26.03.1962
Neðri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Björn Pálsson:

Herra forseti. Árið 1961 hefur verið óvenjulega gott fyrir okkur Íslendinga. Tekjurnar hafa verið meiri en sennilega nokkurn tíma áður. Aflaverðmæti sjávarafurða mun hafa verið um 3000 millj. kr., en varð á árinu á undan með tilsvarandi gengi ekki nema 2 626 millj. kr. Auk þess gefur Seðlabankinn það upp, sem ég hef ekki ástæðu til að ætla að sé rangt, að birgðir útflutningsafurða hafi aukizt mjög mikið á árinu eða á annað hundrað millj. kr. Hinar miklu tekjur hafa komið af því, að tæknin hefur aukizt og síldargöngur hafa verið meiri og hagstæðari en undanfarin ár, en það er fyrst og fremst aukinni veiðitækni að þakka, því að svo að segja öll aukningin og jafnvel meira en aukningunni nemur eru síldarafurðir. Þetta hefur komið sér vel fyrir þjóðarbúið, eins og eðlilegt er. Það er nú þannig, þó að ríkisstjórnum sé kennt ýmislegt og þakkað ýmislegt, þá er það ákaflega takmarkað, sem þær geta ráðið við. Þær geta ráðið við það, á hvern hátt er farið með Það fjármagn, sem Þjóðin aflar, en vitanlega geta þær ekki ráðið aflabrögðum, tíðarfari eða öðru slíku, en það á drýgstan þátt í atvinnulífi okkar íslendinga. Við erum svo háðir tíðarfarinu og fiskigöngunum. Það ber því oft við, að ríkisstj. er kennt um hluti, sem hún raunverulega á ekki skilið, og þetta hefur sennilega verið svona á öllum tímum. Það var þannig í Noregi fyrr á árum. Þegar Eiríkssynir réðu þar ríkjum, var illt árferði, og bændur kenndu þeim um. Þegar Hákon góði var kóngur, var gott árferði. Bændurnir þökkuðu honum það. Það er oft ranglega kastað steini að stjórnendum hvað þetta snertir. Það er því hvorki að kenna né þakka ríkisstj., hvort aflast mikið eða lítið. Það eru allt aðrar orsakir, sem því valda. En hvað sem því líður, hefur þetta gengið þannig, að s.l. ár hefur verið okkur hagstætt. Við skyldum ætla, að í svona hagstæðu ári þyrfti ekki endilega að vera að fella gengi krónunnar. En þetta hefur nú skeð. Og ég held, að það hljóti öllum að koma saman um, að þegar þarf að gera slíkar ráðstafanir í árferði eins og þessu, þá hljóti eitthvað að vera athugunarvert á einhverju sviði, það geti ekki hjá því farið.

Íslendingar ætla að leysa öll sín efnahagsmál með sífelldum gengislækkunum. Það er verið að fella krónuna svo að segja árlega s.l. 20 ár. Þetta virðist ekki duga, alltaf þarf að fella hana aftur og aftur. Raunar var það vísitöluskrúfan, sem átti sinn þátt í að fella hana, meðan hún var, en eftir að hún var tekin úr sambandi, hefði átt að vera auðvelt að halda genginu stöðugu, en Það hefur ekki verið gert. Ég held, að það hljóti öllum að koma saman um, að þegar tekjur þjóðarinnar eru meiri en þær hafa nokkurn tíma verið, hljóti að vera einhver klaufaskapur að geta ekki haldið gjaldmiðlinum stöðugum.

Nágrannaþjóðir okkar hafa lagt höfuðáherzlu á þetta. Þjóðverjum datt ekki í hug að sleppa markinu lausu nú eftir síðasta stríð. Þeir festu Það strax og halda því stöðugu. Þegar de Gaulle tekur við völdum, eykur hann verðgildi frankans. Undirstaða undir öllu heilbrigðu efnahagslífi er að hafa stöðugt gengi. Þegar svona hlutir eru gerðir, er ekki óeðlilegt, að spurt sé, hvað það er, sem veldur því, að þetta er gert. Einhver klaufaskapur hlýtur þetta að vera. Nú er það oft svo, að ef tveir deila, þá er ekki allt öðrum að kenna, og má vera, að svo sé í þessu tilfelli líka.

Ríkisstj. gaf út grg. s.l. sumar, sem átti að gera grein fyrir því, hvers vegna hún hefði fellt gengið. Þar var því haldið fram, að kauphækkanirnar s.l. sumar mundu hafa valdið tekjuaukningu hjá launþegum um 800–900 millj., og þess var látið getið, að af þessum 800–900 millj. væru um 300 millj. kr. tekjuaukning hjá launþegum, vegna þess að fólk flyttist milli launaflokka og fólkinu fjölgaði í landinu. Nú gefur auga leið, að Það nær engri átt að ætla að fara að fella gengið fyrir það, að fólki fjölgi í landinu eða einhverjir færist milli launaflokka, því að það á sér alltaf stað, alveg án tillits til þess, hvort fara fram einhverjir nýir kaupsamningar eða ekki. Það er út af fyrir sig hrein endileysa að taka það með í þessa tekjuaukningu. Svo er því einnig haldið fram, að gjaldeyriseyðslan mundi hafa orðið 300 millj. kr. meiri vegna kauphækkananna, ef gengið yrði ekki fellt. En þetta var alls ekki rökstutt. Ég hef reynt að gera mér dálitla grein fyrir því. hvað launahækkanirnar muni hafa orðið miklar. í landbúnaði mun heildarkaup vera 450–480 millj., í fiskiðnaði um 450 millj., í öðrum iðnaði um 600 millj., í byggingum og vegagerð um 450 millj., í verzlun 500 millj., — þetta eru heildarlaunin, sem hver iðngrein greiðir, — í samgöngum 250 millj. og ýmiss konar þjónustu 650 millj. kr. Þessar heildarlaunatekjur þessara atvinnugreina yrðu þá 3350 millj., og ef við reiknuðum með 12% kauphækkunum, mundu launatekjur fólks alls hafa aukizt um 12% af 3350 millj. eða í kringum 400 millj. En hvað getur fólkið keypt mikið af erlendum gjaldeyri fyrir þetta? Ég hygg, að það sé ekki nema fyrir örlítið brot af þessum 400 millj., sem tekjurnar hefðu aukizt. Við sjáum með landbúnaðinn, að tekjur bændanna aukast á því, að launþegarnir kaupa af þeim afurðirnar, þannig að það færist á milli stétta. Það er tekið af tekjuaukningu launþeganna, sem kaupa landbúnaðarafurðirnar. í fiskiðnaðinum eru launin 450 millj. á að gizka, og 12% af því gera rúmar 40 millj. Ef reiknað væri aftur með 16%, tekið tillit til kauphækkunarinnar, sem verður væntanlega á næsta sumri, þá er það í kringum 60 millj. Og þetta er sú atvinnugreinin, sem átti langerfiðast með að taka á móti kauphækkunum og gat það tæpast nema fá það einhvers staðar annars staðar frá, annaðhvort í hækkuðu afurðaverði ytra eða lækkuðu innkaupsverði hér. Svo kemur byggingar- og vegavinna, verzlun og samgöngur og ýmiss konar þjónusta. En þetta er að miklu leyti tilfærsla á milli stétta innanlands. Og hvaða líkur eru fyrir því, að Það yrðu keyptar miklu meiri erlendar vörur, þó að tekjur launþega ykjust eitthvað? Mundu þeir ekki hafa þörf fyrir að greiða niður skuldir sínar að einhverju leyti eða þá leggja eitthvað í sparisjóðsbækur? Að slá því föstu, að gjaldeyriseyðslan út á við mundi aukast um 300 millj. við þessar kauphækkanir, er hrein vitleysa. Það liggur ekkert fyrir um það. Það er ekki hægt að fullyrða nema hún hefði eitthvað ofur lítið aukizt, en Það liggur ekkert fyrir um það.

Svo er annað atriði, sem kemur líka til greina, og það er það, að ef þjóðin fær þessar tekjur, þá náttúrlega fær einhver tekjurnar, og það er engin sönnun fyrir því, þó að launþegarnir hefðu fengið Þessar 400 millj. kr. auknu tekjur, að þeir hefðu haldið verr á þeim fjármunum en þeir, sem hafa fengið þá nú, Því að vitanlega hafa þessar tekjur lent í vasa einhverra. Það er því bara um skiptinguna að tala innbyrðis, hvort hún er heilbrigð og hvort hún er réttlát. En það liggur ekkert fyrir um það, að þessir launþegar hafi eytt meira til að kaupa vörur fyrir erlendan gjaldeyri en þeir, sem hafa þessa peninga handa milli nú. Þess vegna er þessi grg. ríkisstj. algerlega órökstudd og út í loftið.

Ég skal aðeins minnast á fiskiðnaðinn frekar, vegna þess að það var sá liðurinn, sem átti langerfiðast með að standa undir þessu hækkaða kaupi, og 16% kauphækkun hjá fiskiðnaðinum, miðað við, að fiskurinn sé frystur, svarar til Þess, að sá, sem kaupir fiskinn, þurfi að fá 4% hækkun á fob-verði fisksins. Það fer um 1/4 af kostnaði í umbúðir og viðhald véla o.fl.„ 1/4 fer í kaupgjald, en um helmingur fer í hráefni. Þá mundi 16% kauphækkun þýða Það, að fob-verð vörunnar yrði að hækka um 4% eða þá að fiskverðið yrði að lækka um 4%. Nú var hægt að gera ýmislegt til að greiða fyrir því, að frystihúsin gætu tekið á sig þessar auknu byrðar, annað en fella gengið. Það var hægt að lækka vexti eitthvað. 2% vaxtalækkun hefði þýtt 1% hækkun á fob-verði. Ég vil ekki vera að ásaka þessa ríkisstj. fyrir það, sem ekki er ástæða til að ásaka hana fyrir, og ég hef hlerað það, að jafnvel þó að ríkisstj. hefði viljað lækka vextina, hafi henni ekki verið leyft það af Þeim aðilum, sem hún þarf að fá yfirdráttarlán hjá erlendis. Nú skal ég ekki segja, hvort Þetta er rétt, og ekki heldur fullyrða um, hvort hún var nauðbeygð til að sæta því. Um það skal ég ekki fullyrða, en hitt get ég fullyrt, að það mátti gera eitthvað til þess að lækka ýmsa aðra liði, eins og farmgjöld og vátryggingagjöld o.fl. Svo kom annað til greina, sem er enn betur komið í ljós nú og ríkisstj. vissi þó um þá, og það er, að fiskverðið hefur farið hækkandi erlendis. Það er t.d. búinn að hækka mikið fiskur á rússneska markaðinum, og hann hefur jafnt og þétt haldið áfram að hækka á Ameríkumarkaðinum, og það er þessi fiskhækkun, sem gerir mögulegt að greiða bátunum hærra verð fyrir fiskinn nú, því að ef um enga hækkun hefði verið að ræða erlendis, gat bátaútvegurinn ekki fengið meiri hækkun á fiskverði en 2% í mesta lagi, vegna þess að þessi gengislækkun fór í hækkaðan kostnað við reksturinn, í umbúðakostnað, kostnað við vélar og annað í frystihúsunum 21/2%, um 4% fór í kauphækkun og hitt fór í hækkun útflutningsgjalda, þannig að hagur frystihúsanna batnaði eiginlega ekkert og skapaði þeim enga möguleika til að borga neitt að ráði hærra fyrir fiskinn eða í mesta lagi 2–4%.

Það, sem gerir það, að hægt er að borga hærra fyrir fiskinn, er hækkandi verð ytra, og þó að þessi kauphækkun hefði verið framkvæmd án þess að fella gengið, hefðu sjómenn og útgerðarmenn ekki þurft að fá neitt lægra verð fyrir fiskinn nú — ekkert lægra verð. Hann hefur ábyggilega hækkað um meira en sem nemur þessum 4% á fob-verði, því að í Rússlandi mun hann hafa hækkað úr 128 pundum tonnið í 140–145, minna í Ameríku, en hann hefur þó verið að hækka þar.

Hitt má svo um deila, hvort kaupgjaldssamningurinn í sumar var að öllu leyti skynsamlegur eða réttlátur. Ég var áhorfandi að þessum samningum og réð þar ekki. Ég taldi ekki hyggilegt að hækka eftirvinnukaupið, breyta þeim hlutföllum. Ég áleit, að það væri ekki hyggilegt vegna vinnslustöðvanna að hækka það úr 50% og upp í 60%. Ég álít líka, að það sé dálítið varhugaverð leið þetta 1%. Það er ekki aðalatriðið þetta 1%, sem samið er um, heldur hitt, að þegar er búið að semja um 1%, er alveg eins hægt að fara fram á, að það sé samið um 2% og 3%. Sjúkratryggingum á að koma fyrir á annan hátt. Ég er sannfærður um, að sú kauphækkun, sem fór fram í sumar, hin beina kauphækkun, að atvinnuvegirnir hefðu þolað hana, frystihúsin hefðu getað sætt sig við hana, vegna þess að fiskverðið hefur farið hækkandi ytra, og ef það hefði ekki farið hækkandi ytra, hefðu frystihúsin orðið að fá fiskinn fyrir lægra verð. Þá var alveg eins gott fyrir sjómenn og útgerðarmenn að selja fiskinn nokkrum aurum lægra hvert kíló og hver króna væri 13% meira virði en hún er nú.

Svo eru það ráðstafanir með gengismismuninn, sem þetta frv. fjallar um og rétt er þess vegna að tala um, og það er um það, að ríkissjóður hirðir gengismismuninn. Einhvers staðar er hann tekinn. Það myndast engin verðmæti, nema þau séu tekin frá einhverjum, og þau eru væntanlega tekin af sjávarútveginum. Það er ekkert annað, sem skeður þarna, en það er tekið 13% af því, sem búið er að lofa sjómönnum og útgerðarmönnum fyrir aflann frá áramótum og til ágústbyrjunar. Það er ekkert annað, sem skeður. Af því eru raunar 4% tekin til trygginga, en 9% eru hreinlega tekin í ríkissjóðinn af allri framleiðslunni. Það er ekki staðið við gerða samninga gagnvart sjómönnum og útgerðarmönnum. Það er ekkert annað, sem þarna gerist. Það þarf enginn að halda, að þessir peningar detti ofan úr himninum. Viðvíkjandi tryggingunum býst ég við, að útgerðarmenn séu ekki óánægðir. Það hefur verið gert í samráði við þá. Þeir telja, að þeim sé frekar kleift að borga tryggingarnar á þann hátt, að það sé tekið sameiginlega, heldur en að hver og einn eigi að sjá um sínar greiðslur, vegna Þess að sumir þeirra hafa átt örðugt með að greiða þær. Um það skal ég þess vegna ekki defla. En það, sem um er að deila, er, hvort það er réttlátt að taka 140 millj. og verja þeim til að greiða ábyrgðir fyrir ríkissjóð. Það er það, sem um er að deila. Ég álít, að það sé ekki réttlátt. Ég álít, að þetta eigi þeir réttu eigendur að fá. Það eru fyrst og fremst útgerðarmenn og sjómenn og jafnvel frystihúsin að einhverju leyti. Annars var þannig um hnútana búið, að frystihúsin sluppu nokkurn veginn við Þessar ráðstafanir, voru hvorki betur né verr stæð á eftir. Ég reiknaði þetta út. Þetta er í raun og veru allt tekið af sjómönnum og útgerðarmönnum.

Þá kem ég að öðru atriði, og það er hin mikla hækkun á útflutningsgjöldunum, sem er framkvæmd nú. Það er ekki síður ástæða til að athuga þau útgjöld heldur en það, að atvinnurekendur fari að greiða 1% til verkalýðsfélaganna, því að það er vitanlega alveg sama fyrir pyngju framleiðendanna, hvort þeir greiða til verkamanna í einhver tryggingagjöld eða hvort þeir greiða það í skatt til banka. Þetta verður alls um 7.4%, og þetta er lagt á fob-verð. Hráefnið er hvað fisk snertir ekki nema helmingur af fob-verðinu, þannig að þetta verður um 14–15% af því aflaverðmæti, sem útgerðarmaðurinn og sjómaðurinn draga úr hafinu. Það er hvorki meira né minna. Af því skulum við segja, að um 7% fari til trygginganna s.l. ár, en þá fara milli 7 og 8% af því aflaverðmæti, sem sjómaðurinn og útgerðarmaðurinn afla úr sjónum, til stofnana, sem ríkið á. Þetta er ekkert annað en skattur. Þetta er skattur til fiskveiðasjóðs, og það er skattur til hlutatryggingasjóðs og fiskimálasjóðs. Við skulum segja, að þetta eigi að vera til hagsbóta að því leyti til fyrir atvinnuveginn, að þessar stofnanir geti lánað meira. En þá er bara þetta: Er það leiðin, sem á að fara, að skattleggja atvinnuvegina nær ótakmarkað til þess að geta svo lánað þeim aftur, sem sagt að taka eignir manna, gera þetta eign ríkisins og lána þeim það svo aftur? Vitanlega er hægt að halda áfram. Það er hægt að taka launþega yfirleitt og taka vissar prósentur af kaupinu þeirra, lána þeim það svo aftur til að byggja íbúðir o.fl. Það er hægt að fara hringinn. Það er náttúrlega hægt að taka blessaða prestana líka, taka eitthvað af laununum þeirra og segja svo: Þið getið byggt yfir ykkur embættisbústaðina. — Það er hægt að fara þessa leið alls staðar. Þá er bara það, sem við þurfum að gera upp við okkur: Er þetta skynsamlega leiðin eða á að nota sameiginlegt sparifé landsmanna til þess að lána til atvinnuveganna í landinu? Ég skal játa það, að í árferði eins og nú hefur verið hefur sparifjáreign landsmanna aukizt. Það er ekki nema eðlilegt og meira en það. Þó að Seðlabankinn loki ekki seðlana niðri í skúffu, er það vitanlegt, að hann á miklar innstæður erlendis nú og fær ekki af þeim háa vexti. Það er ágætt að eiga eitthvert fé erlendis og nauðsynlegt, en það má deila um, hvað langt á að ganga í því að eiga peninga erlendis fyrir mjög lága vexti, en okra svo á atvinnuvegunum hér með geysilega háum vöxtum. Það eru takmörk fyrir því, hvað skynsamlegt er að ganga langt í þeim málum. Vitanlega hefur Seðlabankinn möguleika til þess að lána fiskveiðasjóði og öðrum stofnunum, sem annast lán til atvinnuveganna. Annars hafa útgerðarmenn ekki verið verulega óánægðir yfir því, þó að þeir legðu eitthvað fram í fiskveiðasjóð, en hækkunin er bara of mikil, vegna þess að á meðan útflutningssjóður var, þá var þetta gjald ekki tekið af útflutningsuppbótunum, heldur bara af frumverðinu ytra, þannig að hækkunin er orðin gífurleg síðan gengisbreytingin varð í ársbyrjun 1960. Þar við bætist hlutatryggingasjóðsgjaldið, úr 0.5 og 0.75 í 1.25. Og þegar þetta er lagt á vöru eins og t.d. síldina, þegar það er tekið 7.5% af síldartunnu, sem kostar 900 kr., þá er slíkt meira en lítill skattur, og ég efast um, að það þekkist mörg dæmi þess, að útflutningsatvinnuvegum sé gert jafnerfitt fyrir, að þeir séu jafnstórkostlega skattlagðir og hér á að gera. Ég fyrir mitt leyti er því á móti því, að þessi útflutningsgjöld séu hækkuð. Það er nóg hækkun að hafa þau eins og þau voru. Ef fiskveiðasjóð vantar fé, þá hlýtur Seðlabankinn að geta lánað honum fé til að endurlána til útgerðarinnar. En það verður ekki eign. Það verður að borga vexti af því. Það er ákaflega þægilegt fyrir ríkisstj. að geta skattlagt atvinnuvegina svona. En ég álít, að það sé mjög varhugaverð leið, og það sýnir sig þarna, að þegar byrjað er að fara Þessa leið, þá er fikrað sig áfram og tekið meira og meira. Nú á að fara að greiða með togurunum af þessum útflutningsgjöldum, og það kemur þó hreinlega í bága við yfirlýsingar ríkisstj., því að hún lýsti því yfir, þegar ráðstafanirnar voru gerðar í ársbyrjun 1960, að nú ættu allar atvinnugreinar að standa undir sér, nú ætti að þurrka allt út, sem óheppilegt væri og vitlaust í fjármálakerfinu. En með því að gera þetta var tekin upp gamla stefnan að styrkja og bæta upp, þar sem er álitið, að þess sé brýnust þörf. Þess vegna er þessi leið dálítið varasöm og eðlilegt, að bátaeigendur séu óánægðir yfir því að eiga að standa að öllu leyti undir því að bera hallann af togararekstrinum.

Ég er því á móti því, að útflutningsgjöldin hækki frá Því, sem var. Ég er á móti því, að hlutatryggingasjóðsgjaldið hækki. Ég álít, að það sé nóg og meira en Það að greiða Það, sem fyrir var. Ég skal játa, að á fundinum hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna í haust var annað hljóð í mönnum en næst áður. Það var miklu betra. En hitt er ég viss um, að ef ekki hefði verið þessi mikla síldveiði í sumar, þá hefði Það verið sízt betra og jafnvel verra en það var árið áður. Þessi óvenjulega síldveiði í sumar breytti alveg aðstöðunni. Ég átti tal við marga útgerðarmenn, sem höfðu þessa nýju báta, og þeir töldu að endarnir hefðu rétt náð saman hjá sér. Þeir hefðu getað staðið í skilum, afskrifað dálítið, en margir þeirra ekki nærri nóg. En ef þeir hefðu fengið meðalsíldarár, hefðu ekki náð saman endarnir hjá þeim, þannig að við þurfum að fara varlega að þrengja ekki allt of mikið að Þessum atvinnuvegi, til þess að endarnir hætti ekki að ná saman.

Þegar efnahagsráðstafanirnar voru gerðar, varaði ég strax við því og benti á, að rekstrarfjárskorturinn mundi verða svo mikill, að menn mundu ekki geta staðið í skilum. Síðan efnahagsráðstafanirnar voru gerðar, hefur orðið að gera nokkurs konar kreppuráðstafanir gagnvart bátaútveginum, því að í fyrra var hann í algeru greiðsluþroti og það varð að lána í gegnum stofnlánadeildina upp undir 300 millj. Svo hefur orðið að taka landbúnaðinn, þá menn, sem voru að gera framkvæmdir. Þeir hafa ekki getað ráðið við þær. Og nú þarf að taka togarana og leggja þeim, svo að skiptir jafnvel milljónum á ári, hverjum togara. Þetta hefur allt saman skeð. Gengislækkunin í sumar jók rekstrarfjárskortinn til mikilla muna. Það var ekki nóg með, að það þyrfti fleiri krónur, heldur gerði ríkisstj. líka ráðstafanir til þess, að það yrðu ekki lánaðar fleiri krónur, þannig að útgerðarmenn eða fiskvinnslustöðvar fengu um það bil 75% út á fyrsta og annan veðrétt í fiskinum áður, en eftir að gengið féll, lækkaði þetta ofan í 65%, og rekstrarfjárskorturinn varð enn meiri.

Ég hef selt dálítið af fiski og síld, og það er ómögulegt að innheimta þetta fyrr en seint og síðar meir, og sumt fær maður kannske aldrei. Þannig er rekstrarfjárskorturinn hjá fiskvinnslustöðvunum. Og þetta var strax augljóst, því að með gengislækkuninni myndaðist svo mikil verðþensla, að menn höfðu enga möguleika til að fá næga peninga til að standa undir rekstrinum. Þetta er ekki af pólitískum áróðri. Þetta kom fram hjá hinum dyggustu þjónum þessarar ríkisstj. á fundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, því að þar komu bæði umkvartanir um rekstrarfjárskort og háa vexti. Þeir menn kvarta ekki, fyrr en þeir mega til. Þetta er staðreynd, rekstrarfjárskorturinn er svo mikill hjá fiskvinnslustöðvunum og þeim, sem þurfa á miklu rekstrarfé að halda, að þeim er ómögulegt að standa í skilum. Bátarnir hafa getað sætt sig við þetta í ár, vegna þess að Þeir veiddu svo vel, og þó í mörgum tilfellum eiga þeir mjög erfitt með það.

Ég vil ekki halda því fram, að þessi ríkisstj. hafi ekki gert ýmislegt vel. En það, sem hún hefur ábyggilega ekki gert vel, það er að fella tvisvar sinnum gengið, því að úr því að hún tók vísitöluna úr sambandi, var hún alls ekki nauðbeygð til þess að ganga lengra en festa gengið, þar sem Það raunverulega var, pegar hún tók við. Ef hún hefði gert það, hefðu margir verið henni þakklátir, sem eru henni ekki þakklátir nú.

Við skulum vona, að gangi vel með atvinnureksturinn á komandi ári. Það er undirstaðan, að vel aflist. Og ég skal játa Það, að útlitið er miklu betra en það hefur oft verið áður. Það er fyrst og fremst aukin tækni, sem gerir, að aðstaða okkar verður allt önnur en hún hefur áður verið. Víð eigum ekki víst, að Það gangi jafnvel á þessu ári og 1961, en bregðist það, verður ábyggilega þröngt fyrir dyrum hjá útgerðinni, jafnvel þó að sú fyrirgreiðsla sé framkvæmd, sem þegar er búið að gera og er verið að gera gagnvart togurunum. Það má engu muna, að þetta geti gengið.

Gengislækkun hefur alltaf rangindi í för með sér, og það sýnir alltaf veikleikamerki í fjármálakerfi hvers einasta lands að þurfa að vera að fella gengið. Og ranglætið er margþætt. Ég hygg, að ýmsir menn hafi búizt við því, þegar gengið var fellt 1960, að Þá gætu þeir vænzt þess, að það yrði stöðugt gengi í framtíðinni. Ég heyrði Þetta á ýmsum mönnum, og ég er sannfærður um, að þeir menn urðu fyrir miklum vonbrigðum í sumar, þegar gengið var aftur fellt. Ríkisstj. hafði þrjár leiðir um að velja, begar samið var um kaupið í sumar; og ég skal játa, að persónulega er ég á móti því, ef menn eru ekki húsbændur á einhverju heimili, að þeir séu að gera sig þar að húsbændum. Það er langeðlilegast, ef menn búa til einhvern hnút, að þeir leysi hann sjálfir. Um þetta má sem sagt deila. Það er mín persónulega skoðun, að það sé réttast að lofa hverjum manni að leysa sinn hnút sjálfum. Og það er bezt að lofa þeim, sem eru kosnir til að vera húsbændur, að vera húsbændur. Svo er bezt að deila réttlátlega og sanngjarnlega á þá fyrir það, sem mönnum finnst þeir gera illa, og svo á þjóðin að dæma um kostina. Þannig álft ég, að það eigi að ganga.

Nú var samið af öðrum aðilum upphaflega en ríkisstj., og um það geta verið skiptar skoðanir. En úr því sem komið var, hafði ríkisstj. um þrennt að velja. Það var að skipta sér ekkert af málinu, eins og hún var búin að lýsa yfir, að hún ætlaði að gera. Ríkisstj. var búin að lýsa því yfir, að hún ætlaði ekki að skipta sér af kjaradeilum. En svo gerði hún það. Og ríkisstj. var byrjuð á því áður, því að í fyrra voru sett lög um kauphækkanir kvenna. Það er að skipta sér af samningum. Með lagaákvæði var kaupið hækkað, og þetta var prinsipbrot miðað við yfirlýsingar ríkisstj. í byrjun. Með lögþvingunum var farið að hækka kaup. Við höfum vafalaust skiptar skoðanir um, hvort það er rétt að borga stúlkum 16–20 ára, sem lítið eru vanar við verk, eins og vönum verkamönnum. Það má deila um það. En þetta var bara gert, og þetta var brot á þeirri yfirlýsingu, sem ríkisstj. var búin að gefa. Og þetta var kauphækkun, þó að hún eigi ekki að koma öll í einu. Það var eðlilegt, að aðrir, sem voru óánægðir, sem var búið að lækka mikið kaup hjá, álitu, að þeim væri óhætt að stíga annað skrefið, fyrst ríkisstj. var svona fús að stíga ótilkvödd fyrsta skrefið. Það má deila um, hvort það var rétt af kaupfélögum norður í landi að semja. Það getur verið deilumál. Ég fyrir mitt leyti hefði ekki gert það. En ríkisstj. hafði um þrennt að velja, þegar búið var að semja. Og það var að skipta sér ekkert af þessu. í öðru lagi varð að festa kaupið með lögum. Og í þriðja lagi að gera það, sem hún gerði, að fella gengið, og það álít ég hafa verið það lakasta.

Þeir, sem hafa átt erfiðast undir stjórn þessarar ríkisstj., eru þeir, sem eru að mynda heimili, þeir, sem eru að hefja búskap, byggja sér hús og reyna að koma sér upp atvinnutækjum í einhverri mynd. Það eru þessir menn, sem hafa liðið mest við þessar ráðstafanir. Þeir, sem eru búnir að koma sér vel fyrir, eins og ég og mínir líkar og yfirleitt meira en miðaldra menn, hafa frekar grætt en tapað á þessu öllu saman. Yfirleitt er það þannig. Meira að segja SIS hefur aldrei blómgazt betur, því að þeir gleymdu því, þegar þessar ráðstafanir voru gerðar, að SIS var bara einn af feitu sauðunum. En fátæku kaupfélögin hafa horazt niður og eru í basli. Með þessari gengislækkun er sagan endurtekin. Því fólki, sem hefur átt erfiðast, er gert enn erfiðara fyrir. Það þarf enn fleiri krónur til að byggja hús, enn fleiri krónur til að kaupa vélar og enn fleiri krónur til að kaupa bát. Rangindin eru gagnvart þeim mönnum, sem hafa verið að kaupa báta og ekki fengið að borga þá strax, jafnvel þótt þeir ættu íslenzka peninga, skulda ytra, og svo er alltaf hækkun ofan á hækkun og jafnvel sæmilega stæðir menn eru orðnir öreigar á þessum kúnstum. Þetta eru rangindin. Og svo eru erfiðleikarnir auknir fyrir þessu fólki og alveg að þarflausu, því að vitanlega gat ríkisstj. alveg eins fest kaupið eins og lækkað gengið. Þeir lýsa því yfir, að þeir ætli ekkert að skipta sér af neinum kjaramálum, en strax og búið er að semja, þá er kauphækkunin tekin aftur. Það er vitanlega miklu hreinlegra að segja við fólkið: Ef þið semjið um þetta, þá fellum við gengið, — segja það fyrir fram, en ekki lýsa yfir: Við ætlum ekkert að skipta okkur af þessum hlutum, — en svo, þegar búið er að semja, þá er kauphækkunin tekin aftur, og það er bara blekking að halda, að það sé ekki að skipta sér af kaupsamningum og kaupgjaldsmálum að lækka gengið vegna þess, að kaupið er hækkað í krónutölu. Þarna álft ég, að ríkisstj. hafi tekið þá leiðina, sem lökust var, bæði fyrir hana og fólkið, því miður.

Ég hef verið að lesa þær kröfur, sem Alþýðusamband Íslands hefur verið að bera fram, og þær eru svo vitlausar, að ég lái ríkisstj. ekki að geta ekki gengið að þeim. En það, sem Alþýðusamband Íslands og verkalýðsfélögin eiga að fara fram á, er, að gengið sé hækkað aftur um það, sem það lækkaði í sumar. Það er ekkert annað, sem verkalýður Íslands á að fara fram á. En það eru ýmsar kröfur, sem Alþýðusambandið setur fram, sem ekki er hægt fyrir ríkisstj. að ganga að, það er óframkvæmanlegt. En þetta er ósköp einfalt. Það er bara að fá gengið hækkað um það, sem það lækkaði í sumar, og jafnvel þó að útgerðarmönnum væri ekki endurgreiddur nema einhver hluti af því, sem rænt er í gengismismuninum, þá væri það þakkarvert. Það er þetta, sem fólkið á að fara fram á. Ef ríkisstj. telur, að það sé ekki hægt að fullnægja Því að öllu leyti, þá að einhverju leyti. Og náttúrlega er viðhorfið bjartara fyrir ríkisstj. að gera þetta nú en í sumar, vegna þess að sala afurðanna hefur gengið betur en menn þorðu að vona í sumar. Raunar hefur síldarlýsið farið lækkandi, en síldarmjöl og fiskur og jafnvel saltsíld, allt hefur þetta selzt vel og aflinn orðið meiri og betri en búizt var við jafnvel í sumar. Það gat vel verið, og ég býst við því, að ríkisstj. hafi í einlægni verið dálítið hrædd í sumar, að þetta væri of mikil kauphækkun. Ég vil ekki gera hennar hlut verri en er. En nú er öllu bjartara yfir en þá. Annars er miklu betra að bíða og sjá hvað setur heldur en hlaupa í að gera ráðstafanir, áður en endanlega er séð fyrir, hvernig árferðið verður, eins og gert var í sumar. Án þess að ég vilji vera að ætla þessari ríkisstj. illt, er ég satt að segja sannfærður um það, að fyrst og fremst voru ráðstafanirnar gerðar í sumar, gengið fellt, til þess að andstöðuflokkarnir gætu ekki þakkað sér neitt, réttara sagt, að fólkið gæti ekki þakkað þeim neitt. Svo munu þeir aftur hækka kaupið fyrir næstu kosningar, en þeir vilja bara gera það sjálfir, en ekki láta aðra gera það. Þeir eru góðu húsbændurnir, sem vilja ekki láta börnin sín taka matinn, þeir vilja rétta hann, þegar þeim þóknast. Fólkið á bara að vera hlýðnu börnin.

Persónulega er ég sannfærður um, að það, sem kom fyrst og fremst ríkisstj. til að fella gengið, var, að hún óttaðist, að það yrði pólitískur ávinningur fyrir stjórnarandstöðuna, þessi kauphækkun, og þá varð að koma í veg fyrir það, hvað sem það kostaði. Ég skal svo ekki fullyrða um hitt, hvort það var fært fyrir hana að festa kaupgjaldið með lögum. Má vera, að það hafi ekki orðið samkomulag innan stjórnarflokkanna, en þá ber ríkisstj. ábyrgð á því ósamkomulagi. Það var þar fyrir betri leið. Það er eins og með vinstri stjórnina. Vitanlega þurftu þeir aldrei að vera að hlaupa sitt í hverja áttina, ef þeir hefðu getað komið sér saman um skynsamlega hluti, en ósamkomulagið var ástæðan. Það er alltaf slæmt, betri leið var að festa kaupið en fella gengið. En e.t.v. hefði þó verið allra bezt að skipta sér ekki af þessu, og það var í samræmi við Það, sem ríkisstj. var búin að lýsa yfir, — skipta sér hreinlega ekkert af kaupgjaldinu. Við getum reitt okkur á það, að frystihúsaeigendur hefðu ekki ofkeypt fiskinn lengi. Hann hefði lækkað til sjómanna og útgerðarmanna. Það var eins gott fyrir útgerðarmenn að fá heldur færri krónur og verðmeiri krónur, en sjómennirnir hefðu e.t.v. ofur lítið lækkað með kaup hlutfallslega við aðra. En það var ekki nema sanngjarnt að því leyti til, að það eru þeir, sem eru langhæst launaðir, einkum fyrir það, að aflinn hefur verið miklu meiri s.l. tvö ár en mörg undanfarin ár þar áður, og með auknum síldarafla munu kjör sjómanna stórbatna og hafa verið mun betri en landverkamanna s.l. eitt eða tvö ár.