28.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Svo sem frsm. meiri hl. hv. landbn. (BGuðm) sagði í ræðu sinni hér áðan, er engum efa bundið, að mál það, sem við höfum hér til meðferðar, er stærsta hagsmunamál landbúnaðarins í dag. Það er að sjálfsögðu undirstöðuatriði fyrir allar framkvæmdir í landbúnaði á næstu árum, hversu til tekst með grundvöll að stofnlánastarfsemi í þágu þessa atvinnuvegar. Og það er enn fremur ljóst, þó að menn kunni að greina á um einstök atriði þessa frv., að með því er gert stærra átak en nokkru sinni áður hefur verið gert til þess að tryggja til stofnlána í landbúnaði nauðsynlegt fjármagn í framtíðinni. Ég mun síðar nokkuð víkja að því efni í ræðu minni með hliðsjón af þeim áætlunum, sem frv. fylgja, um uppbyggingu stofnlánadeildarinnar. En áður en ég vík að því, langar mig til Þess að ræða nokkuð um þau viðbrögð, sem orðið hafa hér í þessari hv. d. og raunar einnig á öðrum vettvangi, hjá samtökum landbúnaðarins, í sambandi við afstöðu til þessa máls.

Það var mjög rétt, sem hv. frsm. meiri hl. landbn. sagði í ræðu sinni, að þetta mál er svo stórt hagsmunamál bændastéttarinnar, að þess hefði vissulega verið að vænta, að þó að menn kynni að greina á um einstök atriði þess, Þá yrði málið rætt af hófsemi og menn reyndu sameiginlega að tryggja það, sem sýnilegt er að vinnst, ef Þetta frv. verður að lögum.

Því miður verður að harma það, að í sambandi við þá gagnrýni, sem fram hefur komið á málinu, hefur þeirri gagnrýni verið hagað þannig af hálfu hv. framsóknarmanna, að það hefur í rauninni ekki verið stofnað til neinna málefnalegra umr. um málið. Ég skal að vísu taka það fram, að ræða hv. 5. þm. Austf. (PÞ) var hófsamleg, svo sem hans er venja í málflutningi, og hann hélt sig málefnalega við þær till., sem fluttar eru af hálfu fulltrúa Framsfl. í hv. landbn. En ég sé hins vegar ástæðu til að harma það, hvernig þær till. eru, vegna þess að það er augljóst mál, að þær eru ekki fram settar með það í huga að ná fram neinni samstöðu um lausn málsins, heldur eru þær settar fram til þess að reyna í gegnum þann málflutning og tillöguflutning að tryggja sér pólitíska vígstöðu. Þetta sé ég mjög ástæðu til að harma, því að ég hafði vænzt þess af þeim mönnum, sem sérstaklega telja sig vera vini landbúnaðarins, — og ég er alls ekki að véfengja það, að þessir ágætu menn séu Það, — að þeir tækju ekki þessu máli á þennan veg.

Mig langar nú til þess að færa nokkurn stað þeim orðum mínum, að hér sé farið meir af kappi en forsjá og ekki lagður sá grundvöllur að málefnalegum umr. um þetta mál, sem nauðsynlegt og æskilegt hefði verið vegna hagsmuna þeirra aðila, sem hér eiga mest í húfi.

Till. hv. framsóknarmanna eru auðvitað mjög einfaldlega upp byggðar, og það hefði verið næsta auðveit að leysa þetta mál, ef hægt væri að taka Þeim tökum í raunveruleika, sem þeir leggja til, á þann einfalda hátt einan að gera ríkissjóði að skyldu að leggja fram allt fjármagn, sem þarf til þess að byggja þessa sjóði upp, og á hinn bóginn að skylda Seðlabanka Íslands til þess að leggja fram það fé, sem til vantar, í lánum. Þetta er ósköp einföld aðferð. En auðvitað vita þessir menn það alveg jafnvel og ég, að þessar till. eiga sér engan grundvöll og enga stoð í veruleikanum og mundu aldrei hafa verið fluttar, ef flokkur þessara hv. þm. hefði verið aðili að ríkisstjórn, Og það, sem má segja að sé kátbroslegast við þessar till., — Þó að þetta sé miklu alvarlegra mál en svo, að maður geti í rauninni farið að líta á það broslegum augum, — það er, að allt þetta hefði vafalaust mátt gera miklu fyrr, ef það væri svo, að þessir hv. þm. teldu í alvöru, að það væri hægt að leysa vandann á þennan hátt. Það liti sannarlega öðruvísi út með hag landbúnaðarsjóðanna í dag, ef þeir hefðu notað áhrif sín, meðan þeir höfðu valdaaðstöðu í þjóðfélaginu, til þess að fá fram þetta stórkostlega nýja fjármagn til landbúnaðarins, sem hér er lagt til. Og þá Þyrfti sannarlega ekki í dag, ef þetta hefði verið gert fyrir mörgum árum, að kvarta og það réttilega um mikinn skort á lánsfé til handa landbúnaðinum. Þá liti Þetta allt miklu einfaldar og auðveldar út í dag, og það er í rauninni ástæða til að harma það, ef þetta er svona einfalt úrlausnar eins og þeir vilja vera láta í sínum till., að þetta skuli ekki hafa verið gert mörgum árum fyrr og bændum þannig forðað frá margvíslegum erfiðleikum, sem þeir hafa orðið að mæta fyrir þá sök, að þannig hefur verið að þessum sjóðum búið á undanförnum árum, að þeir hafa ekki getað lánað nema brot af því, sem þeir hefðu þurft að lána.

Auðvitað vitum við það allir mætavel, og það vita hv. flm. þessara till., að málið er ekki svona einfalt, og þess vegna hefur málið ekki verið leyst á þennan hátt á undanförnum árum. Það er ekki leysanlegt á þessum grundvelli, sem hér er lagt til að gera. Þess vegna endurtek ég það, að ég harma, að menn, sem ekki er ástæða til að halda annað en vilji bændastéttinni vel, skuli flytja jafnóraunhæfa tillögu og hér er um að ræða. Þeir leggja til og hafa gert að uppistöðu í sínum málflutningi, að 1% gjaldið sé niður fellt, og það sé mikil óhæfa, að slíkt gjald sé á lagt. Og þeir leggja ekki aðeins til, að það sé niður fellt, heldur einnig að gjald það, sem gert er ráð fyrir að neytendur greiði, verði einnig niður fellt, þannig að allar tekjur, sem eiga að koma til þessa sjóðs úr öðrum áttum en frá ríkissjóði, falli niður. í nál. hv. minni hl. landbn. er sagt, að 1% gjaldið sé sérstakur skattur, sem eigi að leggja á eina stétt, bændastéttina. Þetta er auðvitað fullkominn misskilningur. Þetta gjald er nákvæmlega sama eðlis og það gjald, sem sjávarútvegurinn á að bera, og það vill svo til, að um það gjald hafa verið að undanförnu miklar umr. hér í Alþingi, og þar hafa þeir gert mjög mikið úr því, hv. framsóknarmenn, að með gjaldinu á sjávarútveginn væru lagðar óhæfilegar kvaðir bæði á útgerðarmenn og sjómenn. Og Það er auðvitað mikill misskilningur að halda því fram, eins og hér var gert í kvöld, að þetta gjald á sjávarútveginn snerti sjómenn ekki, því að Þetta gjald er tekið af óskiptu, og Þar af leiðandi varðar það mjög kjör hlutarsjómanna og Þeir hljóta að borga að sínu leyti þetta gjald. Jafnframt er það auðvitað misskilningur, að þetta gjald komi inn í verðlagsgrundvöll sjávarafurða. Það er ekki um neinn slíkan verðlagsgrundvöll að ræða, vegna þess að það er aðeins landbúnaðurinn, sem hefur tryggingu að lögum í sambandi við verðlagsgrundvöll og verðákvarðanir eftir ákveðnum leiðum, þar sem kostnaður er tekinn til greina, þó að, — ég skal ekki út í þá sálma fara, — þó um það sé deilt, hvort það sé gert að öllu leyti, þá er þó gert ráð fyrir Því í lögunum, eins og þau eru. Sjávarútvegurinn verður hins vegar að keppa á erlendum mörkuðum með sína vöru og hefur enga útflutningstryggingu, eins og t.d. landbúnaðurinn hefur. Það er því ljóst, að að þessu leyti er það vitanlega nákvæmlega sama eðlis, þetta gjald, eins og gjald það, sem af sjávarútveginum er tekið til uppbyggingar á sjóðum sjávarútvegsins m.a., sem hefur valdið Því, að t.d. fiskveiðasjóður er í dag voldug stofnun og meira að segja fiskimálasjóður hefur eflzt svo, að það hefur verið talið fært að hækka lán úr þeim sjóði. Tekjurnar í þessa sjóði koma eingöngu frá atvinnuveginum sjálfum.

Það hefur verið vitnað til þess, að 1% gjaldinu á landbúnaðarafurðir, sem sé fyrst og fremst launaskattur á bændur, megi frekar jafna til þess, ef tekið væri gjald af launamönnum til þess að byggja upp veðlánakerfi til húsbygginga í kaupstöðum. Þetta má að nokkru leyti rökstyðja að sjálfsögðu á þann veg, og skal ég ekki mótmæla því. En á hitt er rétt að benda, þó að það sé kannske nokkuð annars eðlis, að bæði er það, að af tilteknum hópi launamanna á vissu aldursskeiði, að vísu bæði til sveita og við sjó, eru teknir 6% af þeirra tekjum, sem er skyldusparnaðurinn á vissu aldursskeiði, og enn fremur er stór hópur launamanna, sem borgar 4% af sínum tekjum í lífeyrissjóð. Þetta má segja að sé nokkuð annars eðlis að því leyti til, að fólkið fær þetta síðar á ævinni. Skyldusparnaðinn fær Það endurgreiddan, þegar vissum aldri er náð, og einnig borga lífeyrissjóðirnir sín framlög til fólks aftur á elliárunum. En að sjálfsögðu eru þetta engu að síður, á meðan á Þessu stendur, allverulegar kvaðir á þessu fólki, og það skerðir auðvitað það fé, sem hverju sinni er til ráðstöfunar hjá almenningi. Það fer æ meira í vöxt, að það séu fleiri og fleiri atvinnustéttir, sem borgi 4% af sínum launatekjum til lífeyrissjóðs, og Það er rétt í því sambandi að minnast á það, sem hv. frsm. meiri hl. landbn. gat hér um áðan og varpaði fram þeirri hugmynd, hvort ekki væri möguleiki í sambandi við eða í framhaldi af Þeim skatti, sem hér er gert ráð fyrir til landbúnaðarsjóðanna, að hagnýta þennan grundvöll að einhverju leyti til lífeyrissjóðs fyrir bændur. Ég tel sjálfsagt, að það mál verði rannsakað og athugað til hlítar. Það er flókið og vandasamt mál og oft búið um það að hugsa, hvernig væri hægt að finna grundvöll til slíks, og það er sérstaklega erfitt í sambandi við bændastéttina, vegna þess að þar er í rauninni enginn gagnaðili til þess að leggja fram á móti, svo sem gerist, þar sem eru vinnuveitendur og launþegar. En ég tel sjálfsagt, að það verði athugað til hlítar, hvort hægt væri að tengja þá hugmynd á einhvern hátt við það mál, sem hér er upp tekið. Það verður að sjáifsögðu fyrst um sinn að nota þetta gjald til þess að byggja upp stofnlánadeild landbúnaðarins. En ég er ekki fjarri því. að innan ekki langs tíma, miðað við það, að þessum tekjustofnum verði haldið, sjáum við, að stofnlánadeildin byggist allfljótt upp fjárhagslega, þannig að það mætti hugsa sér, að það væri hægt að tengja þetta á einhvern hátt saman við framkvæmd þeirrar hugmyndar að koma á lífeyrissjóði fyrir bændur. Þetta tel ég eðlilegt og er ekki í neinum vafa um, að þeir aðilar, sem þetta mál varðar, og þá fyrst og fremst hæstv. landbrh., og vonandi einnig, að bændasamtökin séu þar til samstarfs á skynsamlegri grundvelli en um þetta mál, — að þeir aðilar vilji að því vinna, að þetta verði athugað niður í kjölinn. Það er hins vegar, eins og ég sagði, miklu flóknara mál en svo, að það sé hægt að taka það inn í sambandi við afgreiðslu málsins á þessu stigi, enda yrði það að taka nokkurn tíma, að hægt væri að tengja þetta saman. En ef sá grundvöllur fengist undir þetta að einhverju leyti, þá er auðvitað eðlilegt, að hér er ekki um nein önnur gjöld að ræða en er eðlilegt og sjáifsagt að menn tækju á sig, og það er ljóst, að þó að það um eitthvert skeið yrði að öllu leyti látið renna til þess að byggja upp stofnlánadeild landbúnaðarins, þá er hér um svo stórkostlegt mál að ræða fyrir framtíðaruppbyggingu landbúnaðarins, að Það er furðulegt, að menn skuli telja það áhorfsmál, þó að ég viti hins vegar og geri ekki lítið úr því, hvaða kvöð þetta hefur í för með sér. En ég hefði talið, að a.m.k. væri ekki sæmandi forustumönnum landbúnaðarins, þó að það kunni ekki að vera hægt að gera þá kröfu til allra einstaklinga, sem um þetta mál hafa að segja, að þeir láti það sjónarmið eitt ráða að ala á óvinsældum þessa gjalds, sem auðvitað er auðvelt að fá fram, eins og í sambandi við öll gjöld, sem hafa kvaðir í för með sér. Ég hafði vænzt þess og áreiðanlega allir aðstandendur þessara mála, að það yrði af forustumönnum bændasamtakanna tekið öðruvísi á málinu og reynt að finna einhvern grundvöll til þess að mætast á og reynt að tryggja þann stóra vinning, sem fæst með þessu frv. að öðru leyti.

Það hefur verið að því vikið einnig hér í umr., að í rauninni sé ekkert eðlilegt við það að vera að safna með framlögum tekjum til þess að lána til landbúnaðarins, það megi ósköp vel gera það á þann hátt að taka lán, alveg eins og gert sé t.d. í sambandi við veðlánakerfi til húsbygginga. Hér er auðvitað á ferðinni mikill reginmisskilningur, vegna þess að veðlánakerfið einmitt býr að því og það háir stórkostlega þessari starfsemi allri, að það er byggt upp á þennan hátt. Það birtist m.a. í því, að vextir af lánum til húsbyggjenda verða að vera mjög háir til þess að mæta útgjöldum vegna vaxta, sem verður að greiða af þeim lánum, sem tekin eru. Og mönnum er vafalaust kunnugt um það, að meira að segja verða lántakendur að borga af vissum hluta lánanna vísitölutryggingu, sem er fullkomlega samsvarandi gengisáhættu eða getur verið það. Og enn fremur er þess að gæta, að lán til húsbygginga úr veðlánakerfinu eru miklu skemmri en byggingarsjóður sveitanna lánar í dag. Þau lán eru frá 15–25 ára, en byggingarsjóður sveitanna lánar til 42 ára. Og ég held, að það geti engum mönnum dulizt það, sem það mál skoða niður í kjölinn, að auðvitað er engin leið að byggja upp lánastarfsemi, sem einmitt, eins og réttilega hefur verið sagt, þarf að vera þess eðlis að geta lánað með óeðlilega lágum vöxtum, nema með því að tryggja viðkomandi sjóði sem mest eigið fé. Það liggur alveg í augum uppi. Og það, sem liggur að baki þessari lausn, sem hér er talað um á lánamálum landbúnaðarins, er ekki hvað sízt það, að með því að tryggja nægilegt eigið fé er hægt að hafa nokkurn veginn í hendi sinni vaxtakjörin án þess að tefla afkomu stofnlánadeildarinnar í hættu. Það er því alger forsenda fyrir því, að það sé hægt að hafa lága vexti, að hægt sé að tryggja sem mest eigið fé til stofnlánadeildarinnar.

Það var vikið að því hér af framsögumanni minni hl., að í rauninni væru mörg dæmi þess, að aðrar atvinnugreinar í þjóðfélaginu fengju af lánsfé þjóðarinnar og jafnvel ríkisframlög, sem væru langt umfram það, sem landbúnaðurinn fengi, og því væri ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir því. eins og hér er lagt til í tillögum þeirra minnihlutamanna, að þetta verði leyst eingöngu annars vegar með framlögum úr ríkissjóði og hins vegar með lánum frá Seðlabankanum. Og hann vék hér m.a. að mótvirðisfé. Nú vitum við, að það er gert ráð fyrir því, að landbúnaðinum sé tryggður helmingur mótvirðissjóðs, og það er í rauninni sá fasti kjarni, sem á er að byggja varðandi lánsfé. Og það er að sjálfsögðu ákaflega mikilvægt og mikils virði fyrir landbúnaðinn að fá þessa viðurkenningu, og ég vil segja, að það hafi verið sýnd ákaflega mikil tillitssemi með því að láta landbúnaðinn einan hafa helming af mótvirðissjóðnum og beri vissulega að þakka það og þar sé í rauninni landbúnaðinum gert þó betur en hinum tveimur meginatvinnuvegum þjóðarinnar, iðnaði og sjávarútvegi, varðandi þennan sjóð.

Það, sem hefur verið lýst yfir í sambandi við þetta mál, er m.a. það, að gerð verði gangskör að því að tryggja, að ekki verði vaxtahalli á þessum mótvirðislánum, eins og verið hefur til þessa og hefur verið, frá því að þau lán hófust, um 2%, sem er að sjálfsögðu stórkostlegur baggi fyrir sjóði landbúnaðarins. Þó að Það hafi ekki beint áhrif á ráðstöfunarfé sjóðanna, þá auðvitað versnar afkoma þeirra frá ári til árs vegna þessa vaxtahalla.

Þá var minnzt á ríkisábyrgðir og atvinnuaukningarfé. Um ríkisábyrgðirnar er það að segja, að það er alveg rétt, að minnst af þeim hefur fallið á ríkið vegna landbúnaðarins. En við skulum jafnframt gera okkur það ljóst, að það hefur í sambandi við sérstaka löggjöf um ríkisábyrgðir verið unnið af fjvn. Alþingis að athugun á, hvernig skuli með ríkisábyrgðirnar fara, og það er gert ráð fyrir því í þeim tillögum, að sáralítið af þessum ábyrgðum verði eftir gefið, heldur verði þær innheimtar, að vísu breytt í lán til nokkuð langs tíma, en meginhlutinn af þessu verði innheimtur, þannig að það er ekki ætlunin, að þeir, sem hafa fengið þessar ábyrgðir, geti haldið þessu fé hjá sér.

Um atvinnuaukningarféð er sömu sögu að segja. Það er að vísu ýmislegt, sem forgörðum hefur farið af því, í sambandi við neyðarráðstafanir út af atvinnuvandræðum í ýmsum kauptúnum og kaupstöðum, og voru tilfinnanlegust í því sambandi áföll, sem togararnir hafa orðið fyrir, meðan reynt var að halda þeim á þessum stöðum. En að öðru leyti hafa verið gefin út skuldabréf fyrir öllum þessum lánum, og það er gert ráð fyrir því í þeirri löggjöf, sem nú er hér til meðferðar í Alþingi og væntanlega verður samþykkt nú, að þau lán verði innheimt að allverulegu leyti, þannig að hvorugar þessar fjárveitingar úr ríkissjóði eiga að renna til viðkomandi aðila sem styrkur eða bein framlög ríkissjóðs.

Það er sagt, að það sé sjálfsagt og eðlilegt, að landbúnaðurinn njóti eðlilegs hluta af því fjármagni, sem á hverjum tíma sé til útlána í þjóðfélaginu. Þetta er út af fyrir sig rétt. En við skulum hins vegar gera okkur grein fyrir því, að á Þessu máli eru margar hliðar og það verður að hafa æðimikla hliðsjón af því. hvernig búið er að öðrum atvinnuvegum í því sambandi. Bankakerfið er þannig uppbyggt, að það hefur ærið nógu verkefni að sinna með að sjá fyrir rekstrarlánum til atvinnuveganna, og hingað til a.m.k. hefur ekki verið talið fært að byggja upp stofnlánastarfsemina nema að mjög óverulegu leyti með hinu almenna lánsfé bankanna.

Varðandi þá hugmynd, að Seðlabanki Íslands eigi að leggja fram fé, sem að vísu er gert ráð fyrir í tillögum hv. minni hl. að nú falli til veðdeildarinnar, þessi heimild hefur verið í lögum um fjöldamörg ár, það vitum við allir, og hefur aldrei verið hagnýtt og aldrei tekizt að hagnýta hana. Ég efast ekkert um, að það hefur verið vilji þeirra manna, sem hafa haft með yfirstjórn landbúnaðarmála að gera og lánasjóði landbúnaðarins í ríkisstj. að undanförnu, að hagnýta þetta ákvæði. En einhvern veginn hefur farið svo, að það hefur aldrei tekizt að hagnýta það, þannig að þessi árlegu framlög, sem var gert ráð fyrir frá Seðlabankanum, hafa á undanförnum árum reynzt dauður bókstafur. Og ég fæ ekki séð, hvernig er hægt að gera ráð fyrir, að það muni sérstaklega verða gerbreyting á því viðhorfi nú. Með Þessu er ég ekki að segja, að ekki sé eðlilegt, að Seðlabankinn hlaupi undir bagga með stofnlánadeildinni eða sjóðum landbúnaðarins. En það er a.m.k. alveg ljóst, að Seðlabankinn gerir ekkert í því efni, nema sjóðum landbúnaðarins verði komið á starfhæfan og rekstrarhæfan grundvöll. Mig undrar ekkert, þó að hann geri það ekki, því að að sjálfsögðu er það að reka sjóði á þann hátt, sem landbúnaðarsjóðirnir eru nú reknir, hrein hringavitleysa, sem hlýtur að enda með algerum ósköpum og upplausn. Og ég teldi það vera hreint ábyrgðarleysi í raun og veru af Seðlabankanum, ef hann ekki samtímis því. sem hann legði fram fé til stuðnings landbúnaðinum í stofnlánum, hreinlega heimtaði það, að gengið væri frá þessum sjóðum þannig, að einhver vitlegur efnahagslegur grundvöllur væri lagður að þeim. Og þegar þeir tala hér um það, að sú fullyrðing fái ekki staðizt, að lánasjóðir landbúnaðarins geti ekki fengið lánsfé, af því að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum þeirra, þá er þetta algerlega byggt á misskilningi, þessi fullyrðing, vegna þess að það er alveg ljóst, að ef ætti t.d. að leita að erlendu lánsfé til afnota fyrir sjóði landbúnaðarins, þá er það gersamlega útilokað, að nokkur erlendur aðili mundi við okkur tala og halda nánast, að við værum geggjaðir menn, ef við færum fram á, að yrði veitt lán til slíkra sjóða sem hér er um að ræða, miðað við þann grundvöll, sem þeir hafa nú. Og það hefur áður verið upplýst hér, að það lán, sem Seðlabankinn veitti á s.l. ári til þess að leysa brýnustu þörf í sambandi við stofnlán til bænda, var veitt með því skilyrði, að grundvöllur væri lagður að fjárhagslega traustri afkomu sjóða landbúnaðarins í framtíðinni. Og ég er í engum efa um það, að hvort sem um er að ræða löggjöf eða ekki, þá verði allt annað og ekkert sambærilegt viðfangsefni að tryggja stofnlánadeild landbúnaðarins það fé, sem hana vantar til viðbótar við sitt eigið fé, sem hér er lagt til að tryggja, ef málið verður afgreitt á þeim grundvelli, sem hér er lagður, og aðeins er um það að ræða að hlaupa undir bagga með viðbótarfé, sem stofnlánadeildina vanhagar um á næstu árum til Þess að leysa þær Þarfir, sem hún þarf að leysa. Ég óttast ekki, að það verði erfiðleikar á að brúa það bil, ef þessi trausti grundvöllur verður lagður, sem hér er gert ráð fyrir að leggja. Og ég held, að það hljóti að vera gleðiefni öllum þeim, sem fyrir landbúnaðinn vilja vinna, að geta horft fram á, að það öngþveitisástand, sem verið hefur á undanförnum árum í þessu efni, hverfi. Við vitum það allir, hversu óviðunandi á allan hátt það ástand er. Jafnvel þó að hægt sé að krafla saman eitthvert lánsfé, að það skuli hafa verið ár eftir ár undanfarið svo, að síðari hluta sumars hefst kapphlaup um það við tímann, — ég meina ekki blaðið Tímann, heldur tímann með litlu téi, — að afla lánsfjár til þess að geta leyst úr lánsfjárþörfinni fyrir áramót. Þetta er auðvitað gersamlega óviðunandi ástand, að það skuli vera þannig. Eins er um það, sem við stöndum andspænis í dag, að menn skuli hafa neyðzt inn á þær brautir, eins og var á sínum tíma gert, að taka erlent lánsfé í stórum stíl, af því að ekkert innlent lánsfé var fáanlegt. Þá datt víst engum í hug að láta ríkissjóðinn leggja fram allt fé í sjóðina, eins og hér er lagt til, og Seðlabankann eða Landsbankann, seðladeild hans. Þá varð að fara inn á þær brautir að fá erlend lán í stórum stíl, endurlána þau að sjálfsögðu, eins og varð að gera, gengisáhættulaust og standa síðan uppi með þá stórkostlegu áhættu, sem þessu fylgdi fyrir sjóðina, úr því að sú fráleita aðferð var höfð að láta ekki ríkið taka lánin og endurlána sjóðunum. Ef við eigum að standa áfram andspænis þessu vandamáli, að stjórn sjóðanna geti aldrei vitað fyrir fram, hvaða fé er til ráðstöfunar, fyrr en kannske nokkrum dögum áður en kemur til að veita lánin, Þá er hér um slíkt ástand að ræða, að ég get ekki skitið, að nokkrir menn, sem koma nálægt landbúnaði eða hafa umboð fyrir bændur, sem a.m.k. flestir hv. framsóknarmenn hafa meira og minna til lántöku og Þekkja þetta þess vegna af eigin reynd, — að þeir skuli telja viðunandi slíkt ástand eins og verið hefur í þessum málum.

Þegar við svo aftur komum að hinni hliðinni, hvort það er jafneinfalt og hér er lagt til að leysa þetta mál, að Það sé ekkert annað, sem þurfi, heldur en láta ríkissjóðinn bara leggja fram 25 millj. kr. á ári mótframlagslaust, þá held ég, að enginn af þeim mönnum, sem hefur orðað þessa till., sé svo skyni skroppinn að vita það ekki fullkomlega, að þessi leið er útilokuð, gersamlega útilokuð. Og þeim mundi áreiðanlega aldrei hugkvæmast að orða þessa tillögu, ef þeir gætu ráðið því í raun og veru, hver lausn þessa máls yrði. Og við skulum einmitt horfa á þá hlið málsins í fullri alvöru, að þetta er ekki eina viðfangsefnið. sem við er að fást í þjóðfélaginu. Það eru til fleiri stofnlánasióðir í þessu landi, og ég held, að það sé engin goðgá, þó að við a.m.k. létum okkur detta í hug. að það mundi ekki verða horft á það af talsmönnum iðnaðar og sjávarútvegs alveg mótmælalaust. að ríkissjóður legði fram með beinum framlögum 25 millj. á ári í stofnlánasióð landbúnaðarins. en 2 millj. í stofnlánasjóð sjávarútvegsins og 2 millj. í iðnlánasióð, þegar svo, t.d. eins og á sér stað með sjávarútveginn, er þannig ástatt, að sjávarútvegurinn leggur fram yfir 90%, eða allt að því 100% af því fé, sem safnað er til fiskveiðasjóðs eða lánasjóðs sjávarútvegsins á hverju ári. Ég held, að við hljótum að sjá í hendi okkar, að svona er ekki hægt að vinna að málum, og ég efa það ekki, að hv. flm. þessarar till. muni hafa haft þann áhuga á málum landbúnaðarins fyrr en nú, að þeir mundu vissulega hafa lagt drög að því, að þessi leið yrði farin miklu fyrr, ef hún hefði verið fær. Þeir hafa haft mjög góða aðstöðu til þess, hafandi lengst af bæði fjmrh. og landbrh. í sínu liði. Og það er nú ekki aðeins, að reynslan sanni það, að þessi leið sé ekki fær, ef maður gengur út frá sama áhuga hv. framsóknarmanna um að fara þessa leið undanfarin ár eins og þeir hafa nú, heldur hefur annað atriði ekki heldur verið fært og ekki verið framkvæmt, sem þó er miklu minna mál en þetta, og það er að láta ríkissjóð borga vaxtahallann, sem myndazt hefur árlega á lánum úr bæði mótvirðissjóði og öðrum lánum. Framlög ríkissjóðs hafa um mörg ár verið 4.1 millj. til beggja þessara sjóða. Vaxtahalli sjóðanna er miklu meiri en Þetta. Hann er um 9 millj. kr. nú á ári. Og það hefði þó verið það minnsta, að það hefði þó verið gengið frá því, að ríkissjóður greiddi jafnan þennan halla með hækkun á framlagi sínu árlega, eftir því sem vaxtahallinn óx. Það hefur ekki einu sinni fengizt. Og hvernig dettur mönnum þá í hug, að nú sé allt í einu kominn svo stórkostlega velviljaður aðili til landbúnaðarins, eftir að þeir eru sjálfir farnir úr stjórn, að nú sé einfaldlega hægt að leysa allt þetta mál með því að láta ríkissjóð borga alla skapaða hluti í sambandi við lánasjóðina? Þetta finnst mér vægast sagt oftrú, þó að ég viti, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur góðan vilja á því að efla landbúnaðinn, eins og líka þetta frv. sýnir.

Ég hef nú vikið að megintillögum þeim, sem hv. framsóknarmenn flytja í sambandi við þetta frv. Og mér hefur skilizt í rauninni á því, sem hv. 5. þm. Austf. (PÞ) sagði hér áðan, að afstaða þeirra til málsins velti á því, hvernig fer um þessar tillögur. Ég skil þá þau orð hans svo, að hann eða hans flokksmenn muni verða á móti Þessu frv., ef þessar tillögur verða feltdar. Sannast sagna furðar mig mjög á því, ef það er alvara hv. framsóknarmanna að taka þannig á þessu máli. Hvað halda þeir, að verði um lánamál í þágu landbúnaðarins, ef þessu frv. verður hafnað og ekkert gerist í sambandi við það öngþveitisástand, sem ríkjandi er í stofnlánamálum landbúnaðarins? Ég efast um, að þeir hafi hugsað þá hugsun til enda, hvaða afleiðingar það hefði. Nú í dag eru sjóðir landbúnaðarins gersamlega þrotnir að öllu fé, og það hefur ekkert fé verið til til þess að leysa þær þarfir, sem eru bæði í sambandi við vinnslustöðvarnar, þar vantar inn mikið fé, og einnig í sambandi við vélar ræktunarsambandanna. Ekkert af þessu hefur enn verið hægt að leysa. Ekkert fé er til lánveitinga á þessu ári og engin leið að fá neitt fé, ef áfram á að halda á þeim grundvelli, sem nú er í dag og raunverulega er ekki hægt að kalla grundvöll, heldur kviksyndi.

Ég satt að segja verð að lýsa mikilli furðu yfir því, ef hv. framsóknarmenn treysta sér til að taka þá afstöðu til þessa máls, þó að þessar tillögur þeirra verði felldar, sem ég veit að þeir láta sér auðvitað ekki til hugar koma að verði samþykktar, vegna þess að til þess eru þær allt of fráleitar og ekki settar fram á þann hátt, að það sé nokkur grundvöllur undir því, að hægt sé að mætast á neinn hátt og brúa það bil, sem hér er á milli þeirra skoðana, sem fram koma í frv., og þeirrar hugsunar, sem það byggist á, og svo þeirrar hugsunar, ef hugsun skyldi kalla, sem þessar tillögur byggjast á.

Ég skal ekki ræða mikið um hugleiðingar þeirra um gengishallann. Það hefur ekki verið komið inn á það, og gleðst ég yfir því. að menn eru þó fallnir frá þeirri fráleitu staðhæfingu að halda því fram, að gengishalla hafi verið létt af gjaldeyrisbönkunum með gengisbreytingunni, þegar þvert á móti allur gengishagnaður var af þeim tekinn til þess að jafna gengishalla ríkissjóðs. Þá má auðvitað færa rök fyrir því fullkomlega, að það hefði verið rétt að taka með gengishalla ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs og fiskveiðasjóðs, þegar gengislögin voru sett á sínum tíma. En hins vegar skulum við ekki loka augunum fyrir því, að þau gengisviðskipti, sem þar er rætt um, eru allt annars eðlis en þessi föstu lán, sem hér er talað um í sambandi við sjóði landbúnaðar og sjávarútvegs. Það var ekki létt gengishalla af neinum stofnunum eða aðilum, sem höfðu tekið föst erlend lán. Það, sem gerðist í gjaldeyrisbönkunum, var aðeins það, að það var jafnað til gengismismun í sambandi við hin venjulegu gjaldeyrisviðskipti bankanna, sem í gangi eru á hverjum tíma, en föst lán komu þar ekki undir. Látum svo vera, að þetta hefði verið hægt að gera, en þá kemur aftur fram sú spurning: Hvernig stóð á því, að engar raddir komu fram í þessa átt og engar tillögur komu fram um það? Það lá þó alveg ljóst fyrir þá, hve geysilegt áfall þetta mundi verða fyrir þessa sjóði, en það var ekki flutt nein till. um það mér vitanlega, að þessi gengishalli yrði tekinn með á þennan reikning. Og það vitum við líka mætavel allir, og skal ég ekki vera að saka einn né neinn um það, þetta eru aðeins staðreyndir málsins, að þegar yfirfærslugjaldið var lagt á, þá hafði það í för með sér tugmilljóna tap fyrir landbúnaðarsjóðina. Mér er kunnugt um, að það var vakin athygli á því af bankastjóra Búnaðarbankans, hversu alvarlega horfði með landbúnaðarsjóðina út af þessum ráðstöfunum. Það var ekki talið, að hægt væri að gera neitt þá, og sagt, að það yrði að bíða síns tíma, þannig að Það má segja. að það séu mörg samverkandi atriði, sem hér hafa komið til greina og valdið þessum erfiðleikum í sambandi við landbúnaðarsjóðina. Og það er auðvitað hægt að stæla um það fram og aftur, hver eigi þar sök og hver eigi þar ekki sök. En ég held, að það séu ákaflega ófrjóar umr. og ekki til þess fallnar að leysa þennan vanda, því að það er hægt að tilgreina mörg sakaratriði á báða bóga, ef út í það er farið.

Það liggur svo auðvitað í augum uppi, þegar við erum að tala um þetta gengismál. hversu fráleit sú till. er hjá hv. minni hl, að leggja til, að að vísu sé heimilað að taka erlent lán til sjóðanna eða til stofnlánadeildarinnar, — það er ekki lagt til, að það verði útilokað. heldur verði útilokað, að það megi lána Það með gengisáhættu. Þetta nær ekki nokkurri átt. Það verður þá fyrir fram að útiloka, að það sé hægt að taka erlend lán. Hver á að borga slíka gengisáhættu? Það gefur auga leið, að það er ekki hægt að finna neitt form fyrir því. nema þá beinlínis að ríkissjóður eigi að taka lán og endurlána án gengisáhættu, og ég veit ekki til, að hann taki nein slík lán, Þannig að við verðum þá að útiloka þann möguleika, að sé hægt að nota erlent fé í sambandi við lánastarfsemi landbúnaðarins. Og vissulega ber að því að stefna. En það stefnir vissulega ekki í þá átt, ef við eigum að láta allt fljóta sofandi áfram að feigðarósi og byggja þessa sjóði að verulegu leyti upp með lánsfjáröflun, sem getur aldrei orðið nema að takmörkuðu leyti á innlendum vettvangi, ef á að fara þá leið eina.

Það eru svo ýmis minni háttar atriði, sem brtt, hv. minni hl. fjalla um, svo sem um veðdeildina, fé til hennar, sem að vísu er ekki lítilvægt mál, en er auðvitað byggt upp á þann veg, sem þeir mætavel vita sjálfir að er erfitt að framkvæma. Annars er það auðvitað eitt þeirra mála, sem væri ella búið að framkvæma fyrir mörgum árum, meðan þeir höfðu yfirstjórn þessara mála sjálfir. Það er, eins og aðrir þættir þessa máls, ekki eins einfalt og setja það hér í nokkrum línum á pappír, að það skuli gerast bara á þann veg að skylda eina lánsstofnun til þess að leggja fram nauðsynlegt fé. Það er reynt að mæta þessu á raunhæfan hátt í frv. með því að heimila kaup á vaxtabréfum veðdeildarinnar að því marki, sem búnaðarþing hefur lagt áherzlu á að þyrfti að fá í veðdeildina. Við skulum jafnframt gera okkur grein fyrir því, að að vissu leyti léttist á veðdeildinni, því að það hefur verið reynt hingað til með veðdeildarlánum að létta t.d. vélakaup og ýmis önnur útgjöld hjá bændum, það hefur ekki eingöngu verið haldið sér að jarðakaupum, þannig að að vissu leyti léttist þarna á veðdeildinni, ef stofnlánadeildinni vex svo fiskur um hrygg eins og hér er lagður grundvöllur að, þannig að fjárþörf veðdeildarinnar, þó að hún vissulega sé mikil, verður þó minni en ella. Og ég hef þá trú, að einmitt með því að leggja þennan grundvöll að stofnlánadeildinni fáist skilyrði til þess að afla aukins lánsfjár til hennar með það í huga, að hægt verði að endurlána til veðdeildarinnar. Og þar sem það jafnan hefur verið venjan, að veðdeildin lánaði út á hærri vöxtum en stofnlánadeildin. ætti þetta að vera tiltölulega miklu auðveldara. mál en er að leysa þátt stofnlánadeildarinnar sjálfrar.

Um vextina skal ég ekki mikið ræða. Það er deilumál, eins og hv. frsm, gat hér um; hvað vextir eiga að vera. Það gefur hins vegar auðvitað auga leið, að það mundi fljótt verða fullkomið öngþveiti, ef ætti að lækka vexti stofnlánadeildarinnar án þess að lækka aðra vexti í Þjóðfélaginu, þannig að hún þyrfti að borga af þeim lánum, sem hún tekur, kannske tvöfalda vexti á við það, sem hún lánar út. Það mál lít ég svo á, að hv. flm. telji, að það hljóti að verða í samræmi við önnur vaxtamál og till. sé eingöngu flutt til þess að ítreka enn á þessum vettvangi þeirra skoðun um það, að vextir eigi að lækka almennt, þannig að ég eyði ekki mörgum orðum að því.

Varðandi bústofnslánasjóðinn skal ég ekki heldur margt segja. Ég minntist á það mál nokkrum orðum, þegar það frv. var rætt hér í hv. deild. Það er auðvitað ekki nema gleðilegt, að veitt sé aukið fé, og það hefur því miður ekki verið hægt að sinna því máli neitt varðandi bústofnslánin. Ég hef hins vegar ekki mikla trú á því, að það leysi neinn vanda að stofna nýja deild. Það er heimild í lögum um stofnlánadeildina til að veita bústofnslán, og ef væri hægt að fá eitthvert aukið fé, væri það gleðilegt og ágætt. En ég sé ekki, að það mundi bæta neitt úr skák að setja það í sérstaka deild, heldur rynni það til sameiginlegra þarfa stofnlánadeildarinnar.

Það er svo rétt að taka það fram, að það eru nokkur atriði, sem er nauðsynlegt að íhuga nánar í sambandi við þetta frv., áður en það fer út úr hv. deild. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þau atriði hér, en mun koma því á framfæri við hv. landbn. Ég geri ekki ráð fyrir, að það séu atriði, sem neinum deilum þurfi að valda, heldur er það í sambandi við lausn ákveðinna vandamála, sem þarf að vera hægt að ganga þannig frá frv., að sú lausn sé ekki útilokuð, og skal ég ekki frekar gera það að umtalsefni hér.

Ég hef nú kannske farið of mörgum orðum, en það var þó tilefni, sem til þess gafst, um þær tillögur, sem hv. minnihlutamenn landbn. hafa flutt hér í sambandi við þetta frv., og ég endurtek, að þrátt fyrir hófsamlega ræðu hv. 5. þm. Austf. lýsi ég mikilli hryggð yfir því. að Þeir mætu menn, sem þar að standa, skuli hafa tekið þetta mál á þann veg að falla algerlega í þá gildru að gera þetta að pólitísku áróðursmáli, en reyna ekki a.m.k. að kanna leiðir til þess að finna sameiginlegan grundvöll til lausnar á þessu stórkostlega hagsmunamáli bændastéttarinnar. En látum það nú allt vera. Þeir eru stjórnmálamenn og þurfa líka að hugsa um sinn flokk. En ég kemst ekki hjá því að láta hér í ljós enn þá meiri furðu á framkomu og afstöðu búnaðarþings. Ályktun þess er furðulegt plagg. sem tengi mun geymast og því miður fyrir búnaðarþing sennilega ekki gleymast. Og þessi virðulega samkunda, sem til þess hefur verið kjörin af bændum landsins að hafa forustu um hennar mál, hefur í þessu einu stærsta máli bændastéttarinnar brugðizt svo einkennilega við, að það er eins og meiri hl. búnaðarþings hafi verið gersamlega sleginn einhverri annarlegri blindu. Og það ber þó að virða það um önnur samtök landbúnaðarins, Stéttarsamband bænda, að afstaða þess er þó byggð á meiri hófsemi og meiri skynsemi, vil ég segja, því að skynsemin virðist hafa orðið einhvers staðar utangátta hjá hv. meiri hl. búnaðarþings, þegar þeir réttu upp hendur sínar með þeirri ályktun, sem þeir hafa frá sér sent og er birt sem fskj. með nál. minni hl. Það væri freistandi að ræða þessa ályktun búnaðarþings í einstökum atriðum, en það væri of langt mál, og skal ég ekki þreyta hv. þm. með því. En það er fráleitt að taka á þessu stóra máli á Þann veg, sem þar er gert, á þann óraunsæja hátt, sem er þó enn þá óraunsærri en hv. minnihlutamenn landbn. hafa þó gert hér að því leyti til, að þeir hafa þó orðað ákveðnar tillögur til lausnar á málinu. Þó að það sé ekki raunhæf lausn, þá sleppum því. en á pappír lítur það út sem lausn. En búnaðarþing hefur ekki talið þetta mál landbúnaðarins þess virði að leggja sig niður við að reyna að finna leiðir til þess að leysa málið. Það ræðir að vísu um það í fyrstu tillögu sinni, að það skuli létta af búnaðarsjóðunum gengishallanum, sleppum því. en síðar kemur firran: á sama hátt og gert hafi verið með gjaldeyrisbankana. Þetta vitum við, að er alrangt, og þetta hefðu ýmsir mætir menn á búnaðarþingi vafalaust getað upplýst, ef þeir hefðu kært sig um. Hitt er sjónarmið út af fyrir sig að létta af gengishallanum, sleppum því. Síðan er haldið áfram, að búnaðarþing geri kröfu til, að ekki þurfi að taka neina gengisáhættu af erlendum lánum. Hvernig dettur svona virðulegu þingi í hug að láta frá sér fara svona fjarstæðu? Það var þá einfaldast að segja, að ekki mætti taka erlend lán, því að auðvitað er það, eins og ég áðan sagði, fásinna að halda, að það sé hægt að taka erlend lán fyrir sjóði og þeir þurfi ekki að taka á sig gengisáhættu af lánunum. Önnur till. er þó kannske furðulegust af þessari ályktun, og þarf í rauninni ekki lengra að halda í ályktuninni. Það er sú hugkvæmni, að það sé hægt að leysa vandann með því. að stofnlánasjóðirnir fái frá Seðlabankanum fé hliðstætt því, sem ákveðið var í lögum um stofnlánadeild sjávarútvegsins 1946. Hafa menn nú heyrt annað eins! Stofnlánadeild sjávarútvegsins fékk þá 100 millj. kr. af gjaldeyrissjóði þjóðarinnar, sem hún þá átti, og var það talinn hluti sjávarútvegsins til uppbyggingar togaraflotans eftir stríðið af þeim gjaldeyrissjóði, sem þá var til, eins og allir vita. Þetta var eina framlagið, sem stofnlánadeildin fékk. Hún hefur aldrei fengið annað framlag, og það hefur verið þannig frá þessu máli gengið, að þetta fé er dregið inn, jafnskjótt og lánin endurgreiðast frá lántakendum. Og það er eiginlega ólýsanlegt, hvernig framámönnum landbúnaðarins dettur í hug, að það hefði verið hægt að leysa vandamál stofnlánasjóða hans með svipaðri lausn og þetta, ef þeir hefðu fengið 100 millj. kr. fyrir tíu árum og væri búið að draga meiri hlutann af fénu inn aftur. Það væri ekki ónýt hjálp. Og auk þess að vitna til þessa frv., að þessi lausn eigi að fást í dag, þá eru auðvitað ekkert sambærilegar aðstæður og voru 1946, og þetta er byggt á Þeim sérstöku aðstæðum, sem þá voru, að það var verið að ráðstafa stórum sjóði, sem þjóðinni hafði áskotnazt á stríðsárunum. Ef hv. búnaðarþing er ekki meira stórhuga í málum landbúnaðarins en svo að telja, að þetta gæti leyst vandamál stofnlánasjóða landbúnaðarins, þá mega bændur sannarlega fara að biðja máttarvöldin um að hjálpa sér eða bjarga sér undan vinum sínum.

Þetta eru tvö fyrstu atriðin í ályktun búnaðarþings. Og nánast er svo engin niðurstaða, það er nánast engin leið að komast að raun um það, hver er raunveruleg skoðun búnaðarþings á málinu í heild, því að allt framhald ályktunarinnar er hrein moðsuða og blandað inn í hana ýmsu öðru, sem kemur ekki þessu máli við. En ég get ekki stillt mig um að segja það, að það eru margir mætir menn, sem á búnaðarþingi sitja. En það fær mig enginn til að trúa því, að þessir mætu menn hafi, þegar þeir sömdu þessa ályktun, — ef þeir þá hafa samið hana sjálfir, sem ég efast stórkostlega um, að hún hafi ekki verið send úr ákveðinni flokksskrifstofu, — en þegar þeir a.m.k. greiddu atkv. um þessa ályktun, þá hafi það verið hagsmunir bændasamtakanna, sem þar sátu í fyrirrúmi, að hugsa sér það um jafnstórt mál og hér er um að ræða, að þá skuli ekki hafa verið lagður raunhæfari grundvöllur að ábendingum til Alþingis um meðhöndlun þessa máls en hér er gert. Og það eru áreiðanlega engar öfgar, þó að sagt sé, að með svona ályktun er virðulegt búnaðarþing að leggja grundvöll að því. sem ég harma mjög, að á því verði ekki tekið mark.

Herra forseti. Ég er nú þegar orðinn of langorður. En það eru mörg atriði, sem upp í hugann koma, þegar um þetta vandamál er rætt. Ég vék að því í upphafi míns máls, hversu stórkostlega mikilvægt mál það væri fyrir landbúnaðinn að tryggja grundvöll stofnlánasjóða sinna. Við vitum það í dag, að því fer fjarri, að jafnvel þó að væri hægt að starfrækja stofnlánasjóðina áfram á svipuðum grundvelti og verið hefur, sem er ekki hægt, en jafnvel þótt svo væri, þá vantar mikið á, að þeir geti sinnt sínu hlutverki. Það er nauðsynlegt að hækka lánin, þó að þau hafi að vísu verið hækkuð allverulega nú síðustu tvö árin, en þá höfðu þau staðið óbreytt síðan 1956 — flest lánin. En þó að þau hafi verið hækkuð nú síðustu árin um 25% að meðaltali og sum meira, þá vantar enn mikið á, að hægt sé að lána eins og lög gera ráð fyrir.

Það var minnzt á það hér í dag, og Það er ein af tillögum hv. minnihlutamanna, að lán til íbúðarhúsabygginga verði 75%, eins og var í lögunum. Með breytingunni, sem hér er, að fella Þetta allt undir 60% regluna, er auðvitað ekki ætlunin að draga úr þessum lánum. En það vitum við allir, að þetta ákvæði hefur aldrei verið framkvæmt, og það á vitanlega langt í land, að hægt sé að framkvæma það, þó að það vissulega væri æskilegt. Það hefur ekki verið lánað lengst af nema 60 þús. kr. út á hvert íbúðarhús. Nú er þessi upphæð þó komin upp í 100 þús. Auðvitað þarf að hækka það mikið enn, og þó á það auðvitað mjög langt í land, jafnvel þó að lánin tvöfölduðust, að það færi upp í 60% markið, hvað þá hærra. Það má segja, að það skipti hins vegar ekki miklu máli, hvaða prósenta er höfð, nema hvað prósentan kann að gefa mönnum rangar hugmyndir og falsvonir um það, hvaða lána sé að vænta. En þessi lán, sem eru í dag, þurfa að hækka, og ekki aðeins Það, heldur vita allir og a.m.k. Þeir, sem við landbúnað fást og fara með umboð fyrir bændur, hversu brýn þörf er að veita lán til vélakaupa, bústofnskaupa, og nú er eitt stórkostlegt mál, sem bændur þurfa að leysa, og það er í sambandi við heyverkun, og þar af leiðandi þyrfti að vera hægt að hjálpa bændum með súgþurrkunartæki. Þannig eru mörg viðfangsefni og margt annað, sem hér kemur til, sem er undirstöðuatriði fyrir búskap í sveitum, að hægt sé að veita lán út á. Þennan vanda þarf að leysa. Og það er trú mín, að ef þetta frv. verður samþykkt, ef tekst ekki að eyðileggja það á þann hátt að skapa þá tortryggni til málsins, að talsmenn þess og þeir, sem barizt hafa fyrir að koma þessu fram til hagsbóta fyrir bændastéttina, segi ekki, að það sé þá bezt að láta málið lönd og leið, sem ég vona þó að ekki gerist, þó að það væri kannske ekki að undra eftir viðbrögð búnaðarþings til málsins og undirtektir, þá er það trú mín, að ef þetta allt fer vel, þá muni með þessari lausn, sem hér er lögð til, vera hægt að horfa fram á aukin lán, ekki aðeins til þeirra framkvæmda, sem nú hafa verið veitt lán til, heldur til nýrra viðfangsefna í þágu landbúnaðarins. Og ég vil halda því íram, að á engan hátt geti menn í dag sýnt landbúnaðinum meiri aðstoð og meiri vinsemd heldur en leggja raunhæfan grundvöll að því, að hægt sé að leysa þetta stóra vandamál, sem flestir eða allir bændur eiga við að glíma, lánsfjárskortinn til uppbyggingar í sveitum landsins. En að lokum ítreka ég hryggð mína yfir því. að svo skuli hafa verið brugðizt við þessu máli sem hér hefur verið gert, annars vegar af hv. framsóknarmönnum, sem hingað til hafa þó talið sig sérstaka vini bænda og hefði mátt vænta að hefðu tekið þessu vandamáli með mestum skilningi, og hins vegar og þá ekki siður harma ég hina furðulegu afstöðu meiri hluta búnaðarþings, hvernig þar hefur verið við brugðizt. Ég skal ekkert segja um það, hvernig framtíðin mun dæma þetta mál. en ég er persónulega þeirrar skoðunar, að í framtíðinni muni talið, að með þessu frv. hafi verið stigið farsælt spor til hagsbóta íslenzkum landbúnaði.