15.03.1962
Neðri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um tekjustofna sveitarfélaga, er ærið mikill bálkur, enda er hér fjallað um í rauninni mikinn málaflokk, sem gilt hafa um allmörg lagaákvæði fram til þessa. Ég tel ástæðu til þess að minna á það hér nú við 1. umr. þessa máls, að Það er mjög óviðkunnanlegt og óeðlilegt að haga undirbúningi slíkra stórmála sem þessa máls og ýmissa annarra, eins og nú er farið að tíðka, á þann hátt, sem hér hefur verið gert. Sá háttur virðist vera tekinn upp, að hæstv. ríkisstj. eða þeir flokkar, sem að stjórn standa, skipa einn eða fleiri menn úr sínum hópi, úr stjórnarflokkunum, til þess að vinna að undirbúningi að stórum lagabálkum eins og endurskoðun skattalaga, endurskoðun sveitarstjórnarlaga, endurskoðun tollskrár eða annars þess háttar. Það er unnið af skiljanlegum ástæðum í langan tíma að undirbúningi og athugunum í sambandi við þessar breytingar. Af þessu hlýzt, sem líka er aðeins eðlilegt, allmikill kostnaður, sem auðvitað er greiddur af ríkinu, þeim mönnum, sem til þess arna hafa verið valdir af stjórnarflokkunum. En síðan er Þessum stóru lagabálkum fleygt fyrir Alþingi, þeir teknir til umræðu, eftir að þingmenn hafa haft þessi frumvörp í höndunum aðeins skamman tíma, og þar með eru stjórnarandstöðuflokkarnir, sem hafa ekki átt kost á því að vinna að undirbúningi slíkra stórmála sem Þessara, að verulegu leyti sviptir möguleikum til þess að geta látið skoðanir sínar koma fram í slíkum stórmálum. Ég vil finna að þessu almennt séð. Það má segja að vísu, að það sé ekkert verra með þetta frv. en nokkur önnur, en ég tel, að Þessi vinnubrögð séu röng, séu óeðlileg og það eigi að forðast Þetta í framtíðinni. Þegar endurskoða Þarf slíka lagabálka eins og þann, sem hér er nú til umr., þá er miklu eðlilegra að haga endurskoðuninni þannig að gefa þingflokkunum kost á Því að eiga sína fulltrúa við endurskoðunina. Þá mundi kannske líka vera hægt að komast fram hjá nokkrum árekstraratriðum, sem annars geta valdið óþarfatöfum við afgreiðslu málsins, þegar inn í þingið kemur. Það verður líka að segja Það eins og það er, að það er næstum að segja engin aðstaða til þess fyrir þingmenn, sem verða að sinna hér afgreiðstu margra mála í senn, að fá allar þær upplýsingar við afgreiðslu málsins hér inn í Alþ. í slíkum stórmálum sem þessum, sem þeir eðlilega þurfa á að halda, þegar svona mál eru til meðferðar.

Ég skal svo víkja hér nokkuð að þessu máli sem heild, eins og það kemur mér fyrir sjónir nú hér við 1. umr. málsins. En ég hlýt að hafa þann fyrirvara á, að ég hef ekki haft tíma til að kynna mér það niður í kjölinn og hefði þurft að hafa miklu lengri tíma til að geta kynnt mér Þar ýmis einstök atriði.

Ég hygg, að ástæðurnar til þess, að þetta frv. hefur verið flutt af ríkisstj., séu fyrst og fremst þær, að forustumenn sveitarfélaganna í landinu hafa á undanförnum árum hvað eftir annað óskað eftir því, að Alþ. veitti bæjar- og sveitarfélögum nokkra nýja tekjustofna til viðbótar við þá, sem bæjar- og sveitarfélögin hafa búið við. Forustumenn sveitarfélaganna hafa kvartað undan því, að Það væri í sífellu verið að leggja ýmiss konar útgjöld á sveitarfélögin af Alþ., en að hins vegar hefðu sveitarfélögin varla aðra tekjustofna en hin beinu útsvör. Ég hygg, að flestir hafi viðurkennt þetta sjónarmið sveitarstjórnarmanna, að það var brýn nauðsyn á því að taka tekjustofna sveitarfélaganna til sérstakrar athugunar með það fyrir augum að bæta nokkuð aðstöðu sveitarstjórnarmanna í þessum efnum.

En þegar litið er svo á þetta frv. út frá þessu sjónarmiði, þá verð ég að segja það, að mér sýnist, að harla lítið komi út úr þessu í þá átt að bæta aðstöðu sveitarstjórnarmanna með tekjuöflun. í frv. er gert ráð fyrir því, að tekjustofnar sveitarfélaga verði fjórir. Í fyrsta lagi fasteignaskattur. Hann er nú í framkvæmd í öllum aðalatriðum, og þessi breyting, sem hér er gert ráð fyrir, mun ekki verka á nokkurn hátt til að bæta aðstöðu sveitarstjórnarmanna varðandi tekjuöflun. Í öðru lagi gerir þetta frv. ráð fyrir svonefndu aðstöðugjaldi, en þá um leið fyrir Því, að veltuútsvörin, sem áður voru, verði felld niður. Það er beinlínis sagt í grg. frv., að Það megi búast við því, að þetta aðstöðugjald muni gefa bæjar- og sveitarfélögunum heldur minni tekjur en veltuútsvörin hafa gert. Ekki get ég séð, að út úr þessu geti komið miklar bætur fyrir sveitarstjórnarmenn. Þá er í þriðja lagi rætt um framlög úr jöfnunarsjóði, en þar er um hluta af söluskatti að ræða, sem í gildi hefur verið, og svo um landsútsvör, sem eru alger nýjung í þessu frv. Og í fjórða lagi eru svo hin almennu útsvör, sem hafa verið í gildi.

Mér sýnist því, að hér sé um það að ræða. að aðeins sé hægt að segja, að um einn lið sé að ræða, sem ætti að geta aukið nokkuð við tekjustofna sveitarfélaganna frá því, sem verið hefur. Og það er sá vísir að landsútsvörum, sem er gert ráð fyrir í þessu frv. En ósköp er það mjór vísir, sýnist mér, þessi landsútsvaravísir, sem hér er þó fitjað upp á. Það er gert ráð fyrir því í grg. frv., að þessi landsútsvör geti numið væntanlega í kringum 29 millj. kr. á ári fyrir öll sveitarfélögin í landinu. En tekjustofnarnir munu hafa verið fyrir sveitarfélögin þó nokkuð mikið á fjórða hundrað millj. kr. á ári, svo að skammt dregur nú þetta nýja ákvæði um landsútsvör upp á 29 millj., og enn þá skemmra dregur það, þegar þess er svo gætt, að innifalin í þessum 29 millj. kr. eru að verulegu leyti útsvör, sem bæjar- og sveitarfélögin hafa haft til þessa. Af þessum 29 millj. kr. er gert ráð fyrir því að taka af olíufélögunum í landinu um 10 millj. kr., en þau hafa borið þessi gjöld og sennilega hærri en þarna er gert ráð fyrir. Og þau gjöld frá olíufélögunum hafa dreifzt til fjölmargra sveitarfélaga í landinu, þótt nú eigi að skipta Þessari upphæð með nokkuð öðrum hætti. En þar er enginn stórmunur á.

Þá er gert ráð fyrir því, að í gegnum þessi landsútsvör komi nokkur upphæð frá Afengisog tóbakseinkasölu ríkisins og nokkrum ríkisfyrirtækjum. Flest þessi fyrirtæki hafa borið slík gjöld áður til vissra sveitarfélaga, en nú á að skipta þessum upphæðum út með nokkuð öðrum hætti, og örfá ný koma þarna inn. Sem sagt, mér sýnist, að það geti varla verið um það að ræða, að hægt sé að segja, að þetta frv. um tekjustofna sveitarfélaga geri ráð fyrir neinum nýjum tekjustofnum fyrir sveitarfélögin eða bæti þar neitt úr frá því, sem áður hefur verið. Ég dreg því þá ályktun af þessu við fyrstu athugun, að málið leysi að mjög litlu leyti þann vanda, sem við var að glíma.

En felast þá ekki neinar teljandi breytingar í þessu frv., þó að það leyst ekki þennan vanda sveitarstjórnarmanna um nýja tekjustofna? Jú, það eru nokkrar breyt., sem er að finna í þessu frv., að mér sýnist. Ein er þó alveg yfirgnæfandi stærst, og hún er sú, að það á að leggja niður veltuútsvörin, sem í gildi hafa verið og fært hafa sveitarfélögunum í landinu í kringum 75 millj, kr. á ári í tekjur af ca. 350–400 millj., sem útsvörin hafa numið alls. Nú á að leggja þetta niður og taka upp nýtt gjald í staðinn, sem heitir aðstöðugjald. Og hvaða munur er á þessu aðstöðugjaldi og veltuútsvarinu, sem í gildi hefur verið? Jú, mér sýnist, að aðalmunurinn á þessu tvennu sé sá, að aðstöðugjaldið verður þannig í framkvæmd, eins og hér hefur verið sagt af öðrum, sem talaði á undan mér, að það muni í langflestum tilfellum koma fram eins og nýr söluskattur, skattur til verðhækkunar á vörum og þjónustu í landinu, þ.e.a.s. það aðstöðugjald, sem lagt verður t.d. á verzlanir í staðinn fyrir veltuútsvarið áður. Verzlanirnar fá aðstöðu til þess að velta þessu nýja gjaldi af sér sem kostnaðarlið inn í vöruverðið. Verzlanirnar í landinu eiga því ekki að borga af sinni hálfu neitt útsvar til sveitarfélaganna t þessu formi. Verzlanirnar eiga eingöngu að innheimta þetta gjald af almennum neytendum í landinu, þeim, sem verzla við verzlanirnar. Þetta hlýtur því að verða til þess, að almennt vöruverð hækkar af þessum ástæðum, en gjaldinu er létt af t.d. verzlunum.

Sama er að segja um iðnaðarfyrirtæki, sem selja framleiðslu sína á innlendum markaði. Þau geta velt þessu af sér út í hækkað vöruverð, og almenningur í landinu á að borga þennan hluta af útsvörunum eins og hinn hlutann. En hins vegar verður þetta svo, að t.d. sjávarútvegurinn eða þær atvinnugreinar í landinu, sem aðallega framleiða fyrir erlendan markað, verða að bera gjaldið að fullu og öllu, alveg eins og þær þurftu að bera veltuútsvarið áður. Þær verða sjálfar að borga það af sínum hluta. Þær geta ekki velt því af sér. Fiskibátur, sem fær að bera þetta aðstöðugjald í staðinn fyrir veltuútsvarið áður, verður að taka á sig aðstöðugjaldið og getur vitanlega ekki velt því yfir á neinn annan, því að þar markast tekjurnar við framleiðsluna og hið erlenda markaðsverð á hverjum tíma. Aftur á móti losnar verzlunin við veltuútsvarið. sem hún bar áður og þurfti að borga og gat ekki velt af sér, því að það var bannað. Hún losnar við veltuútsvarið, en innheimtir í staðinn fyrir sveitarfélögin þetta aðstöðugjald með því að hækka allar vörur og þjónustu í verði. Þetta er talsvert gott fyrir verzlunina í landinu, það sé ég, og þetta er talsvert gott fyrir iðnaðarfyrirtæki, en bótin í þessu fyrir t.d. útflutningsfyrirtæki er ekki mikil. Þau sitja áfram eftir með þetta gjald.

Eins og ég sagði áðan, sýnist mér, að þetta sé í rauninni stærsta breyt., sem þetta frv. felur í sér. Raunverulega er um það að ræða að létta gjöldum nokkuð, t.d. á verzlunarfyrirtækjum, iðnrekstri, sem selur framleiðslu sina hér á innlendum markaði, og ýmsum slíkum aðilum. sem selja þjónustu. Þeir losna við gjald, sem á þeim hvíldi áður og var hluti af þeirra útsvari til sveitarfélaganna, en útflutningsfyrirtækin sitja uppi með alveg sams konar gjald og veltuútsvarið var. En þó er hætt við því, að sveitarfélögin fái þarna eitthvað nokkru minna, sýnist mér, heldur en þau hafa fengið út úr veltuútsvarinu.

Það hefur oft verið sagt um veltuútsvarið, að það hafi verið og sé ósanngjarnt. En ég get nú ekki annað séð en flestir gallar veltuútsvarsins komi einnig fram í þessu svonefnda aðstöðugjaldi. Gallarnir, sem menn fundu við veltuútsvarið, voru þeir aðallega, að þar væri verið að skattleggja fyrirtæki án tillits til þess, hvort fyrirtækin hefðu tekjuafgang til þess að greiða gjöldin með. Þetta getur auðvitað alveg eins komið út úr aðstöðugjaldinu, að aðstöðugjald verði lagt á aðila, sem sannanlega er með taprekstur. Mér sýnist, að það sé engu líkara en þeir, sem að samningu þessa frv. hafa staðið, hafi þarna meira verið að leita eftir því að leysa vandamál tiltekinna atvinnugreina og tiltekinna aðila í landinu, losa þá nokkuð undan gjöldum, sem þeir þurftu að bera áður, heldur en hitt, að þeir hefðu það í huga, sem ég held að hefði átt að vera aðalástæðan til þess, að við þessu máli var hróflað, en það var að reyna að auka nokkuð tekjur bæjar- og sveitarfélaganna í landinu.

Ég vil líka taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að mér sýnist, að álagning þessa aðstöðugjalds, þar sem miða á við útgjöldin, en ekki tekjurnar, hljóti að koma mjög einkennilega út í ýmsum tilfellum og mjög ósanngjarnlega. Mér er það ofarlega í huga í þessum efnum, af því að það er kannske aðalatvinnureksturinn í mínu byggðarlagi, stærsti hluti veltuútsvara þar hefur einmitt verið á útgerðarrekstri. Það þótti ekki fært að sleppa útgerðinni í mínu byggðarlagi algerlega við öll útsvör, en þannig hefði það orðið, hefði átt að leggja eingöngu á tekjuútsvör, vegna þess að mikill hluti útgerðarinnar hefur ekki sýnt á reikningsuppgjöri sínu neinn teljandi hagnað á undanförnum árum, og því var vitanlega gripið til þess að leggja þar á veltuútsvör, og veltuútsvörin voru miðuð við brúttó-aflamagn, t.d. fiskiskipa. Nú á ekki að leggja brúttó-aflamagnið til grundvallar, heldur á að leggja til grundvallar útgjaldaupphæðina hjá hverjum og einum, þannig að vel getur svo farið, að sá, sem er með mestan hallarekstur og á erfiðast, beri hæst aðstöðugjald, og mér sýnist, að það sé alveg eins líklegt, að þannig fari það viðvíkjandi útgerðinni, eins og á hinn veginn. Ég efast því mjög um, að þetta nýja aðstöðugjald verði langlíft, að mönnum litist á að leggja þetta til grundvallar, að miða við rekstrarútgjöldin það veltugjald, sem á að leggja á þennan rekstur. Og mér sýnist, að gamla formið, sem í gildi hafði verið áður, veltuútsvörin, hafi verið eðlilegra en þetta aðstöðugjald, eins og það kemur mér fyrir sjónir.

Ég sagði það hér áðan, að um einn nýjan lið væri að ræða í þessu frv., þar sem von væri á nokkurri bót fyrir sveitarfélögin með nýjan tekjustofn frá því, sem verið hefur, en það er sá vísir til landsútsvara, sem frv. gerir ráð fyrir. En þó að þessi landsútsvör nái skammt, þá tel ég, að þau séu í rétta átt, og Það ber að meta það, það sem það nær. En ég skil ekki, hvernig stendur á því, að það skuli ekki hafa verið haft nokkru víðtækara en frv. gerir ráð fyrir, fyrst landsútsvarið var tekið upp á annað borð.

Mér sýnist, að það hafi verið full ástæða til að leggja á landsútsvar, sem kæmi til skipta á milli sveitarfélaganna í landinu almennt, t.d. á samtök eins og hin almennu sölusamtök framleiðenda í landinu. Nú er þetta svo, að það er lagt útsvar hér í Reykjavík á t.d. stofnun eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, þó að þar sé aðeins um að ræða sölusamtök fjölmargra frystihúsa, sem staðsett eru úti um allt land. Ég álít, að það hafi verið fullkomlega eðlilegt, að útsvar þessarar stofnunar hefði átt að ganga inn í landsútsvarið og skiptast á milli sveitarfélaganna í landinu almennt. Og sama er að segja um önnur slík landssamtök. Hið sama er að segja um alla heildverzlun. Heildverzlun í landinu er þannig, að það er ákaflega eðlilegt, að það gjald, sem á hana er lagt, renni einmitt í þann sjóð, sem landsútsvörin eru látin renna í, og slíkt komi til skipta fyrir sveitarfélögin í landinu almennt. Einnig sýndist mér, að það væri ástæða til þess að láta ýmsa þá aðila, sem oft hefur verið rætt um áður, bera nokkur útsvör, eins og t.d. banka og vátryggingarfélög og hin stóru, atmennu skipafélög, láta þessa aðila bera nokkur útsvör, sem kæmu einmitt í landsútsvörin til almennra skipta. Af einhverjum ástæðum hefur hæstv. ríkisstj. ekki treyst sér til þess að taka þetta upp að þessu sinni. En ég held, að það hefði verið miklu réttlátara að taka þetta upp í landsútsvörin en sumt af því, sem þar er tekið upp. Ég fyrir mitt leyti hefði miklu fremur hikað við að taka inn í landsútsvörin útsvör t.d. af síldarverksmiðjum ríkisins, sem hér er gert ráð fyrir að taka inn í landsútsvörin. Síldarverksmiðjur ríkisins hafa hingað til greitt þetta litla umsetningargjald til þeirra staða, þar sem verksmiðjurnar eru staðsettar, og ég tel, að til þess séu mikil og almenn rök, að svo sé. Það sést bezt á því, þegar gerður er samanburður á því, að nokkur sveitarfélög hafa eigin síldarverksmiðjur, sem reknar eru á alveg hliðstæðan hátt og síldarverksmiðjur ríkisins út af fyrir sig. Þau sveitarfélög njóta auðvitað góðs af útsvarsálagningu á þessar síldarverksmiðjur, en síldarverksmiðjur ríkisins eru á þennan hátt teknar út úr og lagt gjald á þær sem landsútsvar. Ekki vil ég þó mótmæla þessu fyrir mitt leyti, en mér sýnist, að það sé miklu hæpnara að taka þau fyrirtæki inn í þetta en t.d. að taka heildverzlun í landinu almennt.

Þá er hér eitt atriði, sem ég vildi minnast á við þessa umræðu málsins og mér þykir heldur andkannalegt í þessu frv. og ég kann illa við, en það er það ákvæði, að skattstjórar séu að leggja útsvörin á, að vísu samkvæmt reglum, sem sveitarstjórnirnar setja þar um. Ég held, að þetta verði mjög bögglingslegt í framkvæmd og óeðlilegt. Þegar sveitarstjórnir hafa kosið sínar framtalsnefndir í staðinn fyrir niðurjöfnunarnefndirnar, sem starfað hafa, og þessar nefndir hafa farið yfir framtölin og ákveðið að fullu og öllu þær reglur, sem leggja á eftir í sveitarfélaginu, þá liggur dæmið í rauninni fulluppgert fyrir manni. Það er í rauninni lítið annað að gera en afskrifa þetta, þegar búið er að ákveða reglurnar og fara yfir framtölin. Og ég sé enga ástæðu til þess að fara þá að senda þessi gögn, jafnvel um alllanga vegalengd á þann stað, þar sem skattstjórinn hefur sína aðalbækistöð. Slíkt mundi aðeins tefja fyrir, valda óþarfakostnaði, og a.m.k. væri ekki ástæða til, sýnist mér, að gera það, ef sveitarstjórnir óska ekki eftir því. Hvers vegna mátti þá ekki þetta ákvæði vera þannig í lögunum, að heimilt væri að láta skattstjórana reikna út skattinn, ef sveitarstjórnir óskuðu eftir því? Nei, en í stað þess er þetta sett þannig upp í frv., að það er sagt, að skattstjórarnir skuli gera þetta. Annað virðist ekki vera heimilt, nema í hinum smæstu sveitarfélögum, sem sérstök ákvæði gilda um.

Ég er einnig á móti þessu vegna þess, að mér sýnist, að með þessu sé verið að fikra sig í þá áttina, — en ég er mjög á móti öllu slíku, —- það sé verið að fikra sig í þá áttina, að embættismenn, skipaðir af ríkinu, séu að seilast eftir að blanda sér í innri mál sveitarfélaganna, sem snerta Þessa álagningu. Ég álít, að sveitarfélögin eigi innan þess ramma, sem búið er að leggja af löggjafanum, að fá að vinna þessi verk sjálf. En ég býst við því eða ég óttast það, að næsta skref á eftir verði, að það verði síðan ákveðið, að sveitarstjórnirnar þurfi ekki hér neitt nærri að koma, heldur skuli skattstjórinn gera þetta. Ég held því, að þetta ákvæði sé síður en svo til bóta, og það færi betur á því að geyma allar hugmyndir um þetta og halda sér við það, sem verið hefur um skipulag í þessu efni. Einnig er svo þess að gæta, að um leið og þetta nýja ákvæði er hér tekið upp, þá er verið að setja upp nýtt kerfi varðandi framkvæmd skattamálanna í landinu, sem maður satt að segja veit ekki fyllilega um enn þá, hvernig komi til með að verða í framkvæmd.

Jú, ég veit, að það er gert ráð fyrir því, t.d. á Austurlandi, að þar verði einn skattstjóri í öllu Austurlandskjördæmi. Ég efast ekkert um, að þótt sagt sé, að þar eigi að verða einn skattstjóri, og þótt hæstv. fjmrh. segi nú, að það eigi að fækka skattstjórunum í landinu úr 10 niður í 9 samkv. hinu nýja skipulagi, þá veit ég það upp á hár, að þeim verður fjölgað praktískt talað á Austurlandi, því þó að menn finni upp á því að ákveða, að þessi eini skattstjóri á Austurlandi skuli búa, t.d. uppi á Egilsstöðum, þá veit ég, að það verður áfram einhver skattstofa og einhver raunverulegur skattstjóri, hvort sem hann er kallaður skattstjóri eða ekki, í Neskaupstað, og það verður annar slíkur á Seyðisfirði og annars staðar, þar sem ekki er auðvelt til að komast. Það er unnið að framkvæmd skattamála alveg sérstaklega á tímabilinu janúar til apríl, og það er gert ráð fyrir, að það sé búið að fullu og öllu í apríl að vinna úr skýrslum og leggja á suma skatta samkv. þessu. Framtal fer fram í janúar, og allajafna er það svo hjá okkur t.d. fyrir austan, að það er með öllu ófært eftir öllum venjulegum leiðum að komast til Neskaupstaðar, nema aðeins sjóleiðina eina saman. Og það er ekkert greiðfært þar á milli, því að það er ekki mikið um áætlunarferðir. Og ég er alveg sannfærður um, að það er hvorki hægt að láta skattstjórann sitja í Neskaupstað og þjóna öllu Austurlandi né sitja einhvers staðar annars staðar og þjóna Neskaupstað á þessum tíma. En auðvitað er hægurinn hjá að kalla aðeins einn af þessum mönnum skattstjóra og hina undirskattstjóra eða þjónustumenn skattstjóra, en þessar skattstofur verða í framkvæmd. Það er engin leið að leysa af hólmi fjölmargar skattanefndir, sem starfað hafa þarna mánuðum saman, án þess að Það komi einhverjir til að vinna þeirra störf.

Ég held því, að það ríki svo mikil óvissa um það, hvernig verði með framkvæmdina varðandi Þetta nýja skattstjórakerfi allt saman og skattstofukerfi í landinu, að það sé sízt ástæða til þess að fara að ákveða það, að þeir skattstjórar, sem nú verða ráðnir, eigi að annast álagningu útsvara í hinum ýmsu sveitarfélögum. Ég held, að það færi miklu betur á Því, að forustumenn sveitarfélaganna gerðu það áfram, eins og þeir hafa gert hingað til. Það er rétt, eins og hér hefur verið sagt, að það er vissulega mikilvægt að halda við fullkomnu sjálfstæði sveitarfélaganna. Ég átít, að það boði ekkert gott, að ríkisstj. eða stjórnarflokkar á hverjum tíma fái aðstöðu til þess að gripa inn í innri mál sveitarfélaganna í gegnum það embættismannakerfi, sem þeir kunna að byggja upp hverju sinni. Sveitarstjórnarmenn eiga vitanlega að starfa eftir þar til settum lögum, eins og verið hefur, og bregði þeir eitthvað út af þeim lögum, er vitanlega hægt að kæra yfir því. Það er hinn rétti gangur málsins. En hitt tel ég mjög óeðlilegt, að einhverjir stjórnskipaðir embættismenn fari að fjalla um slík innri mál sveitarfélaganna, eins og að annast álagningu útsvara í sveitarfélögunum.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en vil segja það að lokum að ég hef orðið fyrir vonbrigðum að því leyti til varðandi þetta frv.. að mér sýnist, að það leysi að sáralitlu leyti þann vanda, sem ég hélt að hefði átt að leysa varðandi tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, en það var að rýmka nokkuð möguleika bæjar- og sveitarfélaga í landinu til þess að geta aflað sér tekna á öruggan hátt. Mér sýnist, að hér sé ekki um bað að ræða, að sveitarfélögin geti búizt við neinum nýjum tekjustofni, sem teljandi er, og svo hitt, að mér sýnist, að meginbreytingin, sem felst í þessu frv. frá því, sem verið hefur, sé breytingin á veltuútsvarinu, Þar sem því verður nú þannig fyrir komið um hið nýja gjald, sem kemur S staðinn fyrir veltuútsvarið, aðstöðugjaldið, því er raunverulega létt af ýmsum af þeim, sem borið hafa veltuútsvarið hingað til. Verzlanir og iðnrekstur t.d., sem framleiðir fyrir innlendan markað, þurfa ekki héðan af að borga þennan hluta af útsvörunum, sem þau hafa borgað hingað til, því að nú mega þau velta af sér aðstöðugjaldinu yfir í vöruverðið jafnóðum. Þau koma því aðeins til með að innheimta þetta aðstöðugjald af neytendum, en þau eiga ekki að borga það sjálf. En hins vegar t.d. þær atvinnugreinar, sem framleiða fyrir útflutning, sitja áfram eftir uppi með þetta gjald. eins og veltuútsvarið áður. Þær greinar geta ekki velt gjaldinu af sér. Og þessa breytingu tel ég ekki til bóta, heldur þvert á móti.

Að öðru leyti til sýnist mér þó, að nokkur atriði frv. séu vissulega til bóta frá því, sem áður var, og ég tel sérstaklega landsútsvarið stefna, í rétta átt, þó að það nái allt of skammt. En þó þykja mér samt á frv., eins og það er núna, svo stórir gallar, að þeir séu stærri en það, sem í frumvarpinu getur talizt miða í rétta átt.

Ég hefði sérstaklega viljað vænta þess, að hæstv. ríkisstj. tæki þó það atriði til endurskoðunar í þessum efnum, sem snýr að sjálfstæði sveitarfélaganna varðandi álagningu útsvaranna. Mér sýnist, að það atriði sé þannig, að það ætti í rauninni að vera ótrúlegt, að ríkisstjórninni sé það neitt keppikefli að koma þessu fyrir á þann veg, sem lagt er til í frv., en hún ætti að geta þó a.m.k. fallizt á það að hafa ákvæðin um álagningu útsvaranna í heimildarformi, þannig að sveitarstjórnirnar fái að ráða því sjálfar, hvort þær leggja á útsvarið eða fela öðrum að vinna það verk.