02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

134. mál, Ríkisábyrgðasjóður

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hl. sagði frá og menn sjálfsagt hafa fylgzt með, hefur þetta frv., sem nú er hér til umr., beðið æðilengi í nefnd, og ástæðan var sú, að frv. er byggt upp þannig. að gert er ráð fyrir, að ákveðið atriði, sem er í frv. um ráðstafanir vegna gengisfellingarinnar. verði að lögum. Nú var málið afgr. í fjhn. að vísu, en ég varaðist ekki, að hæstv. forseti mundi reka hesta sína svona hratt, og hafði ekki sent til prentunar nál. um sérstöðu mína þess vegna. Nú hef ég þetta nál. skrifað, — ég sá ekki dagskrá fundarins fyrr en laust fyrir hádegið í dag og gat þá ekki verið að láta nál. í prentun, en hef það hér skrifað og bið hæstv. forseta að taka það gilt þannig fram lagt. Ég ætla að byrja á því þá að lesa nál. og hafa það að mestu mína grg. [Sjá þskj. 586].

Þetta nál. mitt og till. þarf ekki langrar skýringar. Okkur getur vafalaust öllum komið saman um það, að æskilegt sé að hafa löggjöf sem einfaldasta og samstæðasta. Þess vegna álít ég, að það sé nokkuð stórt atriði, að semja ætti þetta frv., sem hér liggur fyrir, inn í lögin, sem sett voru um ríkisábyrgðir í fyrra.

Það er mín skoðun, að ekki sé rétt, eins og gert er ráð fyrir með þessu frv., að láta banka annast fyrir ríkisins hönd ríkisábyrgðastarfsemina. Ég álít, að ríkisábyrgðastarfsemin, eins og ég hef áður gert grein fyrir í þessari hv. d., eigi að vera svo lifandi og tengd atvinnulífinu í landinu, að það þurfi að fylgja henni eftir með þeirri nákvæmni, sem ætlað er með þeirri ábyrgð, sem ríkið veitir, að vera stuðningsaðili framkvæmdanna, sem nauðsyn er á. Allir vilja vafalaust vera sjálfbjarga í þessum efnum, allir vilja geta tekið lán hjá bönkunum og sett sínar eigin tryggingar fyrir þeim, án þess að þurfa til ríkisins að leita. Þess vegna er það, að því aðeins er yfirleitt leitað til ríkisins í þessum efnum, að ekki er hægt að fylgja fullkomlega reglum þeim, sem bankar setja og eiga að setja um tryggingar, þegar um lánastarfsemi er að ræða.

Þá tel ég, að auðvelt sé fyrir ríkið að hafa þennan rekstur á sérstökum reikningi. Ég veit að vísu, að vegna gengisfellingarinnar hefur dropið svo drjúgt af feiti í ker hæstv. ríkisstj., að út af liggur við að flói, og þess vegna kannske hefur verið sett þarna upp ker, sem á að taka á móti gengishagnaði þeim, sem hv. frsm. nefndi og nú er talið að muni vera um 150 millj. En með þessu verður ekkert farið í kringum raunveruleikann, og ég hygg, að þó að málinu yrði frestað núna, mætti færa þetta ker nær og alveg í hús ríkissjóðsins.

Þá er það, að ef farið verður á annað borð að stofna sjóð, hygg ég, að rétt sé að hafa þann hátt á, sem venjulegur er gagnvart sjóðum, að setja honum stjórn. En ekki er gert ráð fyrir því sérstaklega í frv., nema ef það ætti að telja, að bankastjórn yrði stjórn hans, en það tel ég ekki æskilegt, eins og ég hef áður á drepið. Ég held, að það færi ákaflega vel á því að setja slíkum sjóði stjórn, sem væri kosin af fjvn. Alþingis. Fordæmi er um það, að fjvn. kaus menn til þess að vinna að því í sambandi við gamlar ábyrgðir að gera þau lán upp og leggja til hæfis miðað við löggjöfina, sem sett var í fyrra. Á þann hátt yrði þessi stofnun, hvort sem hún yrði nú kölluð reikningur eða sjóður, tengd á eðlilegan hátt framkvæmdalífinu í landinu. Og væri stjórnin kosin á hverju ári, mundu tengslin við Alþ. líka verða mjög náin, eins og þau ættu að vera, þar sem Alþ. veitir heimildirnar til lánanna.

Að þessu athuguðu finnst mér rétt, að þessi hv. d. fresti þessu máli í trausti þess, að því verði gerð skil á næsta þingi eftir betri athugun á þessum atriðum, sem ég hef nefnt, og fleira.

Að svo mæltu afhendi ég hæstv. forseta nál. og tillöguna.