07.12.1961
Efri deild: 28. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér ekki hljóðs til þess að óska eftir því, að málið færi til nefndar. Ég fyrir mitt leyti hef ekkert að athuga við þá breytingu, sem gerð hefur verið á því í hv. Nd. Hins vegar finnst mér, að úr því að þetta mál hefur verið ómakað hingað til Ed., þá sé rétt að gera efni þess fyllra en það eitt að fallast á brtt., sem sett var inn í Nd. þegar frv. var flutt hér og afgr. hér í fyrra mánuði, flutti ég við það brtt. um það, að 5. gr. félli niður. Ég gerði grein fyrir þeirri till. og ástæðum til flutnings hennar og sé ekki ástæðu til að endurtaka þá grg. Till. var felld, og þar af leiðandi er ekki grundvöllur fyrir því að flytja hana aftur, þó að ég hins vegar telji, að 5. gr. ætti að falla niður. Ég tel rangt að vígja þennan viðbótarskatt til varanleika með því að negla hann í þetta árvissa frv. gamalla framlenginga. En um það skal ég ekki eyða fleiri orðum. Það er komið sem komið er. Hins vegar vil ég gera till. um að bæta við 5. gr. ákvæði um, að enginn söluskattur greiðist af hjóladráttarvélum og hlutum til þeirra. Algeng dráttarvél, sem bóndi kaupir, er nú komin yfir 100 þús. kr. að verði til hans. Aðflutningsgjöld og söluskattur af slíkri vél eru um 27 þús. kr. Þetta eru óheyrilegar álögur til ríkisþarfa á svo nauðsynleg tæki. Stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. felldu till. frá mér um afnám tolla á þessum tækjum, þegar tollalækkunarfrv. var á ferðinni hér í þessari hv. d. Nú vil ég gera tilraun til að prófa á ný hug þeirra í garð bændanna með því að leggja fram till. um afnám söluskattanna á þessum áhöldum. Það mun, ef sú till. yrði samþykkt og söluskattarnir felldir niður, muna í verði vélarinnar um nálega 16½ þús. kr., til lækkunar. En þrátt fyrir það mundi bóndinn, sem kaupir dráttarvélina, greiða um 10½ þús. í tollum af verði hennar til ríkisins. Og nú spyr ég: Getið þið ekki, hv. stjórnarstuðningsmenn, talið það ærið nóg, eins og nú er komið verði þessara hluta? Og þegar á það er litið, að gert er þarna ójafnt undir höfði bónda og útgerðarmanni, þá er það sterk ástæða til þess að samþykkja þessa till. Útvegsmaðurinn fær vél í nýjan bát tollfrjálst og innflutt skip einnig. Sömuleiðis fær útgerðarmaðurinn radartæki, fisksjár og dýptarmæla án söluskatta. Ég veit ekki, hvaða grundvallarskoðun hefur verið hjá þeim, sem greiddu atkv. á móti því, að tollum væri létt af þessum hlutum. En svo hafa menn líka fulla ástæðu til þess að endurskoða afstöðu sína, og ég vil minna á það, sérstaklega hv. sjálfstæðismenn, að síðan þessar tillögur mínar voru felldar, sem ég gat um áðan, hefur komið í Morgunblaðinu mjög sterkorð grein frá málsmetandi bónda í Suður-Þingeyjarsýslu, sjálfstæðismanninum Hermóði Guðmundssyni frá Sandi, bónda í Arnesi, þar sem hann gerir þá réttmætu kröfu, að búvélar sitji við sama borð að því er tollgreiðslur snertir og söluskatta og áhöld til útgerðarinnar. Ég bendi á þetta vegna þess, að ég er þess fullviss, að þetta er almenn krafa bænda, hvar í flokki sem þeir eru, og hún er almenn vegna þess, að hún er réttmæt. Ég leyfi mér að skora á alla hv. þdm. að samþykkja till. mína, sem ég legg hér fram, en hún er breyting við 5. gr. á þá leið, að við hana bætist:

„Af hjóladráttarvélum og hlutum til þeirra, nr. 12a og 12b í 72. tollskrárkafla, greiðist enginn söluskattur.“

Ég leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessa till. Hún er skrifleg, af því að það er ekki tóm til þess að leggja hana fram öðruvísi.