08.03.1962
Neðri deild: 61. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

35. mál, atvinnubótasjóður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins tvö atriði í ræðu hv. 1. þm. Vestf., sem ég vildi gera aths. út af. — Hann sagði, að þetta fjármagn hefði ekki verið notað til að auka jafnvægi í byggð landsins eða viðhalda jafnvægi í byggð landsins, þegar ég og mínir félagar hefðum getað ráðstafað því. Þetta er alveg misskilningur. Ég efast ekkert um, að þetta er misskilningur hjá hv. þm. En þetta er alveg rangt, eins og hv. síðasti ræðumaður rækilega upplýsti, því að þetta fjármagn var einmitt notað til þess að leggja í þau byggðarlög, þar sem menn stóðu höllum fæti við að byggja upp nýtt atvinnulíf. Það var höfuðatriði málsins. En nú er þetta allt útþynnt orðið, eins og hann réttilega lýsti, og verður ekki neitt neitt, ef svo heldur áfram sem nú horfir um dýrtíðarvöxt og útþynningu á notkun fjárins. Ég er alveg sammála hv. 3. þm. Norðurl, e., Gísla Guðmundssyni, sem hélt fram þessu sjónarmiði, þó að ég sæi ekki ástæðu til að endurtaka það, sem hann hafði sagt um þetta.

En hitt atriðið, sem ég vildi leiðrétta hjá hv. þm., var það, að hann bar mér á brýn, að ég væri frekari í kröfum um fjárframlög í þessu skyni núna en ég hefði viljað samþykkja, þegar ég hafði nokkuð með fjármálefni landsins að sýsla. Þetta er alveg rangt hjá hv. þm. og mjög óverðskuldað af hans hendi að bera mér þetta á brýn, því að ég hef mælt hér með því, að það yrðu settar 25 millj. á ári í þennan sjóð. En þessi ár, sem hv. þm. meinar, t.d. árið 1957 og 1958, voru annað árið lagðar fram 131/2 millj. og hitt árið 15 millj. Ég var þá fjmrh. og var mjög fylgjandi því, að þetta fjármagn yrði lagt fram, og það tókst að útvega Það og var greiðsluafgangur í ríkisbúskapnum samt. Ég held því fram, að það sé sízt meira núna, miðað við breytt verðlag og aðrar ástæður, að leggja fram 25 millj. Það er því alveg rangt hjá hv. þm., að afstaða mín í þessu tilliti hafi nokkuð breytzt, þó að ég sé nú í stjórnarandstöðu, en hafi þá veitt með nokkrum hætti forustu fjármálastjórn ríkisins. Það er fullkomið samræmi í þessari afstöðu. Og ég verð að segja, að ég vorkenni ekki stjórninni eða þingmeirihlutanum að útvega 25 millj. í þessu skyni. Ég álít, að henni eigi að vera það allt eins mögulegt að útvega 25 millj. núna, eins og verðlag er orðið og umsetning, og við gátum þá útvegað 15 millj. og haft samt afgang. Í þessu sambandi mætti minnast á, þó að ég ætli ekki að fara út í almennar umr., að síðan 1958 hafa ríkistekjurnar verið meira en tvöfaldaðar. En við erum ekki einu sinni að gera tillögu um að tvöfalda þetta framlag samt sem áður, heldur aðeins að hækka það í 25 millj. Þannig mætti halda lengi áfram til að sýna fram á, að vitaskuld nær engri átt að halda því fram, að þjóðarbúinu sé nú ófært að leggja 25 millj. á ári til þessarar uppbyggingar. Slíkar röksemdir standast ekki.