26.03.1962
Neðri deild: 76. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Hæstv. forseti. Ég taldi miður ráðið að taka þetta mál nú til 3. umr., svo seint á þessum fundi, og hefði talið rétt að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar. Ég held, að það eigi ekki að þurfa að tefja málið hér neitt að ráði í afgreiðslu og það sé ekki líklegt, að umr. þurfi að verða ýkjamiklar um málið, úr því sem komið er. En hér eru á ferðinni margslungnar og nokkuð flóknar tillögur um stórmál. Sumar þessara tillagna eru nú að koma fram, og þær gætu gefið tilefni til þess, að aðrar brtt. einnig við þær kæmu fram, en það er ekki gott að átta sig á því á siðasta stigi málsins og eins og þetta ber allt saman að.

Þá vil ég einnig benda á, að ég held, að það séu þeir ágallar á frv., eins og það er, að það sé hætt við Því, að ríkisstj. spari sér engan tíma á því að ætla að ljúka umr. nú í nótt. Ég vil benda á það t.d., að í 8. gr. frv., eins og hún er nú, hefur verið gerð breyting frá því, sem sagði í brbl., sem sett voru um þetta mál í sumar, og þar er gert ráð fyrir því, að ákveðin endurgreiðsla komi nú til greina á þeirri hækkun, sem verður á hlutatryggingasjóðsgjaldinu, því að hað hafði komið í ljós, að ákvæði, sem voru í 7. gr., dugðu ekki í þessum efnum. Ef þau ein hefðu staðið, þá hefði þetta leitt til frekari hækkunar á útflutningsgjaldi á eldri birgðunum en ætlazt hafði verið til. En sú breyting, sem nú hefur verið gerð frá brbl., er þannig orðuð, að hún nær ábyggilega ekki tilgangi sínum. En í 2. mgr. 8. gr. frv. segir nú á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Endurgreiða skal útflytjendum samkv. umsóknum þeirra 47% greidds hlutatryggingasjóðsgjalds á síldarafurðum og 65% greidds hlutatryggingasjóðsgjalds á öðrum gjaldskyldum sjávarvörum framleiddum á tímabilinu 16. febr. 1960 til 31. júlí 1961,“ en svo er bætt við: „útfluttum eftir gildistöku þessara laga.“

Þessi endurgreiðsla, sem þarna er verið að gera ráð fyrir, þarf og á að koma einnig á þær vörur, sem framleiddar höfðu verið á þessum tíma, en hafa verið fluttar út, frá því að brbl. voru sett í sumar og þangað til þessi lög verða sett. En þetta ákvæði, sem hér er, nær ekki út yfir þetta. Brbl. eru í fullu gildi, þar til þessi lög taka við, og það þarf að umorða þetta.

Það var ekki ætlun mín að fara að hefja hér miklar umr., en ég vildi aðeins skjóta því til hæstv. forseta og hæstv. ríkisstj., hvort ekki gæti orðið samkomulag um að fresta málinu nú og taka það aftur fyrir á nýjum fundi á morgun, ljúka sem sagt ekki umr., þannig að opið standi að flytja brtt. og tala fyrir þeim, þar sem málið liggur svona fyrir, eins og ég hef nokkuð drepið á. í von um það, að við þessari ósk minni verði orðið, mun ég ekki ræða frekar um málið.