16.02.1961
Neðri deild: 64. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

29. mál, héraðsfangelsi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er í nánu samhengi við frv., sem var til umr. næst á undan, og er hér ætlazt til, að hin sama skipan haldist um héraðsfangelsi og verið hefur að því meginatriði til, að þau séu kostuð af ríkissjóði og sveitarsjóði í sameiningu. Hins vegar er nokkru betur tryggt en áður, að fjárveitingar verði raunverulega inntar af hendi til þessara framkvæmda, eftir að búið er að ráðast í þær. En alveg eins og mjög skortir um viðunandi ríkisfangelsi, þá eru héraðsfangelsi víða allsendis ófullnægjandi. Er nú þegar búið að hefjast handa til bráðabirgðaúrlausnar hér í Reykjavík um byggingu nokkurrar fangageymslu, sem stendur yfir, en á að vera þannig háttað, að hún geti fallið inn í aðrar byggingar í þágu löggæzlunnar, vegna þess að í framtíðinni er hugsað, að slík fangageymsla hér yrði hluti af lögreglustöð, sem ætlaður er annar staður, en undirbúningi hennar er ekki komið svo langt, að fært þætti að bíða með byggingu bráðabirgðafangageymslu, þangað til henni væri lokið. En eins og við öll vitum, þá er núverandi fangageymsla í lögreglustöðinni við Pósthússtræti óboðleg, og hefur raunar verið látið við hana una lengur en sæmilegt sé.

Það er ekki einungis hér í Reykjavik, sem ástandið er óboðlegt, heldur einnig víðs vegar úti um land, eins og gerð er grein fyrir í grg., sem fyrir liggur frá sakadómara og allshn. mun fá til athugunar.

Þeirri aths. hefur verið hreyft, og hún er út af fyrir sig réttmæt, að eðlilegast væri, að ríkið kostaði fangelsi að öllu, vegna þess að eðli málsins samkvæmt sé löggæzla ríkismál öllu frekar en sveitarstjórnar. Þó að eðli málsins sé slíkt, þá vitum við, að sveitarstjórnir standa hér enn að verulegu leyti undir lögreglukostnaði, svo að á meðan sú skipun stendur, er ekki hægt að segja, að það brjóti á móti meginreglum íslenzkra laga, að sveitarsjóðirnir taki einnig þátt í héraðsfangelsum. En ég játa hins vegar, að ég tel, að í framtíðinni sé eðlilegast, að þessi mál komist í það horf, að allur kostnaður af löggæzlu væri lagður á ríkið. Enn hefur ekki þótt fært að gera þá breytingu og þykir ekki fært með héraðsfangelsin á þessu stigi málsins, einkanlega vegna þess, að um þau fangelsi, sem ríkið verður að koma upp og getur ekki vænzt aðstoðar annarra til að koma upp, má segja, að þörfin á þeim er svo brýn, að ekki má draga fjárveitingar, sem hægt er að fá í því skyni, til annarra skyldra þarfa, eins og héraðsfangelsa. Það eru meiri líkur til þess, að héraðsfangelsi komist fljótt upp, þar sem þeirra er þörf, með þátttöku sveitarfélaganna á þessu stigi málsins heldur en ef kostnaðurinn væri lagður á ríkið eitt, og sker það úr um það, að enn verður að halda í híð gamla fyrirkomulag, þó að ég telji, að framtiðin hljóti að verða sú, að þessi kostnaður leggist allur á ríkið. En þá er líka eðlilegt, að það verði eftir það, að sveitarstjórnir eru búnar að fullnægja þeirri skyldu, sem hingað til hefur á þeim hvílt, betur en þær enn hafa gert, því að víðast hvar hefur sáralítið verið hirt um þessi málefni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða lengur um frv., leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. og fái greiðan framgang í deildinni.