31.10.1961
Efri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Sú breyting, sem gerð var á skattalögunum með því að lækka beina skatta og taka upp svo mikla söluskatta sem mönnum er kunnugt um, hefur sínar afleiðingar fyrir alla hina efnaminni í landinu og sérstaklega þá, sem hafa marga að fæða og klæða. Þessi mál voru mjög til umr. á síðasta þingi, og við þær umr. hafði ég aflað mér nokkurra upplýsinga frá Skattstofu Reykjavíkur um áhrifin af því að lækka tekjuskatt og útsvör og setja á söluskatta í staðinn, eins og þá var gert.

Samkvæmt þeim upplýsingum lá það fyrir, að þriggja barna fjölskylda með 50 þús. kr. árstekjur lækkaði í útsvari og tekjuskatti um rúmar 900 kr., en jafnstór fjölskylda með 200 þús. kr. árstekjur lækkaði í tekjuskatti og útsvari um rúmlega 30 þús. kr. M.ö.o.: hátekjumaðurinn fékk jafnmikla skattalækkun og 33 lágtekjumenn. Ég kalla þetta nokkur tíðindi, og ég kalla það nokkurn vott um það, hver stefnan er í sjálfri skattalagabreytingunni. Þegar svo mjög er gengið á hagsmuni þeirra, sem eru lágtekjumenn og erfiðast eiga, þá er alvara á ferðum að mínum dómi, og mér ofbjóða sannast að segja þær staðhæfingar, sem hv. stjórnarsinnar hafa haldið fram, að hæstv. ríkisstj. hafi afnumið skatta á almennum launatekjum. Það er nýstárleg aðferð að afnema skatta á þennan hátt, að auka dýrtíðina í landinu fram úr öllu hófi með sölusköttum, en lækka aftur á móti beina skatta kannske um nokkur hundruð krónur á sömu fjölskyldu. Ég minnist þess, að eitt blað stjórnarflokkanna, Alþýðublaðið, afsakaði þessa ráðstöfun með því, að það væru margar gildrur lagðar fyrir hátekjumenn. Ég hef nú nefnt eina slíka „gildru“. Hún er þessi: 30 þús. kr. skattalækkun á hátekjumanni, þegar lágtekjumaðurinn fær 900 kr. Það er meiri „gildran“ þetta! En þegar einn hátekjumaður er farinn að lækka í beinum sköttum yfir 30 þús. kr., verður manni að líta á það, sem hagstofan áætlar meðalfjölskyldu, vísitölufjölskyldu, að lifa á yfir árið, en það eru 4.2 menn. Það mun vera komið í rúmlega 70 þús. kr., sem til þess er ætlað, en það er óneitanlega góð hjálp, sem hátekjumennirnir fá, ef þeir fá um 30 þús. kr. endurgreitt af verðhækkunum, eða um 40% af öllum þeim lífsnauðsynjum; sem fjölskyldan þarf með til að lifa af. Ég held, að það sé ekki ofsögum sagt, að slíkir hátekjumenn græða og græða vel á skiptunum, að lækka svona í beinum sköttum á móts við hina tekjuminni. Það er varla hægt að kalla þetta öðru nafni en því, að hæstv. ríkisstj. hefur gert hátekjumennina „stikkfría“ í afleiðingum viðreisnarinnar með þessu móti.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. gagnrýndi það hér áðan, að fulltrúi Framsfl. í nefndinni væri á móti þessari framlengingu söluskatts, en kæmi ekki með tillögu um tekjuöflun í staðinn. Ég vil minna hv. frsm. á það, að það er ekki farið að afgreiða fjárl. enn þá, og þá fyrst er tímabært fyrir hann að vita það, þegar hann sér, að það hefur verið samþykkt að fella niður þennan söluskatt og ekki liggja þá till. fyrir frá þeim, sem þá till. gerði, um tekjuöflun í staðinn, því að þetta frv. er ekki fjárlagaafgreiðsla, og hann sér þess vegna ekkert um það nú, hvort eða á hvern hátt framsóknarmenn mundu vilja standa að því máli. Það er því að mínum dómi algerlega tilefnislaust, þegar hann er að tala um, að það sé ekki hægt að taka þetta alvarlega. Alvaran kemur fram, þegar fjárlögin verða afgr. (Fjmrh.: En það er ekki að sýna neina alvöru núna.) Ja, ég veit ekki, hvað hæstv. ríkisstj. finnst. Mig minnir, að þegar núv. stjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu, hafi þeir aldrei komið með neinar fjáröflunartillögur, þegar þeir voru að gera tillögur um útgjöld þeirrar ríkisstj., — eða man hæstv. fjmrh. nokkuð eftir því? (Fjmrh.: Já.) Nei, það held ég, að geti ekki verið. Ég vildi mælast til þess, að hann nefndi mér dæmi um það, þegar hann kemur hér í ræðustólinn á eftir. (Forseti: Við skulum ekki hafa samtöl í ræðunni)

En af því að hæstv. fjmrh. tekur fram í, dettur mér í hug að leita upplýsinga hjá honum um eitt atriði, sem kom fram í ræðu hans, þegar hann talaði fyrir þessu frv. Hann sagði, að það væri ætlun ríkisstj. að sameina söluskatta og tolla, ef ég hef tekið rétt eftir, með endurskoðun tollalaganna, sem stendur yfir. Er það þá ekki rétt skilið, að það bendi til þess, að hæstv. ríkisstj. hugsi sér að sameina þennan innflutningssöluskatt og verðtoll? Mér dettur þetta í hug, af því að það eru skyldustu álögurnar og söluskatturinn er nánast verðtollur í þessum skilningi. Ef það er meiningin, þá sýnist mér það benda til þess, að hann hugsi sér, að söluskattarnir verði varanlegir undir öðru nafni. En hann sagði annað, sem mér fannst miklu merkilegra en þetta. Hann sagði, að þá mundi verða hægt að lækka tollana verulega. Er nokkur möguleiki að lækka innflutningsgjöld með því að sameina tvo skatta í einn? Og ef það er hægt, af hverju hefur það þá ekki verið gert fyrir löngu? Ég skildi þetta ekki þá. Það getur verið, að ég hafi misskilið hæstv. ráðherra, en mér þætti vænt um, ef hann vildi skýra þetta fyrir mér, því að ég sé ekki nokkra leið til þess, að honum takist að lækka innflutningsgjöld með því að skella saman tveimur í einn, ef hann gerði ekki annað. Ég ætla að bíða eftir því, að hæstv. ráðherra láti mér í té þessar upplýsingar.