07.12.1961
Efri deild: 28. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. um bráðabirgðabreytingu og framlengingu nokkurra laga var lagt fyrir þessa hv. deild og afgreitt hér. Síðan fór það til Nd. Á meðan var afgreitt frá Alþingi frv. um lækkun á ýmsum aðflutningsgjöldum, og til samræmis við þau lög voru í Nd. sett inn ákvæði í 4. gr. Þessa frv. í niðurlagi II. töluliðar, þar sem bætt var við orðin: „Enn fremur eru vörur, sem sérstakur tollur er greiddur af vegna milliríkjasamninga, undanskildar tollhækkun samkvæmt I. tölulið þessarar greinar“ — síðan kemur viðbótin: „svo og vörur þær, sem taldar eru í 2. gr. laga nr. 90 frá 20. nóv. 1961, um lækkun aðflutningsgjalda á ýmsum vörum.“ þetta var nauðsynleg lagfæring á frv. í samræmi við tollalækkunarfrv. Af þessum ástæðum er málið komið aftur hingað til þessarar hv. d. Ég veit ekki, hvort hv. fjhn. óskar eftir að fá málið til meðferðar, en ef ekki koma fram óskir um það, þá legg ég til, að frv. sé samþykkt svo breytt.