08.02.1962
Efri deild: 43. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

134. mál, Ríkisábyrgðasjóður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., enda vildi hæstv. fjmrh. lítið ræða þá aths., sem ég gerði við frv. Hann taldi að vísu, að það væri ekki eðlilegt að ræða það atriði svo mjög í sambandi við Þetta mál, þar sem ákvæði um þetta væri í brbl., sem lægju í frumvarpsformi fyrir Nd., og mundi verða nánar fjallað um það í sambandi við það mál. Það er að vísu alveg rétt og mundi, ef venjulega stæði á, vera eðlilegt að hafa þann hátt á. En hins vegar er það svo, að í þessu frv., sem hér liggur nú fyrir til umr., er byggt á þessari fjárhæð, sem gerð er upptæk með 6. gr. gengislaganna frá í sumar, sem stofnfé í þessum ríkisábyrgðasjóði. Þegar fjallað er um þetta frv. og það stofnfé, sem þessum ríkisábyrgðasjóði er ætlað, er vitaskuld eðlilegt, að það sé athugað um leið, hvort eða með hverjum hætti það stofnfé er fengið og hver er grundvöllur þar undir.

Hæstv. fjmrh. fékkst ekki til þess að svara því, hvaða lagaleg sjónarmið lægju til grundvallar því, að þessi eignarauki, skulum við segja, sem þarna er um að ræða eða var um að ræða hjá einstökum mönnum, var gerður upptækur. Hann sagði, að hér væri hvorki um eignarnám né skatt að ræða, heldur eitthvað allt annað, eins og hann svo nánar útskýrði að vissu marki. En hæstv. fjmrh. veit það nú eins vel og ég, að samkvæmt okkar stjórnarskrá er eignarrétturinn friðhelgur, og það á ekki að vera hægt að skerða hann nema með vissum aðferðum. Ein aðferðin er eignarnám og önnur er skattar, og jafnvel þó að sumum finnist einhver réttlætissjónarmið liggja til þess, að eignir séu teknar af öðrum mönnum, er það ekki nóg eftir okkar stjórnarskrá. Sumir menn geta verið þannig sinnaðir, að þeim finnist það óeðlilegt, að miklar eignir séu hjá einstökum mönnum, og þeir gætu talið alveg fullt réttlæti liggja til þess, að þær eignir væru af þeim teknar og varið til þjóðfélagsþarfa. En samkvæmt okkar rétti og okkar stjórnarskrá verður slíkt ekki gert, nema farið sé eftir tilteknum reglum þar um. (Gripið fram í.) Já, ég álít einmitt, að þarna hafi verið eignarréttur skertur, af því að hæstv. ráðh. tók það nefnilega réttilega fram. að út af fyrir sig hefðu þessir útflytjendur ekki verið orðnir eigendur að þessum 13 gengisprósentum. Það er út af fyrir sig rétt. Það, sem þeir áttu, voru vörubirgðirnar, þær hækkuðu í verði. Þær vörubirgðir gátu auðvitað hækkað í verði af margvíslegum öðrum ástæðum en gengisbreytingu. Það gat hækkað verðlag erlendis, og þá hefðu þeir notið þess auðvitað. Hvers áttu þeir að gjalda? Jú, hæstv. ráðh. segir, að það hafi ekki verið sanngjarnt að fara að færa þessum mönnum þetta á silfurdiski, þessa verðhækkun, og bendir á það, að í einstaka tilfellum muni hafa staðið svo á, að það hafi ekki einu sinni verið framleiðendurnir, hinir raunverulegu framleiðendur, sem áttu þetta, heldur hafi það verið einhverjir kaupahéðnar, sem hafi verið búnir að kaupa þetta. Það kann að vera alveg rétt í einstaka tilfellum, en ég sýndi líka fram á það með rökum og réttum dæmum í mínum málflutningi, að t.d. við Norðurlandssíldveiðarnar, þar sem kauphækkunin var í raun og veru komin til framkvæmda, þegar síldveiðarnar hófust, og það skipti því að meginstefnu til ekki máli varðandi tilkostnaðinn, hvort saltað var í júní, júlí eða ágúst, að þá er samt eftir þessum lögum gerður sá greinarmunur á, að þeir, sem salta eftir 1. ágúst, njóta hækkunarinnar, hinir, sem höfðu saltað fyrir 1. ágúst, njóta hennar ekki.

Nú hefði ég haldið, að þegar þannig stendur á, hefði verið eðlilegra að taka tillit til hinna, sem búnir voru að salta, og beita þá ekki órétti, heldur en að láta tillitið til hinna ráða, sem gat svo valdið því, að hinir yrðu beittir órétti, því að í raun og veru er þarna um það að ræða, að það skapast misræmi á milli manna, auk þess, svo sem ég sýndi fram á í ræðu minni áðan, að það er náttúrlega ekkert samband þarna á milli þessara manna, sem af er tekið, og svo aftur hinna, sem eiga að njóta þess í því, að það eru greiddar ríkisábyrgðir fyrir þá. Ég staðhæfi, að hér sé eiginlega um alveg nýja aðferð að ræða, sem hefur ekki verið beitt áður hér í sambandi við gengisbreytingar. Það voru engin þvílík ákvæði í gengisbreytingarlögunum 1939, engin þvílík ákvæði í gengisbreytingarlögunum 1949. í gengisbreytingarlögunum með langa nafninu frá 1950 voru ákvæði um það, að gengishagnaður bankanna, sá gengishagnaður, sem þeir fengju vegna þess, að hrein eign þeirra í erlendum gjaldeyri hækkaði, skyldi renna í ríkissjóð og honum skyldi varið með þar tilgreindum nánara hætti. Það má svo að vísu aftur segja, að í gengisbreytingarlögunum eða efnahagslögunum, sem kölluð eru, nr. 4 frá 1960, sé það að vísu ákveðið, að þær vörur, sem framleiddar voru fyrir 15. febr., skuli ekki reiknaðar með hinu nýja gengi, en það var jafnframt þar ákveðið, að þær skyldu hins vegar halda áfram að njóta útflutningsuppbótanna, þannig að það var dregið bara strik á milli þannig. Það var alls ekki hliðstætt við þetta, sem nú hefur verið gert.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, enda gefst tækifæri til þess síðar, bæði í sambandi við þetta mál og eins þegar brbl. verða hér til umr. En ég get endurtekið það, sem ég hef áður sagt, að ég álít bæði lagarök og réttlætisrök fyrir þessari upptöku ákaflega hæpin.