09.04.1962
Efri deild: 83. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

35. mál, atvinnubótasjóður

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það virðist ekki vera mjög mikill ágreiningur um þetta frv. Það eru tvö atriði, sem hafa komið glöggt fram við þessa umr. Það er um nafn sjóðsins, og það er um þá fjárhæð, sem í frv. er og á að leggja til sjóðsins.

Ég verð að segja, að ég tel nafnið á sjóðnum ákaflega óheppilegt, að kalla þetta atvinnubótasjóð, af því að ég ætla, að tilgangurinn með þessum sjóði hafi alltaf verið nokkur annar en sá að bæta aðeins úr atvinnuleysi, en þannig skilur maður þetta nafn. Það er vitað mál, að á undanförnum árum hefur þessi sjóður veitt mikilsverða aðstoð við uppbyggingu atvinnufyrirtækja á ýmsum stöðum í landinu. Það hefur ekki verið bundið við það, að þar hafi verið atvinnuleysi, en skortur á fjármagni til að koma upp atvinnutækjum hefur hindrað atvinnuaukningu á þessum stöðum, þótt ekki hafi verið um atvinnuleysi að ræða þar.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ) kvartaði mjög undan því nafni, sem lagt er til af minni hl. félmn. að kalla sjóðinn: jafnvægis- og framleiðsluaukningarsjóður. Ég skal játa það með honum, að ég kann ekki heldur við þetta nafn. Það er ekki sérlega aðgengilegt. En mér hefði fundizt, að það hefði ekki þurft að dvelja lengi fyrir þm. að finna viðeigandi nafn, því að mér finnst liggja beint við að kalla hann jafnvægissjóð, og tilgangurinn með þessari sjóðmyndun frá upphafi var sá að skapa meira jafnvægi í byggð landsins. Fé úr þessum sjóði hefur verið varið til margs konar uppbyggingar, ekki sízt við sjávarsíðuna, bæði til að aðstoða menn við að eignast fiskiskip, vinnslutæki í landi og annað þess háttar, og hefur komið að miklu gagni. En það má nærri geta, að þar sem svo er ástatt, að fólk er flutt burt og mjög fátt eftir, þar er þörf á uppbyggingu til framleiðslustarfsemi margs konar, þótt ekki sé þar atvinnuleysi. Svo fátt getur fólkið orðið, að það verði ekkert atvinnuleysi, en það skorti atvinnurekstur fyrir það, svo að fólki geti fjölgað, fólk geti flutt þangað inn aftur. Þess vegna tel ég það mjög óheppilegt nafn að kalla sjóðinn atvinnubótasjóð, af því að nafnið hlýtur auðvitað að gefa nokkuð til kynna um það, hver tilgangurinn er með sjóðnum.

Hitt atriðið, sem ágreiningi hefur valdið, er fjárhæðin sjálf, sem sjóðurinn á að fá úr ríkissjóði á ári. Hér er lagt til, að það verði 10 millj. kr., og hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur játað, að það væri æskilegt, að þetta gæti orðið meira og þörf væri á meira. Já, það er enginn vafi á því, að það er þörf á meira, og ég vil benda :í það, að þetta er ekki lítil lækkun — raunveruleg lækkun — á því fé, sem áður var veitt þessum sjóði. Fyrir nokkrum árum voru þetta frá 131/2 millj. upp í 15 millj. á ári, en það, sem var 15 millj. fyrir 5–6 árum eða ekki það, það er allhá upphæð núna að verðgildi. Ég efast ekkert um, að 15 millj. fyrir 5 árum eru álíka mikil upphæð og 25–30 millj. núna, ef miðað er við verðhækkanir þeirra verðmæta, sem verið er að koma upp fyrir þetta lánsfé. Ef við lítum á, hvað skip hafa hækkað í verði, byggingar, vélar og hvað eina, þá mun ekki vera fjarri lagi, að 15 millj. samsvari 25 millj. núna.

Framsóknarmenn fluttu því í Nd. þá brtt. við frv., að fjárframlag ríkissjóðs væri 25 millj., og var þó ekki gert ráð fyrir raunverulega meira framlagi en var, þegar það var mest áður, ef maður miðar við verðgildi peninganna. Nú hefur minni hl. félmn. þessarar hv. d. flutt brtt. um aðeins 15 millj., sem ég býst við að sé gert til samkomulags til þess að bæta þó nokkuð úr, fyrst ekki fékkst samþ. till. í Nd. Mig undrar það því, að menn geti ekki fallizt á þessa till., því að ef hún verður felld, þá er verið að lækka raunverulega afar mikið það framlag, sem áður var.

Þá hefur verið bent á það, að atvinnuleysistryggingasjóður sé farinn að lána til framkvæmda í landinu og sé hann að ýmsu hliðstæður hinum væntanlega atvinnubótasjóði. Ég lít öðruvísi á þetta. Atvinnuleysistryggingasjóður lánar, að ég ætla, án tillits til þess, hvar á landinu er, og án tillits til þess, hvort Það er sérstaklega þarf á uppbyggingu einhvers atvinnulífs. Atvinnuleysistryggingasjóður er orðinn nokkurs konar banki, það sem hann nær. Að vísu lánar hann óneitanlega til mjög þarfra og góðra hluta. En hann hefur ekki það hlutverk, sem frá upphafi hefur verið ætlað þeim jöfnunarsjóði, sem nú á að heita atvinnubótasjóður.

Ég verð að harma það mjög, að svo skuli raunverulega verið dregið úr framlagi ríkissjóðs til þessa sjóðs, þar sem hann hefur hinu mikilsverðasta hlutverki að gegna, því hlutverki að auka á jafnvægi í byggð landsins. Ég vil því vona, að hv. stjórnarsinnar treysti sér til að bæta ofur litlu við það, sem nú er í frv., m.ö.o. samþ. þá brtt., sem hér liggur fyrir, að hækka framlagið upp í 15 millj. Það er jafnt og það var áður í krónutölu, en miklu minna að verðgildi, enda er þetta samkomulagstillaga.