08.02.1962
Efri deild: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

134. mál, Ríkisábyrgðasjóður

Karl Kristjánason:

Herra forseti. Ég geng út frá því, að sú tillaga, sem fram hefur komið um að vísa máli þessu til fjhn., verði samþ. og af því að ég á sæti í þeirri n., fæ ég tækifæri þar væntanlega til þess að ræða þetta frv. í einstökum atriðum. Hins vegar vildi ég nú segja um það nokkur orð, áður en það fer til nefndar.

Ræða hæstv. fjmrh. gaf tilefni til þess, að minnzt væri á mál, sem var mjög til umr. hér í fyrra í sambandi við afgreiðslu frv. um ríkisábyrgðir, en það er eðli ríkisábyrgða og þá sérstaklega það, sem ég hef haldið fram, að ekki sé rétt að setja bankasjónarmið yfir þessa starfsemi ríkisins, sem er hjálpar- og stuðningsstarfsemi við atvinnulífið og framfarirnar í landinu til þeirra aðila, sem hafa ekki efni á því, þó að þeir hafi ríkan vilja, að tryggja á sama hátt og tryggja þarf við banka. Þessi starfsemi er þátttaka ríkisins í uppbyggingu atvinnulífsins og þar af leiðandi í sjálfu sér allmikið frábrugðin starfsemi bankanna. En þó að ræða hæstv. ráðh. gæfi tilefni til þess að taka upp aftur eitthvað úr umr. frá því í fyrra um frv. um ríkisábyrgðir, ætla ég nú ekki að gera það, heldur snúa mér að þessu frv., eins og það nú liggur fyrir.

Ég get ekki séð, að yfir því sé mikil birta né umbótatíbrá, þó að hæstv. fjmrh. segðist vona, að það mundi birta til í þessum málum, þegar búið væri að koma þeim fyrir á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Oft er talað um offramleiðslu í lagasetningu. Nýlega var kveðið:

Taka að flókna málin mjög,

menning gölluð veldur.

Alltaf bætast lög á lög,

lög, sem enginn heldur.

Enginn vafi er á því, að Alþingi á að gæta hófs í lagasetningu, unga ekki út óþörfum lagabálkum. Menn hætta að virða lög, ef þeir reka sig á, að ýmis þeirra eru bara tildur og pappírsgögn, óþörf að mestu eða máske stundum öllu. Ég sé ekki betur en frv. þetta sé egg, sem vægast sagt sé mjög vafasamt að Alþ. eigi að unga út og gera að lögum. Mér sýnist efni frv. þannig í heild, að lagasetningin sé óþörf og þess vegna tildur. Mér sýnist hér vera um það helzt að ræða að halda sérstakan reikning yfir allt, sem lýtur að ríkisábyrgðum, töp af þeirra völdum og fé, sem ráðstafað er til að greiða þau, svo og fé, sem endurheimtist frá réttum aðilum síðar fyrir útlagðar ábyrgðir. Þetta er nánast bókhaldsatriði og fyrirkomulag, sem ráðherra getur haft í hendi sinni án lagasetningar. Hvers vegna að vera þá með þennan fyrirgang, setja sérstök lög og mér liggur við að segja: látast stofna sjóð? Mér liggur við að segja Það: látast stofna sjóð. Ef við breytum í gamni og alvöru heiti frv. og köllum það frv. til laga um ríkisábyrgðareikning og hagræðum orðalagi frv. svo í samræmi við það, verður ljóst, að hér er um lítið annað að ræða en sérreikning ríkisábyrgða og hvað skuli á hann færast til tekna og gjalda. Formsins vegna virðist mér við fljótan yfirlestur a.m.k. ekkert til fyrirstöðu Þessu bókhaldi eftir ákvörðun ráðherra án sérstakrar lagasetningar, ekki sízt þegar athuguð eru lögin, sem hann vitnaði til áðan um ríkisábyrgðir og sett voru á síðasta Alþ. Í þeim lögum segir t.d., með leyfi hæstv. forseta, í 4. gr.:

„Áhættugjald það, sem greitt verður samkv. l. og 2. mgr. þessarar gr., skal geymast á sérstökum reikningi. Má einungis nota fé þetta, eftir því sem til vinnst, til þess að greiða ábyrgðarkröfur, sem á ríkissjóð kunna að falla, svo og kostnað við framkvæmd laga þessara. Nú endurgreiðist skuld, sem greidd hefur verið af framangreindum reikningi, og skal þá hið endurgreidda fé lagt í reikninginn.“

Hér eru fullkomin fyrirmæli um það, að þetta fé, sem ræðir um í frv., skuli vera á sérstökum reikningi. í þessum lögum, sem afgreidd voru í fyrra, er heimild til að fela einhverjum ríkisbankanna að vera fjmrn. til aðstoðar. Ekki þarf nýja lagaheimild til þess, og þar er ráðherra líka heimilað að setja nánari ákvæði með reglugerð um þessi mál. Lítill vafi er á því, að ráðh. hefur þar með, án þessarar fyrirhuguðu lagasetningar, heimild til að skipa þessum reikningshaldsmálum með reglugerðarákvæðum, ef þeirra þyrfti þá einu sinni með. Hér virðist mér þess vegna verið að setja lög á lög ofan alveg að þarflausu. Ég sé ekki betur. Þetta er nóg um það.

En svo skal vikið að frv. frá öðru sjónarmiði um stund. Samkv. 2. gr. frv., sem er um stofnfé, segir: „Stofnfé ríkisábyrgðasjóðs er sem hér segir: 1. Gengishagnaður, sem samkv. 2, mgr. 7. gr. I. nr. 80 3. ágúst 1961 á að renna til ríkissjóðs.“ Það er fyrsta stofnframlagið. ríkisstj. felldi gengi íslenzku krónunnar í sumar sem leið. ríkisstj. sagðist gera það til þess að koma í veg fyrir röskun á efnahagslífi af völdum þeirra nýju samninga, sem verkamenn og vinnuveitendur höfðu gert með sér Þá. Vitað er, að þetta var yfirskinsástæða. Gengisfellingar þessarar þurfti ekki með vegna röskunar sökum kauphækkananna. Gengisfellingin var gerð sem hefndarráðstöfun, eins og oft hefur verið sagt, gerð til að sýna, að ekki þýddi fyrir verkamenn og vinnuveitendur að gera samninga nema með leyfi ríkisstj. Enn fremur var gengisfellingin höfð svo mikil, að hún lappaði upp á göt, sem voru að koma á viðreisnarskip ríkisstj. Beint í ríkissjóð þótti vissara að fá t.d. upphæð þá. sem frv. ætlast nú til að verði fyrst og fremst stofnfé í þessum væntanlega ríkisábyrgðasjóði. í gengisfellingarlögunum er talað um, að það eigi að vera til að létta byrðar ríkissjóðs vegna áfallinna ríkisábyrgða í þágu atvinnuveganna. Nú er mér spurn: Er í frv. gert nokkurt ráð fyrir því, að ríkisábyrgðir, sem á falla, verði flokkaðar eftir því, hvort þær eru beint í þágu atvinnuveganna eða annarra framkvæmda? Ég sé ekki fyrir mitt leyti, að alltaf sé svo eðlilegt og beint samband þarna á milli, að réttmætt hafi verið að gera þessa ráðstöfun til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Sagt er, að þessi upphæð, sem þannig hafi komið og muni koma, muni vera um 120–140 millj, í sambandi við gengisfellinguna er margfaldur ágreiningur um þessa fjáröflun ríkisstj. Sá ágreiningur er enn ekki útkljáður, því að brbl. um gengisfellinguna hafa enn ekki verið samþ. á Alþ. Þessi ágreiningur hlýtur að ná til þessa frv. um ríkisábyrgðasjóð, sem hér liggur fyrir. Líklega er þetta fé, sem ríkisstj. hellti yfir sig með gengisfellingunni, Það, sem veldur því, að þetta frv. er samið og lagt fram. Hæstv. fjmrh. er þannig settur, að honum hefur þótt féð fara illa í vasa til lengdar, eins og það lá um áramótin. Annars var það ekki ónýtt fyrir hæstv. ríkisstj. um áramótin, þegar hún var þá með sitt sjónarspil um mikinn og góðan árangur efnahagsaðgerða sinna á árinu. Það er orðið algengt, að unglingar skjóti bragandi flugeldum í loft upp til hátíðabrigðis um áramótin. Þessir eldar skreyta loftin ýmsum litum stundarkorn í senn, dofna fljótlega að vísu og deyja út. Ríkisstj. skreytti loftin umhverfis sig og yfir höfðum sér um áramótin með nokkurs konar flugeldum. Það voru áramótaávörp og útvarpsfréttir um ágæta útkomu af verkum hennar. Þetta bragaði um stund af áróðursáhuganum, skemmti eyrum og augum ýmissa áhorfenda, en dó svo út og hvarf inn í myrkur veruleikans eins og ljós æskumannanna, sem eru að skjóta þeim til hátíðabrigðis um áramótin.

Stærsta flugeldaskrautið og flugeldaskrumið hjá hæstv. ríkisstj. var, að hlaupareikningur ríkisins við Seðlabankann væri með, minnir mig, 39 millj. kr. innstæðu eða Þar um bil. Þetta hefði aldrei, a.m.k. ekki um óralangan tíma, skeð. Svona væri útkoman í ríkisbúskapnum nú. En þessi fagurliti flugeldur dofnaði og dó út í skammdegismyrkrið, þegar vitnaðist, að þarna hafði gengishagnaðurinn verið notaður í sjónarspilið. Hann hafði runnið inn í reksturinn á árinu, þó að hann væri utan fjárlaga og ætti vitanlega að liggja fyrir utan eftir öllu eðli málsins. Nú er komið með þennan ógeðuga gengisfellingarfeng eftir auglýsingarnotin af honum um áramótin og búið til utan um hann lagafrv., sem að mínu viti er alveg óþarft, nema kannske til auglýsinga að einhverju leyti handa ókunnugum. Auðvitað er alveg eins hægt að leggja þennan seðlabunka inn í ríkisábyrgðareikning eins og í ríkisábyrgðasjóð. Vill nú ekki hæstv. fjmrh., sem er ríkur af smekkvísi, hætta við að baeta þessum lögum að óþörfu ofan á lögin um ríkisábyrgðir og draga frv. til baka? Ég spyr við þessa 1. umræðu.