08.02.1962
Efri deild: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

134. mál, Ríkisábyrgðasjóður

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég skal ekki við þessa 1. umr. fara ýtarlegar en ég gerði í minni frumræðu út í þetta mál, að öðru leyti en því að minnast hér á 3 eða 4 atriði í ræðum hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 3. þm. Norðurl. v.

Það er í fyrsta lagi út af því, að óþarft sé að setja lög um ríkisábyrgðasjóð. Þá er því til að svara, að ef það er talið rétt að aðskilja þessi mál, þessi ríkisábyrgða- og vanskilamál, frá sjálfum ríkissjóðnum, og ég taldi mig færa nokkur rök að því í minni frumræðu, að það væri rétt, þá er nauðsynlegt að setja um það sérstök lög, alveg á sama hátt og um margvíslega sjóði, sem stofnaðir hafa verið á vegum ríkissjóðs eða eru í eigu ríkisins, hafa verið sett sérstök lög.

Í öðru lagi minntist hv. 1. þm. Norðurl. e. á það, að ríkisstj. hefði fellt gengið í ágústmánuði. Þetta er nú heldur ónákvæmt orðalag, vegna þess að það, sem gerðist, var það, að ríkisstj. viðurkenndi þá gengisfellingu, sem Þessi hv. þm. og ýmsir fleiri höfðu beitt sér fyrir og gert nauðsynlega og óhjákvæmilega. Sérstök ástæða er til að minnast á þetta vegna ummæla þessa hv. þm., því að það er vitanlegt; að í þeim samtökum eða samsæri, sem gert var á s.l. sumri til þess að hækka kaupgjaldið í landinu miklu meira en nokkur möguleiki var, að atvinnuvegirnir gætu risið undir, þá stóð þessi hv. þm. Þar í fararbroddi, því að það er vitað, að sú bylgja upphófst einna fyrst á þeim stað, þar sem hann er nú búsettur, og allir vita, að hann átti sinn verulegan þátt í því. Sérstaklega af því tilefni vildi ég aðeins minnast á þetta ónákvæma orðalag, því að það eru hinar miklu kauphækkanir, sem hann og fleiri stóðu að, sem raunverulega felldu gengi ísl. krónunnar, og brbl. frá því í ágúst voru ekkert annað en viðurkenning á því gengisfalli, sem þegar var raunverulega orðið.

Sami hv. þm. finnur það mjög að Þessu frv. og eins frv. og lögum um ríkisábyrgðir frá því í fyrra, að það sé ekki rétt að setja bankasjónarmið yfir uppbyggingu atvinnulífsins í landinu. Túlkun hans er því sú væntanlega, að bankar og lánsstofnanir miði ekki að því eða starfi ekki að því að byggja upp atvinnulífið í landinu. Nú er ég að vísu á allt annarri skoðun, því að mér hefur jafnan skilizt það, að bankar og lánsstofnanir hafi upphaflega til komið hér eins og annars staðar til þess að ávaxta sparifé manna og í sambandi við það til þess að lána út til uppbyggingar atvinnulífsins í landi. Þessi hv. þm. virðist telja tilgang og starfsemi bankanna eitthvað allt annað. Og mér kemur það sannast sagna ákaflega spánskt fyrir, Þar sem hann er einn af bankastjórum landsins, hann er forstöðumaður sparisjóðsins á Húsavík, að hann skuli gagnrýna með þessum hætti svo sina starfsemi og sinna starfsbræðra, að þessar lánsstofnanir, sem hann m.a. veitir forstöðu, starfi ekki að Því að byggja upp atvinnulífið í landinu. Ég held, að starfsbræður hans, aðrir bankastjórar og forstöðumenn lánsstofnana í landinu, hljóti að kunna honum litlar þakkir fyrir slíkar lýsingar á starfsemi og tilgangi banka og sparisjóða í þessu landi.

Loks er það gengishagnaðurinn, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði sér mjög tíðrætt um og gerði eiginlega að aðaluppistöðu í sinni ræðu. Út í það mál ætla ég ekki að fara á Þessu stigi, því að það er ákveðið í brbl. frá 3. ágúst, sem liggja nú fyrir Nd., hvernig ráðstafað skuli þeim gengishagnaði. Að vísu stendur þetta frv. í nokkru sambandi við það, en fyrst og fremst verður það stóra mál um ráðstöfun gengishagnaðarins að sjálfsögðu rætt, þegar það mál verður til umræðu. En hinu get ég ekki neitað, að mér fannst kenna ákaflega mikils misskilnings hjá hv. þm. varðandi túlkun hans á þessum gengishagnaði og því, að ákveðið var, að hann skyldi renna til þess að létta ríkisábyrgðir. Hann telur, að hér sé annaðhvort um eignarnám að ræða eða skattaálögur. Ég lít svo á, að hér sé um hvorugt að ræða. Hér er um það að ræða, hvort eigendur vissra birgða, sem eru framleiddar með hinu fyrra gengi og eldra kaupgjaldi og tilkostnaði, eigi að ástæðulausu að fá á silfurbakka 13% hækkun á verði þessarar vöru. Eigandi birgða 31. júlí gat verið framleiðandi, — hann þurfti ekki að vera framleiðandi. Í sumum tilfellum var það maður, sem ekkert hafði komið nálægt framleiðslunni, heldur var nýbúinn að kaupa framleiðsluna til þess að selja hana sem útflutningsvöru eða flytja hana út, hafði keypt hana á hinu gamla verði vegna þess, að þessar afurðir voru framleiddar með hinu eldra kaupgjaldi og gamla verðlagi. Hvaða réttlætisástæða er finnanleg fyrir því, að slíkir útflytjandi eigi allt í einu að óvörum að fá 13% hækkun í sinn vasa? Þetta er, eins og ég gat um það flókið mál, vegna þess að það eru svo margvíslegir aðilar, sem munu hafa átt þessar birgðir En í mjög mörgum tilfellum hefði það verið hið mesta ranglæti að gefa hessum útflytjendum slíkt stórfé í sinn vasa. Jafnvel þó að það væru framleiðendur sjálfir. þá á ég eftir að heyra réttlætisrök fyrir því, að þeir, sem höfðu framleitt vöruna á hinu eldra verðlagi, ættu svo að fá þessa 13% hækkun, sem gengisbreytingin nam.

Ég álít, að hér hafi með þessu ákvæði brbl. verið dregin sú lína, sem næst er sanni og sanngirni. Það er að sjálfsögðu erfitt að finna þá línu þarna eða þau mörk, sem fullnægja öllu réttlæti. en ég held, að þarna hafi þó verið komizt næst því með þessu ákvæði. Hér er ekki um að ræða skattaálögur né eignaupptöku, heldur aðeins ákvörðun löggjafarvaldsins um það í sambandi við breytingu á genginu, að hið nýja gengi skuli ekki greitt á þær birgðir, sem búið er að framleiða. Þessi ákvörðun er gerð um leið, og þessir eigendur birgðanna eru, þegar lögin eru sett, alls ekki orðnir eigendur þessarar 13% gengisbreytingar.

En eins og ég gat um, út í þetta mál ætla ég ekki að fara nánar að þessu sinni, það verður að sjálfsögðu um það rætt í sambandi við staðfestingu brbl. frá 3. ágúst.