06.04.1962
Efri deild: 80. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. í Nd. kölluðu þetta frv. kálf, og ef maður lítur á það sem kálf, þá virðist mér megi segja um það, að kálfsi sé heldur ótótlegur og ekki vænlegur til að setja hann á. Það hefur verið mikið rætt um hættur af innflutningi búfjár hér í þessari hv. d. rétt nýlega, og þess vegna finnst mér ástæða til þess að láta sér detta í hug, hvort ekki sé rétt að athuga kálfinn eitthvað með tilliti til Þess, hvort ekki gæti skeð, að móðir hans hefði sýkzt af erlendum sjúkdómi og kálfsi væri ekki heilbrigður heldur.

Annars skal ég nú ekki gera meira gamanmál hér til að tefja tímann. Frv. er um ráðstafanir vegna gengisfellingarinnar, sem hæstv. ríkisstj. lét Seðlabankann gera fyrstu daga ágústmánaðar s.l. sumar. Ástæðurnar fyrir gengisfellingunni taldi ríkisstj. kaupgjaldshækkun, sem átti sér stað með nýjum kjarasamningum s.I. sumar. Þá kjarasamninga kallaði blaðakostur hæstv. ríkisstj. oft og einatt svikasamninga. Vegna hvers? Vegna þess, að liðsoddum hæstv. ríkisstj. þótti landslýður ekki lúta sér og stefnu sinni með þessari samningagerð. En hvers vegna var samið? Það var samið af Því, að sýnt var, að kaupgjald var orðið svo lágt, að almennur verkamaður t.d. hafði ekki skilyrði til þess að lifa af því sómasamlegu lífi, ef hann var þá ekki maður, sem gat lifað á eignum sínum eða hafði sérástæður. Mánaðarkaup Dagsbrúnarverkamanns, miðað við 8 stunda vinnu, er ekki nema 4100 kr., og kaupmáttur launanna hafði lækkað stórkostlega við efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj. frá Því í febrúar 1960. Verkalýðssamtökin höfðu árangurslaust beðið um leiðréttingu. Þau höfðu gengið fyrir ríkisstj. og farið fram á efnahagsmálaleiðréttingar, er réttu við kaupmáttinn og jafngiltu kauphækkun. En þau höfðu beðið árangurslaust. Hæstv. ríkisstj. vitnaði í yfirlýsingu sína frá deginum, þegar hún tók við völdum, að hún blandaði sér ekki í kjarasamninga verkalýðsins og vinnuveitenda, þeir væru málefni milli verkalýðsins og vinnuveitendanna sjálfra. Vinnuveitendurnir yrðu sjálfir að bera ábyrgð á því, ef þeir gerðu nýja samninga.

Komið var sumar og hábjargræðistími. Síldveiðar að hefjast fyrir Norður- og Austurlandi. Fiskur á miðum. Það vildi enginn neita því, að kröfur verkalýðsins um bætt kjör væru af fullu tilefni gerðar. Spurningin var: Átti að synja Þeim um eðlilegar leiðréttingar og eyða sumrinu í verkföll og vinnustyrjaldir? Eða átti að semja um breytingar á kjörunum?

Samvinnumenn svöruðu með því að semja fyrstir um sanngjarna lausn. Aðrir komu svo á eftir. Vinnufriðurinn var tryggður, þjóðarbúinu bjargað úr bráðum háska og stjórn ríkisins í raun og veru gerður mikill greiði. Ekki stenzt það bú, — ekki ríkisbúið heldur, — sem ekki er unnið á. En hvernig brást hæstv. ríkisstj. við? Ég lít svo á, að hún hafi misskilið hlutverk sitt og aðstöðu og í stað þess að þakka greiðann, fagna niðurstöðunum og gera sitt til, að þær mættu bera sem heillaríkastan árangur, taldi ríkisstj. þetta vera „tilræði“ við efnahagslifið í landinu og gerði gagnráðstafanir með því að fella í annað sinn skráð gengi íslenzku krónunnar og nú um 11.6%, en það þýðir 13.1% hækkun á erlendum gjaldeyri.

Vinnuveitendur höfðu ætlað að bera ábyrgð á samningum. Ekki datt t.d. samvinnumönnum annað í hug en þeir yrðu að gera það. En nú var það hæstv. ríkisstj., sem braut þau boðorð, sem hún hafði yfir lýst að hún ætlaði að fylgja. Hún eyðilagði hina nýju samninga með Því að fella gengi krónunnar og hækka erlendan gjaldeyri. Með því kippti hún svo rækilega fótum undan kjarabótum þeim, sem verkamenn höfðu öðlazt með samningunum, að kaupmáttur launa Dagsbrúnarverkamanns er nú, að talið er, orðinn enn þá minni en áður var, þegar samningarnir hófust.

Það má nú fyrr rota en dauðrota — líka í þessu sambandi. Hvers vegna braut hæstv. ríkisstj. hin sjálfsettu boðorð? Hvers vegna greip hún til þeirra harkalegu aðgerða að fella gengið í annað sinn, rétt eins og gengið sé hrókur á borði hennar og megi leika honum að vild? Þetta finnst mér torskilið. Ég átti alls ekki von á því.

Um einn fornkonung er sagt, að hann hafi viljað gera gott úr öllu og umfram allt vera samtaka þjóð sinni. Areiðanlega átti þetta ekki við um hæstv. ríkisstj. í kaupgjalds- og kjarabótamálinu s.I. sumar. Þá reyndi hún sannarlega ekki að gera gott úr málum eins og hún hefði vel getað gert. Hún var ekki samtaka þjóðinni og reyndi ekki að vera það, heldur hið gagnstæða. Menn telja og það má telja, að gengisfellingin hafi verið skjótráðin, og sumir segja, að hún hafi verið hefndarráðstöfun og til þess gerð að sýna vald. Það er dýr hefnd og óviturleg valdbeiting.

Hæstv. ríkisstj. taldi sér henta að vitna í hagfræðilega nauðsyn, þegar hún réðst, eins og kalla má, á móti þjóðinni s.I. sumar, og hún bjó sér til hagfræðilegan grundvöll, að hún taldi. Þennan grundvöll birti hún í grg. í Morgunblaðinu 14. sept. Mestu máli þótti skipta, svo sem rétt er, þegar um gengisskráningu krónunnar er að ræða, hvernig horfði með framleiðslu sjávarafurða, sem eru aðalútflutningsvörur þjóðarinnar. Horfurnar voru góðar. Landhelgisútfærslan, sem núv. stjórnarflokkar voru dragbítar á að fengist, skilar víðs vegar á landinu stórkostlega auknum afla. Veiðitæknin nýja, sem færist í aukana með ári hverju, gerir þetta sömuleiðis. Með því reiknar fólkið og með því átti hæstv. ríkisstj. að reikna, ef hún vildi vinna með fólkinu, eins og hinn sögufrægi þjóðhöfðingi, og það gat hún vel gert: Áætlað réttar en hún gerði, en auk þess lækkað vexti og dregið úr lánsfjárkreppunni til þess að framkalla framleiðslufjör. En í stað þess sló hún lömunarhögg með gengisfellingu enn á ný.

Í grg., sem ég nefndi áðan, segir hæstv. ríkisstj., að framleiðsluverðmæti sjávarafurða, miðað við, að gengi sé eins og það var áður, þ.e.a.s. 38 kr. dollarinn, komi þannig út, að árið 1959 hafi afurðirnar verið samtals 2511.6 millj. kr., árið 1960 2325.6 millj., en árið 1961 muni þær verða 2431.3 millj. Þessi tala fyrir 1961 er áætlunartala ríkisstj. En hún fær ekki staðizt, því að í hana vantar eðlilega bjartsýni og viljann til þess að vinna með þjóðinni. Hún fær ekki staðizt, vegna þess að framleiðsluverðmæti sjávarafurða var rúmlega 14% meira 1961 en 1960, og þó mun sú tala verða í reynd nokkru hærri en Seðlabankinn hefur gert ráð fyrir, eftir því sem segir í skýrstum Fiskifélagsins, sem verið er að gera. í skýrslu Seðlabankans, sem ég var að nefna, Þann 20. febr. nú í vetur, segir, að ef reiknað sé með nýju gengi, sé framleiðsluverðmæti sjávarafurða árið 1959 2838 millj. kr., 1960 2628 millj. kr. og 1961 um 3000 millj. kr., en ætla má samkvæmt áðurnefndum heimildum frá Fiskifélaginu, að reynast kunni betur.

Aukning gjaldeyristeknanna 1961 frá því, sem þær voru 1960, nemur, þegar tölurnar, sem eru í skýrslu Seðlabankans, eru lagðar til grundvallar, 372 millj. kr., ef miðað er við sjávarafurðirnar einar. Munurinn á aukningu gjaldeyrisverðmæta annars vegar og hækkun peningatekna hins vegar er áreiðanlega svo lítill, að hann réttlætir engan veginn gengisfellinguna s.l. sumar. Hinn hagfræðilegi grundvöllur, sem ríkisstj. bjó sjálfri sér í hendur til að byggja gengisfellinguna á, er því gersamlega brostinn. Reynslan, virkileikinn sjálfur hefur eyðilagt áætlanirnar og sannað, að gengisfellingin var röng athöfn, sem skaðar almenning.

Hins vegar hefur gengisfellingin orðið drjúg tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Tolltekjurnar hafa vitanlega aukizt vegna hækkaðs verðs á innflutningi í ísl. krónum. Útfluttar afurðir framleiddar á tímabilinu 16. febr. 1960 til 31. júlí 1961 eru greiddar útflytjendum á því gengi, sem gilti fyrir 4. ágúst 1961, þó að síðar séu fluttar út. Með þessu er freklega gengið á hlut þessara aðila, svo að nálgast eignarnám, þegar litið er til þeirra, sem eru búnir að lasna við vörur sínar seint á tímabilinu. Réttara hefði verið að gera klippt og skorið við 1. ágúst eða skipta gengishagnaðinum. Sérstaklega er þetta óréttlátt í samanburði milli aðila, af því að ekki er alveg frjálst, hvenær út er flutt. Þar lúta framleiðendurnir fyrirsögnum um það, í hvaða röð þeir megi flytja út. Ósanngjarnt er líka hið mjög hækkaða útflutningsgjald sjávarafurða. Gengistekjurnar, sem koma fram vegna þess, að afurðir, sem búið var að framleiða, en ekki flytja út, falla undir hið gamla gengi, eiga að renna í sérstakan reikning hjá ríkissjóði í Seðlabankanum, og talið er, að í honum muni verða afgangur allt að 150 millj. kr. Þetta varð svo mikið, að hæstv. ríkisstj. mun hafa þótt óþægilegt að leggja það beint í ríkískassann. Og þess vegna fór henni eins og bónda, sem heyjar miklu meira en hann hafði búizt við og byggir sérstaka hlöðu yfir heyfenginn. Yfir þessar óvæntu, misreiknuðu tekjur af gengisfellingunni, — því að af misreikningi í áætlun stafa þær, — byggði hún hlöðu, sem hún kallar ríkisábyrgðasjóð. Sjóður þessi gengur vitanlega til þess að létta gjöldum af ríkissjóði vegna ríkisábyrgða miklu meira en áætlað hefur verið og um nokkra hríð fram í tímann.

Gengisfellingin átti þar af leiðandi ekki rétt á sér og framkvæmdareglur hennar, sem eru í þessu frv., sem við erum nú að ræða, eru út af fyrir sig mjög gallaðar.

Þing þetta má að mínu áliti gjarnan fara að enda. Ég vil hlynna að því, að svo megi verða. Ég sé ekki, að þýðingu hafi að tala langt mál um þetta frv. við 2. umr. eða 3. umr. í seinni d. þingsins. Mér skilst, að enginn vafi sé á því, að stjórnarstuðningsmenn hafi gert sig rökhelda í málinu. Þetta er að vísu fremur óhugnanlegt ástand, en staðreynd eigi að síður, sem ekki er til neins annað en reikna með og taka eins og hún er. Allar brtt. stjórnarandstöðunnar voru felldar í Nd. Ég leyfi mér að vitna til brtt. þeirra, er framsóknarmenn fluttu þar, og þær sýndu afstöðu flokksins til nokkurra galla þessa frv. Ég veit, að ekki verða frekar til greina teknar brtt. af meiri hl. hálfu hér í seinni d. þingsins, enda hef ég fengið neitun á samþykki brtt. í hv. fjhn.

Hv. stjórnarstuðningsmenn virðast hafa svarið sig saman í máli þessu fyrir fram. Ég er svo bjartsýnn á menn, að mér þykir ósennilegt, að þetta hefði getað gerzt í svona vöxnu máli nema utan Alþ. við einhliða málstúlkun og fljótlega. Það er í mínum augum dæmi um, að bráðabirgðalagasetning getur verið mjög viðsjárverð og hana á sem mest að takmarka. Eftir á, Þegar menn hafa milli þinga tekið ákvörðun sem þessa, eiga þeir bágt með að víkja frá henni. Gert er gert og komið er sem komið er.

Af því að ég kæri mig ekki um að lengja þingið, tala ég bæði stutt og flyt ekki brtt., sem þó er vitanlega meira en nóg efni í.

Afstaða mín til frv. er sú, að ég legg til, að það verði fellt.