23.03.1962
Efri deild: 69. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

177. mál, málflytjendur

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hafði reyndar ætlað mér að flytja brtt. við þetta frv., sem hér liggur fyrir, gera það við 2. umr. málsins. Með því að það stóð þannig á, að umræðan var í gærkvöld á kvöldfundi og orðið nokkuð áliðið, þá kunni ég ekki við að vera að tefja störfin og taldi því réttara að geyma þetta mál til 3. umr.

Um þær breytingar, sem felast í því frv., sem hér er til umr., um breyt. á I. um málflytjendur, þá er ég yfirleitt samþykkur þeim breytingum og ætla ekki að fara að fjölyrða neitt um þær út af fyrir sig, en mér þykir á skorta, að það hafi verið breytt þeim ákvæðum í málflytjendalögunum, sem ég tel ástæðu til, og þess vegna ætla ég mér að leggja hér fram eina tillögu til breytingar, viðauka við það frv., sem hér um ræðir.

Í 9. gr. laga um málflytjendur er ákvæði um hæstaréttarlögmenn. Réttindi til þess að flytja mál fyrir hæstarétti eru samkvæmt þeirri lagagrein tvenns konar. Það eru annars vegar réttindi, sem héraðsdómslögmenn hafa, sem hafa starfað að málflutningi í fimm ár og flutt á þeim tíma fyrir héráðsdómi a.m.k. 40 mál munnlega. Þeir geta fengið leyfi til þess að flytja fyrir hæstarétti þau mál ein, sem þeir sjálfir hafa flutt fyrir undirrétti. Þetta eru hin minni réttindi, ef svo má að orði komast. Hæstaréttarlögmannsréttindin, sem venjulega er talað um og eru full réttindi til þess að flytja mál fyrir hæstarétti, eru hins vegar að sjálfsögðu fólgin í því, að viðkomandi maður, sem þau réttindi fær, hefur leyfi til þess að flytja öll mál fyrir hæstarétti, hvort sem hann sjálfur hefur flutt þau fyrir undirrétti eða ekki.

Í þessari 9. gr. laganna eru eðlilega sett nokkuð mismunandi skilyrði til þess að fá hin meiri réttindi og hin minni réttindi. En samt er sá annmarki á, að undir vissum kringumstæðum og það jafnvel æðioft, þá má segja, að Það séu gerðar meiri kröfur til þess að fá minni réttindin heldur en meiri réttindin. Sá, sem fær full hæstaréttarlögmannsréttindi, þarf að flytja hin svokölluðu prófmál fyrir hæstarétti, sem eru þrjú mál, og rétturinn þarf að taka hans málflutning góðan og gildan til þess að veita honum þessi réttindi.

Ég ætla ekki að fara út af fyrir sig að tala hér um þessa prófraun, en í mínum augum er í sjálfu sér ekki mjög mikið leggjandi upp úr þessu, þó að ég ætli ekki að fara að gera hér neinar tillögur um breytingar á þeim hætti, sem hafður hefur verið. Prófraun væri í raun og veru að mínum dómi þá fyrst fullgild, ef um einhvers konar próf væri að ræða, sem umsækjandinn tæki fyrir hæstarétti, en ekki flutning prófmála, vegna Þess að í raun og veru er lítill vandi á höndum í flestum tilfellum fyrir þann, sem flytur slíkt prófmál fyrir hæstarétti. Það er aðeins að flytja þar eina ræðu eða stundum tvær, það er lítið gert að því að flytja svarræður oft og tíðum, og þessa ræðu gæti umsækjandinn í raun og veru samið heima og gæti vel gert það með aðstoð annarra manna eða látið aðra semja ræðuna fyrir sig, þannig að þetta er í raun og veru próf, þar sem maðurinn þarf ekki endilega í raun og veru að ganga undir það sjálfur, hann aðeins flytur ræðuna, en hann getur í raun og veru farið í smiðju hvert sem er til þess að láta taka þetta saman, sem hann segir fyrir réttinum.

Nú er ég í sjálfu sér ekki að halda því fram, að þeir, sem hafa gert þetta, hafi yfirleitt gerzt sekir um þetta, þótt að sjálfsögðu sé æskilegt, að menn kynni sér allar hliðar mála, sem þeir eiga að flytja, og leiti til annarra færari manna um ýmsar leiðbeiningar. Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við það. Ég er fyrst og fremst að benda á þetta til Þess að sýna, að flutningur prófmáls er engin óyggjandi sönnun fyrir því, að maðurinn sé hæfur til þess að flytja mál fyrir hæstarétti. En það er sá annmarki á þessu að mínum dómi, þar sem þarna er gerð sú krafa, að flutt séu prófmál, að þá eru gerðar mjög litlar kröfur um undirstöðureynslu eða starfsferil, og Það liggur í því, að sá, sem flytur prófmál, þarf að hafa réttindi sem héraðsdómslögmaður, en réttindi sem héraðsdómslögmaður er í raun og veru hægt að fá samkvæmt lögum við það að gegna margs konar störfum, t.d. að vera fulltrúi í stjórnarráði eða í ýmsum störfum, sem lögfræðimenntun þarf til, án þess að hafa nokkurn tíma stundað málflutning. Það er þess vegna vel hugsanlegt, að maður, sem flytur prófmál fyrir hæstarétti og fær réttindi sem hæstaréttarlögmaður, hafi í rauninni aldrei á ævi sinni flutt mál áður, og Það er a.m.k. orðið ákaflega algengt núna, að menn, sem alls ekki hafa atvinnu af málflutningi og aldrei hafa haft það og hafa ekki í hyggju að gera það, fá prófmál og öðlast hæstaréttarlögmannsréttindi, og þetta eru sérstaklega ýmsir fulltrúar í stjórnarráðinu. Þessi öfugþróun, vil ég leyfa mér að segja, er líka að nokkru leyti sprottin af því, að ríkið á oft í málaferlum, málum, sem eru kannske lögfræðilega erfið og vandasöm og eru því viðurkennd sem prófmál, og þessir fulltrúar eiga oft betri aðgang að því að fá mál, sem eru viðurkennd sem prófmál, heldur en hinn almenni málflutningsmaður.

Þess vegna er það, að ég vil leggja til, að gerð verði breyting á skilyrðum fyrir því, að menn verði fullgildir hæstaréttarlögmenn. í 6. tölul. 9. gr. I. segir, að það eitt sé skilyrði til þess að fá leyfi til málflutnings fyrir hæstarétti, að hann hafi verið héraðsdómslögmaður í þrjú ár samtals eða um jafnlangan tíma gegnt embætti eða stöðu, sem lagapróf þarf til. En ég álít, að það sé ekki í raun og veru fyrst og fremst nema um tvennt að ræða, sem gefur lögfræðingi nægilega reynslu og undirbúning til þess að geta tekið áð sér að vera hæstaréttarlögmaður, og það er, að hann hafi stundað annaðhvort málflutningsstörf eða dámarastörf í einkamálum og kveðið þar upp dóma. Að vísu kunna að vera frá Þessu einstaka undantekningar, við skulum segja eins og með fræðimenn, menn, sem væru t.d. mjög lærðir í lögfræði og hefðu leitað sér menntunar erlendis. En um þá mundi fyrst og fremst gilda undantekningarákvæði, þar sem hæstiréttur getur leyst þá undan prófraun að nokkru eða öllu leyti, ef dómurunum er kunnugt af lögfræðistörfum manns, að hann sé hæfur til að flytja mál fyrir hæstarétti.

Ég álít, eins og ég sagði áðan, að það sé undirstöðuatriði raunverulega, að þessir menn hafi annaðhvort gegnt dómarastörfum og dæmt í einkamálum eða þá að þeir hafi stundað málflutningsstörf, og þess vegna vildi ég leyfa mér að leggja fram brtt. á þá leið, að aftan við 6. tölulið, þennan, sem ég vitnáði til áðan, í 9. gr. l. um málflytjendur bættust orðin: og hefur flutt að minnsta kosti 40 mál munnlega eða kveðið upp dóma í 40 munnlega fluttum einkamálum. — Nú skal ég að vísu játa, að þessi brtt. er samin í nokkrum flýti, og það er á margt að líta, Þegar svona breytingar eru gerðar. Mér fyndist að vissu leyti æskilegt, að n., sem hefur þetta mál til meðferðar, tæki þessa tillögu mína til athugunar og að þessari umr. yrði þá frestað, þó að ég geri það ekki að úrslitaskilyrði, að þannig verði með þetta farið, af því að ég kom ekki brtt. fyrr á framfæri. En Þetta mál hefur verið afgr. hér með nokkuð miklum hraða í d. Ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa tillögu og fá Þá afbrigði fyrir henni, ef hún yrði borin upp núna, en annars þætti mér æskilegt, að umr. um málið yrði frestað og nefndin tæki þessa tillögu til athugunar.