26.03.1962
Neðri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Gísli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. í 6. gr. þess frv., sem fyrir liggur, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er skilað er til banka gjaldeyri fyrir útfluttar afurðir framleiddar á tímabilinu 6. febr. 1960 til 31. júlí 1961, skal hann greiddur útflytjanda á því gengi, er gilti fyrir 4. ágúst 1961. Ríkisstj. kveður nánar á um, hvaða afurðir falla undir ákvæði þessarar málsgr., og eru ákvarðanir hennar þar að lútandi fullnaðarúrskurður.“ Síðan segir: „Mismunur andvirðis skilaðs gjaldeyris á eldra gengi og andvirðis hans á hinu nýja gengi samkv. 1. málsgr. skal færður á sérstakan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum.“

Þar fara á eftir ákvæði um það, hvernig þessum gengishagnaði skuli varið, og segir þar m.a., að af fé á þessum reikningi skuli greiða 2/3 hluta útflutningsgjalds af sjávarafurðum framleiddum á tímabilinu 16. febr. 1960 til 31. júlí 1961.

í brtt. hv. meiri hl. fjhn. er enn fremur lagt til, að af fé á þessum reikningi, þ.e.a.s. á gengishagnaðarre3kningnum, skuli greiða hlutatryggingasjóðsgjald af sjávarvörum framleiddum á tímabilinu 16. febr. 1960 til 31. júlí 1961, og er gert ráð fyrir í 2. gr. eða réttara sagt 2. brtt., að þessi endurgreiðsla á hlutatryggingasjóðsgjaldi nemi 47% greidds gjalds af síldarafurðum og 65% greidds gjalds af öðrum gjaldskyldum sjávarafurðum.

Ég geri ráð fyrir, að það liggi nú fyrir eða hafi a.m.k. verið gerðar áætlanir um það, hvað þessi endurgreiðsla af gengishagnaði á 2/3 útflutningsgjalds og 47 og 65% greidds hlutatryggingasjóðsgjalds muni nema hárri upphæð, að það annaðhvort liggi fyrir eða hafi verið gerð áætlun um það a.m.k. í sambandi við þá brtt., sem nú er borin fram. Hv. frsm. meiri hl. gerði ekki grein fyrir slíkri áætlun og hefur e.t.v. ekki haft í höndum upplýsingar til að geta gert það. En ég vildi beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj. eða þess ráðh., sem þetta mál heyrir undir, hvort áætlun hafi ekki verið gerð um það, hve mikilli upphæð þessar endurgreiðslur á hlutatryggingasjóðsgjaldi og útflutningssjóðsgjaldi nemi. Mér virðist skipta máli, að þetta liggi fyrir við meðferð málsins, þar sem um það er að ræða að afgreiða tillögur um þessa ráðstöfun á gengishagnaðinum.