02.03.1962
Efri deild: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

161. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. nr. 116 frá 30. des. 1943, um ættaróðal og erfðaábúð, er samið af milliþn. 1960. Í þeirri nefnd áttu sæti Jón á Reynistað, Ágúst Þorvaldsson og Pálmi Einarsson. Samhliða hafði þessi nefnd með höndum endurskoðun á ábúðarlögum og kom frv. það hér fyrir Alþ. í fyrra og fékk afgreiðslu.

Þessi lög um ættaróðal og erfðaábúð grípa á margan hátt inn í ábúðarlögin og af breytingu á ábúðarlögunum, ýmsum breytingum, sem gerðar voru í fyrra, leiðir, að einnig þarf að breyta þessum lögum í sumum greinum.

Þetta eru talsvert flókin lög, og ég held, að það sé ekki ástæða við þessa umr. að fara út í einstakar greinar, sem hér er lagt til að breytt sé.

Það, sem olli því einkum í fyrra, að þetta frv. náði ekki fram að ganga á Alþingi, var, að það var sent búnaðarþingi og var þess vegna seinna á ferðinni en ábúðarlögin, og gerði búnaðarþing nokkrar brtt. við þetta frv.

Það hefur nú orðið að ráði, að landbn. flytti þessar brtt., sem milliþn. samdi, án þess þó í upphafi að taka afstöðu til einstakra greina frv. Hafa nm. því óbundnar hendur um afstöðu til þeirra.

Ég geri ráð fyrir því, að landbn. taki til athugunar þær till., sem búnaðarþing samþykkti til breytinga við þetta frv. á síðasta búnaðarþingi, og að því loknu taki hún einnig til athuganar allar greinar þessa frv. og skili sínum brtt. fyrir 2. umr.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta á þessu stigi, og þar sem málið er flutt af nefnd, legg ég ekki heldur til, að því verði vísað til nefndar, þar sem því er hér með lýst yfir, að nefndin muni athuga það nánar, áður en það kemur til 2. umr., og legg ég þá til, að frumvarpinu verði hér með vísað til 2. umr.