24.03.1962
Neðri deild: 73. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

192. mál, skólakostnaður

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að ríkissjóður greiði stofnkostnað héraðsskóla að fullu. Enn fremur er gert ráð fyrir því í frv., að ríkissjóður greiði rekstrarkostnað að fullu að frádregnum tekjum skólanna.

Rökin fyrir þessari breytingu eru fyrst og fremst þau, að flest þeirra héraða, er að héraðsskólunum standa, brestur fjárhagslegt bolmagn til þess að búa þannig að þeim og þeirri æsku, sem þá sækir, að sæmilegt geti talizt. Af þeim sökum liggur nú við borð, að einstökum héraðsskólum verði lokað, þar sem húsakynni þeirra eru orðin svo bág, að ekki er hægt að bjóða ungu fólki vist í þeim, þrátt fyrir það að um sé að ræða mjög gagnlegar og nauðsynlegar menntastofnanir. í þessu sambandi er athugandi, að tekjustofnar sýslufélaganna eru þannig, að varla getur talizt eðlilegt, að þau séu aðilar um skólakostnað á móti ríkissjóði. Enn fremur má á það benda, að héraðsskólarnir eru sóttir af nemendum víðs vegar frá af landinu, bæði úr sveitum og kaupstöðum. Á það má einnig benda, að þar sem héraðsskólarnir eru aðeins sjö talsins, þá sleppur meiri hl. sýslufélaga landsins við allan kostnað af slíku skólahaldi, en notar að sjálfsögðu héraðsskólana á sama hátt og þau sýslufélög, sem lögum samkv. ber nú að kosta skólana á móti ríkinu. Loks má vekja athygli á því, að í einum landsfjórðungi er héraðsskóli kostaður að fullu af ríkissjóði.

Óþarfi ætti að vera að óttast stórfelldan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð með samþykkt þessa frv. Leyfi ég mér um það atriði að vísa til grg. þeirrar, sem fylgir frv. og samin er af Aðalsteini Eiríkssyni, eftirlitsmanni með fjármálum skóla. Telur hann, að árleg útgjaldaaukning ríkissjóðs af samþykkt frv. mundi nema, miðað við rekstur sjö héraðsskóla árið 1959 og stofnkostnað sömu skóla miðað við fjárlög 1961, tæplega 750 þús. kr. Kostir þessa fyrirkomulags, sem hér er lagt til, eru hins vegar svo miklir, að hiklaust ber að því að hverfa. Meðal þeirra kosta leyfi ég mér að vekja athygli á eftirfarandi:

Áframhaldandi framkvæmdir og viðhald héraðsskólanna verði í höndum þess aðila, sem nú hefur mestra hagsmuna að gæta í því, þar sem hann kostar skólana að mestum hluta, en hefur þó yfir þeim takmörkuð umráð. í öðru lagi mundu þá öll sýslufélög landsins sitja við sama borð í þessum efnum og aðstaða skólanna innbyrðis yrði sambærilegri en nú er. Loks fengi ríkisvaldið frekari umráð yfir þessum skólum til ýmiss konar notkunar á sumrin, ef nauðsyn bæri til í þágu uppeldis- og menningarmála.

Sú mótbára kynni e.t.v. að koma fram gegn þessu frv., að líklegt sé, að kröfur komi fram um verulega fjölgun héraðsskólanna á næstu árum og mundi það baka ríkissjóði ærin útgjöld. En mjög ólíklegt er, að þörf skapist á næstunni fyrir nýja héraðsskóla. Gagnfræða- og unglingaskólar eru nú starfandi í kaupstöðum og kauptúnum í flestum héruðum landsins. Viðhorfin í þessum málum eru því allt önnur nú en þegar þeir sjö héraðsskólar voru stofnaðir, sem nú eru starfandi í landinu. Auk þess má á það benda, að tala héraðsskólanna er bundin með lögum, og það er því á valdi Alþingis á hverjum tíma, hvert fjármagn það vill veita í þessu skyni.

Að lokum vil ég leggja áherzlu á, að það er skoðun okkar flm. þessa frv., að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða, sem brýna nauðsyn beri til að nái fram að ganga á þessu þingi. Af samtali mínu nú nýlega við hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. leyfi ég mér að telja, að ég hafi ástæðu til þess að ætla, að þeir séu hlynntir framgangi þessa máls nú. Ég leyfi mér því að vænta þess, að frv. hljóti góðar undirtektir hjá hv. þd., og legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn. og 2. umr.