08.03.1962
Efri deild: 58. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2292 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson) [frh.]:

Herra forseti. Ég hafði komið þar máli mínu í fyrradag, þegar umr. var frestað, að ég var að ræða um þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir á framkvæmdaköflum skattalaganna. En ég taldi, að þær beindust í fyrsta lagi að því að stokka upp það embættismannakerfi, sem nú væri, og gefa fjmrh. tækifæri til þess að raða í það að nýju eftir sínum geðþótta. í öðru lagi taldi ég að það beindist að því að setja fasta embættismenn í stað skattanefnda, sem nú veittu borgurunum nokkra lýðræðislega aðild að framkvæmd skattalaganna. Og svo í Þriðja lagi að því að fjölga mjög embættismönnum í kerfinu og gera það kostnaðarsamara en áður. Ég tók fram, að ég teldi þó sumar breyt. á framkvæmdaköflunum engan veginn fráleitar, og nefndi þar sérstaklega til skiptingu landsins í skattaumdæmi, en taldi, að afnám skattanefndanna væri varhugaverðara, bæði vegna kostnaðarhliðarinnar og eins af öðrum ástæðum, sem ég nefndi einnig til.

Ég taldi, að í frv. örlaði ekki á því, að reynt væri að bæta úr þeirri höfuðmeinsemd skattalagaframkvæmdarinnar, að skattaeftirlit, sem að einhverju haldi gæti komið, vantaði raunverulega með öllu, og sýnilegt væri, að enn eins og áður ætti að viðhafa þau óhæfu vinnubrögð að myndast við athuganir á öllum framtölum á örskömmum tíma, áður en skattlagning fer fram. Það má vitanlega öllum vera ljóst, að hættulegustu skattsvikararnir ganga ekki þannig frá sínum framtölum, að augljósir annmarkar sjáist á þeim við lauslega athugun. Framtöl þeirra bera áreiðanlega ekki skattsvikin utan á sér. Það eina, sem að haldi getur komið til þess að grafast fyrir rætur þeirra hættulegu skattsvika, og hættulegustu skattsvikanna, er það, að nákvæm rannsókn fari fram á öllum rekstri og bókhaldi viðkomandi fyrirtækja og einstaklinga, og ekki aðeins fyrir eitt og eitt ár í senn, heldur mörg ár aftur í tímann. Slíkar rannsóknir verður ekki hjá komizt að framkvæma, alveg án tillits til þess, hvort sérstakar grunsemdir eru fyrir hendi, þó að þær séu auðvitað sjálfsagðar, þegar svo er. En nú liggur það í hlutarins eðli og er öllum skiljanlegt, að slíkar rannsóknir útheimta meira starf en svo, að hugsanlegt sé, að þær geti nokkurn tíma náð til nema lítils hluta skattþegnanna. En þvílíkar rannsóknir, sem t.d. færu fram eftir útdrætti og allir gætu átt yfir höfði sér, þótt þær í rauninni næðu ekki nema til lítils hluta skattþegna, eru áreiðanlega eina færa leiðin til að stemma einhverja verulega stigu við þeim skattsvikum, sem nú eiga sér stað og ræna ríkissjóð, sveitarfélög og almenning hundruðum milljóna kr. á ári. Fyrir þvílíkri tilhögun í skattaeftirliti er líka slík reynsla fengin meðal annarra þjóða, að víða er það svo, að fáir, að glæpafélögum undanskildum, voga sér að fara þá auðgunarleið að svíkja skatt. Endurskoðun á framkvæmdaköflum skattalaganna með tilliti til þess að lögfesta slíkt virkt skattaeftirlit, um leið og kerfið er gert einfaldara í sniðum og borgararnir væru betur tryggðir gegn mismunun embættismannakerfis, sem lýtur, ja, ég vil segja a.m.k. að þessu frv. samþykktu, einræðisstjórn pólitísks ráðherra, slík endurskoðun er að mínu áliti brýnt verkefni. En það verkefni hefur algerlega verið vanrækt af þeim, sem að þessu frv. standa, enda er tilgangurinn með því allur annar en sá að tryggja réttláta skattheimtu.

Í þessu sambandi hlýt ég að minna á það, að ein aðalröksemd talsmanna hæstv. ríkisstj. í skattamálum fyrir þeirri meginstefnu hennar að auka söluskatta og aðra óbeina skatta hefur verið sú, að beinu skattarnir væru undirrót skattsvikameinsemdarinnar. Þeir hafa sagt og það margoft sumir hverjir, eins og t. d. hv. 11. þm. Reykv., að auðvitað væri það hárrétt, sem bæði ég og aðrir hafa haldið fram, að beinir skattar, miðaðir við tekjur og efnahag, væru réttlátastir allra skatta, ef unnt væri að koma í veg fyrir skattsvik, en það væri bara alls ekki unnt að gera. Hins vegar væri allt öðru máli að gegna um óbeinu skattana. Þeir skiluðu sér eins og til stæði og þess vegna bæri að taka þá upp í ríkara mæli.

Ég er hér á þveröfugri skoðun. Ég tel fullsannað af erlendri reynslu, eins og ég sagði áðan, m.a. frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, sem þessum hv. talsmönnum ríkisstj. ætti ekki að vera óljúft að taka til fyrirmyndar og er það a.m.k. ekki í ýmsum öðrum greinum, að það sé vel unnt að koma í veg fyrir skattsvik með vitlegu fyrirkomulagi og raunhæfu, en þó einföldu skattaeftirliti. En slíkt má auðvitað ekki ske að dómi þeirra, sem fylgja skattstefnu núv. hæstv. ríkisstj. og beita sér fyrir henni, vegna þess að þá væri röksemdagrundvöllurinn, ef hægt er að nefna hann því nafni, sem þeir byggja sína stefnu á, raunverulega dottinn úr sögunni. Og ég tel, að það hljóti að vera ein höfuðástæðan fyrir því, að þeir hafa aldrei viljað fara inn á neitt, sem stefndi í þá átt að hafa betra eftirlit með framkvæmd skattalaganna.

Ég hef fyrr í ræðu minni rakið það nokkuð, hverju hæstv. núv. ríkisstj. hefur til þessa áorkað í þá átt að færa allan þunga skattheimtunnar yfir á bök almennings og eftir þeirri leið stórspillt lífskjörum launastéttanna og hvernig þetta frv. er eins konar kóróna á því verki. Það er nú þegar komið svo, að hin óbeina skattheimta er orðin því nær allsráðandi, en hlutur beinna skatta er orðinn þrisvar til fjórum sinnum minni hér á landi en á öðrum Norðurlöndum. Gróðafélög og stórgróðamenn má, eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt, raunverulega telja til skattleysingja hér á landi. Sú margföldun þjóðarauðsins, sem átt hefur sér stað síðustu áratugina og ég rakti nokkuð í fyrri hluta ræðu minnar, er algerlega skattfrjáls. Eignarskattar eru því nær engir, og möguleikarnir til þess að forða tekjum undan skatti, undan beinum skatti, eru því nær ótakmarkaðir. Á hinn bóginn hafa svo launin verið lækkuð stórkostlega, með hreinum lagaboðum m.a., og þannig skapaður nýr grundvöllur til aukinnar auðsöfnunar, sem nú á að vernda og verja með skattfrelsi. Á sama tíma eru svo óbeinu skattarnir á almenningi margfaldaðir og þyngdir í hlutfalli við eftirgjafirnar til gróðafélaganna og hátekjumannanna og þó meira. Og það er sagt, að allt þetta sé gert af einskærri umhyggju fyrir almenningi.

Ég tel, að skattalög, sem skila ríkissjóði aðeins röskum 50 millj. kr. af gróða allra auðfélaga á Íslandi og eignum þeirra samanlögðum, meðan á 14. hundrað millj. eru teknar með óbeinum sköttum, sem hvíla hlutfallslega langsamlega þyngst á almenningi, þurfi vissulega annarrar endurskoðunar við heldur en þeirrar, sem einhliða beinist að því að vernda og auka gróðamyndunina. Þeim þarf að mínu viti að breyta á þann hátt að miða óbeinu skattheimtuna við afkomumöguleika hinna tekjuminni í þjóðfélaginu, jafnframt því sem geta eignastéttanna og gróðafélaganna til skattgreiðslna er metin að nýju og að því stefnt, að skattheimtan verði fyrst og fremst í samræmi við efnahag og tekjur, en ekki í öfugu hlutfalli, eins og nú er raunverulega verið að stefna að.

Ég tel, að engin þeirra smærri breytinga, sem þetta frv. felur í sér, sé á nokkurn hátt knýjandi, jafnvel þær, sem helzt mætti þó telja til bóta, og gætu þess vegna alveg að skaðlausu beðið eftir því, að allsherjarendurskoðun skattalaganna færi fram með þeim eðlilega hætti, að Alþ. kysi milliþn. til slíkrar endurskoðunar, eins og stefnt er að með Þeirri till. til rökst. dagskrár, sem ég flyt með nál. mínu. En þar er að öðru leyti stefnt að því, að þessu frv. verði hafnað og snúið við á þeirri braut, sem gengin hefur verið í skattamálunum síðustu 2 árin og að mínu viti mundi leiða út í hreina ófæru með samþykkt þessa frv.

Með tilliti til þess, að dagskrártill. mín kynni að verða felld, hef ég flutt nokkrar brtt. á sérstöku þskj. Nokkrar þeirra hef ég skýrt sérstaklega fyrr í ræðu minni, en aðrar leiðir í raun og veru beint af þeim skoðunum, sem ég hef látið í ljós á einstökum frumvarpsákvæðum, og þarfnast ekki annarra eða sérstakra skýringa. En um hinar sameiginlegu till, n. á þskj. 338 er það að segja, að þær eru allar mjög smávægilegar og breyta engu um meginefni frv. En ég tel, þó að það hafi að nokkru leyti komið fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. n., rétt að taka fram til skýringar á afstöðu minni til þriggja af þessum brtt. nokkur atriði.

Það er í fyrsta lagi, að ég tel réttmætt, að gjafir til vísindalegra rannsóknarstofnana verði frádráttarhæfar til skatts, ef greinin, eins og hún er í frv., verður látin standa að öðru leyti eins og hún er. En aðaltillaga mín er sú, að viðkomandi greinarliður falli niður, eins og ég hef áður skýrt frá. í öðru lagi, að fylgi mitt við orðalagsbreyt. á 22. gr., samkv. 5. brtt. á þskj. 338, merkir að sjálfsögðu ekki, að ég sé sammála fyrningarreglunum, sem þar er m.a. vísað til. Hins vegar verður að fallast á það, að orðalag samkv. brtt. sé eðlilegra með þeim hætti, sem þar greinir, ef 15. gr. um fyrningarreglurnar verður óbreytt frá því, sem nú er í frv. En ég legg hins vegar til, að henni verði breytt, og það leiðir líka af sjálfu sér, að yrði mín brtt. við 15. gr. samþykkt, þá er hin sameiginlega brtt. raunverulega úr sögunni. Og í þriðja og síðasta lagi vit ég taka það fram varðandi þessar sameiginlegu brtt., að samþykki mitt við breyt. á 26. gr., sem felst í 8. brtt. n., ber alls ekki að skoða sem neina yfirlýsingu af minni hálfu um það, að ég telji eignarskattsstigann samkv. frv. og eins og hann er í gr. eðlilegan, því að það fer víðs fjarri, heldur er þar aðeins um að ræða samþykki mitt við þá breyt., sem nauðsynleg var til fullrar skýringar á gr., þ.e.a.s. að tekið væri skilmerkilega fram það, sem áður gat orkað tvímælis, að enginn skattur skyldi greiðast af fyrstu hundrað þús. kr. eign.