12.04.1962
Efri deild: 86. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2384 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

225. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það hefur ekki gefizt langur tími til að athuga þetta stórmál, sem hér er kastað inn í þingið á síðustu dögum þess, og það fer líka fjarri, að þm. hafi einu sinni haft tækifæri til þess að lesa yfir öll þau fskj., sem þessu máli fylgja, þau eru töluverð að vöxtum, né heldur aflað sér annarra upplýsinga, sem að gagni mættu koma í sambandi við athugun á þessu máli. Það ber þess vegna að vænta þess, að þó að málið sé seint fram komið, þá gefist tækifæri til þess á síðari stigum málsins að ræða það ýtarlegar en nú er hægt á þessu stigi, og einnig, að málið hljóti í nefnd sæmilega þinglega meðferð og þar gefist tóm til þess að athuga einstök atriði, því að það er alveg víst, að hvernig sem Þetta mál er skoðað, Þá er Það mjög mikilvægt, og eins sýnist mér við fyrstu sýn a.m.k., að þá sé æðimargt við þetta frv. að athuga og á því þurfi að gera verulegar breytingar, til Þess að það geti talizt, að það leysi þann vanda, sem því er ætlað að leysa og það fjallar um.

í því sambandi er að sjálfsögðu nauðsynlegt í fyrsta lagi að gera sér grein fyrir því, í hverju sá vandi er fólginn, sem frv. er ætlað að bæta úr. Ég hygg, að vandinn sé í fyrsta lagi fólginn í því, að opinberir starfsmenn hafa ekki notið þeirra almennu mannréttinda, sem felast í samtaka- og samningsfrelsinu, því samtaka- og samningsfrelsi, sem borgarar þjóðfélagsins almennt njóta og er í aðalatriðum mótað í sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins, og að opinberir starfsmenn vilja ekki lengur una þeirri mismunun, sem þeir hafa verið beittir í Þessum efnum. Vandinn er í öðru lagi sá, að opinberir starfsmenn hafa aldrei í jafnríkum mæli og nú talið launakjör sín vera algerlega óviðunandi og aldrei fyrr gert jafnharða hríð að ríkisvaldinu um leiðréttingu sinna mála, hvað launakjörin sjálf snertir, eins og nú og að undanförnu. Það má segja, að við hliðina á þeirri almennu réttindabaráttu, sem opinberir starfsmenn hafa háð, allt frá því að samtök þeirra fóru að mótast, þá hefur nú risið óánægjualda hærri en áður, á líkan hátt og hjá öllum öðrum launamönnum núna á tímabili viðreisnarinnar. Og Það er þessi óánægjualda, sem hefur gert kröfu starfsmannanna um samnings- og samtakarétt að dagskrármáli, sem ekki verður lengur undan vikizt að taka afstöðu til með einhverjum hætti. Þessi óánægjualda er nú orðin svo sterk, eins og öllum er kunnugt, að t.d. heil starfsgrein opinberra starfsmanna hefur nú alveg nýlega bundizt innbyrðis þeim fastmælum að segja upp störfum, maður við mann, og hefur þannig með raunverulegri verkfallshótun, sem ekki er þó unnt að beita refsingu við, knúið ríkisvaldið til mjög verulegrar launahækkunar.

Það má segja, að þetta frv. sé sprottið upp úr Þessum jarðvegi, annars vegar upp úr Þeirri almennu réttindabaráttu, sem opinberir starfsmenn hafa háð, og hins vegar upp úr launaskerðingaraðgerðum núverandi ríkisstj. Og það er vissulega engin tilviljun, að þetta frv. er einmitt fram borið núna, en hvorki fyrr né síðar. Hæstv. ríkisstj. sér nú fram á það, að hún er að missa taumhaldið á launakjörunum, hún er að missa valdið yfir kaupgjaldinu, það vald, sem hún hefur hrifsað til sín á freklegri hátt en nokkur önnur ríkisstj., sem setið hefur í landinu fyrr eða síðar. Þetta taumhald er nú að bresta, jöfnum höndum vegna þrýstings frá starfsliði sjálfs ríkisins og hins vegar átaka frá hendi verkalýðshreyfingarinnar. Það er öllum kunnugt um þetta ástand. Verkfræðingar hafa knúið fram mjög miklar launahækkanir, sem ríkisvaldið hefur í raun orðið að viðurkenna með því að fela þeim, sem samið hafa við þá, störf í vaxandi mæli fyrir ríkið og ríkisstofnanir. Kennararnir hafa fengið 9–10% kauphækkun núna alveg síðustu dagana til viðbótar við þau 13.8%, sem opinberir starfsmenn fengu almennt í fyrra, og til viðbótar við þau 4%, sem opinberir starfsmenn fá 1. júní, eða nær 30% kauphækkun á einu ári. Togarasjómennirnir standa í verkfalli, sem allir vita að leysist ekki nema með mjög mikilli kauphækkun þeim til handa. Og verkamenn og iðnaðarmenn eru nú að undirbúa aðgerðir í kauphækkunarátt. Og það er meira að segja svo komið, að hæstv. ríkisstj. hefur nú nýlega í opinberri yfirlýsingu orðið að viðurkenna það, að ekki verði hjá því komizt að hækka laun lægst launuðu verkamannanna.

Það er sem sagt sama, hvert ríkisstj. rennir augunum, að hún sér fyrir sér gjaldþrot kauplækkunarstefnunnar, og hún finnur vel, að hún á engan kost annan en að láta undan síga fyrir þeirri sókn, sem hafin er gegn þessari stefnu. Og hæstv. ríkisstj, hefur þegar hafið undanhaldið, og þetta frv. er einn greinilegasti vottur þess, þrátt fyrir það að á Því eru miklir ágallar frá sjónarmiði þeirra starfsstétta, sem við þá skipan mála eiga að búa, sem hér er ráðgerð. Frv. ber þess vegna vissulega þess vott, að ríkisstj. er á undanhaldi fyrir opinberum starfsmönnum í launamálum og í réttindamálum þeirra. En það ber jafnframt mjög greinilegan vott um tregðuna, íhaldssemina og þá valdbeitingartilhneigingu, sem hefur verið rík í fari þessarar hæstv. ríkisstj. Og það er vissulega ekkert undrunarefni, að æðimargir vankantar séu á því máli, sem þannig er til komið.

Opinberir starfsmenn hafa nú frá því árið 1915 búið við Þá mannréttindaskerðingu, sem frjálslyndustu menn, sem þá áttu sæti hér á hv. Alþingi, vöruðu við, þ.e.a.s. þá að mega ekki leggja niður vinnu með félagslegum hætti eða m.ö.o. að gera verkfall. Þeir hafa að vísu mátt stofna með sér félög til þess að vinna að sínum hagsmunamálum, en andi 73. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir, að „rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi án þess að sækja um leyfi til þess,“ hefur ekki reynzt duga þeim til þess að mega beita Þessum samtökum með sama hætti og aðrir launamenn, sem vinna í þjónustu einkaaðila. Þannig hefur löggjafarvaldið með því að rangsnúa grundvallaratriðum félagafrelsisins mismunað opinberum starfsmönnum og gert rétt þeirra minni en annarra. Þannig hefur það getað átt sér stað, að algerlega hliðstæðir starfsmenn hafa búið við tvenns konar rétt og verið mismunað gagnvart lögum, og þannig hafa opinberir starfsmenn raunverulega verið sviptir frumstæðustu mannréttindum og raunverulegu og virku samtakafrelsi. Og það er vissulega eftirtektarvert í Þessu sambandi að athuga það, að áhugi fyrir myndun starfsmannasamtaka í beinum hagsmunatilgangi vaknar ekki verulega að gagni hér á landi fyrr en á dögum heimsstyrjaldarinnar síðari eða hálfri öld eftir að verkalýðshreyfingin hefur farið að mótast í fastar skorður. Ástæðan fyrir þessu er auðvitað sú, að þessum starfsmönnum hefur verið meinað að hafa með sér raunverulega virk hagsmunasamtök, og einnig sú, að þangað til verkalýðshreyfingin gerbylti lífskjörunum á íslandi á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar, þá var gert tiltölulega vel við embættismannastéttina, sem var þá miklu fámennari en hún er nú, og kjör hennar voru tiltölulega góð í samanburði við þau kjör, sem almúgi manna átti við að búa. En um líkt leyti verður sú breyting, að fjölgun verður mikil í stétt opinberra starfsmanna, bæði vegna breyttra tíma og breyttra þjóðfélagshátta, og það skapast raunverulega verkalýður í opinberum störfum, og það er Þessi verkalýður, sem stöðugt fer fjölgandi og skiptir nú orðið mörgum þúsundum, sem hefur fundið það betur og betur, að hann á fulla hagsmunalega samleið með þeim verkalýð, sem meira vinnur með höndunum sitt erfiði. Þessi verkalýður vill ekki lengur una því að búa við rétt eins og annars flokks borgari í landinu, og það er hér sem sú barátta hefst, sem nú hefur náðst nokkur áfangi í fyrir fullu samningafrelsi þessarar stéttar.

Það er augljóst, að þetta frv. er fyrsti umtalsverði sigurinn í þessari mannréttindabaráttu opinberra starfsmanna og tvímælalaust nokkur réttarbót frá þeirri skipan, sem verið hefur. Með þessu frv. eru samtök opinberra starfsmanna, þ.e.a.s. BSRB, í fyrsta skipti viðurkennd sem samningsaðili við ríkisvaldið um laun og kjör skjólstæðinga sinna, og á sama hátt eru starfsmannafélög bæjanna viðurkennd sem samningsaðili við bæjarfélögin. Þetta er það jákvæða í þessu frv., og þetta væri auðvitað ómetanlegt, ef ekki fylgdu verulegir annmarkar. En á hinn bóginn hefur hæstv. ríkisstj. í undirbúningi málsins og í samningum við opinbera starfsmenn lagt ofurkapp á það að setja þessari mikilsverðu réttindaviðurkenningu á samtökum opinberra starfsmanna sem allra þrengst takmörk með margvíslegum hætti og raunverulega eyðilagt hana að mjög verulegu leyti með þeim ákvæðum frv. að stefna endanlegum úrskurði í launamálum til svokallaðs kjaradóms, ef samningar takast ekki á tilskildum tíma milli hinna viðurkenndu samningsaðila. Með þessum ákvæðum um kjaradóm er því lýðræðislega úrskurðarvaldi innan samtakanna um kjaramálin, sem þar ætti eitt að ríkja, ef réttur, en ekki vald, réði, vikið til hliðar og það fengið í hendur gerðardómi, þvert á móti eindregnum vilja allra forustumanna í BSRB og áreiðanlega alls þorra þeirra, sem þau samtök skipa.

Hæstv. fjmrh. sagði, að þetta mál væri samningsmál milli stjórnar BSRB og hæstv. ríkisstj., og þetta er rétt, svo langt sem það nær. En hinu má þó ekki gleyma, að hér hafa þeir setið að samningum, sem harla ójafna höfðu aðstöðuna: annars vegar réttlaus aðili, sem litið hafði sér annað til stuðnings heldur en málstaðinn, og hins vegar handhafar ríkisvaldsins, sem raunverulega hafa löggjafarvaldið í vasanum og þannig valdið yfir réttindum hins aðilans, sem við var að semja. Þetta vald og þessa aðstöðu hefur hæstv. ríkisstj. notað sér af fullkomnu tillitsleysi með þeirri vitund, að hinn samningsaðilinn var aðstöðunnar vegna tilneyddur að taka skásta kostinn í hverju tilviki, ná því, sem unnt var að ná með samkomulagi, og þoka sínu máli svo langt sem verða mátti miðað við aðstæður. Hér var því vissulega ójafn leikur og þess vegna alveg óþarfi fyrir hæstv. ríkisstj. að hælast um yfir því, að ríkisstj. hafi fengið samþyki BSRB við þessu frv., eins og það liggur fyrir. Og ég ætla, að þetta komi alveg ljóst fram í niðurlagi þeirrar ályktunar, sem stjórn BSRB gerði um þetta á fundi sínum 9. þ. m, og hæstv. fjmrh. las hér að nokkru, en þar segir, að enda þótt ríkisstj. hafi ekki fallizt á, að opinberir starfsmenn fái fullan samningsrétt til jafns við aðra launþega, eins og bandalagsstjórnin hefur barizt fyrir í samræmi við stefnu bandalagsins, telur stjórnin, að bandalagið hafi með frv. náð svo miklum áfanga, að fulltrúum þess beri að samþykkja það, þó að Það viðurkenni ekki réttmæti þess, að kjör launþega séu ákveðin með gerðardómi. Jafnframt telur stjórn BSRB sjálfsagt, að unnið verði áfram að því takmarki, að opinberir starfsmenn njóti sama samningsréttar og aðrir launþegar búa við. Ég held, að öllum megi vera ljóst, sem þetta lesa eða heyra, að þetta frv. er ekki nema að litlu leyti í samræmi við vilja opinberra starfsmanna, heldur er aðeins um það að ræða, að nokkur bót er fengin frá alveg óskoruðu valdi löggjafans um meðferð launamálanna, þeirri skipan, sem í gildi hefur verið, og að opinberir starfsmenn hafa orðið að meta þar illskárri kostinn, sem nú var fyrir hendi, og taka þann áfanga, sem hægt var að ná, en taka það hins vegar skýrt fram, að þeir viðurkenni ekki réttmæti þess, sem frv. ákveður um gang kjaramálanna, og þá alveg sérstaklega, að kjörin skuli, ef annars er ekki kostur, úrskurðuð af gerðardómi.

Ég vil því segja það, að þetta frv. er frv. hæstv. ríkisstj., en ekki frv. Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Þetta er frv. hæstv. ríkisstj., eins og hún metur sér nauðsynlegt að hafa það á því undanhaldi, sem hún nú er á fyrir opinberum starfsmönnum og almennt í launamálum. Helzt hefði hæstv. ríkisstj. auðvitað ekki viljað flytja neitt slíkt frv., en atburðir síðustu tíma og jafnvel síðustu daga í launamálunum hafa fært henni heim sanninn um það, að á því var henni ekki stætt, hún varð að láta undan, en hefur hins vegar þumbazt við að gera það með þeim hætti, að til nokkurrar frambúðar sé skipað þessum málum. Þetta er eins konar viðreisnarkrafs í bakkann, eins og í svo mörgum öðrum málum hér á hv. Alþingi nú á þessum vetri. Gerðardómsákvæðin eru auðvitað verstu annmarkarnir á þessu frv. og þau ákvæði, sem gera það frekast að verkum, að mér finnst mesta óbragð að frv. í heild sinni, þrátt fyrir þá vissu viðurkenningu, sem í því felst á samtökum opinberra starfsmanna, og þá auknu möguleika, sem samtök þeirra fá til þess að túlka málefni sín í sambandi við kjaradeilur og kjarasamninga og allir hljóta að meta að verðleikum. Samt sem áður þykir mér, að þar með séu annmarkarnir og gallarnir langt frá því að vera upp taldir, og þó að það sé fjarri mér að fara hér út í einhvern sparðatíning, þá hlýt ég nú strax við 1. umr. málsins að vekja athygli á nokkrum atriðum — nokkrum vægast sagt varhugaverðum frumvarpsákvæðum, sem bæta þarf í meðferð hv. deildar.

Í 2. gr. frv. segir, að fjmrh. fer með fyrirsvar ríkissjóðs að því er varðar kjarasamninga og aðrar ákvarðanir af hendi ríkisvalds skv. lögum þessum. Ég tel þetta algerlega óhæft ákvæði. Það er sjálft Alþingi, sem eitt hefur farið með það fyrirsvar, sem hér er rætt um, með setningu launalaganna, og hvorki ráðh. né ríkisstj. í heild hefur haft þetta vald. Þingið hefur haft fyrirsvar ríkissjóðs að þessu leyti, á sama hátt og fjárveitingavaldið er í þess höndum, og það er ekki sjáanleg nein ástæða til þess, að sá háttur verði ekki hafður á framvegis, þrátt fyrir breytta skipan í þessum málum. Ég tel, að þessu beri að breyta þannig, að þingkjörin n., t.d. fimm manna eða jafnvel fjvn., annaðist samninga við fulltrúa BSRB. Það er ekki hægt að ganga fram hjá því, að Alþingi hefur fjárveitingavaldið, en ekki hæstv. fjmrh., hver sem hann er, og hann er ekki fremur en aðrir alþm. réttkjörinn til þess að taka það vald í sínar hendur að þessu leyti.

Í 3. gr. er svo á hinn bóginn ákveðið, að BSRB eða öllu heldur stjórn þess fari með fyrirsvar ríkisstarfsmanna um kjarasamninga og aðrar ákvarðanir af hendi starfsmannanna skv. lögum þessum, eins og þar segir. Þetta kann að líta vel út við fyrstu sýn, en er að mínu viti mjög varhugavert, ef betur er að gáð. Hliðstætt ákvæði í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur hljóðar svo: „Stéttarfélög eru lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna.“ Á þessu tvennu er auðvitað reginmunur. Annars vegar, þ.e. í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur, er félagafrelsið, þ.e. rétturinn til að mynda og skipa sér í hvern þann félagsskap, sem menn æskja, lagður til grundvallar, og hverjum slíkum félagsskap er fenginn hinn sami lagaréttur, þ.e. til að semja um kaup og kjör sinna meðlima. Frá lagalegu sjónarmiði er þess vegna ekkert því til fyrirstöðu, að fleiri en einn félagsskapur fari með samningsaðild, t.d. í ákveðinni starfsgrein, aðeins fær félagsskapurinn ekki heimild til samningsgerðar um kaup og kjör fyrir aðra en þá, sem honum tilheyra. Menn geta svo átt frjálst val um það, í hvaða félagsskap þeir kjósa að skipa sér eða hvort þeir vilja standa utan við allan félagsskap. Og það haggar ekki þessum grundvallarréttindum, þó að reyndin hafi að lyktum orðið sú hér á landi, að aðeins er eitt stéttarfélag starfandi í hverri starfsgrein á hverju félagssvæði. Annars staðar víða hefur svo farið, að fleiri stéttarfélög í sömu starfsgrein og sambönd þeirra eru starfandi hlið við hlið. Ég álít ákaflega varhugavert að víkja í nokkru frá þessum grundvallarreglum félagafrelsisins og tel alveg óvíst, hvort það kann að leiða nokkuð gott af sér, ef svo væri gert og farið að tíðka slíkt í löggjöf. Hér er verið að hverfa að því að gefa út eins konar einkaleyfi til handa BSRB til þess að fara með samningsaðild fyrir alla starfsmenn ríkisins, hvort sem þeir eru meðlimir þar eða ekki, og ef einhverjir standa utan þess sambands, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða jafnvel heil starfsgreinafélög eða sambönd, er þeim hinum sömu meinaður sá réttur, sem lögin almennt veita til samningsgerðar, og það jafnvel þótt hugsanlegt væri, að meiri hluti í heilli starfsgrein eða jafnvel öll starfsgreinin væri utan samtakanna. Í annan stað er svo ákveðið, að stjórn BSRB fari með fyrirsvarið, en ekki starfsgreinasambönd innan þess eða þeirra stjórnir, nema að mjög takmörkuðu leyti, og alls ekki að því er viðkemur sjálfu kaupgjaldinu, alveg andstætt því, sem tíðkast í verkalýðshreyfingunni, þar sem samningsrétturinn er í höndum hvers félags innan heildarsamtakanna. Enn kemur það til, að samningur um laun á að vera einn fyrir allar starfsgreinar og að því leyti sem atkvæði innan samtakanna fá einhverju ráðið um þá samninga, þá er atkvæðisréttinum þannig varið, að hver starfsgrein hefur raunverulega atkvæði um kjör allra hinna. Þannig mundu t.d. meðlimir í sambandi barnakennara hafa jafnmikil áhrif á kjör t.d. löggæzlumanna og sín eigin — og öfugt, svo að dæmi séu tekin.

Ég er þeirrar skoðunar, að samningsrétturinn ætti að vera í höndum starfsgreinasambandanna og að þau hvert fyrir sig hefðu úrslitaatkvæði hvert um sína samningsgerð. Hitt er þó aðalatriðið í þessu efni, að Það einkaleyfi, vil ég segja, sem ákveðnum félagsskap er gefið til samningsgerðar fyrir opinbera starfsmenn, brýtur í bága við þau almennu lýðræðislegu lögmál, sem virða ber við lagasetningu sem þessa. Hér breytir það ekki máli, að eins og nú er háttað, er BSRB hinn eini eðlilegi aðalfyrirsvarsaðili opinberra starfsmanna og svo óumdeilanlegur sem slíkur, að raunverulega kemur enginn annar þar til greina. Mér sýnist engin þörf vera á því, að þetta samband fái hér neitt einkaleyfi umfram það, sem af sjálfu leiðir, að annar aðili kemur hér ekki til greina, meðan opinberir starfsmenn velja sér það sem sín aðalsamtök. Réttur þessa sambands og vald í málefnum þeirra, sem vinna í opinberri þjónustu, á á hverjum tíma að miðast við aðild opinberra starfsmanna að þessu sambandi og ekki við neitt annað. Ég fæ ekki séð, að sambandið hefði neitt að óttast í þessum efnum, þó að hér væri haldið fast á Þeim grundvaltarsjónarmiðum, sem hér er um að ræða, eða því væri á nokkurn hátt hætta búin af því.

Með þessu frv. er því slegið föstu, að kjarasamningur eða úrskurður kjaradóms, skv. hinni nýju skipan, sem fyrirhuguð er, skuli í fyrsta skipti ekki taka gildi fyrr en 1. júlí 1963, þ.e.a.s. einum degi eftir að lengsta mögulegt kjörtímabil hæstv. núv. ríkisstj. er úti. Miðað við þær aðstæður, sem nú eru almennt í launamálum, verður þessi dráttur bæði að skoðast óeðlilegur og ósanngjarn. Mjög miklar kauphækkanir umfram þær, sem opinberir starfsmenn hafa fengið, eru ýmist orðnar staðreyndir eða eru alveg fyrirsjáanlegar í næstu framtíð. Það er þess vegna engin sanngirni í því, að opinberir starfsmenn þurfi að kaupa þau almennu mannréttindi, sem þeir öðlast að nokkru með samþykkt þessa frv., með meira en heits árs bið eftir brýnustu lagfæringum á sínum kjörum. Og óneitanlega væri það líka viðkunnanlegra, að árangur af hinni nýju skipan, sem hér er ráðgerð, kæmi að fullu í ljós, áður en núv. hæstv. ríkisstj. tekur andköfin í lok júnímánaðar 1963. Við það ynnist líka það, að betur mætti meta það, jafnvel fyrir kosningar á því ári, hver reynslan hefði orðið, og opinberir starfsmenn og raunar öll þjóðin gæti þá verið færari um að taka afstöðu til þess, . hvort ekki sé þá orðið tímabært að veita opinberum starfsmönnum fullan samningsrétt.

Ég ætla ekki, eins og ég sagði áður, að fara hér út í smáatriði í sambandi við þetta frv., en ég get þ6 ekki stillt mig um að vekja athygli á einu atriði í því, sem ekki verður þó skoðað sem neitt úrslitaatriði, en það eru ákvæðin í 2. málsgr. 4. gr. frv. Þessu ákvæði hefur hæstv. ríkisstj. smeygt inn í frv., eftir að það var siðast borið undir stjórn BSRB og að henni forspurðri, enda kann að verða litið svo á, að það atriði skipti opinbera starfsmenn og þeirra samtök raunverulega ekki miklu. En þetta ákvæði hljóðar svo, að launakjör ráðh. og hæstaréttardómara skuli ákveðin af kjaradómi. Þegar sjálf skipan kjaradómsins er athuguð, hygg ég, að flestum verði ljóst, hversu þetta ákvæði er fráleitt. Kjaradómurinn er, eins og hv. þdm. eru áreiðanlega allir kunnugir, skipaður þannig, að þrír eru tilnefndir af hæstarétti og einn af ráðh., þ.e.a.s. þessir aðilar eiga fjóra menn af fimm í dómnum. Það eru þessir fjórir dómendur, sem eru tilnefndir af ráðh. og hæstarétti, sem eiga að ákveða launin handa þeim, sem skipa Þá. Ég vil bara spyrja hæstv. ráðh.: Er þetta hægt? Ég dreg það auðvitað ekkert í efa, að launamálum hæstv. ráðh. og hæstaréttardómara væri vel borgið með þessum hætti, og mundu sjálfsagt fleiri vilja kjósa sér þá aðferð til þess að fá sín laun ákveðin, að þeir skipuðu sjálfir þá menn, sem launin ættu að ákveða. En samrýmist þetta almennum óskráðum síðareglum? Ég held ekki. Hér skýtur a.m.k. nokkuð skökku við þau takmörkuðu réttindi, sem á að veita opinberum starfsmönnum almennt, þegar hæst launuðu embættismönnum þjóðfélagsins er falið að tilnefna sjálfir þá menn, sem eiga að ákveða launakjörin handa þeim. Segi menn svo, að hæstv. ráðh. kunni þá ekki þrátt fyrir allt að heyja kjarabaráttu fyrir sjálfa sig, þó að þeir telji það höfuðhlutverk sitt, a.m.k. í þessari ríkisstj., ef ekki almennt, að torvelda alla kjarabaráttu fyrir aðra.

Ég get nú látið máli mínu lokið að þessu sinni, enda hef ég enga tilhneigingu til þess að tefja eðlilega afgreiðslu þessa máls. Ég vil aðeins að lokum endurtaka það, að afstaða okkar Alþb.- manna til frv. mótast af því fyrst og fremst, að við teljum, að með því hafi þokað áfram fyrir opinbera starfsmenn því mikla réttindamáli, að þeir fái notið fulls samnings- og samtakafrelsis, eins og viðurkennt er fyrir aðra launamenn í þessu landi, og að verulegum áfanga sé náð með þessu frv. að því marki. Á hinn bóginn höfum við opin augu fyrir þeirri staðreynd, að þetta frv. er aðeins áfangi að því marki, að opinberir starfsmenn fái full mannréttindi, og að frv. er á margan hátt meingallað og hefur að geyma ýmist áhæf eða varhugaverð ákvæði. Við munum þess vegna freista þess á síðari stigum málsmeðferðarinnar að fá lagfæringar á frv. í samræmi við okkar hugmyndir um það, að allir eigi að njóta sömu réttinda, hvort sem þeir vinna í opinberri þjónustu eða starfa fyrir aðra aðila í þjóðfélaginu.