27.03.1962
Neðri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að lengja þessar umr. verulega, úr því sem komið er. Ég hef lýst afstöðu minni til þessa frv., hef bent á það, að höfuðatriði frv. er um að taka af útflutningsaðilum í landinu 150 millj. kr. í gengishagnaði og leggja í ríkissjóð, að hækka sérstök útflutningsgjöld á sjávarafurðum um 135 millj. kr. á ári og í þriðja lagi að viðhalda um óákveðinn tíma mjög ranglátu og hættulegu fyrirkomulagi, sem ríkt hefur um greiðslu vátryggingargjalda. Og ég álít, að kominn sé meira en tími til þess að breyta hér um. Og svo er það í fjórða lagi, að þetta frv. gerir ráð fyrir því að kollsteypa í rauninni því fyrirkomulagi, sem gilt hefur um uppbyggingu og rekstur hlutatryggingasjóðs, og ég er andvígur þeirri breytingu líka. Ég tel því, að mín afstaða til þessa frv. komi skýrast og bezt fram þannig, að ég er á móti öllum þessum meginatriðum frv. og vil því, að frv. verði fellt. Ég hef því fáar brtt. flutt, en ég hef hugsað mér að flytja hér eina brtt., sem verður að koma fram skriflega, úr því sem komið er, og gera þá með því tilraun til þess að fá lítils háttar leiðréttingu á einu af þeim atriðum, sem frv. fjallar um. Ég hef sem sagt ásamt hv. 6. þm. Sunnl. leyft mér að flytja svo hljóðandi brtt. við 6. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Við 6. gr. bætist:

Þá er ríkisstjórninni enn fremur heimilt að greiða af þessu fé gengistöp þau, sem framleiðendur útflutningsvara urðu fyrir við lækkun gengis íslenzkrar krónu þann 3. ágúst 1961, að því leyti sem þau töp hafa orðið vegna kaupa á framleiðslutækjum þeirra.“

Það, sem hér er um að ræða, er það, að með þessari tillögu er þó gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi heimild til að greiða af þeim gengishagnaði, sem ráðgert er að leggja í þennan sérstaka ríkisábyrgðasjóð, þau töp útflutningsaðila í landinu, sem Þeir hafa sannanlega orðið fyrir vegna gengislækkunarinnar á s.I. sumri vegna kaupa þeirra á framleiðslutækjum. Því verður ekki neitað, að það er hart, ef framkvæma á lög með þeim hætti að gera upptækan þann gengishagnað, sem verður á tilteknum vörum vissra aðila í landinu, en ætla þeim sömu aðilum að taka á sig gengistöp af beinum tækjakaupum til þess að framleiða Þessa vöru. Ég álít, að Það sé svo mikið óréttlæti í því, ef lögin yrðu framkvæmd á þennan hátt, að ég tel, að það minnsta, sem hér ætti að gera, væri að samþykkja þessa brtt. okkar um það, að ríkisstj. hefði heimild til að greiða af þessum gengishagnaði þessi töp þessara aðila.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en tel, að meginatriði frv. séu mjög ósanngjörn og óeðlileg, og því hefði verið eðlilegast að fella frv., en mér fyndist þó, að nokkur bót yrði á því, sem í frv. er sagt, ef þessi brtt. yrði samþykkt.