30.03.1962
Neðri deild: 80. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég sé, að hv. heilbr.- og félmn. hefur ekki séð sér fært að mæla með brtt. okkar hv. 3. þm. Norðurl. e., sem er á þskj. 495. í brtt. okkar er lagt til í fyrsta lagi, að orðin „síldarverksmiðjur ríkisins“ falli niður, þ.e. verksmiðjurnar verði ekki teknar með í landsútsvörin, og annað, að síldarverksmiðjur ríkisins skuli greiða 1% af brúttóandvirði seldra afurða ár hvert til sveitarfélaganna, þar sem þær eru starfræktar. Við umr. um frv. um tekjustofna sveitarfélaga, þegar það var til 2, umr. hér í hv. deild, sýndi ég fram á hið mikla ósamræmi, sem er í því að taka síldarverksmiðjur ríkisins inn í landsútsvarið, láta aðeins 1/4 af útsvarinu renna til sveitarfélaganna, þar sem verksmiðjurnar eru starfræktar, og láta 3/4 hluta útsvarsins renna í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna. Ég benti þá og á og endurtek það hér, að margar síldarverksmiðjur og aðrar hliðstæðar verksmiðjur, svo sem beinamjölsverksmiðjur, eru reknar ýmist sem hlutafélög eða sem einstaklingsfyrirtæki. Að sjálfsögðu greiða slíkar verksmiðjur allt sitt útsvar til þeirra sveitarfélaga, þar sem verksmiðjurnar eru starfræktar.

Ef maður tekur dæmi: Hjalteyrarverksmiðja, sem er mjög stór síldarverksmiðja, er rekin sem hlutafélag og greiðir að sjálfsögðu allt sitt útsvar til Arnarneshrepps. Síldarverksmiðjur ríkisins á Raufarhöfn, Húsavík, Siglufirði og Skagaströnd og þær síldarverksmiðjur, sem kunna að verða byggðar hér eftir, eiga samkv. frv. að greiða til viðkomandi sveitarfélaga aðeins 1/4, 3/4. hlutar skulu renna í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, eins og ég benti hér á áðan, sem svo skal skiptast á milli sveitarfélaganna í réttu hlutfalli við íbúatölu hvers sveitarfélags, eins og segir í frv. Þannig getur t.d. Arnarneshreppur fengið hluta af útsvari síldarverksmiðja ríkisins til viðbótar öllu því útsvari, sem verksmiðjan á Hjalteyri kemur til með að greiða. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum, sem sýnir, hve fráleitt það er að taka nokkurn hluta af síldarverksmiðjum landsins inn í landsútsvarsgrúppuna, en láta svo aðra standa Þar fyrir utan. Með því er verið að skapa óeðlilegt misræmi á milli hinna ýmsu sveitarfélaga, sem búa við hliðstæðan atvinnurekstur.

Ég sé, að hv. heilbr.- og félmn. hefur flutt brtt. við frv. um síldarverksmiðjur ríkisins. Þar leggur n. til, að aftan við 1. gr. bætist: „Heimilt er þó sveitarfélögunum að innheimta aðstöðugjald af öllum rekstri verksmiðjanna öðrum en síldarbræðslu, þ. á m. vegna seldrar vinnu vélaverkstæða þeirra.“ Ég vil taka bað fram, að Þetta er annað frv., en Þar sem frv. grípa hvort inn í annað, þá fer ég inn á þetta hér, og mun þá ekki taka til máls um hitt frv. Ég skal taka það fram, að Þessi brtt. n. er til bóta frá því, sem frv. gerði ráð fyrir áður, en samkv. því átti ekkert af fyrirtækjum S.R. að greiða aðstöðugjald, og má þó segja, að fyllsta ástæða hefði verið til, að öll fyrirtæki S.R., þar með talin síldarbraeðsla, hefðu greitt fullt aðstöðugjald, þegar það er haft í huga, að viðkomandi bæjarfélög hafa lagt mikið í verklegar framkvæmdir beinlínis vegna þess, að verksmiðjurnar voru settar á þessa staði. Ég fullyrði, að það skiptir mörgum milljónum, sem t.d. Siglufjarðarkaupstaður er búinn að leggja í framkvæmdir, einmitt vegna þess að síldarverksmiðjurnar voru settar niður á Siglufirði. Þar með er ekki sagt, að viðkomandi bæjarfélag hafi ekki haft mjög gott af því, að verksmiðjurnar voru starfræktar og settar þar niður. Hins vegar vil ég þó taka það ákveðið fram, að við teljum þessa brtt., þó að samþ. verði, mjög langt frá því að vera fullnægjandi fyrir viðkomandi sveitarfélög. Eftir sem áður stendur sjálft fyrirkomulagið óbreytt, að síldarverksmiðjur ríkisins skuli greiða landsútsvar. Það er það, sem skiptir mestu máli, og það er það, sem orsakar misræmið á milli hinna ýmsu sveitarfélaga á greiðslum útsvara áðurnefndra fyrirtækja.

Þrátt fyrir það að hv. heilbr.- og félmn. hafi ekki séð sér fært að mæla með brtt. okkar hv. 3. þm. Norðurl. e., sem eru um það að fella úr frv., að síldarverksmiðjur ríkisins skuli greiða landsútsvar, heldur skuli þær hér eftir sem hingað til greiða útsvar til þeirra sveitarfélaga, þar sem þær eru starfræktar, munum við halda fast við till. okkar, sem teknar voru við 2. umr. aftur til 3. umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál, en óska þess við hæstv. forseta, að brtt. okkar á þskj. 495 komi til atkvgr., þegar frv. verður endanlega afgreitt hér í hv. deild.