08.03.1962
Efri deild: 58. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2370 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

164. mál, innheimta opinberra gjalda

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gerði við 1. umr. grein fyrir frv. þessu efnislega, og sé ég ekki ástæðu til að rekja þær málsástæður hér. Fjhn. hefur athugað frv. og er sammála um að mæla með því, að það verði samþykkt. Frv. felur í sér, svo sem kunnugt er, ekki skyldur, heldur er hér um heimildir að ræða fyrir þá aðila, sem þar segir, til þess að semja um sameiginlegar innheimtustofnanir, og það virðist því ekki geta verið nein ástæða til að hafa á móti því, ef það gæti leitt til hagkvæmari innheimtu hinna ýmsu gjaldstofna. Nefndin hefur ekki sérstaklega leitað um þetta álits þeirra aðila, sem hér er um að ræða, einmitt með hliðsjón af því, að þetta er heimildarákvæði, en með skírskotun til raka um líklegan sparnað og hagkvæmni af þessari tilhögun mælir nefndin einróma með því, að frv. verði samþykkt óbreytt.