26.03.1962
Neðri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Hæstv. forseti. Frv. þetta, sem hér er til umr., er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út á s.l. sumri, eins og kunnugt er, og sigldu í kjölfarið á gengisbreytingu þeirri, sem þá var ákveðin samkv. brbl., sem gefin voru út rétt á undan. Þetta mál var hér til allýtarlegrar umr. við 1. umr. þess fyrir þinghléið. Þá var reyndar ljóst og kom fram í umr., að ríkisstj. mundi e.t.v. óska eftir einhverjum breytingum á brbl. eða frv., og síðan var það, að ríkisstj. lét fjhn. í té brtt., sem hún óskaði eftir að nefndin flytti við frv. Um þessar brtt. varð ekki samkomulag í fjhn., en meiri hl. n. féllst á að flytja þessar brtt. að ósk ríkisstj., og eru þær fluttar á þskj. 456. Á þessu þskj. eru nokkrar athugasemdir við þessar brtt. með það fyrir augum að gera það sem ljósast fyrir hv. þm., hvað í brtt. felst, en ég skal nú með nokkrum orðum gera nánari grein fyrir þessum brtt. og öðrum skyldum efnum í sambandi við þær til viðbótar því, sem fram kemur á þessu nál.

1. brtt. á þskj. 456 er við 6. gr. frv., og felast í þeirri brtt. eiginlega þrjú atriði til breytinga: Í fyrsta lagi, að það skuli enn fremur greiða hluta útflutningsgjalds og hlutatryggingasjóðsgjalds af sjávarvörum framleiddum á því tiltekna tímabili, sem þar er. í frv. eða brbl. var aðeins kveðið á um, að greiða skyldi hluta útflutningsgjaldsins, en það, sem kemur til viðbótar þarna, er einnig hlutatryggingasjóðsgjald, sem kveðið er á um í 8. gr. Eins og brbl. voru og frv., þegar það var flutt til staðfestingar þeim, var svo ákveðið, að þegar væri búið að inna af hendi þær tilteknu greiðslur, sem kveðið er á um í 6. gr., skyldi féð að öðru leyti af þessum reikningi, sem þar um ræðir, notað til að létta byrðar ríkissjóðs vegna áfallinna ríkisábyrgða í þágu atvinnuveganna, eins og þar stendur. En í brtt. er gert ráð fyrir, að að öðru leyti skuli fé þetta renna til ríkisábyrgðasjóðs, og er það í samræmi við ráðagerðir um stofnun sérstaks ríkisábyrgðasjóðs samkv. frv., sem nú liggur fyrir þinginu og er til meðferðar í Ed. Og loks er svo þriðja atriðið, að það sé heimilt að nota allt að 13 millj. kr. til þess að greiða það, sem á vantar, að fé útflutningssjóðs hrökkvi til greiðslu vátryggingagjalda fiskiskipa árið 1960. En í I. nr. 84 frá 1960, um breyt. á l. nr. 4 frá 1960, um efnahagsmál, var svo ákveðið, að fé það, sem afgangs yrði í útflutningssjóði, þegar hann hefði innt af hendi greiðslur, er um ræðir í bráðabirgðaákvæðum laganna, stafliðum b, e og f, skyldi afhent útvegsmönnum á þann hátt, að það gengi til greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipa á árinu 1960. Vátryggingariðgjöld þessi námu 84 millj. kr. eða liðlega það, og af þessari upphæð gat útflutningssjóður greitt rúmlega 71 millj. kr. Það er mismunur á þessum tveimur upphæðum, þær 13 millj. kr., sem hér er lagt til að megi greiða af þeim sjóði, sem myndast samkv. 1. og 6. gr. frv. Og eins og fram kemur í aths. í nál., var það í sambandi við aðalfund L.Í.Ú. á s.l. hausti, að ríkisstj. hafði lofað að gera ráðstafanir til, að greitt yrði það, sem á vantaði, að eftirstöðvar útflutningsgjaldsins hrykkju til greiðslu vátryggingariðgjaldanna 1960.

Þá vil ég víkja að 2. brtt., sem er við 7. gr. frv. og er um útflutningsgjaldið. Þar er um að ræða þá breytingu frá frv., að í stað þess, að 30% gjaldsins skyldu renna til stofnlánadeildar sjávarútvegsins, þá er í brtt. nú svo ákveðið, að 62% af útflutningsgjaldinu skuli á árunum 1961 og 1962 ganga til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa, þ.e.a.s. Þau 32%, sem í brbl. var ákveðið, að ganga skyldu til greiðslu á þessum iðgjöldum, að viðbættum þeim 30%, sem samkv. frv. eða brbl. var ætlað að renna til stofnlánadeildar sjávarútvegsins. Síðan er gert ráð fyrir því, að þegar vátryggingariðgjöldin fyrir þessi ár, 1961 og 1962, séu greidd, skuli þessi 32% útflutningsgjaldsins renna til tryggingar fiskiskipa samkv. ákvörðun sjútvmrn. og 30% til stofnlánasjóða sjávarútvegsins eftir nánari ákvörðun ríkisstj.

Í sambandi við fyrra atriðið, að 32% útflutningsgjaldsins skuli eftir árslok 1962 renna til tryggingar fiskiskipa, þá er á það að minna, að þau mál eru til athugunar og endurskoðunar hjá hæstv. ríkisstj., eins og fram kom af hálfu forsrh. við framsögu þessa máls. í því sambandi er á það að líta, að tryggingar fiskiskipanna hafa á undanförnum árum orðið mjög kostnaðarsamar og dýrar hér á landi, þannig að athugun, sem fram hefur farið á því, hefur leitt í ljós, að iðgjöldin hafa komizt upp í það að vera allt að 200% hærri en hjá öðrum nágrannalöndum, sem ætla mætti að ættu ekki að vera óhliðstæð, svo að það er full ástæða til að ætla, að við endurskoðun þessara mála sé hægt að koma tryggingakerfinu í mun ódýrara horf en verið hefur á undanförnum árum, og kynni þá svo að fara, að þessi 32% útflutningsgjaldsins mundu að verulegu leyti nægja til að rísa undir iðgjöldunum af vátryggingunum, þó að hins vegar sé of snemmt að spá nokkru um það. Það liggja fyrir tillögur, en þó ekki samhljóða, um endurskoðun þessara mála, en verður væntanlega skammt að bíða, að þau mál geti komið til úrlausnar Alþingis.

Þá er gert ráð fyrir því í brtt., að 30% skuli renna til stofnlánasjóða sjávarútvegsins, og er á því sú breyting frá ákvæðunum í brbl. og frv., eins og það liggur fyrir, að þessum 30% var ætlað að renna til stofnlánadeildar sjávarútvegsins, þ.e.a.s. stofnlánadeildarinnar í Seðlabankanum. Meginefni þessa máls er það sama í brtt. og í frv. að ætla vissa hluta af útflutningsgjaldi sjávarafurða til þess að byggja upp stofnlánasjóði sjávarútvegsins. Það hefur skort mjög á á undanförnum árum, að það væru til nægjanlega sterkir sjóðir til að standa undir stofnlánaþörf sjávarútvegsins, og m.a. kom þetta mjög greinilega í ljós á s.l. ári, þegar komu til framkvæmda lögin um að breyta stuttum lánum sjávarútvegsins í lengri lán. Höfuðröksemdirnar fyrir því, að það þurfti að gera, voru eðlilega þær, að sjávarútvegurinn hefði á undanförnum árum ekki notið nægjanlega mikilla stofnlána og tekið út úr rekstrinum til fjárfestingarframkvæmda of mikið fé, þannig að á hann hefðu safnazt óhæfilega háar óumsamdar lausaskuldir. Það var þess vegna ljóst, að eitt af því, sem var bráðnauðsynlegt í sambandi við framkvæmd þessara laga um breytingu stuttra lána í löng lán fyrir útveginn, var að sjá honum um leið fyrir auknum stofnlánum, til þess að ekki hnigi aftur að því sama, að útvegurinn safnaði á sig stuttum lausaskuldum af þeim sökum, að eðlileg eða nægjanleg stofnlán væru ekki fyrir hendi. Í brtt. er hins vegar ekki kveðið á um það, í hvaða stofnlánasjóði útvegsins þetta gjald skuli renna, þar eð hér er aðallega um að ræða, eins og nú standa sakir, tvo sjóði, Fiskveiðasjóð Íslands annars vegar og svo stofnlánadeildina. En stofnlánadeildin er grein úr Seðlabankanum, og þegar lögin um Seðlabanka Íslands voru sett á s.l. þingi, held ég, að það hafi í raun og veru ekki verið ágreiningur um það, að eðli málsins samkv. ætti stofnlánadeildin fremur heima í viðskiptabanka en í seðlabanka. En einmitt vegna þeirra ráðagerða, sem þá voru um, að stofnlánadeildinni yrði fengið það verkefni m.a. að breyta styttri lánum útvegsins í viðskiptabönkunum í lengri lán, þá varð það þó engu að síður að ráði, að stofnlánadeildin hélt áfram að vera í Seðlabankanum. Hún hefur hins vegar, eins og kunnugt er, verið lokuð að því leyti, að ný lán hafa ekki verið frá henni veitt, og þau lán, sem veitt voru á s.l. ári til þess að breyta styttri lánum í löng, eru öllsömun í sambandi við viðskiptabankana og viðskiptabankarnir bera fulla ábyrgð á greiðslum þeirra lána gagnvart stofnlánadeildinni, svo að það má með vissu segja, að eins og hún er, þá sé hún í raun og veru lokuð deild. En með því að ætla henni nýtt útflutningsgjald, sem miðað við sæmilegan sjávarafla gæti numið allt að 50 millj. kr. á ári, mundi auðvitað á skömmum tíma safnast þarna nýtt fjármagn inn í stofnlánadeildina, sem eðlilega ætti þá að rísa undir þeirri þörf að sjá útveginum fyrir nýjum stofnlánum. Fyrir mitt leyti gerði ég grein fyrir því í fjhn., að ég teldi óeðlilegt, að stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem er í Seðlabankanum, yrði á þennan hátt aftur opnuð, þannig að seðlabankastjórarnir yrðu í vissum skilningi viðskiptabankastjórar á ný, og væri verið með því að taka að vissu leyti skref aftur á bak frá því, sem gert var, þegar Seðlabankinn var stofnaður sem sjálfstæð stofnun. Að sjálfsögðu gæti komið til greina eitthvert sérstakt fyrirkomulag slíkrar lánveitingar, sem væri að einhverju leyti með öðrum hætti en í viðskiptabanka. En þegar á allt er litið, sýndist mér fyrir mitt leyti, að miklu eðlilegra væri, að þessi hluti útflutningsgjaldsins rynni í fiskveiðasjóð og þá til viðbótar þeim 30%, sem fiskveiðasjóður fær af útflutningsgjaldinu. Nú er það kunnugt, að fiskveiðasjóður hefur að undanförnu að langmestu leyti sinnt bátabyggingunum og endurnýjun bátaflotans í landinu. Að hann hefur ekki sinnt nema að litlu leyti öðrum greinum sjávarútvegsins eða stofnlánum til sjávarútvegsins, stafar fyrst og fremst af fjárskorti fiskveiðasjóðs og einnig ráðagerðum, sem rétt er að minnast á að uppi voru hér, þegar lögin um fiskveiðasjóð voru endurskoðuð síðast, 1954 eða 1955, að hinum stærri verkefnum á þessu sviði mundi verða sinnt af Framkvæmdabankanum, þó að á því hafi hins vegar orðið nokkrar breytingar frá því, sem ráðgert var, og stofnlánaskortur verið mikill í sjávarútveginum. Það er ekki nema til þess að gera lítið, sem fiskveiðasjóðurinn hefur getað lánað fiskvinnslustöðvunum, stærri frystihúsum, og langsamlega mestum hluta af lánunum hefur þess vegna verið varið til bátakaupa erlendis, bátasmíða innanlands og viðgerðar og viðhalds á bátaflotanum. En allt er þetta hins vegar í verkahring fiskveiðasjóðs, og með því að geta hans væri aukin eða tekjur hans auknar og möguleikar auknir til stofnlána í þágu sjávarútvegsins, yrði náttúrlega eðlilegt, að það mál yrði athugað af hálfu sjóðsins í heild, á hvern hátt lánveitingamöguleikinn mundi skiptast á hinar einstöku greinar sjávarútvegsins. En það eru, eins og ég sagði, einkum og sér í lagi hin stærri verkefni, sem fiskveiðasjóður hefur ekki getað sinnt, og svo ýmsar tilteknar greinar, eins og síldarsöltunarplön og annað, sem sama og ekkert hefur verið veitt af lánum til, þó að sótt hafi verið um lánin og þótt það falli undir verkefni fiskveiðasjóðs.

Mönnum kann að sýnast, og ég veit, að sumum finnst, að hér sé um allhátt gjald á útflutningnum að ræða, og eru því uppi raddir um það hjá sumum, að það sé nokkuð langt gengið. En að svo miklu leyti sem niðurstaðan yrði, að það útflutningsgjald, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, sé á lagt, þá var það skoðun mín, að það væri eðlilegra. að það gengi beint til fiskveiðasjóðs, en ekki í stofnlánadeildina á þann hátt, sem upphaflega var ráðgert. En síðan hefur orðið samkomulag um það á milli okkar, sem í fjhn. erum, og ríkisstj. að orða þetta eins og gert er í brtt. og bíða svo nánari athugunar og ákvörðunar ríkisstj., hvaða hátt hún telji eðlilegast á þessu að hafa. Getur þá að sjálfsögðu komið eitthvað fleira til athugunar en ég nú hef rakið.

Útflutningsgjaldið var áður 21/4%, en er með brbl. og frv., sem hér liggur fyrir, hækkað upp í 6%. Skiptingin á útflutningsgjaldinu mundi verða sem ég skal nú greina til frekari upplýsingar fyrir hv. þm., ef miðað væri við útflutning að verðmæti 2830 millj. kr., sem væri kannske ekki fjarri lagi. Þá eru ætluð til fiskveiðasjóðsins 30%, og þá væri það áætlað nærri 51 millj., til fiskimálasjóðs 8.49 millj. kr., til hafrannsóknarskips 2.21 millj. kr., til rannsóknarstofu sjávarútvegsins 1.7 millj. kr., til Landssambands ísl. útvegsmanna 1 millj. 190 þús. kr. og svo til tryggingakerfisins 32%, sem væri með þessu áætlað 54 millj. 330 þús., og 30% til viðbótar fram til ársloka 1962 eða 62% alls, og það væru 50 millj. 940 þús. kr. eða samtals til tryggingakerfisins 105 millj. kr. En eftir 1962 færu, ef þessar brtt. yrðu samþ., 50 millj. kr. til stofnlánasjóða sjávarútvegsins með einum eða öðrum hætti og 55 millj. kr. tæpar til tryggingakerfisins, og þó eru þessar tölur allar að sjálfsögðu hreyfanlegar eftir því, hvert útflutningsverðmætið mundi verða. Það er til þessara tveggja síðustu liða tryggingakerfisins fyrst í stað og síðan tryggingakerfis og stofnlánasjóða, sem tekjuaukningin samkv. þessu frv, af útflutningsgjaldinu fer. Og þar við bætist það, sem ætlað er til hlutatryggingasjóðs og mun vera rúmar 20 millj. kr. í hækkun, þannig að ný álög þarna eru um 127.5 millj. kr. eða hækkun útflutningsgjaldsins, sem skiptist á þessa þrjá liði.

Eins og fram kemur í aths. við 9. gr. frv. um aflatryggingasjóð, sem fyrir liggur, er áætlað, að miðað við 2800 millj. kr. útflutningsverðmæti muni 35 millj. kr. renna til aflatryggingasjóðsins, sem svo á að heita. Áður var gjaldið ekki tekið af togaraafurðum, en var af síldarafurðum 3/4% og af öðrum afurðum bátaflotans 1/2%, og miðað við heildarútflutningsverðmæti um 2800 millj. hefðu tekjur samkv. því, sem áður gilti, orðið eitthvað innan við 14 millj. kr., svo að hækkunin er þarna um 21 millj. Það er rétt að vekja athygli í þessu sambandi á því, að framlag ríkissjóðs til hlutatryggingasjóðs árin 1961 og 1962 á eftir 3. brtt. ekki að vera hærra en ákveðið er í fjárlögum þessara ára, og það eru 81/2 millj. í fjárlögum 1962, en hins vegar eftir ákvæðum í frv. um aflatryggingasjóðinn á ríkisframlagið að vera helmingur af tekjum sjóðsins, og miðað við þetta útflutningsverðmæti, sem ég nefndi áðan, og tekjur upp á 35 millj. kr. mundi framlag ríkissjóðs á móti því eiga að vera 171/2 millj. kr.

Ég vil aðeins, áður en ég lýk við þennan lið, víkja nokkuð að fiskveiðasjóðnum og í því sambandi vekja athygli á því, að ef tekjur fiskveiðasjóðs af útflutningsgjaldinu yrðu ekkert hækkaðar, þá blasir það við, að fiskveiðasjóður muni verða í verulega mikilli fjárþröng til þess að sinna þeim verkefnum, sem hann einkum hefur sinnt fram að þessu og ég gerði grein fyrir áður. Forstjóri sjóðsins hefur gert þá áætlun til sjóðsstjórnarinnar og ráðh. um þetta atriði, að greiddar afborganir á þessu ári, ef miðað væri við, að þær væru 22% hærri en á s.l. ári, yrðu 33.4 millj. kr., innheimtir vextir 1961 voru 15.4 og hækki einnig um 22% upp í 18.8 millj. kr., og útflutningsgjaldið, sem sjóðnum muni falla til að óbreyttu á árinu, telur hann eðlilegast, miðað við fengna reynslu, að yrði um 41.4 millj. kr. Svo er fast framlag, eins og hv. þm. vita, frá ríkissjóði, 2 millj. kr. Þá mundu sjóðnum falla til þarna 95 millj. 600 þús., og yrðu þá ekki til nýrra útlána nema 23.5 millj. kr. En miðað við þarfirnar, sem fram undan eru, er ekki að ófyrirsynju, að þörfin væri um 60 millj. kr., og samkv. þessum útreikningi mundi fiskveiðasjóð skorta um 36.5 millj. kr. á þessu ári til þess að sinna þeim verkefnum, sem hann hefur sinnt fram að þessu, að óbreyttum tekjum. Við þetta bætist svo, að það er lögð mjög mikil áherzla á af skipasmíðastöðvunum innanlands, að það sé hægt að halda hér áfram og auka skipasmiðarnar innanlands, en það mundi að óbreyttum aðstæðum leggja miklu þyngri byrðar á fiskveiðasjóð en nú er, ef þær ykjust hlutfallslega, um leið og erlenda skipasmíðin minnkaði. Þetta byggist á því, að skipakaupin erlendis frá hafa yfirleitt ekki verið leyfð að undanförnu, nema a.m.k. hafi verið tryggð 7 ára lán til skipakaupanna erlendis, og þannig, að lánið til þessara skipa yrði eins og önnur lán fiskveiðasjóðs til 15 ára, en þá tekur þessi 7 ára lánveiting erlendis frá verulega mikið álag af fiskveiðasjóði. Auk þess eru lánaðir aðeins 2/3 út á erlendu skipasmiðina, en 3/4 af innlendu skipasmiðinni. Að svo miklu leyti sem hún ætti að aukast að óbreyttum kringumstæðum, mundi það leggja fiskveiðasjóði mjög miklar nýjar og þungar byrðar á herðar, en auðvitað held ég, að menn greini ekki á um það, að mjög æskilegt væri og það æskilegasta, að skipasmíðin hjá okkur gæti sem allra fyrst komizt á innlendar hendur.

Það hefur verið gerður nokkur samanburður á þessu álagi, sem þarna mundi lenda á fiskveiðasjóði sem stofnlánasjóði til bátabygginga, hvort um er að ræða byggingar erlendis eða hérlendis. Hefur þar verið borið saman 120 rúmlesta eikarskip smíðað innanlands, og það er talið, að það muni kosta, eftir að öll aðflutningsgjöld eru endurgreidd, um 7.6 millj. kr., og fyrsta veðréttar lán yrði þá 3/4 af þessari upphæð eða 5.7 millj. kr., og ef þetta er borið saman við stálskip smíðað erlendis, stærra skip að vísu, en kannske ekki miklu burðarmeira, 180 rúmlestir, þá er talið, að það muni kosta nálægt 8.5 millj. ísl. kr. og af því er svo lán 2/3 eða 5.7 millj. kr., það sama og í fyrra tilfellinu, og útborgast á 7 árum. Ef tekin væru 10 svona skip, leggur það á herðar fiskveiðasjóðs í fyrra tilfellinu í útiánum á innlendu smiðina fyrsta árið 5.7 millj. á skip og það tíu sinnum eða 57 millj. kr., en ekkert fyrsta árið, ef smíðin er erlend. Annað árið er útborgun á innlendu smíðinni 53.2, og þá er fjárfestingin orðin 110 millj. kr. á tveimur árum í innlendri smíð, en við erlendu smiðina með 7 ára láninu þar er útborgun á öðru ári 4.3 millj. kr. og fjárfestingin 4.3. Síðan heldur þetta áfram að nálgast, þannig að á sjöunda árinu, þegar erlendu lánin eiga að vera greidd upp, er orðin sama upphæð í útborgunum á innlendu smíðinni og útborgunum vegna erlendu smíðinnar, eða 30.4 millj. kr. á ári. En þá er fjárfestingin orðin í árslok á sjöunda ári 319 millj. kr. í innlendu smíðinni á móti 91 millj. kr. í erlendu smiðinni og í lok áttunda ársins 349.6 millj. kr. á móti fjárfestingu upp á 121 millj. kr. í erlendu smíðinni. Þessu hef ég viljað vekja athygli á, því að ef ætti að gera verulega gangskör að því að auka innlendu smíðina, þá þarf að sjá fyrir gífurlega miklu meira fjármagni til útlána en gert hefur verið fram til þessa. Það má sjálfsagt um það deila, hvernig þess fjár ætti að afla, en ef litið er yfir þróunarsögu fiskveiðasjóðsins, sem stofnaður var 1905, hafa tekjur sjóðsins frá þessum tíma verið eins og nú skal greina, að allan tímann hefur framlag ríkissjóðs verið bein ríkissjóðsframlög, sem stundum voru í upphafi og síðan felld niður og hafa svo verið tekin inn aftur og eru nú 2 millj. kr. á fjárlögum, en heildarframlögin úr ríkissjóði hafa verið 33 millj. 250 þús. kr., en tekjurnar af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum 215054552.05 kr. Vaxtatekjur sjóðsins eru á sama tíma 52312727.56 kr. og aðrar tekjur ýmsar 2113494.33. Af þessum heildartekjum á þessu tímabili, sem sagt frá stofnun sjóðsins, sem nema 302.7 millj. kr., er langsamlega mestur hlutinn útflutningsgjald af sjávarafurðum eða 215 millj. kr., þannig að þessi sjóður er að langmestu leyti byggður upp með framlögum frá útveginum sjálfum og í vaxandi mæli síðari árin, vegna Þess að tekjur sjóðsins hafa hlutfallslega aukizt svo mikið af útflutningsgjaldinu á s.l. árum, eftir bæði efnahagsráðstafanirnar 1960 eða gengisbreytinguna, sem þá varð, og svo gengisbreytinguna frá í sumar, en við þetta hefur útflutningsverðmætið aukizt mjög mikið að krónutali a.m.k.

Ég skal nú víkja að 3. brtt., sem er við 8. gr. og snertir hlutatryggingasjóðsgjaldið, en í brbl. var kveðið svo á í 6. gr., að útflytjendur skyldu fá greidda af gengishagnaðarreikningi 2/3 hluta útflutningsgjalds af sjávarafurðum framleiddum á tímabilinu 16. febr. 1960, þegar gengisbreytingin átti sér stað þá, og til 31. júlí 1961. Þetta ákvæði kemur til af því, að útflytjendur fá afurðir framleiddar á áðurnefndu tímabili greiddar á eldra gengi, en ekki á því gengi, sem tók gildi 4. ágúst. Þar af leiðandi þótti ekki réttmætt, að þeir greiddu hækkun útflutningsgjaldanna af þessum afurðum, en sú hækkun nemur um 2/3 hlutum útflutningsgjaldsins, eins og það er ákveðið í lögunum. En sama máli og um útflutningsgjaldið getur gegnt um hækkun hlutatryggingasjóðsgjalds af vörum, sem framleiddar eru á tímabilinu frá 16. febr. 1960 til 31. júlí 1961, og er eðlilegt, að þessi hækkun greiðist einnig af gengishagnaðarreikningnum, en um það voru ekki ákvæði í brbl., en kemur inn með 3. brtt., sem meiri hl. fjhn. flytur. Hækkunin, sem endurgreiða á, nemur 47% fyrir síldarafurðir og 65% fyrir aðrar gjaldskyldar afurðir. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að þar sem hér sé um endurgreiðslu að ræða á fé, sem útflytjendur þegar hafa greitt, sé nauðsynlegt, að þeir sæki um greiðsluna, eins og gert er ráð fyrir í brtt.

4. brtt. á ekki að þurfa neinna sérstakra skýringa við. Hún stefnir að því að ljúka uppgjöri útflutningssjóðsins og miðar þar við tiltekin tímamörk, 1. júlí 1962.

Fjhn. fékk ýmsar upplýsingar hjá ríkisstj. í sambandi við þetta mál, bæði í sambandi við uppgjör á gengistapinu eða gengisuppgjörið bæði 1960 og 1961 og einnig áætlun um, hver gengishagnaðurinn vegna gengisbreytingarinnar 1961 af útfluttum afurðum mundi verða. Seðlabankinn hefur áætlað, að ógreiddur útflutningur 1. ágúst 1961, þar er umboðssala Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í Bandaríkjunum undanskilin að vísu, sé 194 millj. kr. að verðmæti og birgðir Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í Bandaríkjunum og innistæða hjá Coldwater 1. ágúst 220 millj., eða samtals 414 millj. kr., og gengishagnaður 13% af þessu eða 57 millj. kr. Síðan er gengishagnaður af birgðum sjávarafurða í landinu, sem eru yfir 900 millj. kr., áætlaður 92 millj. kr. og gengishagnaður af birgðum landbúnaðarvara áætlaður 1.4 millj. kr., eða gengishagnaðurinn alls á þessum út flutningsbirgðum 150 millj. kr. eða sem næst því. Það er náttúrlega með fyrirvara um, að verð birgða í landinu 1. ágúst sé ekki oftalið, þó að verð birgða Sölumiðstöðvarinnar í Bandaríkjunum breytist ekki verulega.

Í sambandi við gengisuppgjörið er í raun og veru aðeins eitt atriði, sem mér finnst ástæða til að komi hér fram, en það hefur verið talað um það bæði í umr. í þinginu og einnig í ályktunum, komið fram í blöðum og á opinberum vettvangi, að viðskiptabönkunum sérstaklega, eins og þar hefur verið að orði komizt, hafi verið bætt upp gengistap við gengisbreytingu 1960 og 1961. Þetta er á misskilningi byggt, því að þeir viðskiptabankar, sem hér fara með gjaldeyrismálin, Landsbankinn og Útvegsbankinn, urðu báðir af verulegum gengishagnaði við þessar gengisbreytingar, en þeim var gert að greiða gengishagnað, sem þeir kynnu að hljóta, inn á gengisreikningasjóð í Seðlabankanum. Þetta nam samtals 381/2 millj. kr. 1960 og 6.4 millj. kr. við gengisbreytinguna á s.l. sumri.

Ég hef með þessum orðum reynt að gera nánari grein fyrir brtt. þeim, sem meiri hl. fjhn. flytur á þskj. 456 að beiðni ríkisstj., og vona ég að það sé fullljóst með þessu. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar á þessu stigi.