28.11.1961
Neðri deild: 27. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Hæstv. forseti. Brbl. þau, sem leitað er staðfestingar Alþingis á með því frv., sem hér liggur fyrir, voru sett í kjölfar tilkynningar Seðlabankans um nýtt gengi íslenzkrar krónu 3. ágúst s.l. Hafa brbl. annars vegar að geyma ýmis ákvæði, sem nauðsynlegt er að setja, hvenær sem gengi krónunnar er breytt, en hins vegar eru í þeim fólgin nokkur nýmæli, einkum að því er varðar útflutningsgjald af sjávaraturðum og ráðstöfun þess.

Mun ég fyrst víkja að þeim ákvæðum frv., sem fela í sér framkvæmdaratriði. Segja má, að þau eigi sér flest hliðstæðu, bæði í lögum um efnahagsmál nr. 4 1960 svo og að ýmsu leyti lögum um útflutningssjóð nr. 33 1958.

Í 1. gr. frv. er ákvæði um, að gengistap ríkissjóðs vegna skuldar við Greiðslubandalag Evrópu skuli fært á sérstakan vaxtalausan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum. Inn á þennan reikning skal einnig taka þann gengismun, sem af sömu ástæðu kemur fram á reikningum gjaldeyrisbankanna. Nú var fyrirsjáanlegt, þegar brbl. voru sett, að um yrði að ræða nokkurn gengishagnað hjá bönkunum, vegna þess að gjaldeyrisstaðan var sæmilega hagstæð, og mundi því ákvæði þessarar greinar þýða það, að sá hagnaður bankanna rynni til þess að bæta ríkissjóði upp þann halla, sem hann mundi ella verða fyrir.

Í 2. og 3. gr. eru enn fremur ákvæði, er tryggja frekari greiðslur inn á gengisreikning ríkissjóðs. Þannig mælir 2. gr. svo fyrir, að bankaábyrgð til handa erlendum aðila skuli gerð upp á nýju gengi, hafi hún ekki fyrir 1. ágúst verið greidd íslenskum banka. Af þessu leiðir, að gengishagnaður verður af þeim ábyrgðum, sem íslenzkir bankar hafa greitt erlendis, en ekki hafa verið gerðar upp af erlendum viðskiptamönnum þeirra.

Í 3. gr. eru loks ákvæði, er mæla svo fyrir, að allar greiðslur fyrir vinnu eða Þjónustu til varnarliðsins, sem inntar voru af hendi fyrir gildistöku hins nýja gengis, skuli gerðar upp á hinu eldra gengi. Af þessu leiðir, að þarna myndast gengishagnaður, sem rennur í gengisreikning ríkissjóðs. Endanlegt uppgjör á gengisreikningnum liggur enn ekki fyrir, en útlit er fyrir, að gengistapið verði ekki meira en um 4 millj. kr., Þegar gengishagnaður frá bönkunum og öðrum aðilum vegna ákvæða 1. og 2. og 3. gr. hefur allur skilað sér. Er í 6. gr. frv. ákvæði um greiðslu þessa halla, svo sem brátt mun að vikið.

Í 4. gr. eru ákvæði um það, að gjald af fob.-verði bifreiða skuli innheimta á því gengi, sem er á greiðsludegi gjaldsins, án tillits til þess, hvenær leyfið var veitt. Var þetta ákvæði talið nauðsynlegt til þess að forðast misræmi í þessum efnum, Þar sem leyfisgjaldið er oft greitt í áföngum og alllangur tími getur liðið frá ákvörðun um leyfisveitingu og þar til leyfið er innt af hendi.

5. gr. geymir ýmis ákvæði um ákvörðun á tollverðmæti innfluttra vara svo og ákvæði um það, að hægt sé að tollafgreiða vörur miðað við eldra gengi, ef fullnægjandi skjölum hefur verið skilað í toll fyrir gildistöku brbl. og fullnaðargreiðsla á sér stað innan 6 virkra daga frá gildistöku þeirra. Eru öll ákvæði þessarar greinar í fullu samræmi við þær reglur, sem áður hafa gilt í þessum efnum, Þegar um hefur verið að ræða gengisbreytingu eða hliðstæðar aðgerðir. Er því ástæðulaust að rekja einstök atriði þessarar greinar frekar.

Í 6. gr. er svo fyrir mælt, að gjaldeyrir, sem útflytjendur skila bönkum vegna útflutningsvöru, sem framleidd hefur verið fyrir gengisbreytinguna, skuli greiddur á hinu eldra gengi. í Þessu felst í raun og veru það, að framleiðendur fá ekki í hendur þann verðhækkunarágóða, sem á sér stað á vörubirgðum vegna gengisbreytingarinnar. Hér er um að ræða sömu reglu og lögfest var í sambandi við gengisbreytinguna í febr. 1960. Hliðstæðar reglur voru einnig í lögum um útflutningssjóð nr. 33 1958 svo og í öðrum lögum um breytingu uppbótakerfisins, sem áður giltu. Ríkisstj. taldi óhjákvæmilegt, að sami háttur yrði á hafður nú, enda má segja, að það hafi verið um margra ára skeið meginregla í verðlagsmálum hér á landi, að eigendur vörubirgða, hvort sem um er að ræða eigin framleiðslu eða aðkeypta vöru, megi ekki hækka þær í verði vegna almennra verðbreytinga, svo sem eftir launahækkanir eða gengisbreytingar. Á meðan ekki er talið fært að hverfa frá þessari aðferð almennt, getur ekki verið um það að ræða, að eigendur útflutningsvörubirgða fái einir að nota verðhækkunarágóða, sem óhjákvæmilega fylgir í kjölfar hækkana á kaupgjaldi og verði erlends gjaldeyris.

Í 2. mgr. 6. gr. er ákvæði um það, að verðhækkunarágóði sá, sem hér um ræðir, skuli greiddur inn á sérstakan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum. Fé á þessum reikningi skal í fyrsta lagi notað til þess að greiða gengistap ríkissjóðs vegna skuldar við E.P.U., að svo miklu leyti sem það jafnast ekki af gengishagnaði bankanna og tekjum vegna annarra ákvæða 1.–3. gr. Eins og ég drap á áðan, verður hér væntanlega ekki um að ræða hærri uppnæð en um það bil 4 millj. kr. í öðru lagi skal nota fé af reikningnum til þess að greiða hækkun útflutningsgjalds vegna Þeirra afurða, sem framleiddar eru fyrir gengisbreytinguna. Er með því móti komið í veg fyrir, að hækkun útflutningsgjalda, sem ég mun ræða um síðar, verði til þess að rýra verðmæti þeirrar framleiðsluvöru, sem til var í landinu, þegar gengisbreytingin átti sér stað. Það, sem eftir verður af verðhækkunarágóðanum, eftir að þetta tap hefur verið greitt, skal nota til þess að létta byrðar ríkissjóðs vegna áfallinna ríkisábyrgða í bágu atvinnuveganna. Til frekari skýringar á þessu ákvæði skal á það bent, að verðhækkunarágóðinn, sem fram kom vegna gengisbreytingarinnar 1960, fór óskiptur til Þess að jafna hinn mikla halla, sem þá var orðinn á útflutningssjóði. Á sama hátt gekk verðhækkunarágóðinn vegna útflutningssjóðslaganna 1958 í raun og veru inn í uppbótakerfið sjálft. Nú er hins vegar svo ástatt, að útflutningssjóðskerfið hefur verið afnumið og því ekki um að ræða neinn halla frá fortíðinni, sem jafna þarf með þessum verðhækkunarágóða. Hins vegar hafa á undanförnum árum fallið á ríkissjóð til greiðslu mjög miklar ábyrgðir vegna atvinnuveganna, og hefur ríkissjóður orðið að greiða út tugi milljóna króna á ári til þess að standa við slíkar skuldbindingar. Þótti ríkisstj. því rétt, að sá ágóði, sem af atvinnuvegunum er tekinn með ákvæðum þessarar greinar, rynni óskiptur til þess að létta þær byrðar, sem ríkissjóður hefur orðið að taka á sig vegna slíkra ríkisábyrgða. Það skal sérstaklega tekið fram, að í þessu felst það eitt, að aflað er fjár til að mæta þeim útgjöldum, sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna ríkisábyrgða. Hins vegar felst ekki í þessu nein heimild til handa ríkissjóði til að gefa eftir skuldir og breytir á engan hátt þeirri stefnu ríkisstj., að leggja verði meginkapp á, að atvinnuvegirnir og aðrir, sem ríkissjóður hefur gengið í ábyrgð fyrir, standi við skuldbindingar sínar.

Ég kem þá að helzta nýmæli brbl., hækkun útflutningsgjalds af sjávarafurðum úr 2.25% í 6% af fob.- verði afurða, reiknað á nýju gengi. Í síðustu mgr. 7. gr. er útflutningsgjaldinu skipt í ákveðnum hlutföllum á milli þeirra aðila, sem hingað til hafa fengið tekjur af útflutningsgjaldi, þ.e.a.s. fiskveiðasjóðs, fiskimálasjóðs, til byggingar haf- og fiskirannsóknarskips, rannsóknarstofnunar sjávarútvegsins og Landssambands ísl. útvegsmanna. Er til þess ætlazt, að tekjur þessara aðila hverra um sig verði um það bil hinar sömu og orðið hefði að útflutningsgjaldinu óbreyttu. Hækkun útflutningsgjalda, sem leiða mun af ákvæðum 7. og 8. gr., nemur um 115.6 millj. kr. á ári, ef miðað er við framleiðsluverðmæti sjávarafurða á árinu 1960 umreiknað til núgildandi gengja. Hækkun útflutningsgjalds samkv. l. nr. 66 1957 úr 2.25% í 6% hefur í för með sér tekjuaukningu úr 55.3 millj. kr. í 149.6 millj. kr., sem er hækkun um 94.3 millj. kr. Hlutatryggingasjóðsgjald hækkar úr 0.5% af bátaafurðum og 0.75% af síldarafurðum í 1.25% af þessum afurðum og togaraafurðum, og hefur þetta í för með sér, að tekjur hlutatryggingasjóðs af útflutningi aukast úr 10 millj. kr. í 31.3 millj. kr. eða samtals um 21.3 millj. kr. Samtals nemur því þessi aukning, eins og áður segir, 115.6 millj. kr.

Hér er því um að ræða mjög mikla nýja tekjuöflun af útflutningi, sem kemur til frádráttar frá söluandvirði útfluttra sjávarafurða. Hér er hins vegar engan veginn um að ræða skattlagningu útvegsins, þar sem gert er ráð fyrir, að allar þessar tekjur renni til þarfa útvegsins sjálfs á einn eða annan veg. Í þessu er stuðzt við þá reynslu, sem fengizt hefur á undanförnum árum, sem bendir eindregið til þess, að það sé útveginum hagkvæmara, að nokkur hluti framleiðsluverðmætisins renni þannig til sameiginlegra þarfa útvegsins í einu eða öðru formi. Sú tekjuaukning, sem um ræðir, rennur í þrjá staði: til stofnlánadeildar sjávarútvegsins, til nýs tryggingakerfis fiskiskipa og til hlutatryggingasjóðs. Í öllum þessum efnum er við að styðjast fordæmi og athuganir, er benda eindregið til þess, að þessi ráðstöfun útflutningsgjalda sé útveginum til hagsbóta.

Kem ég þá fyrst að því, að 30% útflutningsgjalds renni til stofnlánadeildar sjávarútvegsins. Miðað við þær tölur sem ég nefndi áðan, þýðir þetta, að stofnlánadeildin mun fá 45 millj. kr. í tekjur af útflutningsgjaldi á ári, sem mun að sjálfsögðu fara vaxandi ár frá ári, eftir því sem útflutningsframleiðsla vex. Eru þetta jafnháar tekjur og fiskveiðasjóður fær af útflutningi. Við ákvörðun um að leggja hluta nýs útflutningsgjalds stofnlánadeild sjávarútvegsins var við að styðjast þá reynslu, sem fengizt hefur af starfsemi fiskveiðasjóðs um langt árabil, en höfuðtekjustofn hans hefur ætið verið útflutningsgjald af sjávarafurðum. Um það munu ekki vera skiptar skoðanir meðal þeirra, sem til þekkja, að fiskveiðasjóður hafi verið sjávarútvegi Íslendinga einhver hin mesta lyftistöng, og hafa lánveitingar hans átt meginþátt í þeirri miklu uppbyggingu, sem átt hefur sér stað í bátaútvegi landsmanna á undanförnum árum. Jafnframt hefur verið ljóst, hve miklu erfiðari aðstöðu þær greinar sjávarútvegsins hafa átt við að búa, sem hafa ekki haft að bakhjarli neina lánsstofnun sambærilega við fiskveiðasjóð. Er hér fyrst og fremst um að ræða fiskvinnslustöðvar, svo sem hraðfrystihús, saltfisk- og skreiðarverkunarhús og síldar- og fiskimjölverksmiðjur. Hið sama á einnig við um togarnútgerðina, sem hefur ekki átt kost á innlendum stofnlánum síðan stofnlánadeild sjávarútvegsins var upphaflega sett á laggirnar á nýsköpunartímunum. Afleiðingin af fjármagnsskorti vinnslustöðvanna hefur orðið sú, að ekki hefur verið unnt að nýta þann afla, sem fiskiskipaflotinn hefur borið á land, á eins hagkvæman hátt og æskilegt hefði verið, þar sem skipulagi og útbúnaði fiskvinnslustöðvanna hefur vegna skorts á fjármagni verið á margan hátt ábótavant. Það er því mikið hagsmunamál, ekki aðeins fiskiðnaðarins, heldur líka sjálfrar útgerðarinnar, að hægt verði að vinna úr aflanum betri og verðmeiri framleiðsluvöru, enda er það vafalaust líklegasta leiðin til þess að bæta fiskverðið til útgerðarmanna og sjómanna frá því, sem verið hefur. Fullkomin vinnsla úr því hráefni, sem berst á land, er því eitt af meginskilyrðum þess, að hægt verði að bæta afkomu sjávarútvegsins í heild frá því, sem verið hefur, og þar með lífskjör þjóðarinnar allrar. Auk þessa hafa þær rannsóknir á afkomu sjávarútvegsins, sem gerðar hafa verið í sambandi við hin nýju lán stofnlánadeildarinnar, leitt betur í ljós en áður, hve mikla nauðsyn ber til að afla nýs fjármagns til endurbóta og uppbyggingar í fiskiðnaði Íslendinga.

Útvegsmenn munu hins vegar þeirrar skoðunar, að þessum tekjum muni verða betur varið á annan hátt og þá einkum til greiðslu tryggingariðgjalda. Er sjálfsagt að athuga það við meðferð þingsins á frv.

Kem ég þá að ráðstöfun annars meginhluta af aukningu útflutningsgjaldsins, en það eru þau 32% þess, sem renna skulu til nýs tryggingakerfis fiskiskipa samkvæmt síðari ráðstöfun Alþingis. Á sama grundvelli og áður er hér um að ræða 48 millj. kr. tekjur á ári. Með álagningu þessa gjalds er gerð tilraun til að stuðla að lausn hins erfiðasta vandamáls í rekstri íslenzkra fiskiskipa. Athuganir hafa leitt í ljós, að tryggingaiðgjöld af fiskiskipum hér á landi eru allt að því 200% hærri en í öðrum löndum, enda eru þau orðin mjög þungur baggi á útgerðinni. Undanfarin ár hefur þó verið látið reka á reiðanum í þessu efni, vegna Þess að það skipulag komst á á tímum uppbótakerfisins, að iðgjöld væru greidd úr útflutningssjóði. Átti það raunar nokkurn þátt í, að ekki var gætt svo hófs í þessum efnum sem æskilegt hefði verið. Árið 1960 varð sú niðurstaðan, að tekjuafgangur útflutningssjóðs var notaður til þess að greiða vátryggingariðgjöld á því ári. Var svo litið á af ríkisstj., að hér væri aðeins um að ræða bráðabirgðafyrirkomulag, enda var útflutningsskatturinn, er lagður var á í febrúar 1960, afnuminn af afurðum, er framleiddar voru eftir síðustu áramót. Á hinn bóginn hefur ríkisstj. látið fara fram allvíðtækar athuganir á því, hvort hægt væri að endurskipuleggja tryggingar fiskiskipa í því skyni að lækka iðgjöld af þeim niður í þær upphæðir, sem eðlilegar mættu teljast miðað við reynslu annarra þjóða. Þeirri athugun er nú lokið, en ríkisstj. hefur enn ekki fengið tækifæri til að kanna til hlítar, hvaða leiðir séu heppilegar í þessum efnum. Fleiri tillögur hafa komið fram en ein. Ríkisstj. leit hins vegar svo á s.l. sumar, að það gæti auðveldað mjög hagstæða lausn þessara mála, að fyrir hendi væri fastur tekjustofn, er rynni til slíks tryggingakerfis fiskiskipa, og gæti orðið til að greiða fyrir lausn Þessa vandamáls. Í þessu efni kemur einkum tvennt til. Annars vegar, að þessi tekjustofn verði notaður til að leysa úr aðkallandi vanda í þessum efnum, unz fullkomin endurskipulagning fiskiskipatrygginga hefur komizt í framkvæmd, en það hlýtur að taka alllangan tíma. Hins vegar er líklegt, að það verði að athuguðu máli talið heppilegt, að hið nýja tryggingakerfi fiskiskipa verði að einhverju leyti byggt upp af tekjum af útflutningsgjaldi til frambúðar. Ríkisstj. mun, strax og athugunum á þessum málum er lokið til fulls, leggja fram á Alþingi tillögur um frambúðarskipulag þeirra og um ráðstöfun á þeim tekjum, sem til þess eru ætlaðar af útflutningsgjaldi.

Ég kem þá að þriðja þættinum í aukningu útflutningsgjalda, en það er hækkun hlutatryggingasjóðsgjalds í 1.25%, enda verði það nú innheimt af togaraafurðum einnig, en áður hefur hlutatryggingasjóðsgjald aðeins verið innheimt af bátaafurðum og síldarafurðum. Tekjuaukning hlutatryggingasjóðs af þessari hækkun er, eins og áður segir, 21.3 millj. kr. Svo er fyrir mælt í frv., að þessi tekjuauki gangi til nýrra deilda hlutatryggingasjóðs, er hafi það hlutverk að aðstoða einstakar greinar útvegsins, ef þær verða fyrir sérstökum tímabundnum áföllum vegna aflabrests eða annarra utanaðkomandi orsaka. Með þessu er starfssvið hlutatryggingasjóðs víkkað mjög verulega, en hingað til hefur hann eingöngu haft því hlutverki að gegna að aðstoða bátaflotann, ef um almennan aflabrest á tilteknum vertíðum hefur verið að ræða.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að það er eitt meginvandamálið í sjávarútvegi Íslendinga, hve miklar sveiflur eiga sér stað í aflabrögðum frá einum tíma til annars. Ef forðast á stórkostleg áföll og gjaldþrot útvegsins, þegar um almennan aflabrest er að ræða, getur verið nauðsynlegt, að hægt sé að gripa til einhvers konar tekjujöfnunarsjóðs. Reynsla sú, sem fengizt hefur af hlutatryggingasjóði, er einmitt hefur gegnt slíku hlutverki fyrir bátaflotann, hefur sýnt ljóslega, hve mikils virði slík starfsemi getur verið fyrir sjávarútveginn. Starfsemi hlutatryggingasjóðs hefur hins vegar verið þröngur stakkur skorinn, og honum hefur t.d. ekki verið ætlað að vera togaraútgerðinni til aðstoðar. Reynsla síðustu tveggja ára hefur á hinn bóginn sannað, svo að ekki verður um villzt, að ekki er síður þörf slíkrar starfsemi í þágu togaraflotans, ef um almennan aflabrest er að ræða. Ríkisstj. taldi því með hliðsjón af þessari reynslu mikla nauðsyn bera til að efla hlutatryggingasjóð með hækkun hlutatryggingasjóðsgjalds í því skyni, að stofnuð yrði ný deild við sjóðinn, er hefði almennara hlutverki að gegna en þær deildir hans, sem fyrir eru. Mætti úr hinni nýju deild ýmist veita lán til stuðnings togaraflotanum, ef hann verður fyrir alvarlegum áföllum, eða til bátaflotans, ef aflabrestur er meiri en svo, að tekjur þeirra deilda sjóðsins, sem fyrir eru, geti úr því bætt, svo að viðunandi sé. Er nú í athugun á vegum ríkisstjórnarinnar, eftir hvaða reglum hin nýja deild hlutatryggingasjóðs skuli starfa, og verður frv. um það efni lagt fyrir Alþingi að þeirri athugun lokinni.

Í gildandi lögum um hlutatryggingasjóð er svo fyrir mælt, að ríkissjóður skuli leggja fram jafnhátt framlag á móti tekjum sjóðsins af útflutningi. Ekki þótti hins vegar ástæða til, að þetta fé komi á móti þeim nýju tekjum, sem hlutatryggingasjóður fær samkv. 8. gr. Er því í 2. mgr. ákveðið, að framlag ríkissjóðs til hlutatryggingasjóðs á þessu ári skuli ekki vera hærra en ákveðið er í fjárlögum ársins, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr.

Ég kem þá að síðustu greinum frv., sem allar eru tæknilegs eðlis.

Í 9. og 10. gr. eru ákvæði um það, að nokkur gjöld, sem fyrir eru, svo sem gjöld freðfiskseftirlits, síldarútvegsnefndar, útflutningsskattur af framleiðslu ársins 1960, skuli reiknuð af fob-verði á hinu nýja gengi. Til þess hins vegar að koma í veg fyrir, að útflutningsskattur af framleiðslu ársins 1960 hækki frá því, sem var fyrir gengisbreytinguna, hefur skatturinn verið lækkaður úr 2.5% í 2.2% eða nokkurn veginn sem svarar gengisbreytingunni.

11. gr. er samhljóða 6. gr. laga um efnahagsmál, nr. 4 1960, og er henni ætlað að koma í veg fyrir, að lánssamningar innanlands séu bundnir gengi erlends gjaldeyris, nema um sé að ræða endurlánað erlent lánsfé.

Loks er í 12. gr. bannað að hækka verð á birgðum innfluttra vara, sem greiddar hafa verið á gengi því, er gilti fyrir 4. ágúst s.l. Hér er um að ræða staðfestingu á þeirri almennu reglu, sem gilt hefur á undanförnum árum, að óheimilt sé að hækka verð á vörubirgðum, sem fyrir eru, þótt almennar hækkanir verði á verðlagi vegna gengisbreytingar eða af öðrum orsökum.

Að svo mæltu legg ég til, að frv, verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.