05.04.1962
Efri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

124. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að undanfarin ár hefur í vaxandi mæli reynzt erfitt að útvega héraðstækna í ýmis læknishéruð úti á landi. Þetta varð til þess, að síðasta hv. Alþingi samþ. þáltill., áskorun til ríkisstj. um að reyna að bæta úr þessu, og benti á nokkur atriði, sem Alþingi taldi sérstaklega geta orðið til bóta. Málið var síðan til umsagnar hjá landlækni, og hann lagði sínar till. fyrir ríkisstj., og þetta frv. var lagt fram á Alþingi laust fyrir jólafríið í vetur af hæstv. þáv. heilbrmrh., Jóhanni Hafstein.

Í Nd. var nokkur ágreiningur um frv., ekki vegna þess, að þm. væru út af fyrir sig andvígir því, sem lagt var til í frv., heldur töldu sumir, að það gengi of skammt.

En á það er að líta, að töluverð breyting hefur orðið í þessum efnum nú síðustu mánuðina. Vegna þess að nú hafa útskrifazt fleiri kandídatar í læknisfræði en áður, sem eftir gildandi reglum þurfa að gegna læknisþjónustu úti í héruðum, þá stendur í bili svo, að það eru einungis þrjú héruð, sem læknar eru ekki í, og má segja a.m.k. um eitt þeirra, að vonlaust er, að þangað fáist læknir, vegnaþÞess, hversu verkefnið er lítið, þ.e. Flatey, eftir dómi landlæknis. Aftur á móti eru hin héruðin, sem menn hafa ekki fengizt í, Árneshérað á Ströndum og svo Bakkagerði. Menn hafa ekki fengizt í þessi tvö héruð, sem ég nefndi, bæði vegna þess að þau eru fámenn og eins vegna þess að skortur er þar á heppilegu húsnæði. Það er þó talið líklegt, að hægt sé að fá menn þangað til sumardvalar, en erfiðara að fá þá til vetrardvalar, en einmitt þá er mest þörfin á sérstökum lækni, einkanlega í Bakkagerðishéraði, — talið, að það geti nokkurn veginn bjargazt að sumri til að hafa þar ekki sérstakan lækni, en mjög bagalegt og slæmt að vetri til. Á Ströndum er það svo, að þar er þörf á manni allt árið, en þó auðveldara um ferðir að sumri til, þegar líklegra er, að sérstakur læknir fáist, en erfiðara að fá mann til vetrarsetu. Að vísu er svo, að þessi læknafjöldi, sem fyrir hendi er nú, er sennilega eingöngu bráðabirgðafyrirbæri, þannig að það er ekki líklegt, að það endist nema eitt eða tvö ár, að því að mér er tjáð, að slíkt framboð sé. En það gefur þó færi á að átta sig betur á málinu og íhuga nánar, hvaða framtíðarráðstafanir þurfi að gera.

Málið er þess vegna ekki eins aðkallandi rétt í bili og það var, en engu að síður er sennilegt, að ákvæði þessa frv. séu til bóta, svo langt sem þau ná. Ég vil sérstaklega vekja athygli á viðbótarákvæði, sem sett var til bráðabirgða, þar sem segir: „Ríkisstj. er heimilt, til viðbótar heimildum, sem fyrir eru, að greiða allt að 300 þús. kr. árlega til þess að bæta læknisþjónustu í þeim héruðum, þar sem mestra úrbóta er þörf að dómi landlæknis.“ Með þessu ákvæði var mjög gengið til móts við skoðanir þeirra, sem töldu, að frv. að öðru leyti væri ekki fullnægjandi. Þeir deildu einkanlega á frv. af þeim sökum, að þar vantaði fyrirmæli um staðaruppbót, sem er flókið mál og getur leitt til slíkra afleiðinga, að ekki þótti rétt að setja um þau efni löggjöf þegar í stað. En með þessari fjárveitingu, sem þarna er veitt, er hægt að koma á móti til aðstoðar á ýmsa vegu. Hægt er að verja auknu fé til þess að bæta læknisbústaði, ef þarf. Hægt er að hjálpa til um þær ráðstafanir aðrar, sem í 3. gr. eru taldar, umfram það, sem þar er ráðgert, ef þarf. Einnig er þá hægt að borga læknum, ef sérstaklega stendur á, hærra kaup en lög annars standa til, ef það dæmist vera heppilegasta ráðið til þess að bæta úr brýnni þörf.

Ég vonast þess vegna til, að í því formi, sem frv. er nú eftir meðferð hv. Nd., geti það eftir atvikum talizt viðunandi lausn þessa vandamáls, eins og sakir standa. Hitt er mér ljóst, að það er ekki frambúðarlausn, en miðað við það ástand, sem er í dag, hygg ég að það ætti að duga og gengið sé til móts við þá gagnrýni, sem um upphaflega frv. var sett fram. Ég legg því til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.