02.03.1962
Efri deild: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

164. mál, innheimta opinberra gjalda

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er um heimild til sameiginlegrar innheimtu opinberra gjalda. Efni þess er þetta:

Í 1. gr. segir, að heimilt sé fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs, forráðamönnum sveitarfélaga, svo og opinberum stofnunum að semja sín í milli um, að innheimt skuli í einu lagi gjöld, er greiða ber þessum aðilum, og að fela megi innheimtuna ýmist innheimtumönnum ríkissjóðs, sveitarsjóða eða sérstakri innheimtustofnun.

Í 2. gr. segir, að ef samningar takast um gjaldheimtu, þá skuli samið um hlutdeild hvers aðila í kostnaði við hana til eigi skemmri tíma en eins árs í senn.

Í 3. gr. frv. segir, að allar skyldur, sem innheimtumönnum ríkissjóðs, sveitarsjóða og opinberra stofnana eru lagðar á herðar lögum samkvæmt, svo og allar heimildir, sem þeim eru veittar til að framfylgja gjaldheimtunni, skuli falla til þess aðila, sem samkvæmt samningi tekur innheimtuna að sér.

Tildrög þessa máls eru þau, að á árinu 1960 hóf fjmrn. athugun á því, hverjar leiðir kynnu að vera til þess að lækka útgjöld við innheimtu þinggjalda í Reykjavík, en með þinggjöldum er aðatlega átt við eftirtalin gjöld, eins og nú standa sakir: Tekjuskattur, eignarskattur, námsbókagjald, kirkjugjald, kirkjugarðsgjald, almannatryggingagjald, slysatryggingagjald og atvinnuleysistryggingagjald.

Þessi athugun leiddi það í ljós, að draga mætti mjög verulega úr kostnaði með skipulagsbreytingum, endurbótum varðandi bókhald og innheimtu, aukinni vélanotkun og hentugra fyrirkomulagi í skrifstofuhaldi. Þegar þetta lá fyrir og hafði verið kannað, að með breyttri tilhögun á skipulagi mætti spara stórfé í þessu efni, þá kom það til athugunar, hvort ekki væri rétt að stofna til sameiginlegrar innheimtu á þeim ríkissjóðstekjum eða þinggjöldum, sem ég nefndi, annars vegar og hins vegar útsvörum og fasteignagjöldum til borgarsjóðs Reykjavíkur. Þetta mál var athugað, og hófust Þá viðræður við forráðamenn Reykjavíkurborgar um hugsanlegt samstarf í þessu efni. Þessu máli er svo langt komið, að báðir aðilar telja sér mikinn ávinning að því, að innheimtan verði sameinuð á einum stað, og hafa undanfarið unnið að því að koma málinu áleiðis.

Þegar grundvöllur var fenginn fyrir samstarfi þessara tveggja aðila, kom í ljós við athugun, að Sjúkrasamlag Reykjavíkur hafði einnig hug á því að sameina innheimtu sjúkrasamlagsgjalda gjöldum til ríkissjóðs og borgarsjóðs Reykjavíkur.

Það er ljóst, að verulegan sparnað mundi af þessari sameiningu leiða, og stafar það bæði af þeirri skipulagsbreytingu að sameina á einn stað það, sem nú fer fram á þrem stöðum, og enn fremur með breytingu á bókhaldi, innheimtuaðferðum, aukinni vélanotkun og skrifstofutækni. Undirbúningi þessa máls er svo langt komið, að ef Alþ. fellst á það frv., sem hér liggur fyrir, þá mundi vera unnt að sameina innheimtu þessara gjalda, sem ég hef getið um, á miðju þessu ári eða 1. júlí.

Varðandi kostnað og sparnað hafa verið gerðar ýtarlegar áætlanir í því efni. En áður en ég skýri frá því, hvers sparnaðar megi hér vænta, verður að sjáifsögðu að hafa vissan fyrirvara, því að hér er um svo róttæka breytingu, svo róttækar umbætur í framkvæmdum að ræða, að það er ógerningur að slá því föstu með áætlunum fyrir fram nákvæmlega, hver kostnaðurinn skuli vera, svo að þeim áætlunartölum, sem ég get hér um, verður að sjáifsögðu að taka með vissum fyrrivara. Þó tel ég ekki ástæðu til að ætla, að í reynd muni útgjöldin víkja mjög verulega frá því, sem áætlað hefur verið, því að við þennan undirbúning hafa bæði reyndir erlendir sérfræðingar og íslenzkir kunnáttumenn fjallað um málið og standa að þessum áætlunum. En í stuttu máli liggur það svo fyrir, ef við gerum áætlun um. hver kostnaður mundi annars vegar vera, á fyrsta starfsári, miðað við óbreytt fyrirkomulag um þessa innheimtu og hins vegar sameiningu, að þá er gert ráð fyrir, að með óbreyttu fyrirkomulagi mundi kostnaðurinn, miðað við ársgrundvöll, vera um 11 millj. kr., en eftir sameininguna, þegar hún er komin í kring, muni rekstrarkostnaðurinn verða tæpar 5 millj. kr., þannig að áætlanir benda til þess, að þarna megi spara um 6 millj. kr. á ári.

Það er gert ráð fyrir því, að kostnaðurinn skiptist í tilteknum hlutföllum milli þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, og hefur við þær áætlanir verið hafður til hliðsjónar bæði afgreiðslufjöldi á þeim stað og annað, sem þar skiptir verulegu máli. Og við undirbúninginn hefur verið gert ráð fyrir því í fyrstu, að 421/2% af kostnaðinum falli í hlut ríkisins, sama hundraðstala í hlut Reykjavíkurborgar og afgangurinn í hlut Sjúkrasamlags Reykjavíkur. Þannig er gert ráð fyrir, að þessu verði háttað í byrjun, en svo verður reynslan að skera úr um það, hvort rétt sé að breyta þessum hlutföllum, og gert ráð fyrir, að samið sé um hlut hvers aðila í þessum innheimtukostnaði til a.m.k. eins árs í senn.

Sparnaðurinn mundi verða nokkuð mismunandi hlutfallslega fyrir þessa þrjá aðila. Hlutfallslega verður útgjaldalækkunin minnst hjá Reykjavikurborg af þeirri ástæðu, að hún lét fyrir nokkrum árum endurskipuleggja starfsaðferðir við innheimtu útsvara og fasteignagjalda, og var í sambandi við það um verulega útgjaldalækkun að ræða. Af þeirri ástæðu verður sparnaðurinn eða útgjaldalækkunin við þessa sameiningu miklu meiri hlutfallslega hjá ríkissjóði og Sjúkrasamlagi Reykjavíkur. Ef við gerum ráð fyrir því, að sparnaðurinn geti orðið um 6 millj. kr. á ári, þá ætti ríkissjóður að njóta um helmings af þeirri upphæð eða sparnaðurinn varðandi hlutdeild ríkissjóðs að nema tæpum 3 millj. kr., miðað við það, sem innheimtan kostar nú.

Þessi sparnaður, sem hér er gert ráð fyrir, á sér ýmsar orsakir. í fyrsta lagi verður hér um verulegan sparnað í mannahaldi að ræða, þannig að við sameininguna er ekki þörf á jafnmörgum starfsmönnum og nú eru hjá þessum þrem aðilum við þessi störf, í öðru lagi verður sparnaður við húsnæðiskostnað, í þriðja lagi með bættum starfsaðferðum, vélakosti og skipulagi, öll þessi atriði koma hér að sjálfsögðu til greina. En auk þess beina sparnaðar við að sameina innheimtuna eru því samfara ýmsir kostir aðrir. Fyrir gjaldendur er það ótvírætt hagræði að skipta við einn aðila í stað fleiri og eiga kost á að greiða þessi gjöld, sem hér um ræðir, á einum stað í stað margra áður. Fyrir launagreiðendur, atvinnurekendur, þá sem ber samkv. lögum skylda til að innheimta opinber gjöld af launum starfsmanna sinna, er það einnig hagræði að þurfa aðeins að gera skil til eins aðila í stað fleiri aðila áður. Sjálf innheimtan ætti að verða árekstraminni og árangursríkari og uppgjör reikninga og skulda verður auðveldara.

Við þann undirbúning, sem þegar hefur verið gerður varðandi þetta mál, er sem sagt gert ráð fyrir að sameina nú í fyrstu lotu innheimtu þinggjaldanna til ríkissjóðs, útsvara og fasteignagjalda til borgarsjóðs Reykjavíkur og sjúkrasamlagsiðgjalda til Sjúkrasamlags Reykjavíkur. Hins vegar er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að fleiri aðilar og fleiri tegundir gjalda geti komið hér til, og ég ætla, að þeim mun fleiri aðilar og fleiri gjaldategundir sem verða þannig sameinaðar, þeim mun meiri sparnað muni af því leiða.

Þessi undirbúningur hefur til Þessa verið miðaður við Reykjavík eina, en ef vel tekst til um þessa sameiningu, er sjáifsagt að reyna slíkt fyrirkomulag víðar, þar sem það þykir henta.

Ég ætla, að þess gerist ekki þörf að skýra þetta mál frekar en gert hefur verið. Ég vænti þess, að frv. þetta fái góðar undirtektir frá Alþingi, og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.