15.03.1962
Neðri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Halldór E. Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki eyða löngum tíma, það er aðeins út af athugasemd hæstv. fjmrh. Það er ekki byggt á neinum misskilningi hjá mér, þetta um störf skattanefnda og framtalsnefnda. Hæstv. ráðherra veit það vel, að skattanefndir hafa undirbúið skattaframtölin og gert skattaskrárnar. Hreppsnefndir hafa svo síðar unnið að útsvarsálagningu samkvæmt þessum skrám, eftir að þær lágu fyrir, en fyrr hafa ekki þeirra störf hafizt. Með þeirri breytingu, sem nú á að gera, verða framtalsnefndirnar að taka við framtölunum og vinna það verk, sem skattanefndirnar hafa unnið. Hér verður því um nýjar nefndir að ræða, af því að óhugsandi verður, að hreppsnefndir sitji yfir því verki.

Þess vegna er það rétt, sem ég sagði í dag: Það, sem hér er verið að gera, er, að verið er að leggja niður skattanefndirnar, en setja upp framtalsnefndir í þeirra stað.