14.04.1962
Neðri deild: 92. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2535 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

226. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Sá háttur, sem hér er á hafður um þetta frv., er algerlega sá sami og áður hefur verið í mörgum tilfellum og þegar frá öndverðu um heimildir fyrir ráðh. til að ábyrgjast lán Framkvæmdabankans. Þetta hefur oft valdið misskilningi. Það hafa verið nokkuð skiptar skoðanir um þetta fyrr en núna, eins og fram kom í ræðu hv. 3. þm. Reykv, í gær. Ég sé nú ekki ástæðu til að fara að taka upp deiluna nú um það, hvort eigi að leggja Framkvæmdabankann niður og Seðlabankinn vera sá banki, sem fyrst og fremst tekur erlend lán fyrir ríkisstj. En ég sé ekkert á móti því, að n. taki þetta til meðferðar, einkum og sér í lagi vegna þess, eins og ég sagði við 1. umr. málsins, að þá var einn nm. fjarstaddur, þegar gengið var frá þessu máli. Ég vildi hins vegar fremur mælast til þess, að þessari umr. væri lokið og n. tæki þá málið til meðferðar á milli 2. og 3. umr.