12.04.1962
Neðri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

219. mál, Háskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Hæstv. forseti. Ég hafði flutt í menntmn. brtt. við frv. svo hljóðandi.

„Á eftir 1. gr. bætist við ný grein (2. gr.), svo hljóðandi: á eftir 2. málsl. 1. málsgr. 38. gr. laganna komi nýr málsliður, svo hljóðandi: Einn af prófessorunum í tannlæknisfræði skal hafa yfirumsjón með tannlæknaþjónustu í barna- og unglingaskólum landsins.“

Eins og hv. þm. vita, er það svo með marga af prófessorunum, sem eru við læknadeild háskólans, að þeir hafa ýmis önnur störf á höndum fyrir það opinbera, bæði yfirumsjón í sambandi við matvælaeftirlit og heilbrigðiseftirlit, læknisstörf í sambandi við geðveikraspítalann á Kleppi og í sambandi við landsspítalann, svo að Það er ekki óvenjulegt að fela prófessorunum hin og þessi opinber þjónustustörf líka.

Nú hafði ég lagt þessa till. fram og skilað henni í morgun ásamt stuttri grg. og nokkru fskj. með henni, en ekkert af þessu er komið úr prentun enn þá og óþægilegt fyrir hv. þm. að eiga að taka afstöðu um þetta mál, á meðan þau gögn liggja ekki fyrir, hins vegar málið orðið það brýnt, að nauðsynlegt er að ýta á eftir því. Því vildi ég nú hafa þann hátt á, ef það mætti verða til þess að flýta fyrir sjálfum framgangi málsins og gefa þm. um leið tækifæri til þess að íhuga þessa brtt. mína, að taka hana aftur nú til 3. umr. og mæla þá fyrst og fremst fyrir henni við 3. umr., þegar skjölin lægju fyrir, en láta málið hafa sinn gang nú, ef hæstv. forseti hefur ekkert við það að athuga frá fundarskapanna sjónarmiði. Þá mundi ég sem sagt taka þessa brtt. til baka núna og láta hana koma til atkv. við 3. umr., svo að málið geti haldið áfram.