08.02.1962
Efri deild: 43. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

134. mál, Ríkisábyrgðasjóður

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. fjmrh. Hann sagði rétt eftir haft held ég — í sem stytztu máli: Við (þ.e.a.s. hæstv. ríkisstj.) felldum ekki gengið. Það gerðu þeir, sem hækkuðu kaupið. — Og meira sagði hann: Þar áttir þú mikinn hlut að, vegna þess að þú varst í fararbroddi á þeim stað, þar sem hófust kauphækkanir.

Nú lít ég allt öðruvísi á þetta en hæstv. ráðh., að ég hafi fellt gengið, en hann ekki. Mín afstaða er sú í þessu máli, að verkfall hófst í minni byggð, þegar útgerð var að hefjast, og um það var þá að ræða, hvort við áttum að biða, láta bátana liggja, fisk leika lausum sporði, skulum við segja, í sjónum og aflast ekki, þó að vitað væri, að hann væri mikill á miðunum. og bíða eftir því, sem hæstv. ríkisstj. kynni að telja rétt að gera — einhvern tíma. Auðvitað hafði maður heyrt það af hennar munni sjálfrar líka, að hún vildi ekki og ætlaði ekki að skipta sér af kaupgjaldsmálum, þau yrðu vinnuveitendur og vinnuseljendur að semja um. Við þarna norður frá tókum þann háttinn, sem ég held fram að skynsamlegastur hafi verið og heppilegastur frá þjóðhagslegu sjónarmiði, líka gagnvart hæstv. ríkisstj., og ekki aðeins að við stjórnarandstæðingar tækjum þennan kost, heldur líka stjórnarstuðningsmenn. Við sömdum um sanngjarna breytingu á kjörum, að við töldum, og öll vinna hófst, fiskur var mikill dreginn að landi og hefur verið á Húsavík, jafnvel svo, að ég veit ekki betur en hæstv. ríkisstj. og hennar málfærslumenn vitni oft í Húsavík sem dæmi um það, að þar hafi vel gengið.

Nú er mér spurn: Hefði ríkisstj. í raun og veru talið það rétt af mér að eiga engan þátt í því, að menn færu að nota sér fiskinn, þegar hann var framan við lendinguna, eða hefði ég átt að stuðla að því og hefði það verið betri stuðningur fyrir hæstv. ríkisstj., hefði ég verið betri þegn, réttar sagt, með því móti að stuðla að því, að þarna hefðu menn setið auðum höndum og nú hefði máske verið vitnað í Húsavík sem auman stað, sem hefði þurft að fara hungurgöngur á fundi hæstv. ríkisstj. til að fá liðsinni í afkomumálum? (Gripið fram í) Ja, kannske t.d. í líkingu talað: eins og var á Móðuharðindatímum, en ég blanda þeim nú aldrei inn í þessi mál bókstaflega, ekki bókstaflega, en ég treysti á það hins vegar, þegar ég hef talað um þau, að hin bókmenntalega sinnaða þjóð eigi líka bókmenntalega sinnaða fulltrúa hér á Alþ. og þoli þess vegna, að talað sé ofur lítið bókmenntalega í málum.

En þegar hæstv. ríkisstj., sem varð fyrir því, að kaupið var hækkað, hún, sem ekki hafði ætlað að skipta sér af þessum viðskiptum borgaranna í landinu, lækkaði gengið, þá var það sýnt, að hún vildi ráða í þessum málum. í ljós er nú komið, að hennar ráð í þessum efnum voru yfirdrifin, og eru sönnun þess er einmitt sú fjárhæð, sem nú er samkv. frv. ráðstafað í einn sjóð, sem ég tel óþarfa að mynda. Ríkisstj. hefur yfirleitt ekki tök á því að koma öðruvísi fyrir Þessari fúlgu. sem hún fékk yfir sig með yfirdrifinni gengisfellingu.

Það var ekki ég, sem setti þessi óþægindi yfir hana, þetta fé í vasa hennar. það var hún, sem gerði það sjálf. Og ég fullyrði það, að afkoma þessa árs hjá þjóðinni er mjög mikið að þakka því, að afstýrt var löngum verkföllum, og ég tel það ekki sem ádeilu á mig, þvert á móti að sagt er, að ég hafi haft þar í upphafi aðstöðu til að beita áhrifum mínum til þess, að til vandræða leiddi ekki. Ég hef ekki heyrt það nokkurs staðar, að hæstv. ríkisstj. gæti réttlætt með tölum — hagfræðilegum tölum — gengisfellingu sína. Frá einu sjónarmiði má vera, að hún telji sig geta réttlætt hana, og það er það, að hún hafi sýnt sig sterka gagnvart verkalýð landsins með því að taka aftur það, sem hann hafði samið um.

Svo var það annað, sem hæstv. ráðh. sagði. Hann sagði, að ég hefði sagt, að bankasjónarmið mætti ekki ná yfir atvinnureksturinn í landinu — bankasjónarmið. Þetta sagði ég aldrei. Hitt sagði ég, að ég teldi óheppilegt, að bankasjónarmið væri gert gildandi fullkomlega um ábyrgðastarfsemi ríkisins. Ég geri mér þess fulla grein, að bankarnir hafa ákaflega mikla þýðingu fyrir atvinnulífið í landinu. Þeir eru þar stórir aðilar og geta bæði stutt og líka látið vera að styðja, svo að deilt er um. En hitt verður ekki deilt um, að bankarnir eiga þó að starfa á þeim grundvelli, að tryggt sé, að það fé, sem þeir veita í lánum, tapist ekki. Þeir verða að taka þær tryggingar, sem til þess hrökkva. En þannig er ástatt með marga menn og ýmis fyrirtæki í landi okkar, sem er nú að mörgu leyti á nýbýlastigi með atvinnulíf sitt, að fyrirtækin og einstaklingarnir, sem vilja hafast að og hafa möguleika, þ.e.a.s. hafa skilyrði heima fyrir til að geta unnið þjóðþrifastörf með stærri framkvæmdum, hafa ekki eignir til þess að setja þær tryggingar, sem bankarnir verða að heimta, og þá hefur það orðið eða a.m.k. átt að vera svo, að ríkið metti það, hvort áætlanir þessara manna væru þess eðlis, að rétt væri að styðja þá, hvort þeir stefndu að því að koma af stað þjóðþrifastarfsemi, sem vert væri fyrir ríkið að vera þátttakandi í með því að veita ábyrgð, sem gæti orðið áhættuspor, annað kæmi þessum mönnum ekki að gagni. Og ég tel, að þessi starfsemi ríkisins, sem er í eðli sínu hjálparstarfsemi, sem er í raun og veru oft og tíðum nærri því bein þátttaka í því að koma á fót nytsemdarfyrirtækjum, þjóðþrifafyrirtækjum, hún eigi ekki að vera rekin með bankasjónarmiðum, þar sem allt þarf að vera fyrir fram 100% topptryggt. Og það er það, sem ég hef sett út á þær till., sem hæstv. fjmrh. hefur borið hér fram í frumvarpsformi um það að fela banka — einhverjum ríkisbanka — að taka við þessari ábyrgðarstarfsemi ríkisins. Það, sem ég hef fundið að þeim till., er það, að með því sé hætt við, að bankasjónarmiðið um fyllsta öryggi verði leitt yfir þessa starfsemi og þá verði þannig að henni kreppt, að hún komi ekki að tilætluðum notum. Nei, mér dettur ekki í hug að halda því fram, að bankasjónarmiðið eigi ekki rétt á sér, en ég er þeirrar skoðunar, að það eigi ekki fullkominn rétt á sér í sambandi við ríkisábyrgðir, og ríkið geti varla gert banka að umboðsaðila sínum í þessum málum, því að þá muni starfsemin breytast þannig, að hún verði ekki, á sama hátt og hún hefur verið og ætlazt er til að hún verði, til þjóðþrifa, — til þess að lyfta veikum mætti til starfs.