16.04.1962
Neðri deild: 95. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

164. mál, innheimta opinberra gjalda

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Hæstv. forseti. Þetta mál er komið frá Ed., og hún gerði nokkra breytingu á frv. frá því, sem það upphaflega var flutt. Við erum í meginatriðum og efnislega samþykkir þessu frv. í fjhn. Nd., en okkur þótti ástæða til að gera nokkra breytingu á 4. gr., sem að vísu er kannske að mestu leyti formsbreyting, en þó þannig, að við kunnum ekki við, að gengið væri frá henni eins og hún nú er, en þar segir, að með reglugerð megi samræma gjalddaga einstakra opinberra gjalda o.s.frv., enda þótt frávik sé að því leyti frá gildandi heimildarlögum. Það er m.ö.o. sagt þarna almennt, að með reglugerð megi gera frávik frá gildandi lögum. Fær það að vísu að formi til staðizt, að heimildin til að breyta frá gildandi lögum með reglugerð er þá í þessum lögum. En við leggjum hins vegar til, að á þessu sé gerð breyting, eins og segir á þskj. 795: Í fyrsta lagi, að í stað þess, að með reglugerð megi samræma gjalddaga einstakra opinberra gjalda o.s.frv., komi: að heimilt sé að samræma þessi opinberu gjöld, og að setningin „enda þótt frávik séu að því leyti frá gildandi heimildarlögum“ falli niður, en aftan við greinina bætist svo í þriðja lagi: Nánari ákvæði um þetta má setja í reglugerð. — Þetta leggur n. til á þskj. 795, og að öðru leyti leggur hún til, að frv. verði samþykkt.