga vísar til fyrri samþykktar sambandsþings, fulltrúaráðsfunda og bæjarstjórafunda þess efnis, að sveitarsjóðir verði leystir undan greiðslu lögreglukostnaðar, og telur eðlilegt, að fangelsi hér á landi verði reist og rekin fyrir. fé ríkissjóðs, svo sem tíðkast hjá öðrum norrænum þjóðum.“

Þetta er samþykkt, sem sambandsstjórnin hefur gert og sent hv. allshn.

Í niðurstöðu umsagnar sinnar segir stjórn sambandsins á þessa leið:

„Samkvæmt framansögðu er Samband íslenzkra sveitarfélaga andvígt því, að frv. til l. um héraðsfangelsi, sem stjórn sambandsins var sent til umsagnar, verði lögfest í núverandi mynd, en leggur til, að því verði breytt til samræmis við þær ályktanir, sem áður hafa verið gerðar á vegum sambandsins um þetta efni.“

Óskir sveitarfélaganna eru þannig mjög skýrt markaðar í þessu máli.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. En ég verð aðeins að láta í ljós nokkra undrun mína á því, ef svo er, að hæstv. dómsmrh. sé eindreginn í því að hafna breytingu eins og þeirri, sem ég legg hér til að gerð verði. Mér skilst, að hann hafi að mörgu leyti betri aðstöðu til að dæma um þetta en ég og dæma það á sama veg. Þetta sjónarmið finnst mér koma skýrt fram í ummælum sakadómarans, og hann bendir á, að þessi breyting hafi fyrir löngu verið gerð annars staðar á Norðurlöndum. Ég trúi því ekki, að hæstv. ráðherra vilji halda í þetta eingöngu af því, að hans stefna sé sú yfirleitt að varðveita ríkjandi ástand, hverju nafni sem nefnist. Því trúi ég ekki. Hér er aðeins um það að ræða að létta fjárhagsbyrðum af sveitarfélögunum og leggja á ríkið, en það tel ég enga fjarstæðu.

Síðasta brtt., sem ég geri að umtalsefni, snertir 7. gr. og varðar fjárframlög úr ríkissjóði til þess að koma upp þeim stofnunum, sem um ræðir í frv. Það er ákveðið í 7. gr., að veita skuli úr ríkissjóði 1 millj. kr. á ári hverju hið minnsta til fangelsabygginga, unz komið hefur verið upp fangelsum þeim, sem lög mæla fyrir um. 1 millj. kr. er lítið framlag. Það má segja, að það geti samkv. þessum lögum orðið meira. En það er hætt við því, að það verði ekki fyrst um sinn meira en 1 millj. kr. lögð til þessara mála árlega næstu árin, að það verði haldið við þetta ákvæði, úr því að það hefur verið sett í lög. Nú er ég alveg viss um, að okkur öllum, sem hér erum inni, kemur saman um, að þetta er allt of lág upphæð. En ríkissjóður hefur í mörg horn að líta, og það er því miður ekki hægt að hafa þetta meira á næstu árum, kunna menn að segja. En ef það er óhjákvæmilegt að setja þessa upphæð — 1 millj. kr. — í lögin, þá er spurningin, hvort þetta frv. hafi nokkurn tíma átt erindi hingað inn á Alþingi að þessu sinni. Dómsmálastjórninni, lögreglunni, föngunum, allri þjóðinni er mikil nauðsyn á því að fá þær umbætur, sem hér um ræðir. En engum þessara aðila er greiði gerður með því að samþykkja á Alþingi frv., sem næstu áratugina verður ekkert annað en pappírsplagg. Vitanlega tekur það marga áratugi að koma upp þessum stofnunum með því fjárframlagi, sem hér er ráðgert. Ég hef í minni till. lagt til, að þetta yrði tvöfaldað. Vitanlega er það líka allt of lítið og nær allt of skammt. Ég þorði ekki að hafa hækkunina meiri í minni tillögu, en ég hafði hana þetta í þeirri von, að hún fengist kannske fram. Og í öllu falli er hægt að hugga sig við það, að ef þessi upphæð — 1 millj. króna verður tvöfölduð, þá tekur það undir öllum kringumstæðum helmingi styttri tíma að koma þessum stofnunum upp en ella yrði.