05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2513 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

192. mál, skólakostnaður

Hannibal Valdimarsson:

Hæstv. forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., hefur nú farið einkennilegar brautir inn í þingið og tekið enn furðulegri myndbreytingum á leið sinni í gegnum þingið. Það er borið fram af nokkrum hv. þm., vísað til n., nefndin tekur við málinu og athugar það og mælir með því óbreyttu til samþykktar. Þegar það svo kemur til umr. að fengnum meðmælum n., þá liggja fyrir brtt. um að fella 1. gr. niður og 2. gr. niður og gerbreyta þeirri 3. og fetla niður þá 4. og síðan að afgreiða frv. svo gerbreytt.

Þegar ég sá frv. í þeirri mynd, þótti mér næsta óljóst, hvort þessi lausn gæti hentað þeim héruðum, sem vildu fá gildandi lögum breytt að því er snerti rekstur héraðsskólanna, og við nánari athugun varð ég enn þá meira í vafa um það, hvort frv. stæðist að lögum og væri ekki of nærgöngult við ákvæði stjórnarskrárinnar, þar sem ákveðið var, að vissir eigendur héraðsskólanna, sem eru sjálfseignarstofnanir, skyldu afhenda þá ríkinu, skyldu afhenda sína viðurkenndu eign. Vafasamt er, að það hefði staðizt, enda er nú komið svo, að á þessu hefur verið gerð breyting, þeir skulu afhenda þessar eignir sínar skulda- og kvaðalausar, ef óskir berast frá eigendunum um það. Enn þá er mér ekki alveg ljóst, hvort málið nú í þessari allra nýjustu mynd sinni hefur verið borið undir hv. n., sem fjallaði um frv. upphaflega eins og það var og mælti með því. Mér finnst, að þegar búið er að gerbreyta málinu svona tvívegis, síðan n. fjallaði um það, þá hljóti að vera mjög eðlilegt, að málið fari til athugunar hjá n. á ný, því að raunverulega er hér um alveg nýja afgreiðslu á málinu að ræða frá því, sem við n. blasti, þegar hún fjatlaði um málið.

Ég fagna þessari seinni breytingu og tel, að þá séu líkindi til, að það stangist ekki við stjórnarskrána, því að eignatilfærsla verður þarna því aðeins, að héruðin óski eftir hinu nýja formi og hinni nýju aðstöðu, sem þá komi fram.

Mig langar einnig til að spyrja í viðbót við það, sem ég hef nú spurt, hvort hv. n. hafi nú fjallað um málið og sé sammála um það í því formi, sem það er nú, hvort fjármálaeftirlit skólanna muni nokkuð hafa haft hönd í bagga um þessa mótun málsins. Það mundi að mínu áliti nokkuð tryggja það, að e.t.v. væri búið að ganga svo frá þessu máli, að héruðin, sem eru hinir réttu fjárhagsaðilar að skólunum og rekstri þeirra nú, mundu sætta sig við málið. Ég tók eftir því, að hv. 1. þm. Vestf. sagðist áðan hafa haft samband við nokkra eða alla þá aðila, sem að skólunum stæðu, og þeir teldu mikla bót að málinu, og skildist mér á honum, að þeir mundu sætta sig við það í þessu formi.

Ég held, að ég hafi ekki fleira að segja um málið að sinni. Ef málið er nú komið í það horf, að n., sem upphaflega mælti með frv. óbreyttu, getur sætt sig við það, og vitneskja liggur fyrir um, að núv. eigendur skólanna telji málið til verulegra bóta og sætti sig við það og fjármálaeftirlit skólanna hafi ekki heldur neitt við það að athuga, þá held ég, að þessi nýja lausn á málinu geti a.m.k. fengið mitt samþykki.