23.03.1962
Efri deild: 69. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

196. mál, þjóðskrá og almannaskráning

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Núgildandi lög um þjóðskrá og almannaskráningu voru sett árið 1956. Þá hafði allsherjarspjaldskráin, eins og Þjóðskráin Þá var kölluð, starfað í nokkur ár. Var það aðallega á grundvelli eins ákvæðis í tekjuskattslögum frá 1954 um, að gjaldendur skyldu skattlagðir þar, sem þeir væru taldir heimilisfastir skv. allsherjarspjaldskrá hagstofunnar hinn 1. des. á viðkomandi tekjuári. Starfsemi allsherjarspjaldskrárinnar var komin í fastan farveg, þegar þjóðskrárlögin voru sett 1956, en með þeim var hið nýja skráningarkerfi lögfest.

Reglur þjóðskrárlaganna hafa reynzt vel í framkvæmd, en ástæðan til þess, að nú er lagt fyrir Alþ. frv. til nýrra heildarlaga um þjóðskrána, er fyrst og fremst sú, að hagstofan hefur f.h. þjóðskrárinnar orðið við eindregnum tilmælum þjóðskjalavarðar og menntmrn. um að taka við vottorðagjöfum af þjóðskjalasafninu. Í sambandi við þessa breyt. þykir rétt að breyta nokkrum ákvæðum þjóðskrárlaganna til samræmis við breyttar aðstæður.

Efnisbreytingar eru mjög litlar í frv., þegar undanskilinn er flutningur vottorðsgjafa til þjóðskrárinnar og að niður er lögð hin sérstaka stjórn þjóðskrárinnar.

Allt frá því, að Þjóðskjalasafn Íslands eða Landsskjalasafn, eins og það hét áður fyrr, var opnað til almenningsnota um síðustu aldamót, hefur það verið háð þeirri kvöð að annast vottorðagjafir úr kirkjubókum safnsins, en þessi vottorð eru fæðingarvottorð, aldursvottorð, hjúskaparvottorð og dánarvottorð. Þessar vottorðagjafir hafa aukizt stórlega á síðustu áratugum og sívaxandi hluti af starfstíma safnvarða farið til þess að sinna þessu verkefni, sem verður að teljast óviðkomandi hlutverki safnsins. Afgreiðsla þessara vottorða hefur orðið til truflunar og mikilla óþæginda bæði fyrir starfsmenn safnsins og fræðimenn, sem Þar eru að störfum. Hins vegar eru engin vandkvæði á því fyrir þjóðskrána að taka við þessu verkefni. Hún hefur sitt eigið afgreiðslukerfi, og vottorðagjafirnar eru ekki tiltakanleg viðbót við þá upplýsingastarfsemi, sem fyrir er. Einhver stofnkostnaður mun fylgja breytingunni, sennilega þarf að gera handa þjóðskránni míkrófilmur af þeim blaðsiðum kirkjubóka frá 1890–1915, þar sem fæðingar eru skráðar, til þess að þjóðskráin geti látið í té fæðingarvottorð fólks, sem fætt er á þessu tímabili. Frá árinu 1916 eru hins vegar tiltækar á hagstofunni skýrslur presta um allar fæðingar á landinu, og eru þær fullnægjandi grundvöllur vottorðagjafa. Aukinn rekstrarkostnaður vegna yfirtöku þjóðskrárinnar á vottorðagjöfum verður lítill.

Það skal tekið fram, að vottorðagjafir presta halda áfram óbreyttar frá því, sem verið hefur. Aðrar breyt. á Þjóðskrárlögunum, sem felast í þessu frv., eru þessar: í stjórn þjóðskrárinnar eru nú sex menn, og þeir eru tilnefndir af hverjum eftirtalinna aðila: berklavörnum ríkisins, borgarsjóði Reykjavíkur, fjmrn., Hagstofu Íslands, Tryggingastofnun ríkisins og félmrn. Hinar fimm fyrst töldu stofnanir voru stofnaðilar þjóðskrárinnar, og félmrn. tilnefndi einn mann í stjórn hennar vegna sveitarfélaga utan Reykjavíkur. Þessi skipan yfirstjórnar þjóðskrárinnar var miðuð við það aðallega, að samkv. ákvæðum frv. um þjóðskrá, sem lagt var fyrir Alþ. 1956, áttu sveitarfélögin að standa undir verulegum hluta af rekstrarkostnaði hinnar nýju stofnunar. Við meðferð málsins á þingi varð á þessu sú breyt., að ríkissjóður tók að sér að greiða allan rekstrarkostnaðinn að undanskildum 1/10 hluta, er Tryggingastofnunin skyldi greiða. Af þessum sökum hefði legið beinast við að breyta þá einnig ákvæðum frv. um tilhögun stjórnar þjóðskrárinnar, en af því varð þó ekki, einkum vegna ótta við, að það mundi tefja afgreiðslu frv. Reynsla þeirra sex ára, sem liðin eru, síðan lög um Þjóðskrá voru sett, staðfesta það, að ekki er þörf á sérstakri stjórn yfir þjóðskrána, og er því lagt til, að hún sé lögð niður. Það er gert með samþykki allra þeirra aðila, sem fulltrúa eiga í stjórn þjóðskrárinnar.

Þá eru enn fremur felld niður ákvæði um, að árlega skuli gera kjörskrárstofna handa sveitarstjórnum, en það ákvæði er orðið úrelt vegna þess, að með lögunum frá 1959 um alþingiskosningar var ákveðið, að kjörskrár skyldu aðeins samdar, þá er kosningar ættu fram að fara. Sú breyt. var einmitt gerð vegna þess, að þjóðskráin getur með stuttum fyrirvara framleitt kjörskrárstofna fyrir allt landið.

Enn fremur er gert ráð fyrir að fella niður ákvæði um skil dánarvottorða o.fl., sem gert er ráð fyrir að komi síðar í frv. um dánarvottorð. Einnig eru fyllri og skýrari ákvæði um ýmis atriði, án þess að um efnisbreyt. sé að ræða.

Ég vænti þess, að þetta frv. geti gengið ágreiningslaust í gegnum hv. Alþ., og legg ég til, að því sé vísað til 2. umr. og hv. allshn.