04.12.1961
Neðri deild: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Björn Pálsson:

Herra forseti. Þið vitið það allir, hv. þm., ef maður þarf að hafa leiðsögumann, sem oft er áríðandi, þá vill maður, að hann horfi fram fyrir sig, en ekki aftur fyrir sig. Mér datt í hug, þegar hv. 1. þm. Vestf. var að halda hér ræðu, að það væri yfirsjónin hjá þessum hv. þm., að hann horfði alltaf aftur fyrir sig, en ekki fram á við. Hann lét og orð falla þannig, að fáir menn á þingi þekktu betur en hann til togaraútgerðar. Ég skal ekkert dæma um það. En hitt veit ég, að það er ákaflega hættulegur hugsunarháttur að þykjast hafa vit á öllu. Ég hef alltaf haft það fyrir reglu í lífinu, og er ég ekki vitmaður, að ef ég ætla að fara að gera eitthvað, sem ég hef ekki reynslu fyrir, þá hef ég alltaf farið til þeirra, sem ég hef álitið að hefðu bezt vit á viðkomandi atriði, og reynt að komast eins vel inn í málið og ég hef getað. Ég hef aldrei ímyndað mér, að ég hefði bezt vit á því, sem ég hef tiltölulega litla reynslu í. Þetta er það hættulega hjá þessum hv. þm. Hann hefur verið að nokkru leyti trúnaðarmaður viðvíkjandi útvegun á togurum, og ef sá, sem á að sjá um þetta, er algerlega sannfærður um, að hann viti allt, þurfi ekki að fá upplýsingar, þurfi ekki að horfa fram á leið, þurfi ekki að fylgjast með tímanum, þá er það hættulegast af öllu. Það væri t.d. ekki nein búmennska hjá mér, þó að ég stæði hér uppi í pontunni og væri að útlista það, að afi minn hefði selt sauði fyrir gull. Á þeim tímum var ágætt að eiga sauði, og það fékkst ekki gull nema fyrir sauði í nokkur ár. Þetta út af fyrir sig var á þeim tíma hyggilegt. En þetta er í raun og veru hliðstætt og að rekja hér togarasögu 20–30 ár aftur í tímann. Það kemur ekki málinu við. Við eigum að taka hlutina eins og þeir eru nú og horfa fram á við. Aðalatriðið er, hvort togaraútgerð ber sig betur en eða jafnvel og bátaútgerð. Ef bátaútgerðin ber sig betur, er hagkvæmari fyrir þjóðarheildina og þjóðarbúið, þá eigum við að leggja áherzlu á hana og efla hana, en láta togaraútgerðina dragast saman.

Viðvíkjandi því, að orð féllu hjá mér um það, að okkar togarar mundu ekki vera fyrir framtíðina, þá stend ég við það. Ef þetta væru framtíðarskip, þá hlýtur að vera ákaflega auðvelt fyrir þennan hv. þm. að selja þessa togara, sem hann átti víst einhvern hlut í að velja, — selja þá fyrir a.m.k. kostnaðarverð. Ég heyrði sagt, að einhver hefði verið að reyna að selja þennan eina, sem liggur bundinn síðan hann kom, og það hafi ekki tekizt. Af hverju tekst það ekki? Það er af því, að þetta er ekki skip fyrir framtíðina. Við vitum það, að togaraútgerðin er að fara inn á það svið, að kröfurnar verða meiri til gæða matvælanna. Það þarf að vinna aflann, um leið og hann kemur úr sjónum, þannig að þetta sé fyrsta flokks vara, sem fólkinu er boðin. En það er engin fyrsta flokks vara, sem er geymd í ís í hálfan mánuð. Það er ekki sú vara, sem verður nothæf í framtíðinni. Menn máttu vita það, þegar landhelgin var færð út, að þá breyttist öll aðstaða til fiskveiða hér á landi. Hún varð hagstæðari fyrir bátana, en óhagstæðari fyrir togarana. Þetta hefðu þessir góðu menn átt að sjá. Þeir einblíndu á karfamiðin, en vitanlega gátu þau brugðizt. Það er satt, að það er alltaf hægt að vera vitur eftir á. En staðreyndin er, að þarna var yfirsjón

gerð. Framtíðarhorfurnar voru ekki athugaðar nægilega mikið. Það var horft of mikið aftur fyrir sig. Ég skal ekki fara út í það að rekja tæknilegar yfirsjónir á þessum togurum. Það má lengi um það deila. Það er t.d. álit margra, að það hefði verið heppilegra með togarana, sem keyptir voru eftir síðara stríðið, að kaupa dísiltogara, en ekki gufutogara. Kunnugir menn hafa sagt mér, að í nýrri togurunum sé vélaklabbið allt of mikið, það sé allt of margbrotíð og allt of fyrirferðarmikið, lestarrúmið tiltölulega lítið og þeir séu þess vegna ekki hentugir sem flutningaskip. Ég fór til þess manns, sem bezt hefur tekizt að reka togaraútgerð hér á landi og á víst flesta togara, og spurði hann um það, hvað honum fyndist mest að. Það fyrsta, sem hann sagði mér, var: Það á að létta útgjöldunum af togurunum. — Hann sagðist hafa orðið að borga margar milljónir í útgjöld, t.d. s.l. 3. ár, meðan togaraútgerðin bar sig verst hjá honum, og hann sagði: Það var aðeins árið í fyrra, sem ég tapaði á togaraútgerðinni. — Það er þess vegna ekki sama, hvernig togarar eru reknir, og undirstaða undir því að láta skip bera sig er að hafa alla hluti í lagi. En þeir, sem eru algerlega fjárvana, geta ekki haft hlutina í lagi. En sá, sem ekki getur haft hlutina í lagi, getur ekki fengið góða útkomu. Og ég veit, að margir togaraeigendur hér á landi eru það fjárvana, að þeir hafa enga aðstöðu til þess að hafa allt í lagi. Mér skildist á þessum togaraeiganda, að tapið hefði ekki verið neitt stórkostlegt s.l. ár. Togararnir veiddu á s.l. ári 113 þús. lestir af eitthvað 500 Þús. rúmum, sem veiddust í heild, sem sagt, þeir hafa veitt eitthvað um 20%. Það eru 48 togarar í landinu. Ég efast ekki um, að sumir þeirra hafi veitt sama og ekki neitt, þeir hafa legið sennilega. Ég hef ekki nákvæma skýrslu um, hve margir hafa verið að veiðum, en ef allir hefðu verið að, þá væru það rúmar 2000 lestir á togara. En 75 tonna vélbátur, sem ég hef rekið, veiddi um 2000 lestir í ár, þar af helmingur síld. Hvort haldið þið, að borgi sig betur? Ég skal segja ykkur, að það var togari að veiða fyrir Norðurlandi í sumar, og hann hitti bát, sem var á færum. Þeir fóru að spjalla saman, og þegar þeir reiknuðu út, hvor fiskaði meira, þá varð þessum manni, sem var á færunum, það að orði, að þeir skyldu bara allir fara á færi, af því að hann fiskaði meira en hver einstaklingur á togara. Mér er sagt, að þeir hafi haft 300 tonn af saltfiski í 3 mánuði á Grænlandsmiðum í sumar. Þetta svarar til svona 240 tonna á mánuði af nýjum fiski upp úr sjó. Og þarna eru 40 menn og þá eru 6 tonn á mann á mánuði. Ætli nokkur hefði verið ánægður að hafa það á færum? Ég hygg ekki. Það er vegna þessa, sem ég segi, að eins og horfir nú ber togaraútgerðin sig verr en bátaútvegurinn. Þess vegna eigum við að leggja áherzlu á að efla bátaútveginn, en draga þá heldur úr togaraútgerðinni. Ég er engan veginn að ráðast á það, sem liðið er, eða vanþakka þeim mönnum, sem hafa að Þessu unnið áður. Ég játa, að togararnir hafa oft borið mikinn afla á land, og held því ekki fram, að við eigum að leggja þeim öllum. Það er sjálfsagt að lofa þeim að reka sína togara, sem geta það.

Það var ýmislegt, sem núv. ríkisstj. ætlaði vei að gera, þegar hún tók við völdum. M.a. lýsti hún því yfir, að allir hlutir ættu að bera sig, og annað það, að hún lýsti því yfir, að kaupgjaldsmál væru ekki hennar mál, það væri mál atvinnurekenda og verkamanna, þeir ættu að semja um það sín á milli. Ég hef aldrei haldið því fram, að það hafi ekki ýmislegt verið rétt, sem þessi ríkisstj. hefur sagt og gert, þó að ég hafi ekki verið henni sammála um alla hluti. Og það voru þessi tvö atriði, sem ég var henni sammála um. Ég áleit hana fella gengið of mikið, og ég áleit hana hafa vextina of háa. Ég býst við, að vaxtahugmyndin sé innflutt. En það horfir allt öðruvísi við í þeim löndum, sem gáfu okkur þessar ráðleggingar, vegna þess að aðalatvinnuvegur okkar er sjávarútvegurinn, og það er ómögulegt að komast af án þess að hafa mikið rekstrarfé í hann. Það er ekki hægt að komast af án þess. En í iðnaðarlöndunum er vitanlega hægt að ráða við fjárfestingu með því að hækka vexti. Það horfir allt öðruvísi við. Þess vegna á það ekki alltaf við að flytja inn hugmyndir eða varning. Það á sitt við í hverjum stað.

Það var þetta, sem ég var í raun og veru sammála ríkisstj. um, að það er eðlilegast, að allir hlutir beri sig, og það er eðlilegast, að verkamenn og vinnuveitendur semji um kjaramálin. Þetta var ég henni sammála um. En nú ætlar bara þessi hæstv. ríkisstj. að hverfa frá þessu atriði. Það á að fara að styrkja togarana með framlögum, sem einhvers staðar verður að taka. Það má deila um, hvort það á að taka það af bátaútveginum eða hvort á að taka það af þjóðarheildinni. Það er í sjálfu sér ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er hitt, að ríkisstj. heldur því fram, að það verði að hjálpa togurunum fjárhagslega. Sem sagt, það á að aðstoða atvinnuveg. sem getur ekki borið sig í bili a.m.k. Það má vera, að það sé hyggilegt að gera þetta, ef um stutt tímabil væri að ræða, þess vegna væri þetta út af fyrir sig reynandi. En óheilbrigt er það til lengdar.

En nú vildi ég benda hæstv. ríkisstj. á, að það eru til fleiri leiðir en að safna í einhverja sjóði og borga svo úr þeim sjóðum. Það er hægt að aðstoða togaraútgerðina á annan hátt, og ég tók svo eftir hjá hæstv. sjútvmrh., að hann teldi, að hver togari þyrfti 1200 þús. um árið, ég er ekki viss um, að ég hafi tekið rétt eftir því, en mér heyrðist það a.m.k. En ef það eru 1200 þús., þá vildi ég benda á það, að togari, sem veiðir 3000 lestir, veiðir fyrir ca. 8.4 millj., og í útflutningsgjöld, þ.e. til fiskimálasjóðs, til stofnlánadeildar sjávarútvegsins, til fiskveiðasjóðs og til hlutatryggingasjóðs, er tekið 5.15% af fob-verði. Það svarar til rúmlega 10% af fiskverðinu upp úr sjó, því að fiskvinnslustöðvarnar þurfa að hafa sitt, og verðið tvöfaldast um það bil, miðað við hráefnið upp úr sjó, þangað til það er flutt út. Og þá gerir þetta allt að 840 þús. kr. á togara. Ef hæstv. ríkisstj. vildi gefa togurunum þetta, sleppa þeim við þetta, þá kæmu þarna 840 þús. Ef hæstv. ríkisstj. hlutaðist þar að auki til um, að þeim væri hlíft við útgjöldum, veltuskatti og atvinnuleysistryggingum, — það er alveg rétt athugað hjá hv. 1. þm. Vestf., að það virðist vera óþarft að sópa 1% af vinnulaununum inn í atvinnuleysistryggingasjóð, þegar hann safnar tugmilljónum eða getur haft svo að tugmilljónum skiptir á ári bara í vexti og þarf engin útgjöld að greiða, það virðist vera óþarft að pína atvinnuvegina þannig, — og ef útgjöldunum væri létt af togurunum til bæjarfélaganna, það standa þau vel við, því að togararnir skapa mikla vinnu, koma með fisk á land og það skapar atvinnu, þannig að óbeinu tekjurnar hafa orðið miklar fyrir bæjarfélögin, þá hygg ég, að það væri hægt að skrapa þarna saman upp undir 1200 þús., þannig að hæstv. ríkisstj. gæti staðið við orð sín að vera ekki með beina styrki til atvinnuveganna.

En aðalatriðið er þetta: Við verðum að fylgjast með tímanum, við verðum að horfa fram á leið. En það þýðir ekkert að horfa aftur á bak, því að við förum ekki þá götu á morgun, sem við fórum í gær. Það er aðalatriðið.

Það er búið að minnast hér á ýmsa hluti. Ég veit ekki, hversu ýtarlega ég á að fara út í það. En hæstv. sjútvmrh. minntist hér á gengið. Ég ætlaði mér satt að segja ekki að fara út í það. En hann var að spyrja, hvar ætti að taka Þessar 500 eða 600 millj., sem vinnulaun hefðu hækkað í landinu. Þessu er slegið fram að órannsökuðu máli, hve mikið vinnulaunin hefðu hækkað. En ég skal segja mína skoðun með nokkrum orðum.

Við vitum, að vegna bænda þurfti ekki að lækka gengið. Þeir fengu hærra fyrir afurðirnar við kauphækkunina, ofur lítið hærra. Það hefði að nokkru leyti étið sig upp aftur í auknum kostnaði við ýmsa þjónustu og annað fleira, en vegna þeirra þurfti ekki að lækka gengið.

Vegna iðnaðarmanna þurfti ekki að lækka gengið, vegna þess að við vitum, að mörg iðnaðarfyrirtækjanna hafa stórgrætt og safna ef til vill hvað mestum auði. Það er annaðhvort, að ekki hefur verið nægilegt eftirlit eða þeir hafa getað talið verðgæzlunni trú um hluti, sem voru ekki raunhæfir. Þeir hafa grætt óeðlilega mikið, og það hefur fólkið orðið að borga. Ég er ekki að segja, að öll iðnfyrirtæki hafi gert þetta, en það voru tiltölulega fá iðnfyrirtæki, sem hefði þurft að hækka að mun vörur hjá vegna kauphækkananna. Og ef það þurfti, þá greiddi fólkið sjálft þá hækkun, og þá var það bara fært á milli stétta. Það var ekki keyptur erlendur varningur fyrir það, og það var ekki heldur keyptur erlendur varningur fyrir það, sem landbúnaðarvörurnar hækkuðu.

Þá er það verzlunin. Það er eins með hana og iðnaðinn. Ef kaupmenn og kaupfélög þurftu að borga hærra kaup, þá vitanlega tóku þeir það af vörunni og það hækkaði vöruna til fólksins, og þar með var tekið ofur lítið af þeirri kauphækkun, sem fólkið fékk. Það voru ekki keyptar erlendar vörur fyrir það, það eyddi ekki erlendum gjaldeyri.

Og Þá erum við komnir að sjávarútveginum, sem er aðalvandamálið. Vegna síldarsöltunar og síldarbræðslu þurfti ekki að fella gengið. Síldarsaltendur hafa aldrei grætt meira en í ár, a.m.k. um margra ára bil, og afkoma síldarbræðslnanna er betri en verið hefur, jafnvel þó að lýsið hafi lækkað í verði, vegna þess að hráefnið var meira og betra. Þegar samið var um verð á saltsíld og bræðslusíld, munu þeir hafa haft vaðið fyrir neðan sig og miðað við það hráefnismagn, sem var undanfarin ár.

Þá erum við komnir að fiskvinnslustöðvunum, og það er sá liður, sem erfiðast er við að fást, því að ég hygg, að fiskvinnslustöðvarnar hefðu ekki getað hækkað kaupið án þess að fá fé einhvers staðar annars staðar að. Og þá erum við komnir að þeim eina hnút, sem þarf að leysa. Það var ekki hægt að leysa hann á annan hátt en þann að lækka fiskinn upp úr sjó, nema verðlag hækkaði ytra, sem ekki er fullvíst að verði. Og þá er að líta á það, hvort betra var að lækka fiskverðið til bátanna eða fella gengið. Það er um það bil 1/4 af fob-verði fisksins, sem eru vinnulaun. 16% kauphækkun þýðir 4% hækkun á útflutningsverðmæti. Þess vegna skulum við reikna með, að frystihúsin hefðu þurft að fá 4% hækkun á fob-verði fiskafurða til þess að vinna upp launahækkunina. Þessi launahækkun kom ekki öll fram á s.l. ári, en við skulum reikna með hækkuninni, sem verður 1962. Og þá svarar það til 4%, og ef verðlag er óbreytt ytra, þurfti fiskurinn upp úr sjó að lækka um 8%, ef frystihúsin áttu að sleppa við kauphækkunina. Þá er bara að gera dæmið upp. Var betra fyrir bátaútveginn að lækka fiskverðið um 8% eða fá gengislækkunina? Það er búið að taka 13% af tekjum bátaútvegsmanna og sjómanna, en þurfti ekki að taka nema 8%, ef öll kauphækkun er látin koma fram á þeim.

Það var eins og alltaf er, þegar gengi er lækkað. Það er tilfærsla á eignum og tilfærsla á tekjum innanlands. Við fáum ekkert meira fyrir framleiðslu okkar til annarra landa. Gengislækkun verkar ævinlega þannig. Þeir fátæku eru gerðir fátækari, þeir ríku ríkari. Það er komið aftan að launþegum landsins, tekinn nokkur hluti af kaupi þeirra. Það er komið aftan að sparifjáreigendum og tekinn nokkur hluti af sparifjáreign þeirra. Það er ekki fíflskaparmál að lækka gengið. Það er beinlínis verið að taka af eignum og tekjum manna. Það er ekkert annað, sem verið er að gera. Við fáum ekkert meira raunverulega fyrir okkar framleiðsluvörur, þó að við lækkum krónuna. Þetta er bara tilfærsla innanlands, og hún er ranglát í flestum tilfellum. Og það er aldrei heilbrigt fjármálalíf í landi, þar sem þarf alltaf að vera að breyta gengi, því að það eru svik gagnvart borgurum hvers lands. Það, sem þurfti að gera, var að lækka fiskverðið til bátanna um sem svaraði 8%, og þá var að gera það upp, hvort hagkvæmara var að fara þannig að eða gera það, sem gert hefur verið. Það er ekkert annað, sem fyrir liggur. Nú er búið að taka 13% tekjur bæði af sjómönnum og útvegsmönnum. Það hækkar allt, sem bátarnir þurfa að kaupa, allur útgerðarkostnaður. Það eru tekin af kaupi sjómanna 13%. Þetta er staðreynd. Og það eru ekki líkur til með þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. hefur gert, að neitt af þessu fáist aftur. Ef útflutningsgjaldið er hækkað þetta mikið, sem gert er ráð fyrir, fá þessir aðilar ekkert af því aftur. Frystihúsin fá 13% meira, skulum við segja, í fob-verð, eða útflutningsverð hækkar um 13% í krónutölu eftir gengislækkunina. Þar af fara 4% í kaup. Svo eru milli 15 og 20%, sem miðast við erlendar gjaldeyrisvörur, sem hækka til frystihúsanna. Það er viðhald á vélum og ýmislegir hlutir fleiri. Ég er búinn að reikna þetta út, og það eru allt að því 3%, þannig að þarna eru komin 7%. Og svo er útflutningsgjaldið hækkað um 41/2%, þannig að það eru milli 11 og 12%, sem útgjöld eru aukin um af þessari 13% hækkun, þannig að í mesta lagi gæti fiskurinn til bátanna hækkað um 3%. Og þá er tapið 10%, en yrði ekki nema 8%, ef þeir hefðu verið látnir taka á sig alla gengisfellinguna. Það var verjandi að hækka útflutningsgjöldin til áramóta til að láta síldarsaltendur, síldarbræðslur og frystihúsin ekki stinga gengishagnaðinum af hráefninu, þegar það hækkaði ekki til bátanna, í sinn vasa. En þá átti bara að endurgreiða bátaútveginum það aftur, eins og ég talaði um um daginn og skal ekki endurtaka hér.

Þá er komið að öðru atriði hjá hæstv. ríkisstj., sem hún leggur mest upp úr af öllu, og það er það, að þetta hefði gert gjaldeyrisstöðuna lakari hjá okkur. í grg. ríkisstj. er talið, að það séu 300 millj., sem gjaldeyrisstaðan mundi hafa orðið lakari, ef gengið hefði ekki verið lækkað. Ég verð að segja, að þessi grg. er fyrir neðan allar hellur. Því er slegið t.d. fram, að kauphækkun vegna millifærslu í launaflokkum og vegna þess, að fólkinu fjölgi í landinu, verði um 300 millj. og kauphækkun vegna samninganna verði 500–600 millj., þannig að heildarlaunahækkanir í landinu verði allt að því 900 millj. En þetta er bara út í loftið. Þetta er ekki rökstutt. Og annað það: Hvernig í ósköpunum á að blanda því inn í gengislækkunina, þó að einhverjir færist á milli launaflokka eða þó að fólkinu fjölgi í landinu? Þetta kemur málinu ekkert við. Eða ætlar ríkisstj. í framtíðinni að fara að fella gengið vegna þess, að fólki fjölgar í landinu og fólk færist milli launaflokka? Þið getið lesið þetta í grg. ríkisstj. Og svo er því í lokin slegið föstu, að gjaldeyriseyðslan muni aukast um 300 millj. En þetta er allt órökstutt, gersamlega, því að ef við athugum það, þá færist í fyrsta lagi meginið af þessum auknu launatekjum á milli hinna einstöku stétta. Bændurnir fá dálítið. Það hækkar öll þjónusta í landinu, og þetta færist á milli einstaklinga og stétta. Dæmið liggur ekki heldur þannig fyrir, heldur það, hvort atvinnuvegirnir bera sig, og þeir hefðu gert það með því að lækka hráefnisverð fisksins. Þá á allt að vera í lagi. Það á að vera hægt að hafa það í hendi sinni, hvort gjaldeyrisstaðan verður jákvæð eða neikvæð. Það er aðalatriðið, að atvinnuvegirnir beri sig, því að ef það er, þá hefur fólkið ekki ráð á að kaupa meira en það vinnur fyrir. En að slá hinu fram, að þetta muni 300 millj. í gjaldeyri, það er bara út í loftið. Það er ekki hægt að fullyrða, hvað mikið það hefði verið, en sú staðhæfing er algerlega út í loftið.

Við vitum, að þetta er tilfærsla á milli atvinnugreina og einstaklinga, sem gengislækkunin hefur áhrif á. Eru líkur til, að þeir einstaklingar, sem hafa fjármagnið nú, þegar búið er að fella gengið, eyði ekki sínum tekjum og sínum gróða fyrir gjaldeyri, ekki síður en þó að það hefði dreifzt á almenning? Það er þetta, sem við þurfum að fá svar við. Nú hafa síldarsaltendur t.d. grætt. Eru ekki líkur til, að þeir eyði miklu af því fyrir erlendan gjaldeyri? Það eru alls staðar að þjóta upp síldarsöltunarstöðvar. Það er ágætt að hafa síldarsöltunarstöðvar, þær þurfa að vera, en þær geta ef til vili orðið of margar, og það getur ef til vill verið óhagsýni í að láta þá elta hver annan og byggja miklu fleiri á hverjum stað en þörf er fyrir og miklu stærri í einhverri heimskutegri samkeppni. Það er margt í okkar sjávarútvegi, sem er ekki nógu vel skipulagt, og þar á meðal síldarsöltunarstöðvarnar. Það er óþarfi, að allir séu að byggja á sama stað. Ég hef bent á þessi atriði vegna þess, að þetta er eitt af höfuðatriðunum í okkar fjármálalífi. Ég ætlaði að tala um þetta við annað tækifæri, en sjútvmrh. minntist á þetta.

Ég get sagt ykkur það, að hjá útgerðarmönnum er orðin breyting á hugarfari. Þeir eru farnir að skilja, að þeir geta ekki grætt á gengislækkun. Það er ekki hægt fyrir útvegsmenn að græða á gengislækkun, ef kaup sjómanna er miðað við prósentur af brúttóafla, það er útilokað, vegna þess að hinn hlutinn er bundinn við gengið. Kostnaðurinn eykst að krónutölu, eftir því sem hver króna verður verðminni, og útgerðarmönnum er orðið þetta ljóst. Það var þess vegna, sem þeir vildu ekki þakka hæstv. ríkisstj. fyrir, að hún hefði fellt gengið. Fyrir utan það var tekinn af þeim sá mögulegi hagnaður í krónutölu, sem þeir gátu haft af því, að gengið var fellt. En það er þetta, sem liggur til grundvallar. Það er þetta, sem ríkisstj, er, held ég, ekki búin að skilja enn þá fullkomlega. Það er eins og Sókrates sálugi sagði. Það vildi honum til óláns einu sinni, að það varð einum manni það á að spyrja guðinn í Delfí að því, hvort það væri nokkur maður vitrari en Sókrates, og hann fékk það svar, veslings maðurinn, að það væri enginn vitrari en Sókrates, og hann sagði Sókratesi þetta. Sókrates varð alveg hissa, því að hann hélt, að hann væri ekki vitur, stóð í þeirri meiningu. Þá fer karlinn að taka upp á því, að hann fer að tala við alla menn til að prófa, hvort þeir séu ekki vitrari en hann. Greindir strákar höfðu gaman af þessu, eins og Plató og fleiri, og eltu Sókrates til að hlusta á þetta. Það fóru venjulega þannig leikar, að Sókrates fann út, að sá, sem hann átti tal við, væri ekkert vitrari en hann og jafnvel heimskari. Og hann fann aðra speki út, og það var það, sem mér datt í hug, þegar hv. 1. þm. Vestf. var að tala. Það var það, að þeir, sem þóttust vera allra vitrastir, voru í flestum tilfellum heimskastir, en aftur menn, sem voru ekki sannfærðir um vizku sína meira en í meðallagi, voru vitrari en þeir þóttust vera, að Sókratesi fannst a.m.k. En Sókrates varð illa liðinn af þessu, og Grikkir urðu leiðir á honum og gáfu honum inn eitur. En það skipti hann litlu máli, hann var orðinn gamall þá, blessaður karlinn. Ég hef oft hugsað út í það, að þetta er bara nokkuð algengt í lífinu. Það er langt síðan ég las varnarræðu Sókratesar. Ég las hana aftur í sumar, og þá datt mér fyrst í hug hagfræðingarnir, þar næst ríkisstj. og síðast útgerðarmennirnir.