05.03.1962
Neðri deild: 59. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2475 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

88. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Svo sem sjá má af nál. landbn. á þskj. 332, leggur n. til, að þetta frv. verði samþykkt óbreytt. Frv. gerir ráð fyrir tveimur breytingum á l. nr. 66 frá 1936, um eyðingu svartbaks. Önnur breytingin er fólgin í því, að skotmannslaun hækki allverulega og verði 12 kr. fyrir hvern skotinn svartbak og greiðist helmingur þeirrar upphæðar úr ríkissjóði, en hlutaðeigandi sýslusjóður og sveitarsjóður greiði hinn helminginn, sinn fjórðung skotmannslaunanna hvor. Hin breytingin er um sektarákvæði 5. og 6. gr. l., og er gert ráð fyrir í frv., að sektir tífaldist. Þá er gert ráð fyrir því, að ráðherra setji reglugerð samkvæmt lögunum, og er hægt að setja inn í þá reglugerð ákvæði um sönnunarskyldu þeirra, sem verðlauna krefjast fyrir skotinn svartbak, og annað, sem þurfa þykir varðandi framkvæmd þessara laga. Þrátt fyrir þá hækkun á skotmannslaunum, sem frv. gerir ráð fyrir, vorum við í landbn. ekki svo mjög trúaðir á, að svartbaknum yrði að nokkru verulegu marki haldið í skefjum með skotum. Sú var einnig skoðun dr. Finns Guðmundssonar, forstöðumanns Náttúrugripasafns Íslands, en hann kom á fund nefndarinnar og ræddi við hana um málið, og þá skoðun sína byggði hann á þeirri reynslu, sem fékkst á árunum 1942—1954 á eyðingu svartbaks með skotum, en á því 13 ára tímabili voru greidd samkv. tímabundnum lögum frá 1941 talsvert hærri skotmannslaun en lögin frá 1936 gerðu ráð fyrir. En svo sem sjá má af fskj. með nál., voru á þessu tímabili greidd skotmannslaun fyrir 42792 svartbaka, og taldi dr. Finnur Guðmundsson það mjög lítinn hluta þeirrar mergðar, sem er af þessum fugli við strendur landsins.

Mál þetta var einnig til meðferðar hér í hæstv. Alþ. á síðasta þingi, og þá skilaði landbn. þessarar deildar áliti um málið. Í því nál. er bent á, að það væri æskilegt að fela sérfróðum mönnum athugun á því, hvort ekki muni unnt að framkvæma eyðingu svartbaks með einhverjum áhrifameiri ráðum en ætla má að skotaðferðin reynist. Ýmsar þjóðir munu kunna til þess fleiri ráð að varna offjölgun veiðibjöllunnar og annarra mávategunda henni skyldra, sem skaða gera, og ólíkt mannúðlegri ráð en eitrunin er, — en hér á landi hefur varpbændum verið heimilað að eitra fyrir svartbak, en sú aðferð hlýtur ávallt að vera óæskileg að mínu áliti og raunar hættuleg fleiri dýrum en ætlað er að útrýma með henni. Það þyrfti því að athugast, hvort við gætum ekki eitthvað lært af öðrum þjóðum í þessum efnum. Ef við gætum fundið haldkvæm ráð til þess að fækka svartbaknum og halda fjölgun hans í skefjum, þá mundi það vafalaust verða til eflingar þeirri skemmtilegu og arðsömu búgrein, sem æðarvarpið er.

Þess er að vænta, að þetta frv. stuðli nokkuð að því að efla æðarvarpið í landinu, og þess vegna leggur landbn. til, að frv. verði samþykkt.